Ferill 145. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 145 . mál.


Sþ.

151. Tillaga til þingsályktunar



um samning um stofnun Endurreisnar - og þróunarbanka Evrópu.

(Lögð fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi 1990.)



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd samning um stofnun Endurreisnar - og þróunarbanka Evrópu sem gerður var í París 29. maí 1990.

A t h u g a s e m d i r v i ð þ i n g s á l y k t u n a r t i l l ö g u þ e s s a .


    Með þingsályktunartillögu þessari fer ríkisstjórnin þess á leit að Alþingi heimili fullgildingu samnings um stofnun Endurreisnar - og þróunarbanka Evrópu sem gerður var í París 29. maí 1990. Hann var undirritaður fyrir Íslands hönd sama dag með fyrirvara um fullgildingu. Samningurinn er prentaður sem fylgiskjal með tillögu þessari.

1. Stofnun Endurreisnar - og þróunarbanka Evrópu.
    Á leiðtogafundi Evrópubandalagsins í Strassborg 8. 9. desember 1989 var samþykkt tillaga Frakklands um að Evrópubandalagið skyldi hafa frumkvæði að því að stofna sérstakan fjárfestingarbanka til að greiða fyrir umbreytingu á hagskipulagi í ríkjum Mið - og Austur - Evrópu, umbreytingu frá miðstýrðum áætlunarbúskap til markaðsbúskapar að vestrænni fyrirmynd. Í fyrstu hafði verið fyrirhugað að aðildarríki Evrópubandalagsins, bandalagið sjálft og stofnanir á þess vegum, auk ríkja í Mið - og Austur Evrópu, stæðu að bankanum. Fallið var frá þeirri hugmynd og öðrum ríkjum boðin aðild að honum. Íslendingar fengu boð frá Francois Mitterand, Frakklandsforseta, um að taka þátt í stofnun bankans og samþykkti ríkisstjórnin 22. desember 1989 að þiggja boð hans. Viðskiptaráðherra annaðist undirbúning málsins fyrir hönd Íslands. Að tillögu hans ákvað ríkisstjórnin 19. janúar 1990 að Ísland tæki fullan þátt í undirbúningi að stofnun bankans.
    Umræður um stofnun bankans fóru fram á nokkrum fundum í París í boði ríkisstjórnar Frakklands, ýmist undir stjórn Frakka eða Evrópubandalagsins. Fyrsti fundurinn var haldinn 14. 16. janúar 1990 og að loknum fundi dagana 8. 9. apríl 1990 hafði tekist að ná samkomulagi um allar greinar samningsins um stofnun bankans nema þá sem kveður á um höfuðstöðvar bankans. Á fundi dagana 19. 20. maí 1990 náðist svo samkomulag um staðsetningu höfuðstöðva bankans (London), tilvonandi bankastjóra, Frakkann Jacques Attali, sérlegan ráðgjafa Frakklandsforseta, og vinnuáætlun fram að fyrsta fundi bankaráðsins en þá verða kosnir fulltrúar í stjórn bankans, bankastjóri formlega ráðinn og starfsemi bankans formlega hafin. Samningurinn var svo undirritaður við hátíðlega athöfn í forsetahöllinni í París 29. maí 1990.
    Í fyrstu tóku 34 ríki og tvær alþjóðastofnanir þátt í undirbúningi að stofnun bankans en ríkjunum fjölgaði smám saman og svo fór að lokum að stofnaðilar bankans urðu 42. Stofnendur bankans eru: 12 aðildarríki Evrópubandalagsins (Belgía, Bretland, Danmörk, Frakkland, Grikkland, Holland, Írland, Ítalía, Lúxemborg, Portúgal, Sambandslýðveldið Þýskaland og Spánn), 6 aðildarríki Fríverslunarsamtaka Evrópu (Austurríki, Finnland, Ísland, Noregur, Sviss og Svíþjóð), Ástralía, Bandaríkin, Egyptaland, Ísrael, Japan, Kanada, Kípur, Liechtenstein, Malta, Marokkó, Mexíkó, Nýja - Sjáland, Suður - Kórea og Tyrkland, 8 ríki Mið - og Austur - Evrópu (Búlgaría, Júgóslavía, Pólland, Rúmenía, Sovétríkin, Tékkóslóvakía, Ungverjaland og Þýska alþýðulýðveldið), auk tveggja stofnana Evrópubandalagsins, þ.e. Efnahagsbandalags Evrópu og Evrópska fjárfestingarbankans.
    Hinum nýja banka, Evrópubankanum, svipar um margt til annarra alþjóðlegra þróunarbanka, svo sem Þróunarbanka Afríku, Þróunarbanka Asíu, Þróunarbanka Ameríkuríkja og að sjálfsögðu Alþjóðabankanum sem Íslendingar eru aðilar að. Öðrum þræði er hann þó annars eðlis því að honum er beinlínis ætlað sérstakt pólitískt hlutverk, þ.e. að styðja lýðræðisþróun í ríkjum Mið - og Austur - Evrópu með því að stuðla að breytingu á hagskipulagi þessara ríkja, frá miðstýrðum áætlunarbúskap til markaðshagkerfis.


2. Stofnsamningur bankans.
    Stofnsamningur Evrópubankans er í 63 greinum auk tveggja viðauka. Honum fylgir einnig greinargerð þar sem ýmsar greinar hans eru skýrðar nánar og einnig bréf frá Sovétríkjunum þar sem því er lýst yfir að á fyrstu þremur starfsárum bankans muni þau ekki óska eftir hærri fyrirgreiðslu frá bankanum en sem nemur þeim hluta fjárframlags Sovétríkjanna sem þegar hafi verið reiddur af hendi.
    Verður nú meginatriðum stofnsamningsins lýst. Í I. kafla (1. 3. gr.) er fjallað um hlutverk bankans, starfsemi hans og aðildarríki og - stofnanir. Hlutverk bankans er að stuðla að umbreytingu á hagskipulagi í ríkjum Mið - og Austur - Evrópu í átt frá miðstýrðum áætlunarbúskap til markaðshagkerfis. Hlutverki sínu á bankinn að gegna með því að stuðla að auknu einkaframtaki og stuðningi við smá og meðalstór fyrirtæki. Jafnframt er honum ætlað að stuðla að hagkvæmri fjárfestingu, m.a. í þjónustu - og fjármálagreinum og stuðningsgreinum sem eru nauðsynlegar til að einkaframtak fái notið sín, og á þann hátt skapa samkeppnisskilyrði og auka framleiðni og bæta lífskjör og aðbúnað verkafólks. Honum er einnig ætlað að leggja til tæknilega aðstoð við undirbúning og fjármögnun heppilegra verkefna og stuðla að þróun fjármagnsmarkaðar í þessum löndum. Í þessu skyni er bankanum ætlað að starfa í nánum tengslum við aðildarríki og alþjóðlegar fjármálastofnanir, svo sem Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, Alþjóðabankann, Alþjóðalánastofnunina og Efnahags - og framfarastofnunina (OECD), sem og Sameinuðu þjóðirnar og sérstofnanir þeirra. Evrópuríki og ríki utan Evrópu sem eru aðilar að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum geta gerst aðilar að bankanum og auk þeirra tvær af stofnunum Evrópubandalagsins, þ.e. Efnahagsbandalag Evrópu og Evrópski fjárfestingarbankinn.
    Í II. kafla (4. 7. gr.) er fjallað um stofnfé bankans. Stofnféð er 10 milljarðar evrópskra mynteininga (ECU), þ.e. jafnvirði u.þ.b. 780 milljarða króna. Af stofnfénu skulu 3 milljarðar ECU (jafnvirði u.þ.b. 235 milljarða króna) reiddir af hendi til bankans á næstu fimm árum en stofnendur bankans skuldbinda sig til að greiða afganginn ef bankinn þarf á auknu fé að halda.
    Í III. kafla (8. 19. gr.) er nánar kveðið á um starfsemi bankans. Í IV. kafla (20. gr.) er bankanum veitt heimild til að taka lán og veita ábyrgðir sem eru í samræmi við hlutverk bankans. Í V. kafla (21. gr.) er fjallað um notkun mynta í starfsemi hans.
    Í VI. kafla (22. 36. gr.) er kveðið á um skipulag bankans og stjórnun hans. Æðsta vald í málefnum bankans er í höndum bankaráðs sem skipað er einum fulltrúa frá hverjum eignaraðila. Í umboði bankaráðsins fer bankastjórn, skipuð 23 fulltrúum frá eignaraðilum, með daglega yfirstjórn í bankanum. Aðildarríki Evrópubandalagsins og tvær stofnanir þess eiga 11 fulltrúa í bankastjórninni en 12 eru frá öðrum ríkjum, þar af eru 4 frá EFTA - ríkjunum, Ísrael, Kípur, Liechtenstein, Möltu og Tyrklandi, 4 frá ríkjum Mið - og Austur - Evrópu og loks 4 frá ríkjum utan Evrópu. Fulltrúar í bankastjórn eru kosnir til þriggja ára í senn. Framkvæmdastjórn bankans er í höndum bankastjóra sem kjörinn er af bankaráðinu til fjögurra ára í senn. Bankastjórnin velur einn eða fleiri aðstoðarbankastjóra að fengnum tillögum bankastjórans. Í þessum kafla er einnig kveðið á um það að höfuðstöðvar bankans skuli vera í London. Honum er jafnframt heimilt að opna umboðsskrifstofur eða útibú í sérhverju af aðildarríkjum bankans.
    Í VII. kafla (37. 43. gr.) er fjallað um úrsögn eignaraðila úr bankanum, brottrekstur þeirra úr bankanum og slit hans. Í VIII. kafla (44. 55. gr.) eru ákvæði um réttarstöðu bankans, friðhelgi, forréttindi og undanþágur frá landslögum, bæði fyrir bankann og starfsfólk hans. Er hér um að ræða svipuð ákvæði og í stofnsamningum annarra alþjóðlegra fjármálastofnana sem Ísland er aðili að.
    Í IX. kafla (56. 59. gr.) er fjallað um breytingar á stofnsamningnum, túlkun á ákvæðum hans og úrskurð deilumála. Í X. kafla (60. 63. gr.) eru ýmis ákvæði, svo sem um undirritun, fullgildingu, fyrsta fund bankaráðsins og upphaf starfseminnar. Stofnaðilarnir hafa skv. 60. gr. frest fram til 31. desember 1990 til að undirrita stofnsamninginn og skv. 1. tölul. 61. gr. frest fram til 31. mars 1991 til að fullgilda eða samþykkja hann, sbr. þó 2. tölul. 61. gr. Samningurinn tekur gildi þegar stofnaðilar sem til samans leggja tila.m.k. tvo þriðju hluta stofnfjárins, þar á meðal tvö eða fleiri ríki frá Mið - og Austur - Evrópu, hafa fullgilt eða samþykkt hann.
    Fyrsti fundur bankaráðsins skal haldinn eigi síðar en 60 dögum eftir að samningurinn hefur tekið gildi. Á honum skulu kjörnir fulltrúar í bankastjórnina, bankastjóri kjörinn og tekin ákvörðun um það hvenær bankinn hefji starfsemi sína.
    Í viðauka A er listi yfir stofnaðila bankans og loforð þeirra um fjárframlög. Hlutur Bandaríkjanna er stærstur, 10%, en síðan koma Bretland, Frakkland, Ítalía, Japan og Vestur - Þýskaland, hvert með 8,5% hlut. Til samans leggja aðildarríki Evrópubandalagsins og stofnanir þess fram 51% af stofnfé bankans.
    Í viðauka B eru kosningareglur fyrir kjör fulltrúa í stjórn bankans.
    Samhliða því sem þessi þingsályktunartillaga er lögð fram leggur utanríkisráðherra fram frumvarp til laga til að tryggja bankanum ákveðna réttarstöðu hér á landi í samræmi við ákvæði í stofnsamningnum. Enn fremur mun viðskiptaráðherra leggja fram frumvarp til laga um þær fjárhagslegu skuldbindingar sem Ísland tekur á sig ef Ísland gerist aðili að bankanum og felast einkum í því að ríkissjóður ábyrgist að greiða afganginn (70%) af hlutafjárloforði Íslands ef bankinn þarf á auknu fé að halda.

3. Hlutur Íslands í stofnfé og stjórn Evrópubankans.
    Ríkisstjórnin ákvað að Ísland skyldi leggja fram 0,1% af stofnfé bankans eða 10 milljónir ECU (jafnvirði 748 m.kr. miðað við gengi 1. okt. 1990). Af þessari fjárhæð verða 3 milljónir ECU (jafnvirði 224 m.kr.) reiddar af hendi í jöfnum ársgreiðslum á fimm árum, í fyrsta sinn 1991. Áætlað er fyrir fyrstu greiðslunni í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1991 undir liðnum hluta - og stofnfjárframlög. Afganginn af framlagi Íslands (7 milljónir ECU, jafnvirði 524 m.kr.) ber að reiða af hendi ef bankinn þarf á auknu fé að halda vegna fjárhagslegra áfalla eða slita bankans.
    Fjórir af 23 fulltrúum í stjórn bankans koma í hlut EFTA - ríkjanna, Ísraels, Kípur, Liechtenstein, Möltu og Tyrklands. Ísland og Svíþjóð hafa þegar gert með sér samkomulag um að standa saman að kjöri stjórnarmanns sem fari með atkvæði þessara tveggja ríkja.