Ferill 118. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 118 . mál.


Ed.

122. Frumvarp til lagaum heimild til hækkunar á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

(Lagt fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi 1990.)1. gr.


     Ríkisstjórninni er heimilt að semja um hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum úr 59,6 milljónum SDR í 85,3 milljónir SDR. Seðlabanki Íslands skal leggja fram það fé sem þarf til hækkunar kvótans, sbr. 23. gr. laga nr. 36/1986, um Seðlabanka Íslands.

2. gr.


     Lög þessi öðlast þegar gildi.


A t h u g a s e m d i r v i ð l a g a f r u m v a r p þ e t t a .


1.      Kvótahækkunin.
    Með lagafrumvarpi þessu er leitað heimildar fyrir ríkisstjórnina til að taka þátt í níundu almennu hækkun kvóta í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum úr samtals 90,1 milljarði SDR í 135,2 milljarða SDR. Við þetta hækkar kvóti Íslands úr 59,6 milljónum SDR (sbr. lög nr. 68/1983, um heimild til hækkunar á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum; jafnvirði 4.688 m.kr. miðað við gengi 1. október 1990) í 85,3 milljónir SDR (jafnvirði 6.709 m.kr.).
    Skv. 23. gr. laga nr. 36/1986, um Seðlabanka Íslands, er hann fyrir ríkisins hönd fjárhagslegur aðili að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.
    Í samræmi við ákvæði í stofnskrá sjóðsins er fjórðungur hækkunarinnar greiddur í SDR (jafnvirði rúmlega 500 m.kr.) en þrír fjórðu hlutar í íslenskum krónum. Sá hluti kvótahækkunarinnar, sem greiddur er í SDR, greiðist af Seðlabankanum og myndar sérstaka gjaldeyrisinnstæðu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og telst áfram til gjaldeyrisforða Seðlabankans. Er þar því í rauninni einungis um að ræða breytingu á samsetningu gjaldeyrisforðans. Þrír fjórðu hlutar kvótahækkunarinnar (jafnvirði tæplega 1.500 m.kr.) eru í rauninni ekki reiddir af hendi heldur eignast Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn innstæðu sem þessari fjárhæð nemur í Seðlabankanum.
    Ávinningur Íslands af því að taka þátt í þessari almennu kvótahækkun er einkum af tvennum toga. Í fyrsta lagi geta aðildarríki sjóðsins tekið hagstæð lán hjá honum úr ýmsum lánaflokkum og miðast lánsfjárhæðir við tiltekið margfeldi af kvóta viðkomandi ríkis sem er breytilegt frá einum lánaflokki til annars. Ísland hefur nokkrum sinnum tekið lán hjá sjóðnum eins og síðar verður vikið að. Í öðru lagi ræðst atkvæðavægi einstakra ríkja í stjórn sjóðsins af kvóta þeirra eins og síðar kemur fram. Af þessum sökum er það Íslandi tvímælalaust í hag að taka þátt í þessari hækkun.
    Níunda almenna kvótahækkunin var samþykkt af sjóðsráði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrri hluta sumars 1990 og rennur frestur sá, er einstök aðildarríki hafa til að staðfesta aukningu á kvóta sínum, út 31. desember 1991. Hins vegar er vonast til að náðst hafi tilskilinn stuðningur aðildarríkja við kvótahækkunina fyrir lok apríl 1991. Í tengslum við þessa almennu kvótahækkun varð að samkomulagi að auka hlut Japans í heildarkvóta sjóðsins til að hann endurspeglaði betur stöðu Japans í heimsbúskapnum en verið hefur. Þessi sérstaka leiðrétting var gerð með því að lækka hlutfallslega hlut Bandaríkjanna, Bretlands, Frakklands, Ítalíu, Kanada og Vestur - Þýskalands. Verði almenna kvótahækkunin og hlutur einstakra aðildarríkja í henni staðfest af aðildarríkjunum verður hlutur Bandaríkjanna í sjóðnum áfram stærstur en í stað þess að Bretland verði í öðru sæti, Vestur - Þýskaland í þriðja sæti, Frakkland í fjórða og Japan í því fimmta verða Japan og Vestur - Þýskaland með jafnstóran hlut í öðru til þriðja sæti og Bretland og Frakkland með jafnstóran hlut í fjórða til fimmta sæti.

2.      Starfsemi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
    Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (The International Monetary Fund) var stofnaður skömmu eftir lok síðari heimsstyrjaldarinnar og var Ísland eitt af stofnríkjum hans. Nú eru 154 ríki aðilar að honum. Mongólía og Sviss hafa sótt um aðild að sjóðnum og þess er vænst að Sovétríkin bætist í hópinn áður en langt um líður.
    Starfsemi sjóðsins hefur tekið ýmsum breytingum frá stofnun hans. Í fyrstu beindust kraftar hans að því að útrýma hömlum á gjaldeyrisviðskiptum þjóða á milli. Góður árangur á því sviði ásamt farsælu samstarfi fjölmargra þjóða heimsins um tollalækkanir og afnám ýmissa viðskiptahafta og samstarf iðnríkjanna í Efnahags - og framfarastofnuninni (OECD) hefur án efa örvað milliríkjaviðskipti og átt sinn þátt í örum efnahagsframförum á áratugunum eftir síðari heimsstyrjöldina. Þessi þróun hefur ekki síst komið smáum ríkjum, eins og Íslandi, til góða sem byggja velferð sína að miklu leyti á utanríkisviðskiptum. Þegar fastgengisfyrirkomulagið leið undir lok árið 1971 varð breyting á starfsemi sjóðsins þar sem hann var ekki lengur með meginhlutverk í ríkjandi gengisfyrirkomulagi.
    Önnur veigamikil breyting varð á starfsemi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þegar skuldakreppan í fjölmörgum þróunarríkjum, ríkjum rómönsku Ameríku og í nokkrum ríkjum Austur - Evrópu hófst árið 1982. Sjóðurinn hefur gegnt lykilhlutverki í aðgerðum til að létta skuldabyrði þessara ríkja og finna leiðir til að örva hagvöxt og auka útflutningstekjur til að standa undir afborgunum og vöxtum af erlendum lánum. Oft og tíðum hafa frumkvæði og þátttaka sjóðsins í aðgerðum til hjálpar skuldugum þjóðum verið forsenda þess að aðrar fjölþjóðlegar fjármálastofnanir, einstök ríki og einkaaðilar hafa verið reiðubúin að leggja hönd á plóginn.
    Á undanförnum missirum hafa vanskil nokkurra aðildarríkja við sjóðinn farið vaxandi. Unnið er að því að leysa vandamál þessara ríkja en um afskriftir skulda getur ekki orðið að ræða.

3.      Kvótar aðildarríkja Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og stjórn hans.
    Starfsfé Alþjóðagjaldeyrissjóðsins byggist fyrst og fremst á framlögum (kvótum) aðildarríkja hans sem ákveðin eru með hliðsjón af þjóðartekjum viðkomandi ríkis, umfangi utanríkisviðskipta þess og örfáum öðrum þáttum. Heildarkvótar sjóðsins hafa verið auknir með almennum kvótahækkunum úr innan við 10 milljörðum SDR á fyrstu árum sjóðsins í núverandi stærð, 90,1 milljarð SDR. Með þessari kvótahækkun, sem nú hefur verið ákveðin, er ætlunin að auka þá í 135,2 milljarða SDR. Þessi hækkun tekur mið af aukinni efnahagsstarfsemi og alþjóðaviðskiptum í heiminum síðan áttunda almenna kvótahækkunin var gerð árið 1983 sem og fjárhagsstöðu sjóðsins, áætlunum um starfsemi hans og nauðsyn fyrir aukið ráðstöfunarfé á komandi árum.
    Atkvæðavægi aðildarríkja í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fer fyrst og fremst eftir kvóta þeirra. Bandaríkin hafa stærsta kvótann, 20,08%, af heildinni, en þar á eftir koma Bretland 6,94%, Vestur - Þýskaland 6,06%, Frakkland 5,02%, Japan 4,73% og Saudi - Arabía 3,59%. Eftir níundu kvótahækkunina og hið sérstaka samkomulag, sem gert var í tengslum við hana og þegar hefur verið vikið að, mun hlutur Bandaríkjanna af heildinni verða 19,6%, Japans 6,1%, Vestur - Þýskalands 6,1%, Bretlands 5,5%, Frakklands 5,5% og Saudi - Arabíu 3,8%. Öll þessi ríki hafa einn fulltrúa hvert af samtals 22 í stjórn sjóðsins. Norðurlöndin ráða nú til samans yfir 3,48% af heildarkvótanum í sjóðnum (3,5% eftir níundu kvótahækkunina) en þar af er hlutur Íslands 0,07% (0,06% eftir níundu kvótahækkunina). Norðurlöndin hafa sameiginlega einn fulltrúa í stjórn sjóðsins og skiptast þau á um að skipa hann.

4.      Lántökur Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.
    Ísland tók í fyrsta sinn lán, 6,8 milljónir dollara, hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum árið 1960 í tengslum við þær efnahagsaðgerðir sem þá var gripið til. Síðan hefur Ísland þrisvar tekið lán vegna halla á viðskiptum við útlönd: 15 milljónir dollara 1967 1968, 62,2 milljónir SDR 1974 1976 og 21,5 milljónir SDR árið 1982 úr lánaflokki sem ætlaður er ríkjum sem verða fyrir útflutningsbresti. Á sama ári tók Ísland einnig til sín 9 milljónir SDR af gjaldeyrisinnstæðu Seðlabankans hjá sjóðnum. Síðasta afborgun af lánum hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum var innt af hendi árið 1987 og síðan hefur Ísland verið skuldlaust við hann.