Ferill 175. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 175 . mál.


Nd.

194. Frumvarp til lagaum Slysavarnaskóla sjómanna.

Flm.: Árni Gunnarsson, Matthías Bjarnason, Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir,


Guðmundur G. Þórarinsson, Málmfríður Sigurðardóttir, Hjörleifur Guttormsson,


Stefán Valgeirsson, Matthías Á. Mathiesen, Kristín Einarsdóttir,


Ásgeir Hannes Eiríksson, Sighvatur Björgvinsson.
1. gr.


     Slysavarnaskóli sjómanna er miðstöð almennrar fræðslu um öryggismál sjómanna og fer Slysavarnafélag Íslands með yfirstjórn skólans er starfar á vegum þess og ábyrgð. Markmið Slysavarnaskóla sjómanna er að veita sjómönnum fræðslu um meðferð björgunar - og öryggisbúnaðar, um slysavarnir og að miðla upplýsingum um öryggismál sjómanna.

2. gr.


     Slysavarnaskóli sjómanna skal halda námskeið fyrir alla starfandi sjómenn um öryggis- og björgunarmál á helstu útgerðarstöðum landsins.
     Þá annast skólinn öryggis- og slysavarnafræðslu fyrir nemendur í skipstjórnar- og vélstjóranámi í framhaldsskólum.
     Aðalkennslugreinar Slysavarnaskóla sjómanna eru: Fræðsla um öryggismál, slysavarnir, björgunaraðferðir, skyndihjálp, flutningur sjúkra og slasaðra, meðferð björgunarbúnaðar, slökkvibúnaðar og reykköfunartækja.

3. gr.


     Það er skilyrði lögskráningar í skipsrúm að skipverji, sem skylt er að lögskrá samkvæmt lögum um lögskráningu sjómanna, nr. 43/1987, hafi lokið grunnnámi í Slysavarnaskóla sjómanna samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.

4. gr.


     Samgönguráðherra tilnefnir af sinni hálfu tvo fulltrúa til setu í skólanefnd og Slysavarnafélag Íslands þrjá fulltrúa og er einn þeirra formaður nefndarinnar. Meginhlutverk skólanefndar er að fjalla um málefni Slysavarnaskóla sjómanna, einkum varðandi tækjakaup og búnað hans, viðhald, framkvæmdir og áframhaldandi uppbyggingu.
     Skólanefnd Slysavarnaskóla sjómanna gerir tillögur til stjórnar Slysavarnafélags Íslands um námskeiðahald, námsskrá og lengd námskeiða á vegum skólans.

5. gr.


     Skólanefnd ræður skólastjóra Slysavarnaskóla sjómanna en um mannaráðningar fer samkvæmt lögum Slysavarnafélags Íslands.

6. gr.


     Kostnaður við rekstur skólans skal greiddur úr ríkissjóði. Slysavarnafélag Íslands gerir fjárhagsáætlun fyrir skólann og leggur fyrir samgönguráðuneytið til staðfestingar.

7. gr.


     Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði 3. gr. skulu þó ekki koma að fullu til framkvæmda fyrr en að fimm árum liðnum frá gildistöku laganna.

G r e i n a r g e r ð .


    Slysavarnaskóli sjómanna hefur nú starfað í rösk fimm ár og er nú orðinn einn mikilvægasti þátturinn í starfi Slysavarnafélags Íslands. Skólinn hefur fengið rekstrarfé á fjárlögum. Tilgangurinn með þessu frumvarpi er að löggilda skólann og tryggja að allir sjómenn, sem lögskráðir eru á íslensk skip, hafi lokið þar námi. Löggilding skólans tryggir enn fremur fastar fjárveitingar til hans sem veitir mikið öryggi við allan rekstur hans.

Undirbúningur.


    Veturinn 1983 hófust viðræður á milli Slysavarnafélags Íslands, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Sjómannasambands Íslands um að koma á fót þjálfunarmiðstöð þar sem áhafnir skipa gætu sótt námskeið í meðferð björgunarbúnaðar og gætu fengið verklega fræðslu. Upphaflega var hugmyndin sú að til þessara verka yrði fengið gamalt skip sem rennt yrði á grunn og notað við kennslu og æfingar. Einnig yrði aðstaða í landi, t.d. fyrir æfingar með slökkvitæki og fleira.
    Landssamband slökkviliðsmanna lýsti áhuga á að eiga aðild að slíkri miðstöð þar sem einnig yrði aðstaða til að æfa slökkviliðsmenn. Rætt var um Eiðið úti í Geldinganes við Reykjavík eða Skerjafjörðinn sem heppileg svæði fyrir þessa starfsemi. Fyrirmyndin var skóli í Noregi, Statens Havarivernskole, sem þar hefur starfað í nokkur ár með góðum árangri.
    Þessi mál voru rædd við samtök útgerðarmanna, bæði kaupskipa og fiskiskipa, fulltrúa vátryggingafélaga og fulltrúa frá þingflokkunum. Undirtektir voru jákvæðar þegar í byrjun.
    Á landsþingi Slysavarnafélags Íslands í Vestmannaeyjum 1984 voru öryggismál sjómanna mjög til umræðu. Þar voru gerðar ítarlegar ályktanir sem stjórn Slysavarnafélags Íslands reyndi að fylgja eftir. Þetta ár var haldið áfram viðræðum Slysavarnafélags Íslands, Sjómannasambands Íslands og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands um stofnun fræðslu- og þjálfunarmiðstöðvar sjómanna. Í nóvember 1984 lá fyrir áfangaskýrsla öryggismálanefndar sjómanna þar sem hvatt var til fastra námskeiða fyrir sjómenn. Slysavarnafélag Íslands réð mann til starfa þegar 1. desember þetta ár og hóf hann undirbúning. Leitað var samstarfs við eftirtalda aðila, auk þeirra samtaka sjómanna sem áður voru nefnd: Landssamband íslenskra útvegsmanna, Samband íslenskra kaupskipaútgerða, Siglingamálastofnun ríkisins, Samband íslenskra tryggingafélaga, Landssamband slökkviliðsmanna, Brunamálastofnun ríkisins, Stýrimannaskólann í Reykjavík, Vélskóla Íslands, Landhelgisgæslu Íslands og Fiskifélag Íslands. Haldinn var fundur með fulltrúum flestra þessara aðila í desember og lagt á ráðin um starfið.
    Að þessum fundahöldum loknum var stofnuð undirnefnd sem í áttu sæti fulltrúar Slysavarnafélags Íslands, sjómannasamtakanna, Landssambands slökkviliðsmanna og Siglingamálastofnunar ríkisins. Varð að ráði að hefja starfið með fræðslu- og kynningarfundum sem víðast. Strax voru haldnir fundir í flestum verstöðvum á Suðurnesjum, Suðurlandi og á Austfjörðum, frá Höfn að Vopnafirði. Einnig voru fundir á Húsavík, Skagaströnd og Ísafirði. Björgunarsveitarfélagar í Bolungarvík héldu einnig fjölmennan fræðslufund.
    Á framangreindum fundum var lögð áhersla á að gera mönnum grein fyrir þýðingu góðrar þekkingar og æfinga í meðferð öryggistækja. Undirtektir voru þegar mjög góðar og leiddu umræðurnar oft til þess að áhafnir skipa héldu fljótlega æfingar og hlutuðust til um kaup nýrra öryggistækja.
    Erindreki Slysavarnafélags Íslands fór til Noregs til að kynna sér fræðslustarf meðal sjómanna þar og í maí 1985 var síðan haldið tilraunanámskeið í Reykjavík. Námskeiðið var skipulagt af Slysavarnafélagi Íslands og Landssbandi slökkviliðsmanna.
    Veturinn 1985 var skipuð nefnd fulltrúa samgönguráðuneytisins, Slysavarnafélags Íslands, Siglingamálastofnunar og öryggismálanefndar sjómanna til að fjalla frekar um þessi mál og hvernig væri rétt að standa að þeim til frambúðar. Þá var m.a. til umræðu að miðstöð þessarar starfsemi yrði hjá Slysavarnafélagi Íslands og var því lýst yfir af hálfu félagsins að það væri reiðubúið að taka hlutverkið að sér.

Fyrsta árið.


    Í skýrslu Haraldar Henrýssonar, forseta Slysavarnafélags Íslands, árið 1986, segir á þessa leið:
    „Í síðustu ársskýrslu stjórnar var rætt um undirbúning að aukinni öryggisfræðslu sjómanna sem þá stóð yfir. Hefur verið unnið áfram að þeim málum og er nú óhætt að fullyrða að þau séu komin á það góðan rekspöl að tryggt ætti að vera að hér verði um fast og skipulegt starf að ræða til frambúðar og að miðstöð þess verði hjá Slysavarnafélaginu en unnið í samstarfi við marga aðila.
    Á sl. ári var starfandi nefnd, skipuð af Matthíasi Bjarnasyni samgönguráðherra, til að fjalla um fræðslumál sjómanna. Í nefndinni áttu sæti: Ólafur St. Valdimarsson, ráðuneytisstjóri samgönguráðuneytisins, formaður, Magnús Jóhannesson siglingamálstjóri, Árni Johnsen alþingismaður og undirritaður. Nefndin skilaði áliti um þessi mál hinn 11. október 1985. Var það aðaltillaga hennar að þegar yrði hafist handa um að halda 3 4 daga námskeið fyrir sjómenn um öryggismál á sama gundvelli og SVFÍ hafði verið með að undanförnu og yrðu þessi námskeið haldin á öllum helstu útgerðarstöðum á landinu. Var nefndin og sammála um að góður árangur Slysavarnafélagsins og reynsla í námskeiðahaldi um öryggismál gerði það sjálfsagt að félaginu yrði falið að annast framkvæmd þessara námskeiða í samráði við nefndina.
    Nefndin lagði áherslu á að tillögur hennar um námskeiðahald væru aðeins til bráðabirgða og til þess fyrst og fremst að bæta úr brýnni þörf. Jafnhliða verði að vinna að því að fastur samastaður verði fyrir þessa kennslu þar sem unnt verði að halda lengri og fjölbreyttari námskeið. Nauðsyn sé og að halda endurþjálfunarnámskeið, þannig að mönnum gefist kostur á að byggja upp og endurnýja þjálfun sína frá byrjunarnámskeiðum. Lagði nefndin áherslu á að sú stefna verði mörkuð að enginn, sem hefur ekki starfað áður á sjó, verði ráðinn í skiprúm, hvorki undirmenn né yfirmenn, nema þeir hafi hlotið lágmarksöryggisfræðslu.
    Að lokum lagði nefndin til að teknar yrðu inn á fjárlög ársins 1986 10 milljónir króna til námskeiðahalds á því ári, og lagði samgönguráðherra þá tillögu fyrir fjárveitinganefnd Alþingis.
    Við afgreiðslu fjárlaga fyrir yfirstandandi ár var veitt 5,5 millj. kr. til þessa starfs og þótt vonbrigðum hafi valdið að ekki skyldi lengra gengið til móts við tillögur nefndarinnar tryggði þessi fjárveiting samt að unnt var að halda því starfi áfram sem félagið hóf í þessum efnum á síðasta ári. Mörg námskeið hafa þegar verið haldin á árinu og verður kappkostað að hafa þau sem flest, eftir því sem mannafli og fjármagn leyfir. Þorvaldur Axelsson, sem í fyrra var ráðinn til eins árs til að sinna þessari starfsemi, hefur nú verið ráðinn til frambúðar og er deildarstjóri þessa þáttar í starfinu sem við köllum gjarna slysavarnaskólann. Auk hans hefur verið ráðinn sem fastur starfsmaður við þennan þátt Þórir Gunnarsson slökkviliðsmaður, fyrrum formaður björgunarsveitarinnar Alberts á Seltjarnarnesi. Reyndar hafði hann unnið talsvert áður en hann var ráðinn fastur starfsmaður, en hann og Höskuldur Einarsson, formaður Landssambands slökkviliðsmanna hafa verið leiðbeinendur ásamt Þorvaldi á flestum námskeiðunum frá upphafi. Einnig vann Erna Antonsdóttir, erindreki félagsins, mjög mikið með þeim félögum að undirbúningi og uppbyggingu námskeiðanna í upphafi og var þar einnig leiðbeinandi. Öll eiga þau miklar þakkir skildar fyrir þann mikla áhuga og alúð sem þau hafa lagt í þetta starf sem var ákaflega þýðingarmikið og dýrmætt, einmitt þegar verið var að leggja að því grundvöll. Af hálfu SVFÍ er kappkostað að þau námskeið, sem haldin eru, séu vönduð og að menn fái þar staðgóða og markvissa fræðslu, bæði bóklega og verklega, enda þótt ljóst sé að sá tími, sem námskeiðunum er ætlaður, sé mjög knappur. Á námskeiðunum er farið yfir flesta þætti öryggismála og auk hinna föstu leiðbeinenda hafa oft verið kallaðir til leiðbeinendur frá ýmsum aðilum, svo sem Siglingamálastofnun ríkisins, Landhelgisgæslu Íslands, Líffræðistofnun Háskólans og fleiri aðilum og er hér með þakkað framlag þeirra. Sérstaklega skal þakkað það framlag Landhelgisgæslunnar að senda oft þyrlu sína til að taka þátt í æfingum á námskeiðunum. Þá hafa björgunarsveitir SVFÍ á hinum ýmsu stöðum lagt námskeiðunum til mikla aðstoð með mannafla og tækjum, svo og slökkvilið hinna einstöku staða sem hafa aðstoðað við æfingar í slökkvistörfum og reykköfun. Það er ánægjulegt að finna hversu mikill áhugi ríkir á framgangi þessa máls. Áhugi sjómanna á þátttöku í slíkum námskeiðum hefur mjög aukist, eftir því sem spurst hefur meira frá þeim, og skilningur útgerðarmanna einnig farið vaxandi.

Varðskipið Þór.


    Á árinu 1984 skrifuðu SVFÍ, FFSÍ og SSÍ ríkinu bréf með ósk um að varðskipið Þór, sem þá hafði verið lagt, yrði afhent til öryggisfræðslu sjómanna. Engin viðbrögð bárust lengi vel við þessu bréfi. Á síðastliðnu hausti, þegar verið var að flytja skipið úr Reykjavíkurhöfn suður í Straumsvíkurhöfn og helst virtist liggja fyrir skipinu að verða selt í brotajárn, var af hálfu SVFÍ vakin athygli þáverandi fjármálaráðherra, Alberts Guðmundssonar, á þessu máli og var það einkum fyrir milligöngu Árna Johnsens alþingismanns. Fjármálaráðherra ákvað að bjóða SVFÍ skipið til kaups fyrir eitt þúsund krónur. Var gengið að því góða boði og þar með var þetta merka skip orðið eign félagsins. Hér skal ítrekað þakklæti til þáverandi fjármálaráðherra og ríkisstjórnarinnar fyrir þann skilning sem þessu máli var sýndur með þessari ákvörðun.
    Segja má um þetta að vandi fylgi vegsemd hverri. Tilkoma skipsins undir merki félagsins leggur því ýmsar skyldur á herðar, m.a. allmiklar fjárhagslegar, sem enn á eftir að kanna til fulls hvernig unnt er að uppfylla. Á hinn bóginn er ljóst að skipið gefur okkur marga góða möguleika í starfi að öryggismálum sjómanna og björgunarmálum sem þýðingarmikið er að við getum nýtt okkur. Fyrsta verkefni okkar var að koma skipinu í legupláss þar sem unnt yrði að nýta það strax til þeirra verkefna sem því eru ætluð, þ.e. að hýsa Slysavarnaskóla sjómanna. Fyrir góðan skilning og velvilja hafnaryfirvalda í Reykjavík fékkst allgott bryggjupláss til bráðabirgða. Var síðan hafist handa um að breyta skipinu og undirbúa það til hins nýja hlutverks síns. Innréttaður hefur verið kennslusalur og skipið gert að mestu klárt til að námskeiðahald geti hafist þar um borð í Reykjavíkurhöfn. Sótt var um styrk til Fiskimálasjóðs vegna þessara framkvæmda og samþykkti hann að veita eina milljón króna í styrk til þeirra. Einnig hafa félaginu borist nokkrar gjafir vegna Þórs. Farmanna- og fiskimannasambandið afhenti 250.000 kr. og einnig gaf Kvennadeild SVFÍ í Reykjavík sömu fjárhæð til skipsins. Þá tilkynnti Vélsmiðja Olsen í Njarðvík að hún gæfi til skipsins losunarbúnað fyrir gúmmíbjörgunarbáta, sem hún smíðar, bæði handstýrðan og sjálfvirkan, til að nota við kennslu og æfingar og mundi hún einnig sjá um uppsetningu búnaðarins. Eru allar þessar gjafir mikils virði og eru hér færðar bestu þakkir fyrir þær.
    Rætt hefur verið við menntamálaráðherra um að sjómannaskólarnir og sjóvinnunámskeið grunnskólanna fái öryggisfræðslu um borð í Þór og greiði ráðuneytið fyrir þá þjónustu. Einnig hefur verið rætt við borgarstjórann í Reykjavík um að vinnuflokkar í unglingavinnu borgarinnar sjái að hluta til um viðhaldsvinnu um borð í skipinu á sumrin og fái þar um leið fræðslu um sjóvinnu, öryggismál og björgunarmál. Eru allar líkur á að sú starfsemi hefjist þegar í sumar.
    Fram undan er mikið verkefni til að gera það mögulegt að við getum siglt skipinu milli hafna og haldið þar námskeið og æfingar og einnig til að við getum nýtt skipið enn frekar í þágu slysavarna og björgunarmála.“

Uppbygging og þróun.


    Árið 1986 sóttu 600 700 sjómenn námskeið Slysavarnaskóla sjómanna og um mitt árið 1987 voru þeir yfir 1.000. Á árinu 1986 var veitt 5,5 millj. kr. til öryggisfræðslu sjómanna samkvæmt fjárlögum. Heildarútgjöld vegna fræðslunnar námu hins vegar hátt á sjöundu milljón króna. Árið 1987 voru 8 millj. kr. á fjárlögum. Auk þess afhenti Halldór Ásgrímsson sjávarútvegsráðherra félaginu 8 millj. kr. í október, en það var samkvæmt lögum sem samþykkt voru fyrr á árinu um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins og stóð þetta fé eftir af eignum Tryggingasjóðs.
    Í skýrslu Slysavarnafélags Íslands fyrir árið 1987 er fjallað um þátt Sæbjargar í fræðslustarfinu. Þar segir m.a.:
    „Miðstöð Slysavarnaskóla sjómanna er um borð í Sæbjörgu og þar um borð hafa verið haldin þau námskeið sem verið hafa í Reykjavík. Unnið hefur verið að ýmsum endurbótum og viðhaldi í skipinu með það í huga að unnt verði að nota það til þessa starfs. Hér hafa margir lagt hönd á plóginn, bæði innan félags okkar og utan. Á síðasta sumri unnu vinnuflokkar úr unglingavinnu Reykjavíkurborgar við ýmis störf um borð í skipinu, málningu, þrif o.fl., undir aðalumsjón Ásgríms Björnssonar og hlutu unglingarnir jafnframt fræðslu og tilsögn varðandi slysavarnir og björgunarmál. Var þetta ákaflega ánægjulegur þáttur og er sérstök ástæða til að þakka borgarstjóranum í Reykjavík og borgaryfirvöldum fyrir þann skilning sem þau sýndu í þessu máli.
    Í vetur hefur einkum verið unnið að því að yfirfara aðra aðalvél skipsins og að öðru leyti að búa skipið undir að geta siglt. Er fyrsta ferðin farin nú í maímánuði til Vestmannaeyja þar sem námskeið verða haldin en síðan verður skipinu siglt til Akureyrar í tengslum við aðalfund félagsins á Hrafnagili og verða haldin námskeið í Eyjafirði í tengslum við þá ferð.
    Með þessu hefur ísinn verið brotinn. Fram undan er hins vegar að tryggja til frambúðar fjárhagslegan grundvöll útgerðar skipsins sem skólaskips er sigli umhverfis landið. Er ljóst að þar bíða okkar mikil verkefni. Einnig er að því stefnt að koma upp aðstöðu í landi í nágrenni Reykjavíkur þar sem unnt verði að hafa æfingar varðandi slökkvistörf og eldvarnir.
    Á síðasta ári var varið um það bil 5 millj. kr. til endurbóta og viðhalds á Sæbjörgu, en ljóst er að sú fjárhæð hefði orðið miklu hærri ef ekki hefði notið mikilvægrar aðstoðar sjálfboðaliða og annarra. Framlög og gjafir til skipsins námu samtals 4,5 millj. kr., þar af voru seld gjafabréf fyrir um það bil 1,7 millj. kr. Í síðustu ársskýrslu var getið framlags Fiskimálasjóðs, kvennadeildar SVFÍ í Reykjavík og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands en hér skal nefnt til viðbótar framlag frá svd. Eykyndli í Vestmannaeyjum, 100.000 kr., sem afhent var í tengslum við landsþingið 1986.“
    Árið 1988 var allt starf Slysavarnaskóla sjómanna komið í fast form. Árið 1987 sóttu 1.500 manns námskeið og æfingar hjá skólanum. Auk venjulegra námskeiða voru margvíslegar æfingar og leiðbeiningarþjónusta á vegum skólans, einkum um notkun flotbjörgunarbúninga.
    Námskeið skólans, sem flest standa í fjóra daga, höfðu þá verið haldin víða um land, en flest um borð í Sæbjörgu í Reykjavík. Allmargar skipshafnir höfðu þá komið til Reykjavíkur og gist í Sæbjörgu. Mikill áhugi var á því að sigla Sæbjörgu sem víðast til námskeiðahalds, en slök fjárráð komu í veg fyrir það. Þó var siglt til Vestmannaeyja og Akureyrar 1987.
    Í byrjun árs 1988 höfðu á þriðja þúsund manns sótt námskeið Slysavarnaskólans frá því hann var stofnaður í maí 1985. Árið 1988 fól Matthías Á. Mathiesen samgönguráðherra nefnd, sem starfað hafði á vegum ráðuneytisins, að hafa umsjón með því að skólanum yrðu tryggðar árlegar fastar tekjur og að semja starfsreglur fyrir öryggisfræðslu sjómanna er hann undirritaði fyrir hönd ráðuneytisins. Þá var gerður sérstakur samningur við menntamálaráðuneytið um að Slysavarnaskóli sjómanna sjái nemendum Stýrimannaskólans og Vélskólans fyrir fræðslu um öryggismál. Svavar Gestsson menntamálaráðherra undirritaði þetta samkomulag fyrir hönd ráðuneytisins.

Fjármál og framtíð.


    Fljótlega kom í ljós að fjárskortur hamlaði nokkuð starfsemi Slysavarnaskóla sjómanna. Árið 1989 fékk skólinn 11,5 millj. kr. á fjárlögum og hafði framlagið hækkað um 1,5 millj. kr. á milli ára. Auk þess var greitt sérstaklega fyrir námskeið þau sem skólinn hélt fyrir nemendur Stýrimannaskólans og Vélskólans. Talsverðar umræður hafa orðið um hvernig tryggja megi skólanum nægilegt fjármagn.
    Um síðustu áramót höfðu liðlega 4.200 manns sótt námskeið skólans. Sjómenn hafa tekið þessu starfi mjög vel og er óhætt að fullyrða að þetta fræðslustarf hefur gífurlega mikla þýðingu fyrir allt öryggi sjómanna. Starf skólans hefur einnig stuðlað að aukinni umhugsun sjómanna um öryggismál og eflt með þeim skilning á nauðsyn þess að halda öllu í góðu lagi er varðar öryggi skips og ástand alls búnaðar um borð. Nú þegar eru nokkur dæmi þess að sjómenn, sem lent hafa í lífsháska, telja að fræðsla og þjálfun, er þeir hlutu í skólanum, hafi ráðið úrslitum um að þeim tókst að bjarga sér og félögum sínum. Þá má og nefna nokkur tilvik, þar sem fræðsla um rétt viðbrögð við eldsvoða um borð í skipum hefur komið að góðum notum og bjargað talsverðum verðmætum.
    Það er skoðun stjórnar Slysavarnafélags Íslands að hver einasti sjómaður fái slíka fræðslu með föstu millbili. Það er því mjög brýnt að löggilda starfsemi skólans, tryggja honum nægjanlegt fjármagn og lögbinda þetta nám fyrir alla sjómenn. Óhætt er að fullyrða að sú skipan að Slysavarnafélag Íslands annist þessa starfsemi sé mjög heppileg. Starf Slysavarnaskóla sjómanna nýtur þegar mikillar velvildar úti um allt land og er litið á það sem fastan lið í starfi félagsins. Skólinn fær þannig ómetanlegan styrk frá deildum og björgunarsveitum Slysavarnafélags Íslands víðs vegar, sem leggja fram mikla sjálfboðaliðavinnu í hans þágu, en búast má við að fyrir slíka vinnu þyrfti að greiða að verulegu leyti ef hér væri um ríkisstofnun að ræða.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um að Slysavarnaskóli sjómanna skuli vera miðstöð almennrar fræðslu fyrir sjómenn en að Slysavarnafélag Íslands fari með yfirstjórn hans og beri ábyrgð á rekstrinum. Þá eru staðfest þau markmið með rekstri skólans sem starfað hefur verið eftir í rösk fimm ár.

Um 2. gr.


     Í þessari grein er getið aðalþátta í starfsemi skólans: skipulag námskeiða á helstu útgerðarstöðum landsins, fræðsla fyrir nemendur í skipstjórnar- og vélstjórnarnámi, sem fer fram samkvæmt sérstökum samningi við menntamálaráðuneytið, og taldar upp helstu kennslugreinar.

Um 3. gr.


     Þetta er ein mikilvægasta grein frumvarpsins. Samkvæmt henni verður ekki unnt að lögskrá sjómann á skip nema hann hafi lokið grunnnámi í Slysavarnaskóla sjómanna. Eins og fram kemur í 7. gr. er þó ekki gert ráð fyrir að ákvæði 3. gr. komi að fullu til framkvæmda fyrr en að fimm árum liðnum frá gildistöku laganna.

Um 4. gr.


     Þessi grein skýrir sig að verulegu leyti sjálf. Í henni er kveðið á um skipan skólanefndar. Gert er ráð fyrir að samgönguráðherra tilnefni tvo menn í hana og Slysavarnafélag Íslands þrjá, þar af formann. Þá er kveðið á um verkefni skólanefndar.

Um 5. gr.


     Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 6. gr.


     Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 7. gr.


     Í þessari grein er kveðið svo á um að ákvæði 3. gr. komi ekki að fullu til framkvæmda fyrr en eftir fimm ár frá gildistöku laganna. Þetta er aðlögunartími fyrir þá sjómenn sem ekki hafa stundað nám í Slysavarnaskóla sjómanna.Fylgiskjal.
.......