Ferill 165. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 165 . mál.


Sþ.

178. Skýrslaum 84. þing Alþjóðaþingmannasambandsins í Punta del Este í Úrúgvæ 15. 20. október 1990 og ráðstefnu sambandsins um afvopnunarmál í Bonn 21. 25. maí 1990.

Frá Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins.
A. ÞING ALÞJÓÐAÞINGMANNASAMBANDSINS í PUNTA DEL ESTE


I. Inngangur.


    Alþjóðaþingmannasambandið (Inter-Parliamentary Union) hélt sitt 84. þing í Punta del Este í Úrúgvæ dagana 15. 20. október sl. Þingið sóttu fulltrúar frá 88 þjóðþingum, en aðild að Alþjóðaþingmannasambandinu eiga þingmenn á þjóðþingum 113 ríkja. Á þinginu voru einnig áheyrnarfulltrúar frá fjölmörgum alþjóðasamtökum, þar á meðal frá ýmsum stofnunum Sameinuðu þjóðanna, Evrópuráðinu og svæðisbundnum samtökum þjóðþinga. Forseti Úrúgvæ, Luis Alberto Lacalle Herrera, var við setningu þingsins og flutti ræðu.
    Fyrir hönd Íslandsdeildarinnar sóttu þingið alþingismennirnir Geir H. Haarde, formaður deildarinnar, Ólafur Þ. Þórðarson og Geir Gunnarsson, auk Þorsteins Magnússonar, ritara deildarinnar.
    Skýrslan skiptist í þrjá meginþætti. Fyrst er fjallað um störf og ályktanir þingsins. Þá er gerð grein fyrir störfum og ákvörðunum ráðs sambandsins sem fundaði tvívegis meðan á þinginu stóð. Að síðustu er fjallað um störf óformlegra hópa á þinginu.

II. Störf og ályktanir þingsins.


    Á dagskrá þingsins í Punta del Este voru að vanda tvö aðalumræðuefni. Hið fyrra var um mikilvægi lestrarkunnáttu og almennrar menntunar til þess að stuðla að þátttöku fólks í lýðræðislegri ákvörðunartöku í þjóðfélaginu. Tengist það því að Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst árið 1990 „ár læsis“. Seinna umræðuefnið var um mikilvægi þess að afnema leifar nýlendustefnu í heiminum og efla samvinnu milli þróaðra ríkja og þróunarlanda, sem og að efla svæðisbundna samvinnu ríkja. Fyrir þinginu lágu jafnframt tillögur um viðbótarumræðuefni og svokallað skyndiumræðuefni, en þingið getur tekið á dagskrá eitt viðbótarumræðuefni og eitt mjög brýnt mál sem ákveðin eru á þinginu sjálfu.
    Tillögur um sex viðbótarumræðuefni lágu fyrir þinginu en fjórar þessara tillagna voru að lokum dregnar til baka en greidd atkvæði um hinar tvær. Annars vegar var tillaga frá Frakklandsdeildinni sem fól í sér fordæmingu á hernámi Kúvæts og hvatningu til að leita leiða til friðar við Persaflóa. Hins vegar var tillaga frá Íransdeildinni þar sem hvatt var almennt til friðsamlegra lausna deilumála, virðingar fyrir fullveldi ríkja og fordæmd íhlutun erlendra ríkja í Miðausturlöndum. Tillaga Frakklandsdeildarinnar var samþykkt með miklum mun.
    Þá lágu fyrir þinginu tvær tillögur um skyndiumræðuefni og var önnur þeirra flutt af Alsírdeildinni og hin af Svíþjóðardeildinni. Tillögurnar fjölluðu báðar um átök Ísraelsmanna og Palestínumanna og voru fluttar í tengslum við manndrápin á Musterishæð í Jerúsalem fyrr í mánuðinum. Til að koma í veg fyrir að þingheimur þyrfti að gera upp á milli tillagnanna í atkvæðagreiðslu flutti ítalska sendinefndin breytingartillögu sem fól í sér að meginefni beggja tillagnanna voru felld saman í eina tillögu. Ítalska tillagan var samþykkt með meginþorra atkvæða en gegn atkvæðum Ísraelsmanna.

1. Samstaða um aðalályktanir þingsins.
    Fyrir þinginu lágu frá ýmsum þjóðdeildum fjölmargar álitsgerðir og drög að ályktunum um tvö áðurgreind aðalefni sem þingið fjallaði um. Að loknum löngum almennum umræðum um þessi efni var ályktunardrögum og álitsgerðum vísað til hlutaðeigandi nefnda. Með hliðsjón af þeim gögnum gengu nefndirnar frá ályktunardrögum sem samþykkt voru einróma á síðasta degi þingsins. Þeim sem áhuga hafa á að kynna sér þessar ályktanir, sem og aðrar ályktanir og gögn frá þinginu, er bent á að hafa samband við ritara Íslandsdeildarinnar.
    Í þeirri nefnd, sem fjallaði um mikilvægi lestrarkunnáttu og almennrar menntunar í því að stuðla að þátttöku fólks í lýðræðislegri ákvörðunartöku í þjóðfélaginu, var efnt til svokallaðra vitnaleiðslna (hearings). Þar sat fyrir svörum Tedesco, sérstakur fulltrúi framkvæmdastjóra Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO). Fundur þessi þótti mjög fróðlegur og eru slíkar vitnaleiðslur með sérfræðingum orðinn fastur liður í nefndastörfum á þingum Alþjóðaþingmannasambandsins.

2. Ályktanir um ástand mála í Miðausturlöndum.
    Eins og áður segir var samþykkt að taka fyrir á þinginu tvö umræðuefni er vörðuðu ástand mála í Miðausturlöndum. Þingið samþykkti með yfirgnæfandi meirihlutaályktun þar sem tekið var undir fordæmingu öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna á hernámi Kúvæts. Þó að Írakar fengju óbeinan stuðning frá nokkrum sendinefndum, eins og t.d. sendinefndum frá Jemen, Jórdaníu og Alsír sem vildu að ályktun um Kúvæt-málið væri tengd stöðu mála almennt fyrir botni Miðjarðarhafs, þá var greinilegt að sendinefndin frá Írak var mjög einangruð á þinginu.
    Þingið samþykkti einnig ályktun um atburðinn á Musterishæðinni í Jerúsalem 8. október, þegar ísraelskar öryggissveitir skutu til bana yfir 20 Palestínumenn, og var í ályktun þingsins m.a. tekið undir fordæmingu öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna á þessum atburðum.

3. Almennar stjórnmálaumræður.
    Að vanda var mikil þátttaka í almennu stjórnmálaumræðunum og var þar víða komið við í ræðum manna. Almennu umræðurnar hófust með ræðu dr. Hector Gros Espiel, utanríkisráðherra Úrúgvæs, sem m.a. fjallaði um stöðu GATT - viðræðnanna, en núverandi stig þeirra (hinar svokölluðu Úrúgvæ - viðræður) hófust einmitt í Punta del Este árið 1986. Síðar um daginn talaði einnig Guido de Marco, utanríkisráðherra Möltu og forseti allherjarþings Sameinuðu þjóðanna.
     Formaður íslensku sendinefndarinnar, Geir H. Haarde, tók þátt í almennu umræðunum og fjallaði hann m.a. um þýðingu GATT - viðræðnanna. Hann vék einnig að framvindu alþjóðamála frá síðasta þingi sambandsins og ítrekaði m.a. stuðning Íslendinga við sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna.

4. Kosningar í framkvæmdastjórn.
    Á þinginu þurfti að kjósa tvo fulltrúa í framkvæmdastjórn Alþjóðaþingmannasambandsins þar sem kjörtímabil Danans Ivars Nörgaard og N. C. Makombe frá Simbabve rann út á þessu þingi. Þrír menn gáfu kost á sér í framkvæmdastjórnina, Humberto Lucena frá Brasilíu, Lawrence Fonka Shang frá Kamerún og Leo McLeay frá Ástralíu. Vesturlandahópurinn (12-plús) og Kyrrahafshópurinn ákváðu að styðja framboð Ástralíumannsins og Kamerúnmannsins og varð niðurstaðan sú að þeir hlutu báðir kosningu.

III. Störf og ákvarðanir ráðsins.


    Ráð Alþjóðaþingmannasambandsins fundaði tvívegis meðan þingið stóð yfir en á meðan lágu þingfundir niðri. Ráðið er hin formlega stjórn sambandsins og eiga í því sæti tveir fulltrúar frá hverri þjóðdeild. Hér á eftir verður gerð grein fyrir helstu málum sem komu til umræðu og ákvörðunar ráðsins.

1. Ný aðildarþing.
    Ráðið samþykkti aðild þriggja nýrra þjóðdeilda, frá Síle, Namibíu og Níger. Einni þjóðdeild var vikið úr sambandinu, þjóðdeildinni frá Afríkuríkinu Líberíu, en þar hefur ekkert þing starfað um skeið vegna borgarastyrjaldar.
    Þá var skýrt frá því að vegna sameiningar Þýskalands og sameiningar Jemens mundi aðeins ein þjóðdeild eiga aðild að sambandinu frá hvoru ríki.

2. Næstu þing og ráðstefnur.
    Ráðið tók ákvörðun um næstu þing og ráðstefnur á vegum sambandsins.
     a. Þing Alþjóðaþingmannasambandsins.
    Ákveðið var að þiggja boð þjóðdeildar Norður-Kóreu um að næsta þing sambandsins (85. þing) verði haldið í höfuðborg landsins, Pyongyang, dagana 29. apríl til 4. maí 1991. Aðalumræðuefnin á því þingi verða annars vegar um hvernig stöðva megi ofbeldi gagnvart börnum og konum og hins vegar um nauðsyn þess að hindra útbreiðslu kjarnorkuvopna og annarra gjöreyðingarvopna.
     Þá var ákveðið að þiggja boð þjóðdeildar Síle um að halda haustþing sambandsins (86. þing) í Valparaiso. Þingið í Valparaiso verður haldið dagana 7. 12. október 1991. Fyrir liggur að 87. þing sambandsins verður haldið í höfuðborg Afríkuríkisins Kamerún í apríl 1992. Þjóðdeild Svíþjóðar hyggst halda 88. þing sambandsins (september 1992), þjóðdeild Ástralíu er að kanna möguleika á að halda 89. eða 90. þing sambandsins. Þjóðdeild Frakklands býðst til að halda 91. þing sambandsins (mars 1994), þjóðdeild Danmerkur hefur boðið til 92. þings (september 1994) og þjóðdeild Spánar býður til 93. þings (apríl 1995).
     b. RÖSE-ráðstefna í Vínarborg.
    Alþjóðaþingmannasambandið hefur staðið fyrir sex ráðstefnum þingmanna um öryggi og samvinnu í Evrópu. Þessar ráðstefnur hafa verið sóttar af þingmönnum frá ríkjunum 34 sem aðild eiga að Helsinki-samkomulaginu um öryggi og samvinnu í Evrópu. Næsta ráðstefna verður í Vínarborg dagana 1. 3. júlí 1991. Ef RÖSE verður gert að sérstakri stofnun, sem m.a. mundi standa fyrir reglulegum þingmannafundum, legðust RÖSE - fundir sambandsins að líkindum af. Íslandsdeildin stefnir að því að taka þátt í þessari ráðstefnu.
     c. Ráðstefna um efnahagssamvinnu á Asíu-Kyrrahafssvæðinu.
    Dagana 28. janúar til 1. febrúar 1991 verður haldin sérstök ráðstefna um efnahagssamvinnu á Asíu-Kyrrahafssvæðinu. Ráðstefnan verður haldin í Jomtien í Tælandi. Ekki er fyrirhuguð þátttaka á vegum Íslandsdeildarinnar í þessari ráðstefnu.
3. Mannréttindamál þingmanna.
    Á vegum Alþjóðaþingmannasambandsins starfar sérstök fastanefnd sem hefur það verkefni að fylgjast með mannréttindabrotum gagnvart þingmönnum og reyna að fá þingmenn leysta úr haldi hafi þeir verið fangelsaðir án dóms og laga. Hefur verulegur árangur náðst í þessu efni á undanförnum árum. Í ráðinu var lögð fram ítarleg skýrsla þessarar nefndar og gerð grein fyrir fangelsunum, ofsóknum og morðum á þingmönnum í sex ríkjum sem nefndin hefur haft til rannsóknar. Ríkin, sem hér er um að ræða, eru Síle, Kólombía, Gínea-Bissá, Hondúras, Súdan og Tyrkland. Þeir sem vilja kynna sér skýrslu mannréttindanefndarinnar er bent á að hafa samband við ritara Íslandsdeildar.
    Á fundi ráðsins var Nicos Anastasiades frá Kípur kjörinn varamaður í mannréttindanefnd sambandsins.

4. Nefnd um Kípurvandamálið.
    Framkvæmdastjórn Alþjóðaþingmannasambandsins skýrði ráðinu frá því að hún hefði, í samræmi við ályktun síðasta þings, komið á fót sérstakri nefnd til að fylgjast með ástandi mála á Kípur. Í nefndina voru skipaðir þrír menn frá Bretlandi, Tælandi og Póllandi.

5. Skýrsla framkvæmdastjóra Alþjóðaþingmannasambandsins.
    Framkvæmdastjóri sambandsins lagði að vanda fram ítarlega ársskýrslu um störf Alþjóðaþingmannasambandsins. Skýrslan er fróðleg lesning fyrir alla þá er vilja kynna sér starfsemi sambandsins. Í einum kafla skýrslunnar er greint frá starfi einstakra þjóðdeilda og vekur athygli hversu oft Íslands er þar getið. Þar er m.a. vakin athygli á því að Íslandsdeildin hefur látið þýða lög sambandsins á íslensku, að deildin er ein þeirra deilda sem gefur reglulega skýrslu til þjóðþingsins um störf sambandsins og þátttöku sína í störfum þess og að Alþingi hafi á síðasta vori samþykkt starfsreglur fyrir Íslandsdeildina.

6. Ráðstefna um afvopnunarmál.
    Á fundi ráðsins var gerð grein fyrir niðurstöðum ráðstefnu sambandsins um afvopnunarmál sem haldin var í Bonn 21. 25. maí sl. og sótt var af fulltrúum 61 ríkis, þar á meðal frá Íslandsdeildinni. Niðurstöðum ráðstefnunnar var í vor dreift til alþingismanna en nánari grein er gerð fyrir henni annars staðar í þessari skýrslu.

7. Ráðstefna um vanda þriðja heimsins.
    Skýrt var frá því að framkvæmdastjórnin hefði skipað sjö manna nefnd til að fjalla um „Norður - Suður samskiptin“ og vinna að því að efnt verði til ráðstefnu um fjárhagsvanda og skuldir þriðja heimsins. Gert er ráð fyrir að nefndin skili skýrslu á haustþinginu 1991.

8. Fjárhagsáætlun Alþjóðaþingmannasambandsins.
    Á fundinum var lögð fram fjárhagsáætlun sambandsins fyrir árið 1991 og var hún samþykkt samhljóða. Í áætluninni er m.a. kveðið á um framlög aðildardeilda og að vanda greiðir Íslandsdeildin 0,27% af framlögum deildanna sem eru 870 þús. krónur miðað við núverandi gengi.


9. Skýrsla umhverfismálanefndar.
    Á fundi ráðsins var lögð fram skýrsla umhverfismálanefndar sem ráðið hafði komið á fót í mars 1989. Í skýrslunni kemur m.a. fram að nefndin hefur ákveðið að láta loftslagsbreytingar og orkumál hafa forgang í störfum sínum. Íslandsdeild hefur sent skýrslu nefndarinnar til umhverfisráðherra.

IV. Störf óformlegra hópa á þinginu.


    Á þingum Alþjóðaþingmannasambandsins er mikið um fundi óformlegra hópa sem þingfulltrúar skiptast í. Verður hér gerð grein fyrir fundum þessara hópa og þátttöku Íslendinga í þeim eftir því sem við á.

1.     Fundir Norðurlandahópsins.
     a. Formennska Íslands í Norðurlandahópnum.
    Þjóðdeildir Norðurlanda í Alþjóðaþingmannasambandinu hafa með sér náið samstarf og skiptast á um að stýra þessu samstarfi. Á þinginu í Punta del Este tóku Íslendingar við formennskunni af Finnum og verður hún í þeirra höndum fram á næsta haustfund sambandsins í Síle. Það kom því í hlut Geirs H. Haarde, formanns Íslandsdeildarinnar, að stýra fundi sem allir norrænu þingfulltrúarnir, 35 talsins, sóttu auk þess að hafa forgöngu um aðra fundi formanna norrænu sendinefndanna.
     b. Tillaga um fund með baltneskum þingmönnum.
    Á fundi, sem allir norrænu fulltrúarnir sóttu, lagði formaður sænsku deildarinnar fram tillögu um sérstakan fund þingmanna frá Eystrasaltsríkjunum og þingmanna frá Norðurlandadeildum Alþjóðaþingmannasambandsins. Tilgangur fundarins skyldi einkum vera sá að kynna þingmönnum frá þessum ríkjum starfsemi Alþjóðaþingmannasambandsins og á hvern hátt þing þessara ríkja gætu haft hag af því að taka virkan þátt í störfum sambandsins eftir að þau verða fullvalda. Það kom skýrt fram að ekki er ætlun með þessari tillögu að fara inn á störf annarra norrænna stofnana sem nú fjalla um tengsl við Eystrasaltsríkin heldur yrði fundurinn með baltnesku þingmönnunum bundinn við störf Alþjóðaþingmannasambandsins og þátttöku norrænna þingmanna í því starfi, þó að vitaskuld kæmi til greina að ræða þar fleiri mál. Eftir nokkra umræðu um málið var niðurstaðan sú að formenn norrænu deildanna skyldu kynna stjórnum hlutaðeigandi þinga tillöguna og stefna að því að niðurstaða lægi fyrir í málinu fyrir lok nóvembermánaðar. Ef svo færi að þingin féllust á tillöguna skyldi stefnt að því að halda fundinn með baltnesku þingmönnunum í Stokkhólmi í apríl 1991 í tengslum við reglulegan samráðsfund norrænu deildanna sem haldinn er fyrir hvert þing Alþjóðaþingmannasambandsins.
    Formaður Íslandsdeildarinnar hefur vegna þessa máls ritað forsetum Alþingis bréf og óskað eftir afstöðu þeirra til málsins.
     c. Fundur með kenískum þingmönnum.
    Formenn norrænu sendinefndanna óskuðu eftir fundi með sendinefnd Kenía til að ræða mál keníska andófsmannsins Koigi wa Wamere. Á fundinum afhenti Geir H. Haarde, sem formaður norræna þingmannahópsins, formannni sendinefndar Kenía bréf þar sem þess var farið á leit við sendinefndina að hún hlutaðist til um við þarlend stjórnvöld að Wamere fengi sanngjörn réttarhöld, honum yrði leyft að ræða við lögfræðing og hann yrði ekki látinn sæta harðræði. Ástæðan fyrir afskiptum norrænu deildanna er sú að Wamere hafði hæli í Noregi sem pólitískur flóttamaður, en var handtekinn snemma í október þegar hann kom til Afríku. Eftir nokkra umræðu um málið féllst keníska sendinefndin á að koma bréfinu á framfæri við stjórnvöld í Kenía. Sólarhring síðar hafði kenísku sendinefndinni hins vegar snúist hugur og skilaði bréfinu með þeim orðum að sendinefndin væri þeirrar skoðunar að slík mál ættu að fara eftir formlegum leiðum og því eðlilegra að norrænu deildirnar hefðu beint samband við kenísk stjórnvöld. Á sama tíma og þessir atburðir gerðust í Punta del Este höfðu norsk stjórnvöld í frammi formleg mótmæli við stjórnvöld í Kenía og sleit Kenía stjórnmálasambandi við Noreg skömmu síðar.

2.     Fundir Vesturlandahópsins (12-plúshópsins).
    Íslenska sendinefndin tók virkan þátt í störfum Vesturlandahópsins sem fundaði bæði helgina fyrir upphaf þingsins og síðan á hverjum morgni áður en þingfundir hófust. Á þessum samráðsfundum var afstaða til einstakra mála og þátttaka í nefndastarfi rædd. Við lok þingsins tóku Svisslendingar við formennsku í hópnum en Svíar hafa haft þar formennsku á hendi undir forustu jafnaðarmannsins Sture Ericson sem stýrt hefur hópnum af miklu öryggi í eitt ár.
    Á fundum Vesturlandahópsins var sérstaklega fjallað um störf tveggja vinnuhópa sem starfað hafa innan hans. Annars vegar er um að ræða vinnuhóp sem fjallað hefur um Kípur-málið og hins vegar vinnuhóp sem fjallað hefur um framtíð Vesturlandahópsins innan Alþjóðaþingmannasambandsins. Fyrrnefndi hópurinn skilað fyrir fundinn í Punta del Este ítarlegri bráðabirgðaskýrslu um málið. Þeir sem áhuga hafa getað fengið skýrsluna hjá ritara Íslandsdeildar. Menn voru sammála um að vinnuhópurinn hefði unnið mjög gott starf og væri þýðingarmikið að Vesturlandahópurinn héldi áfram umfjöllun um málið því að vart væri hægt að segja að nokkur annar aðili væri að vinna að lausn Kípurdeilunnar. Vinnuhópnum var falið að starfa áfram og skila frekari greinargerð fyrir fund Vesturlandahópsins á vorþinginu 1991. Síðari vinnuhópurinn lagði fram minnismiða um framtíðarsamvinnu 12-plús deildanna og tengsl við þjóðdeildir nýju lýðræðisríkjanna í Mið - og Austur-Evrópu. Þar sem hér var aðeins um frumdrög að ræða var hópnum falið að starfa áfram og skila skýrslu fyrir næsta þing sambandsins.

3.     Fundir alþjóðasamtaka stjórnmálaflokka.
    Venja er að aðilar að alþjóðasamböndum stjórnmálaflokka hittist meðan þing sambandsins stendur. Á þessu þingi boðuðu bæði íhaldsmenn og jafnaðarmenn til slíks fundar. Geir H. Haarde sótti fund þingmanna íhaldsflokka en enginn í íslensku sendinefndinni átti aðild að Alþjóðasambandi jafnaðarmanna.

4.     Fundur fulltrúa frá RÖSE-ríkjum.
    Fulltrúar frá þeim 35 ríkjum, sem aðild eiga að Helsinki-sáttmálanum um öryggi og samvinnu í Evrópu, héldu einn fund meðan þingið stóð yfir. Þar var ákveðið að næsta RÖSE-ráðstefna á vegum Alþjóðaþingmannasambandsins yrði í Vín 1. 3. júlí nk. eins og greint er frá fyrr í þessari skýrslu.

5.     Fundur kvenfulltrúa á þinginu.
    Konur, sem sitja þing Alþjóðaþingmannasambandsins, hafa síðan 1975 haldið með sér sérstakan fund á þinginu til að ráða ráðum sínum. Hópur sá, sem stendur fyrir þessum fundum, hefur með árunum orðið æ betur skipulagður og látið meira að sér kveða í starfi sambandsins. Á þinginu í Punta del Este hélt hópurinn að venju fund með öllum kvenfulltrúum.


B. RÁÐSTEFNA UM AFVOPNUNARMÁL Í BONN    Svo sem áður hefur komið fram gengst Alþjóðaþingmannasambandið fyrir sérstökum ráðstefnum á hverju ári um afmörkuð viðfangsefni auk hinna föstu þinga sem haldin eru tvisvar á ári. Á síðasta ári voru þannig haldnar ráðstefnur um ferðamál og þátttöku kvenna í stjórnmálum. Af hálfu Íslandsdeildarinnar hafa þessar aukaráðstefnur ekki verið sóttar að staðaldri.
    Stjórn deildarinnar ákvað hins vegar fyrr á þessu ári að senda tvo þátttakendur á ráðstefnu sambandsins um afvopnunarmál sem haldin var í Bonn í boði sambandsþingsins þar. Ráðstefnan var haldin dagana 21. 25. maí og sóttu hana þingmenn frá 61 ríki auk fjölda sérfræðinga, stjórnarerindreka og fjölmargra vestur-þýskra ráðamanna. Meðal annarra ávörpuðu Kohl kanslari og Genscher utanríkisráðherra ráðstefnuna og Weizacker forseti hafði boð inni fyrir formenn sendinefnda.
    Af hálfu Íslandsdeildarinnar sóttu ráðstefnuna alþingismennirnir Geir H. Haarde, formaður deildarinnar, og Anna Ólafsdóttir Björnsson, þingmaður Kvennalistans. Fyrir ráðstefnuna var haldinn undirbúningsfundur í hópi fulltrúa vestrænna ríkja, hinum svonefnda 12 - plús hópi, í München og sótti formaður deildarinnar þann fund.
    Sendiherra Íslands í Bonn, Hjálmar W. Hannesson, sat einnig hluta ráðstefnunnar í boði þýska þingsins og var hann íslensku fulltrúunum mjög innan handar sem og aðrir starfsmenn sendiráðsins.
    Ráðstefnan í Bonn var með nokkuð nýstárlegu sniði því að mjög takmörkuðum tíma var varið í almenn ræðuhöld fulltrúa en þeim mun meiri tíma í fyrirlestra sérfræðinga og umræður og fyrirspurnir sem af þeim spunnust. Var með þessum hætti fjallað sérstaklega um öll helstu mál sem á döfinni eru í viðræðum um takmörkun vígbúnaðar og fengnir til þess færustu sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna og þeirra ríkja sem mest tengjast þessum viðræðum.
    Hinum sérhæfðu umræðum var skipt í fjóra efnisflokka og var fjallað um tvo og tvo samtímis. Íslensku þátttakendurnir fylgdust því hvor um sig með tveimur efnisflokkum auk almennu umræðnanna. Í hinum fyrsta var fjallað um svokallaðar traustvekjandi aðgerðir og leiðir til að fylgjast með framkvæmd samninga. Í öðrum hópnum var rætt um leiðir til að koma í veg fyrir útbreiðslu kjarnorkuvopna og fækkun í vopnabúrum þeirra ríkja sem eiga slík vopn. Einnig um samdrátt í hefðbundnum herafla og bann við notkun efnavopna. Viðfangsefnið í þriðja flokknum var svæðisbundin afvopnun og öryggisskipan og loks var í fjórða flokknum fjallað um efnahagslegar og félagslegar hliðar afvopnunar.
    Eins og á þessari lýsingu sést mátti á ráðstefnunni fá mjög góða yfirsýn yfir stöðu allra þátta þessara yfirgripsmiklu og mikilvægu mála. Í lok ráðstefnunnar var samþykkt ítarleg yfirlýsing sem dreift hefur verið til alþingismanna, utanríkisráðuneytis og öryggismálanefndar og þykir ekki ástæða til að endursegja efni hennar hér. Önnur gögn varðandi ráðstefnuna eru fáanleg hjá ritara Íslandsdeildarinnar.