Ferill 193. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 193 . mál.


Nd.

228. Frumvarp til stjórnarskipunarlaga



um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum.

Flm.: Ásgeir Hannes Eiríksson.



1. gr.


     31. gr. orðist svo:
     Á Alþingi eiga sæti 43 þjóðkjörnir þingmenn, kosnir leynilegri hlutbundinni kosningu til fjögurra ára. Kjördæmi landsins eru ákveðin sem hér segir:
     Fyrir hverjar kosningar til Alþingis skal landinu skipt í 22 sem næst jafnfjölmenn kjördæmi. Mesti leyfilegur munur á fjölda atkvæðisbærra manna í því kjördæmi sem fæsta hefur og því sem flesta hefur skal vera innan við 5%.
     Hagstofa Íslands skal annast skiptingu landsins í kjördæmi þannig:
     Deilt er í fjölda kosningarbærra landsmanna með tölunni 22. Síðan eru afmörkuð landsvæði sem hafa að geyma þann fjölda kosningarbærra einstaklinga og telst hvert svæði eitt kjördæmi. Mörkin skulu fylgja hreppa - , bæjar - eða sýslumörkum eins og við verður komið. Ella skal styðjast við önnur landfræðileg kennileiti, svo sem ár, fjöll, vegi og aðalgötur í bæjum.
     Kjördæmamörk skal auglýsa eigi síðar en sextán vikum fyrir kjördag eða, ef því verður ekki við komið vegna stutts fyrirvara, auglýsa kjördæmamörk innan þriggja sólarhringa eftir að kosningar eru fyrirskipaðar og á þann hátt á hverjum stað sem venja er að birta opinberar auglýsingar.
     Hver kjósandi til Alþingis hefur tvö atkvæði, annað til að kjósa þingmann í kjördæmi og hitt til að kjósa þingmann af landslista.
     Þingmenn skulu kjörnir þannig að 22 eru kosnir einfaldri meirihlutakosningu í jafnmörgum kjördæmum og 21 þingmaður af landslistum stjórnmálasamtaka með hlutfallskosningum og skal höfð hliðsjón af atkvæðahlutfalli á bak við þingmenn kjörna í kjördæmum.

2. gr.


     32. gr. orðist svo:
     Alþingi starfar í einni málstofu.



3. gr.


     38. gr. orðist svo:
     Sérhver þingmaður hefur rétt til að bera fram frumvörp til laga og annarra samþykkta. Alþingi má senda forseta lýðveldisins ávörp. Alþingi má fela aðilum utan þingsins að semja reglugerðir um nánari útfærslu laga frá Alþingi en allar reglugerðir þurfa að hljóta samþykki Aþingis áður en þær taka gildi.

4. gr.


     39. gr. orðist svo:
     Alþingi getur skipað nefndir til að rannsaka mikilvæg mál er almenning varða. Alþingi getur veitt nefndum þessum rétt til að heimta skýrslur, munnlegar og bréflegar, bæði af embættismönnum og einstökum mönnum.

5. gr.


     42. gr. orðist svo:
     Fyrir hvert reglulegt Alþingi skal, þegar er það er saman komið, leggja fram frumvarp til fjárlaga fyrir það fjárhagsár, sem í hönd fer, og skal í því fólgin greinargerð um tekjur ríkisins og gjöld. Það skal afgreiða við þrjár umræður.

6. gr.


     43. gr. orðist svo:
     Alþingi kýs þrjá yfirskoðunarmenn og skulu þeim veitt laun fyrir starfa sinn. Þeir skulu kosnir með hlutfallskosningu. Yfirskoðunarmenn þessir eiga að gagnskoða árlega reikninga um tekjur og gjöld landsins og gæta þess hvort tekjur landsins séu þar allar taldar og hvort nokkuð hafi verið af hendi greitt án heimildar. Þeir geta hver um sig, tveir eða allir, krafist að fá allar skýrslur þær og skjöl sem þeim þykir þurfa. Síðan skal safna þessum reikningum fyrir hvert fjárhagstímabil í einn reikning og leggja fyrir Alþingi frumvarp til laga um samþykkt á honum og athugasemdir yfirskoðunarmanna.
     Rétt er yfirskoðunarmönnum, einum eða fleirum, að fá að sjá reikninga og bækur ríkisféhirðis og sömuleiðis Stjórnarráðsins fyrir ár það sem er að líða eða liðið er. Þyki þeim nokkuð athugavert skulu þeir gefa eftirmönnum sínum vísbendingu um það skriflega.

7. gr.


     44. gr. orðist svo:
     Ekkert lagafrumvarp má samþykkja fyrr en það hefur verið rætt þrisvar á Alþingi. Sama máli gegnir um reglugerðir með lögum.

8. gr.


     45. gr. fellur brott.

9. gr.


     52. gr. (sem verður 51. gr.) orðist svo:
     Alþingi kýs sér forseta.


10. gr.


     53. gr. (sem verður 52. gr.) orðist svo:
     Alþingi getur ekki gert samþykkt um má nema meira en helmingur þingmanna sé á fundi og greiði þar atkvæði.

11. gr.


    54. gr. (sem verður 53. gr.) orðist svo:
     Heimilt er hverjum alþingismanni að bera upp sérhvert almennt mál ef Alþingi leyfir það og beiðast um það skýrslu ráðherra. Skylt er að veita öllum framkomnum málum þinglega meðferð, þ.e. að Alþingi ræði málið og greiði um það atkvæði. Eigi má slíta Alþingi fyrr en málaskrá er tæmd en forseti getur ákveðið síðasta skiladag nýrra þingmála og skal hann ekki vera fyrr en 30 dögum fyrir þinglausnir.

12. gr.


     55. gr. (sem verður 54. gr.) orðist svo:
     Alþingi má ekki taka við neinu málefni nema alþingismaður flytji það. Skylt er forseta að taka þingmál á dagskrá í þeirri röð sem þau berast honum.

13. gr.


     56. gr. (sem verður 55. gr.) orðist svo:
     Nú þykir Alþingi ekki ástæða til að gera aðra ályktun um eitthvert málefni og getur það þá vísað því til ráðherra.

14. gr.


     57. gr. (sem verður 56. gr.) orðist svo:
     Fundir Alþingis skulu haldnir í heyranda hljóði. Þó getur forseti, eða svo margir þingmenn sem til er tekið í þingsköpum, krafist að öllum utanþingsmönnum sé vísað burt og sker þá þingfundur úr hvort ræða skuli málið í heyranda hljóði eða fyrir luktum dyrum.

15. gr.


     58. gr. (sem verður 57. gr.) orðist svo:
     Þingsköp Alþingis skulu sett með lögum.

16. gr.


     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta hefur þrjú meginmarkmið:
     Að jafna atkvæðisrétt allra landsmanna.
     Að koma á persónukosningum og þar með beinum tengslum á milli þingmanna og kjósenda í einmenningskjördæmum og tryggja um leið að samræmi sé í hlutfalli þingmanna og kjósenda sem hafa svipuð sjónarmið.
     Að fækka alþingismönnum í 43.

I.


    Það er æðsta takmark hjá hverju þjóðfélagi að jafna bilið á milli þegnanna, eins og framast er unnt, og búa svo um hnútana að allir hafi jafna möguleika til að verða sinnar eigin gæfu smiðir og hjálpa þeim sem verða undir í lífsbaráttunni. Þannig má tryggja öllu fólki jafnan aðgang að þjóðfélaginu. Það líður fæstum vel í landi þar sem einhverjum öðrum líður illa.
    Þessu marki hafa Íslendingar náð á flestum sviðum þjóðlífsins og eru víða til fyrirmyndar. Sums staðar er þó enn þá pottur brotinn og einn hópur landsmanna er eftirbátur annarra. Þar er komin slagsíða á þjóðfélagið og hana þarf að leiðrétta.

II.


    Dýrmæt réttindi fólksins er rétturinn til að kjósa fulltrúa á löggjafarþing. Kosningarrétturinn greinir lýðveldi frá einveldi og án hans hafa þjóðir ekki full lýðréttindi. Þróun byggðar á Íslandi hefur fært þann rétt á milli landshluta í öfugu hlutfalli við íbúana. Komin er slagsíða á kosningarréttinn. Reykvíkingar og Reyknesingar hafa þannig aðeins hluta af atkvæðisrétti íbúa í öðrum kjördæmum. Í Reykjavík eru 3315 gild atkvæði á bak við hvern þingmann en aðeins 1199 á Vestfjörðum.
    Kosningarrétturinn er mannréttindi og engin efnisleg gæði geta komið í staðinn fyrir hann. Ekki frekar en fyrir málfrelsið og prentfrelsið. Stundum heyrast þau sjónarmið að eitt kjördæmi standi öðru að baki á einhvern hátt. Til dæmis með opinbera þjónustu af ýmsu tagi. Verði menn ásáttir um þann mun á milli kjördæma er rétt að bæta það með skattaafslætti til íbúa þess kjördæmis sem lakara er sett eða á annan sambærilegan hátt. Atkvæðisrétt fólksins í öðrum kjördæmum má aldrei nota fyrir skiptimynt í svoleiðis jöfnuði. Þess vegna verða allir landsmenn að hafa jafnan kosningarrétt. Annars spegla kosningar ekki lengur vilja þjóðarinnar og niðurstöður þeirra verða rangar. Þar með eru undirstöður þjóðfélagsins orðnar skakkar og það riðar til falls.

III.


    Kjósendum finnst oft að lítil tengsl séu á milli þeirra og alþingismanna. Framboðslistar stjórnmálaflokkanna eru ýmist valdir í stofnunum flokkanna eða í prófkjörum þar sem almennir kjósendur hafa misjafnlega greiðan aðgang. Það kemur aðeins einn sigurvegari úr hverju prófkjöri þó að listinn fái fleiri menn kjörna á þing. Aðrir þingmenn listans hafa því beðið lægri hlut í prófkjöri og teljast ekki sigurvegarar í þeim skilningi.
    Kjósendur standa svo frammi fyrir því að velja allan listann í kjördæminu eða ekki. Þannig gefst ekki kostur á að velja eitt þingmannsefni umfram annað í viðamiklu kjördæmi með margvísleg sjónarmið frambjóðenda. Þeim er heldur ekki gert kleift að velja frambjóðanda án þess að kjósa flokk hans um leið.
    Á sama hátt er kjósendum ekki mögulegt að velja frambjóðendur úr öðru kjördæmi en þeirra eigin. Fólk getur ekki valið ákjósanlegt þingsmannsefni nema vera sjálft bólfast í sama kjördæmi.

IV.


    Það er oft haft á orði að pólitískur áhugi landsmanna sé í lágmarki og því fari virðing fyrir stjórnmálamönnum dvínandi. Með vaxandi fólksfjölda breikkar bilið á milli kjósenda og kjörinna fulltrúa. Frambjóðendur á lista í fjölmennu kjördæmi telja sig ekki þurfa að nálgast kjósendur sína á sama hátt og um einmenningskjördæmi væri að ræða. Þeir skáka í skjóli rótgróins fylgis við listann sinn frekar en þingmennina sjálfa. Með auknum borgarbrag í Reykjavík verða hin ýmsu borgarhverfi stöðugt sjálfstæðari byggðir innar höfuðborgarinnar. Samt er víðsfjarri að alþingismenn borgarbúa séu búsettir í öllum hverfum Reykjavíkur. Þannig er flutningsmaður þessa frumvarps eini þingmaður Reykvíkinga sem býr í fjölmennustu íbúabyggð landsins í Breiðholti.
    Eftir því sem kjördæmin eru minni og kjósendur færri nær kjörinn fulltrúi betra sambandi við íbúana.
    Oft er haft á orði að stjórnmálaflokkar séu of margir hér á landi og því nái samsteypustjórnir þeirra ekki sama árangri og ríkisstjórnir eins eða tveggja flokka. Mörgum finnst að flokkur og stjórnmálasamtök þurfi að renna saman í stærri fylkingar og mynda kerfi tveggja stjórnmálaflokka til að axla ábyrgðina til skiptis.

V.


    Með frumvarpinu er reynt að taka á þessum málum og færa til betri vegar. Allir landsmenn sitji við sama borð eins og andi stjórnarskrárinnar gerir ráð fyrir: Allir landsmenn hafi jafnan atkvæðisrétt til Alþingis. Reykvíkingar og Reyknesingar verði ekki lengur hálfdrættingar á við aðra íbúa landsins.

VI.


    Ein meginbreytingin í þessu frumvarpi er sú að hver kjósandi hefur tvö atkvæði. Í hverju kjördæmi geta stjórnmálasamtök boðið fram bæði kjördæmislista og landslista. Kjósandi á því strax nokkurt val. Hann getur annaðhvort kosið báða listana eða stutt frambjóðanda eins lista í kjördæmi sínu og kosið annan framboðslista á landsvísu. Kjósandi getur líka kosið aðeins annan listann og sleppt hinum ef honum býður svo við að horfa.
    Þó að frumvarpið byggist á einmenningskjördæmum að hálfu leyti tryggir landslistinn að allar stjórnmálaskoðanir eigi fulltrúa á Alþingi í samræmi við raunverulegt fylgi þeirra.
    Með frumvarpinu er líka reynt að efla tengslin á milli kjósenda og kjörinna fulltrúa. Úr hverju einmenningskjördæmi kemur einn sigurvegari á Alþingi og hann þarf að leita beint til kjósenda í kjördæmi sínu eftir stuðningi. Nú dugar ekki lengur að skáka í skjóli flokka sinna af miðjum framboðslista.


Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Sjá greinargerð hér að framan.

Um 2. gr.


     Hér er gert ráð fyrir að Alþingi starfi í einni málstofu í stað tveggja, efri og neðri deildar, eins og nú er. Með því móti sparast bæði tími og fyrirhöfn. Eins tryggir sú breyting lýðræðið í sessi eins og glöggt kom fram við afgreiðslu bráðabirgðalaga ríkisstjórnarinnar nú í haust. Lög þau höfðu meirihlutafylgi á Alþingi en hefðu getað fallið þrátt fyrir það vegna þess að ekki var meiri hluti fyrir hendi í annarri þingdeildinni.

Um 3. gr.


     Iðulega segir í frumvarpi til laga að viðkomandi ráðherra sé falið að setja reglugerð um nánari útfærslu laganna. Ráðherra felur svo oft starfsfólki í ráðuneyti sínu að vinna verkið í sínu nafni. Oft og tíðum eru þýðingarmestu þættir laganna þannig ákveðnir í reglugerðinni. Dæmi má nefna um sjóð sem Alþingi ákveður að stofna í ákveðnum tilgangi með lögum. Í reglugerð er svo kveðið á um hvernig úthluta eigi úr sjóðnum og hverjir vinni það verk. Þannig hefur Alþingi afsalað sér stórum hluta af löggjafarvaldinu með þessu móti og er mál að endurheimta það vald.
    Þar sem mikill tími vinnst við að sameina Alþingi í eina málstofu þá losnar tími til að sinna reglugerðum laganna.

Um 4., 5., 6., 9., 10., 13., 14. og 15. gr.


     Þessum greinum er breytt vegna sameiningar Alþingis í eina málstofu. Orðin „sameinað Alþingi“, „neðri deild“ og „efri deild“ eru felld út og orðið „Alþingi“ kemur í staðinn.

Um 7. gr.


     Hér er gert ráð fyrir að reglugerðir fái framvegis sömu þingmeðferð og lagafrumvörp.

Um 8. gr.


     Þar sem frumvarpið gerir ráð fyrir að Alþingi starfi framvegis í einni málstofu er þessi grein óþörf, en hún gerir ráð fyrir afdrifum mála í sameiginlegri málstofu ef eigi gengur saman hjá deildum þingsins um einstök lagafrumvörp.

Um 11. gr.


    Hér er gert ráð fyrir nýmælum í stjórnarskránni til að tryggja lýðræðið með því að lögbinda rétt flutningsmanna þingmála til þess að mál þeirra hljóti þinglega meðferð á Alþingi. Nú er svo í pottinn búið að einungis lítill hluti þingmála fær lokaafgreiðslu í þingsölum. Þetta er vanvirðing við bæði Alþingi og alþingismenn.
    Hlutverk Alþingis hlýtur að vera að ljúka hverju fram komnu máli með því að þingheimur greiði um það atkvæði, samþykki málið eða hafni því.
    Hægt er að hugsa sér að komið verði einhvers konar kvóta á ráðuneyti, þingflokka og einstaka alþingismenn ef fjöldi þingmála keyrir um þverbak.
    En fyrsta skylda Alþingis er að hafa hreint borð við hverjar þinglausnir og líða ekki þá vanvirðingu að löglega fram borin þingmál séu svæfð og þar með eyðilögð í þingnefndum. Það er ekki hlutverk þingnefnda og allra síst hlutverk formanna þeirra.

Um 12. gr.


     Hér er gert ráð fyrir að þingmál séu tekin á dagskrá í þeirri röð sem þau berast forseta. Nú er því hins vegar þannig varið að stjórnarfrumvörp hafa forgang á frumvörp alþingismanna. Flutningsmaður á bágt með að sætta sig við það fyrirkomulag og telur það ljóð á lýðræðinu. Þingmaðurinn sjálfur er hornsteinn Alþingis og verður að hafa jafnan rétt og hópur þingmanna til þess að flytja mál sitt. Alþingi getur starfað án ríkisstjórnar en ríkisstjórnir ekki án alþingismanna.

Athugasemdir við einstakar greinar kosningalagafrumvarpsins.


Um 4. gr.


     Í síðustu kosningum hefði tala skv. 4. gr. frumvarpsins verið 7791 kjósandi sem lagður hefði verið til grundvallar við skiptingu landsins í kjördæmi. Miðað við núgildandi kjördæmaskiptingu hefði þingmannafjöldi í kjördæmum þá orðið:

    Reykjavík     9 þingmenn
    Reykjanes     5 þingmenn
    Vesturland     1 þingmaður
    Vestfirðir     1 þingmaður
    Norðurland vestra     1 þingmaður
    Norðurland eystra     2 þingmenn
    Austurland     1 þingmaður
    Suðurland     2 þingmenn

    Samtals                         22 þingmenn

    Þessir þingmenn hefðu verið kjörnir beinni kosningu og væru því beinir fulltrúar þeirra kjósenda sem hefðu kosið þá. Ekki er gott að segja hverjir hefðu hlotið kosningu samkvæmt þessari tillögu en líklegt er að kjördæmakosnir þingmenn hefðu skipst svo á stjórnmálaflokkana:

    Alþýðuflokkur     3 þingmenn
    Framsóknarflokkur     7 þingmenn
    Sjálfstæðisflokkur     8 þingmenn
    Alþýðubandalag     2 þingmenn
    Borgaraflokkur     1 þingmaður     
    Kvennalisti     1 þingmaður

    Samtals     22 þingmenn

    Samtök jafnréttis og félagshyggju hefðu ekki fengið mann kjörinn samkvæmt þessu kerfi, enda þingmenn mun færri en í núgildandi kerfi.
    Við skiptingu þingsæta milli flokka samkvæmt landslistum skal tekið tillit til fjölda þingsæta hvers flokks í kjördæmum og byggt á reiknaðri tölu samkvæmt gildum atkvæðum í kosningum. Þannig er deilt með heildarfjölda þingsæta (43) í samtölu gildra atkvæða samkvæmt landslistum. Í seinustu alþingiskosningum hefði sú tala verið 3552.
    Miðað við að öll atkvæði greidd kjördæmislistum hefðu líka skilað sér til landslista flokkanna hefðu þingmenn kjörnir af landslista að öllum líkindum skipst þannig á flokka:

    Alþýðuflokkur     4 þingmenn          
    Framsóknarflokkur     1 þingmaður          
    Sjálfstæðisflokkur     4 þingmenn          
    Alþýðubandalag     4 þingmenn          
    Borgaraflokkur     4 þingmenn          
    Kvennalisti     4 þingmenn          

    Samtals          21 þingmaður

    Þingmenn hefðu því skipst svona á milli flokka á þessu kjörtímabili:

               Kjósendur að baki
              hvers þingmanns
    Alþýðuflokkur      7 þingmenn     

3324


    Framsóknarflokkur      8 þingmenn     

3613


    Sjálfstæðisflokkur     12 þingmenn     

3458


    Alþýðubandalag      6 þingmenn     

3397


    Borgaraflokkur      5 þingmenn     

3318

    
    Kvennalisti      5 þingmenn     

3094



    Samtals     43 þingmenn

Um 33. gr.


     Rétt er að vekja sérstaka athygli á breytingu á 33. gr. þar sem umboðsmönnum lista er ekki heimilt að framselja umboð sitt til annarra. Þetta kemur í veg fyrir þær hvimleiðu persónunjósnir sem stundaðar hafa verið í kjördeildum hér á landi. Umboðsmönnum lista, tveim í hverju kjördæmi, er þó heimilt að hafa eftirlit með kosningum í einstökum kjördeildum.

Um 63. gr.


     Gert er ráð fyrir að kjörstjóra sé heimilt að láta kosningu fara fram í fangelsum, meðferðarheimilum og öðrum stofnunum á sama hátt og nú er leyft á sjúkrahúsum og dvalarheimilum aldraðra. Það eru aukin réttindi fyrir vistmenn á þessum stöðum og mikil hagræðing fyrir starfsfólk þeirra.

Um 81. gr.


    Samkvæmt greininni er kjósendum skylt að framvísa persónuskilríkjum áður en kjörseðill er afhentur.


Fylgiskjal.


Drög að frumvarpi til laga um kosningar til Alþingis.


I. KAFLI


Kosningarréttur og kjörgengi.


2. gr.


    Kjörgengur við kosningar til Alþingis er hver sá sem kosningarrétt á skv. 1. gr. og hefur óflekkað mannorð. Þeir dómendur, sem hafa ekki umboðsstörf á hendi, eru þó ekki kjörgengir.
     Enginn telst hafa óflekkað mannorð sem er sekur eftir dómi um verk sem er svívirðilegt að almenningsáliti, nema hann hafi fengið uppreist æru sinnar.
     Dómur fyrir refsivert brot hefur ekki flekkun mannorðs í för með sér, nema sakborningur hafi verið fullra 18 ára að aldri er hann framdi brotið og refsing sé fjögurra mánaða fangelsi óskilorðsbundið hið minnsta eða öryggisgæsla sé dæmd.

3. gr.


     Hver sá, sem kosningarrétt hefur skv. 1. gr., hefur við kosningar til Alþingis tvö atkvæði, annað til að kjósa þingmann í því kjördæmi sem hann á búsetu í og hitt til að kjósa landslista þeirra stjórnmálasamtaka sem hann vill styðja.
     Ekki er skilyrði að þessi atkvæði falli á sama listabókstaf, en ef landslisti er ekki kosinn telst atkvæði greitt kjördæmislista yfirlýsing um stuðning við landslista þess flokks er hlýtur atkvæði í kjördæmi. Ef landslisti er kosinn eingöngu telst það ekki yfirlýsing um kosningu sama lista í kjördæmi, heldur skal einungis telja atkvæðið til landslistans.

II. KAFLI


Kjördæmi.


4. gr.


     Fyrir hverjar kosningar til Alþingis skal landinu skipt í 22 sem næst jafnfjölmenn kjördæmi. Mesti leyfilegi munur á fjölda atkvæðisbærra manna í því kjördæmi sem fæsta hefur og því sem flesta hefur skal vera innan við 5%.
    Hagstofa Íslands skal annast skiptingu landsins í kjördæmi þannig:
    Deilt er í fjölda kosningarbærra landsmanna með tölunni 22. Síðan eru afmörkuð landsvæði sem hafa að geyma þann fjölda kosningarbærra einstaklinga og telst hvert svæði eitt kjördæmi. Mörkin skulu fylgja hreppa - , bæja - eða sýslumörkum eins og við verður komið. Ella skal styðjast við önnur landfræðileg kennileiti, svo sem ár, fjöll, vegi og aðalgötur í bæjum.
     Landslistar skulu gilda fyrir allt landið sem þá telst eitt kjördæmi.

5. gr.


     Þingsæti á Alþingi skulu vera 43 og skiptast þannig að hvert kjördæmi, með sem næst þeirri tölu sem fundin er skv. 4. gr., kýs einn þingmann með einfaldri meirihlutakosning. 21 þingmaður skal kjörinn með hlutfallskosningum af landslistum stjórnmálasamtaka. Við úthlutun þingsæta af landslistum skal tekið tillit til atkvæðahlutfalls bak við þingmenn kjörna í kjördæmum, sbr. 112. gr.


IV. KAFLI


Kjörstjórnir og kjörstjórar utan kjörfunda.


8. gr.


     Alþingi kýs eftir hverjar almennar alþingiskosningar fimm manna landskjörstjórn hlutbundnum kosningum og jafnmarga til vara. Landskjörstjórn velur sér sjálf oddvita og skiptir að öðru leyti með sér verkum.

9. gr.


     Í hverju kjördæmi er yfirkjörstjórn. Skal hún skipuð fimm mönnum og jafnmörgum til vara og eru þeir kosnir af Alþingi á sama hátt og landskjörstjórn. Kýs hún sér sjálf formann. Yfirkjörstjórnarmenn skulu allir vera búsettir í hlutaðeigandi kjördæmi. Nú forfallast landskjörstjórnar- eða yfirkjörstjórnarmaður, eða yfirkjörstjórnarmaður flyst búferlum úr kjördæmi og varamaður er ekki tiltækur, og skipar ráðherra menn í þeirra stað eftir tillögu þess flokks sem kaus þá á Alþingi. Yfirkjörstjórn skal með nægum fyrirvara á undan kosningum auglýsa aðsetur sitt, þar sem hún veitir viðtöku framboðslistum þar sem hún dvelst, meðan kosning fer fram, og skal aðsetur hennar vera eins miðsvæðis í kjördæminu og kostur er, enda liggi það vel við samgöngum.

VI. KAFLI


Framboð.


26. gr.


    Þegar kosningar til Alþingis fara fram skulu öll framboð tilkynnt skriflega yfirkjörstjórn þeirri, sem í hlut á, landslistar til landskjörstjórnar eigi síðar en átta vikum fyrir kjördag.
     Gæta skal þess um öll framboð að tilgreina skýrlega fullt nafn frambjóðanda, stöðu, heimili og kennitölu til þess að enginn vafi geti leikið á því hverjir í kjöri eru.

27. gr.


     Framboðslista í kjördæmi skal fylgja skrifleg yfirlýsing þeirra sem á listanum eru að þeir hafi leyft að setja nöfn sín á listann, svo og skrifleg yfirlýsing um stuðning við listann frá eigi færri en 50 og eigi fleiri en 100 kjósendum í kjördæminu.
     Landslista skal fylgja skrifleg yfirlýsing þeirra sem á listanum eru að þeir hafi leyft að setja nöfn sín á listann, svo og skrifleg yfirlýsing um stuðning við listann frá eigi færri en 200 og eigi fleiri en 400 kjósendum.
     Framboðslista í kjördæmi, svo og landslista, skal fylgja skrifleg yfirlýsing meðmælenda hans um það fyrir hvaða stjórnmálasamtök listinn er boðinn fram. Allir listar hverra stjórnmálasamtaka um sig teljast til landsframboða. Ef fyrrgreinda yfirlýsingu vantar telst listi sérstakt landsframboð.
     Ef sá sem ákveður framboðslista eða staðfestir hann endanlega samkvæmt reglum stjórnmálasamtaka ber fram mótmæli gegn því að listi sé í framboði fyrir þau samtök skal úrskurða að slíkur framboðslisti teljist ekki til landsframboðs þess.

28. gr.


     Við alþingiskosningar má enginn bjóða sig fram á fleiri framboðslistum en einum.

29. gr.


     Nú berst yfirkjörstjórn eða landskjörstjórn listi, er nafn manns stendur á, án þess að skriflegt leyfi hans fylgi, eða maður hefur skriflega leyft nafn sitt á fleiri listum en einum, og skal þá kjörstjórn nema það nafn af listanum eða listunum. Eigi má nafn manns standa bæði á kjördæmislista og landslista.

30. gr.


     Heimilt er á framboðslistum í kjördæmum að hafa allt að þrjú nöfn frambjóðenda, þ.e. aðalmanns er skipar 1. sæti listans og tveggja varamanna, en aldrei fleiri.
     Á landslista skulu vera eingöngu nöfn þeirra frambjóðenda er kjósa á, eða 21 nafn, og aldrei fleiri. Nú berst landskjörstjórn listi með fleiri nöfnum en tilskilið er og skal þá nema burt af listanum öftustu nöfnin sem eru fram yfir 21.

VII. KAFLI


Umboðsmenn.


33. gr.


    Framboðslista í hverju kjördæmi skal fylgja til yfirkjörstjórnar skrifleg tilkynning frá frambjóðendum listans um það hverjir tveir menn séu umboðsmenn listans. Ef umboðsmenn lista eru ekki tilgreindir eða nauðsynjar hamla umboðsmanni eru frambjóðendur réttir umboðsmenn hans. Þessir umboðsmenn gæta réttar lista þeirra, sem þeir eru fyrir, við skoðun og úrskurðun listanna. Þeir gefa þær upplýsingar um listana er yfirkjörstjórn óskar. Þeim er heimilt að vera viðstaddir kosningar á hinum einstöku kjörstöðum sem og flokkun og talningu atkvæða. Skyldir eru umboðsmenn að hlíta þeim fundarreglum sem kjörstjórnir setja.
     Á sama hátt skal hverjum landslista fylgja til landskjörstjórnar skrifleg tilkynning frá frambjóðendum um tvo umboðsmenn landslista.
     Réttindi og skyldur þeirra umboðsmanna gagnvart landskjörstjórn eru hinar sömu og umboðsmanna framboðslista í kjördæmum gagnvart yfirkjörstjórnum. Frambjóðendur í efstu sætum á landslista eru réttir umboðsmenn listans ef umboðsmenn eru ekki tilgreindir, eða ef nauðsynjar hamla umboðsmanni.

40. gr.


     Dómsmálaráðuneytið skal halda skrá um listabókstafi stjórnmálasamtaka sem buðu fram lista við síðustu almennar alþingiskosningar.
     Hyggist stjórnmálasamtök, sem ekki hafa skráðan listabókstaf, bjóða fram lista við alþingiskosningar skal það tilkynnt dómsmálaráðuneytinu eigi síðar er tíu vikum fyrir kjördag. Tilkynningin skal undirrituð af a.m.k. 50 kjósendum. Ákveður ráðuneytið bókstaf samtakanna, að fengnum óskum þeirra og með hliðsjón af listabókstöfum annarra stjórnmálasamtaka í undangengnum kosningum. Skal nýjum listabókstaf eða bókstöfum bætt inn á skrá dómsmálaráðuneytisins.
     Hin endanlega skrá skal birt með auglýsingu eigi síðar en átta vikum fyrir hverjar almennar alþingiskosningar. Nú eru fyrirskipaðar kosningar með svo stuttum fyrirvara að þetta verður ekki gert, og skal þá dómsmálaráðuneytið auglýsa eftir væntanlegum framboðum innan þriggja sólarhringa eftir að kosningar eru fyrirskipaðar, og auglýsa hina endanlegu skrá eigi síðar en tíu sólarhringum eftir að kosningar eru fyrirskipaðar.

41. gr.


     Er yfirkjörstjórn í hverju kjördæmi hefur lagt úrskurð á framboðslista merkir hún lista framboðs með hliðsjón af auglýsingu dómsmálaráðuneytisins um listabókstafi, sbr. 40. gr.
     Nú hefur framboð fleiri lista en einn í sama kjördæmi og skal þá merkja þá A, AA ..., B, BB ..., o.s.frv., eftir því sem við á.

45. gr.


     Kjörgögn til atkvæðagreiðslu utan kjörfunda skulu vera þannig gerð:
    Kjörseðill, fylgibréf og stofn skulu vera samföst á einu kjörblaði, en aðgreind með riflínum. Kjörblöð skulu vera úr haldgóðum pappír, með mismunandi lit við hverjar kosningar, og svo þykkum, að skrift verði ekki greind í gegnum hann, þó að borið sé upp við birtu. Stofn og fylgibréf sama kjörblaðs skulu auðkennd sömu tölu, og öll kjörblöð, sem notuð eru við hverjar almennar kosningar um land allt, tölusett áframhaldandi tölum. Hver 10 kjörblöð skulu vera heft saman. Kjörseðillinn skal vera alveg auður, brotinn í miðju og jaðrar hans límbornir, svo að honum megi loka eins og spjaldbréfi. Jaðrarnir skulu aðgreindir frá sjálfum seðlinum með riflínum svo að auðvelt sé að rífa þá frá og opna seðilinn. Á fylgibréfinu skulu vera vottorð kjósenda og kjörstjórna. Kjörblað skal vera svipað þessu:





REPRO












og get ekki sótt kjörfund á kjörstað mínum, legg það undir drengskap minn og mannorð, að ég þvingunarlaust, aðstoðarlaust, í einrúmi og án þess að nokkur maður hafi séð, hef útfyllt viðfestan kjörseðil og límt hann aftur. Á sama hátt lýsi ég því yfir, að ég hef engan annan kjörseðil frá mér sent og hef ekki kosið annars staðar.












REPRO


hafi undirskifað fylgibréfið, sem er rétt dagsett, og að þar umgetinn kjörseðill sé útfylltur aðstoðarlaust og í einrúmi, vottar undirritaður.


Repro






















    Umslögin skulu gerð úr þykkum, mislitum pappír, hæfilega stór utan um fylgibréfið og kjörseðilinn, eftir að kjörseðlinum hefur verið lokað og fylgibréfið með honum áföstum einbrotið saman. Þau skulu tölusett sömu tölum og kjörblöðin, og hverju 10 blaða hefti fylgja 10 umslög með sömu tölum.

53. gr.


    Kjörseðla sem notaðir verða á kjörfundi í hverju kjördæmi skal fullgera á þennan hátt:
     Efst á kjörseðilinn skal prenta með skýru letri: Kjörseðill í ................. (nafn kjördæmis) kjördæmi. Þar fyrir neðan skal prenta listana í kjördæminu á eyðublaðið, hvern við annars hlið, í röð eftir bókstöfum þeirra. Bókstafur hvers lista skal vera stór og greinilegur og standa yfir miðjum listanum, og neðan undir listabókstaf skal prenta með skýru letri: Listi .......... (nafn stjórnmálasamtaka), og þar fyrir neðan skulu vera nöfn frambjóðenda listans í réttri röð, ásamt stöðu og heimili, ef nauðsyn þykir til auðkenningar. Fyrir neðan kjördæmislista, með u.þ.b. 10 mm millibili, skal á sama hátt prenta með skýru letri: Kjörseðill landslista. Þar fyrir neðan skal prenta landslista, hvern við annars hlið, í röð eftir bókstöfum þeirra. Tilgreindur skal vera listabókstafur landsframboðs, stór og greinilegur, og standi hann yfir miðjum listanum. Neðan undir listabókstaf skal prenta með skýru letri: Landslisti ........... (nafn stjórnmálasamtaka), og þar fyrir neðan skulu vera nöfn frambjóðenda landslistans í réttri röð, ásamt stöðu og heimili, ef nauðsyn þykir til auðkenningar. Listarnir skulu aðgreindir með feitum langstrikum og skal að minnsta kosta 5 mm breitt bil vera fyrir framan nöfnin á hverjum lista.



































XI. KAFLI


Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar.


63. gr.


     Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar er því aðeins gild að notuð séu hin fyrirskipuðu kjörblöð og umslög og að kosning fari fram:
    í skrifstofu sýslumanns eða bæjarfógeta, borgarfógeta í Reykjavík eða lögreglustjóra utan Reykjavíkur,
    í skrifstofu eða á heimili hreppstjóra,
    um borð í íslensku skipi, þar sem skipstjóri hefur fengið afhent kjörgögn samkvæmt 48. gr., enda sé þá kjósandinn skrásettur á skipinu,
    í skrifstofu sendiráðs, fastanefndar eða sendiræðisskrifstofu, svo og í skrifstofu kjörræðismanns, sem er kjörstjóri skv. 13. gr.
     Kjörstjóra samkvæmt a - og b - liðum fyrri málsgreinar 13. gr. er enn fremur heimilt að láta kosningu fara fram á sjúkrahúsi, dvalarheimili aldraðra, fangelsum, endurhæfingar- og meðferðarheimilum og öðrum skyldum stofnunum, enda sé kjósandi sjúklingur eða vistmaður á stofnuninni.
     Kjörstjóri samkvæmt a - og b - liðum fyrri málsgreinar 13. gr. auglýsir á þann hátt á hverjum stað sem venja er þar að birta opinberar auglýsingar hvenær atkvæðagreiðsla getur farið fram. Atkvæðagreiðsla í sjúkrahúsum og dvalarheimilum aldraðra skal fara fram á þeim tíma sem kjörstjóri ákveður, að höfðu samráði við stjórn stofnunar og samkvæmt nánari reglum sem dómsmálaráðuneytið setur. Slík atkvæðagreiðsla má þó ekki fara fram fyrr en þremur vikum fyrir kjördag og skal tilkynna umboðsmönnum lista, sbr. 33. gr., um hana fyrir fram. Utanríkisráðuneytið auglýsir hvenær atkvæðagreiðsla getur farið fram hjá kjörræðismönnum sem eru kjörstjórar skv. 13. gr.

XII. KAFLI


Atkvæðagreiðsla á kjörfundi.


75. gr.


     Kjörstjórnin skal sitja við borð í kjörfundarstofu. Auk umboðsmanna lista, sbr. 33. gr., má enginn vera inni í kjörfundarstofunni, nema þeir kjósendur, einn á hvern kjörklefa, sem eru að greiða atkvæði.
     Athöfnin byrjar með því að oddviti kjörstjórnar leggur fram seðlaböggul þann, sem hann hefur fengið frá yfirkjörstjórn, og skulu allir, sem við eru, gæta þess vel, hvort innsiglin eru heil eða böggullinn ber þess merki að hann hafi verið opnaður. Skal þess getið í kjörbókinni, og riti kjörstjórn og umboðsmenn, ef þeir eru viðstaddir, undir. Því næst opnar oddviti böggulinn og telur seðlana, en meðkjörstjórar og umboðsmenn, ef þeir eru viðstaddir, telja líka. Skal þess gætt hvort tala seðlanna kemur heim við tölu þá sem tilgreind er í bréfi því sem yfirkjörstjórn skal láta fylgja hverjum seðlaböggli. Þess skal getið í kjörbókinni, og riti kjörstjórn og umboðsmenn, ef þeir eru viðstaddir, þar undir.

81. gr.


     Er kjósandi kemur inn í kjörfundarstofuna gengur hann fyrir oddvita, sem fær honum einn kjörseðil, ef hann á rétt á að greiða atkvæði samkvæmt kjörskránni.
     Áður en kjósandi fær afhentan kjörseðil skal hann sanna hver hann er með því að framvísa persónuskilríkjum eða á annan fullnægjandi hátt.

90. gr.


     Áður en fyrsti kjósandi lætur seðil í kassann skal kjörstjórnin og umboðsmenn, ef þeir eru viðstaddir, gæta þess að kassinn sé tómur og síðan læsa honum.

93. gr.


     Atkvæðagreiðslu má ekki slíta fyrr en átta klukkustundir eru liðnar frá því að kjörfundur hófst, og ekki fyrr en hálf klukkustund er liðin frá því að kjósandi gaf sig fram síðast. Atkvæðagreiðslu má þó slíta er allir, sem á kjörskrá standa, hafa greitt atkvæði.
     Kjörfundi skal slíta eigi síðar en kl. 23 á kjördag. Þeir kjósendur, sem hafa gefið sig fram fyrir þann tíma, eiga þó rétt á því að greiða atkvæði.

95. gr.


     Að atkvæðagreiðslunni lokinni opnar oddviti umslög þeirra bréfa sem kjörstjórninni hafa borist með utankjörfundaratkvæðaseðlum og ekki hafa verið aftur heimt.
     Kjörstjórn og umboðsmenn lista, ef þeir eru viðstaddir, bera saman tölusetningu þeirra og umslaganna og rannsaka hvort sá sem bréfið er frá stendur á kjörskrá og ef svo er, hvort hann hefur greitt atkvæði á kjörfundi. Ef svo reynist að sá sem bréfið er frá standi á kjörskrá og eigi rétt á að greiða atkvæði og hafi ekki greitt atkvæði á kjörfundi setja meðkjörstjórar merki við nafn kjósandans á eftirritin af kjörskránni.
     Komi fram umslag með ónýttum seðli, sbr. 69. gr., skal kjörstjórn athuga fylgibréf og leggja það ásamt kjörseðlinum í umslag undir ónýtta seðla er hún sendir yfirkjörstjórn.

XIII. KAFLI


Kosningaúrslit í kjördæmum.


105. gr.


     Atkvæði skal meta ógilt: Ef ekki verður séð við hvern lista er merkt, eða ef ekki verður séð með vissu hvort það sem stendur á utankjörfundarseðli getur átt við nokkurn af listum sem í kjöri eru.
    Ef merkt er við fleiri listabókstafi en einn á kjördæmishluta seðils, eða tölumerkt, eða útstrikuð nöfn á fleiri listum en einum á kjördæmishluta seðils, eða skrifaður fleiri en einn listabókstafur á kjördæmishluta utankjörfundarseðils.
    Ef merkt er við fleiri listabókstafi en einn á landslistahluta seðils, eða tölumerkt, eða útstrikuð nöfn á fleiri listum en einum á landslistahluta seðils, eða skrifaður fleiri en einn listabókstafur á landslistahluta utankjörfundarseðils.
    Ef áletrun á kjörseðli fram yfir það sem fyrir er mælt, eða annarleg merki, sem ætla má að sett séu af ásettu ráði til að gera seðilinn auðkennanlegan, eða ef eitthvað er innan í utankjörfundarseðli sem ætla má að hafi verið sett þar í því skyni.
    Ef kjörseðill er annar en kjörstjórn eða kjörstjóri hefur löglega afhent.
    Auð atkvæði skal ekki flokka með ógildum atkvæðum, heldur skulu þau talin sér.

106. gr.


     Atkvæði skal ekki meta ógilt þó að gallað sé, ef greinilegt er, á hvorum hluta seðils fyrir sig, hvernig það á að falla, nema augljóslega komi í bága við framangreind ákvæði. Þannig skal taka gilt atkvæði þó að ekki sé merkt framan við listabókstafinn, en t.d. aftan við hann, þó að kross sé ólögulegur, þó að á utankjörfundarseðli orðið listi fylgi listabókstaf að óþörfu, þó að í stað listabókstafs standi heiti stjórnmálasamtaka, o.s.frv.
     Lista í kjördæmi telst atkvæði þó að láðst hafi að merkja við listabókstaf, ef nafn eða nöfn á honum eru tölusett, eða útstrikuð, eða krossað við nafn, enda séu ekki aðrir gallar á, og sé ekki annað skráð á seðilinn telst það atkvæði einnig til landslista sömu stjórnmálasamtaka, sbr. 3. gr.
     Landslista telst atkvæði þó að láðst hafi að merkja við listabókstaf, ef nafn eða nöfn á honum eru tölusett, eða útstrikuð, eða krossað við nafn, enda séu ekki aðrir gallar á, en sé ekki annað skráð á seðilinn telst það atkvæði ekki til kjördæmislista sömu stjórnmálasamtaka, sbr. 3. gr.

109. gr.


     Í kjördæmi skal telja öll atkvæði sem hver listi hefur hlotið, bæði á kjördæmislista og landslista, og eru þá fundnar atkvæðatölur hvers lista í því kjördæmi, sbr. 3. gr. Enn fremur skal yfirkjörstjórn telja atkvæði hvers frambjóðanda í hvert sæti kjördæmislista og landslista, sbr. 4. og 5. mgr. 113. gr.
     Yfirkjörstjórn skal tafarlaust senda landskjörstjórn skýrslu um atkvæðatölur. Skal þar tilgreina hvernig atkvæði hafa fallið á hvern lista fyrir sig, bæði í kjördæmi og á landslista, svo og atkvæðatölur hvers frambjóðanda. Enn fremur tölu kjósenda á kjörskrá. Landskjörstjórn lætur yfirkjörstjórnum í té eyðublöð undir þessar skýrslur.
     Sé atkvæðasending frá einhverri kjördeild ekki komin til yfirkjörstjórnar á þeim tíma sem nefndur er í 102. gr. skal yfirkjörstjórn eigi að síður opna atkvæðakassa og önnur kjörgögn á þeim tíma sem auglýstur hafði verið. Yfirkjörstjórn sendir þó ekki skýrslur sínar um atkvæðatölur til landskjörstjórnar skv. 2. mgr. fyrr en talin hafa verið atkvæði úr sendingunni sem vantaði. En auglýsa skal umboðsmönnum lista, eftir því sem auðið er, hvenær sendingin verður opnuð til þess að þeir eigi kost á að vera viðstaddir.

XIV. KAFLI


Úthlutun þingsæta.


110. gr.


     Þegar landskjörstjórn hafa borist allar skýrslur um kosningaúrslit í kjördæmum eftir almennar alþingiskosningar, sbr. 109. gr., skal hún koma saman til að úthluta þingsætum. Landskjörstjórn auglýsir með hæfilegum fyrirvara hvar og hvenær hún kemur saman í þessu skyni svo að umboðsmönnum gefist kostur á að vera viðstaddir, sbr. 34. gr.

111. gr.


     Þingsæti hvers kjördæmis hlýtur sá listi, eða frambjóðandi, sem hlotið hefur flest atkvæði.
     Ef atkvæðatölur tveggja eða fleiri lista eru jafnháar skal hluta til um hver hlýtur þingsætið.

112. gr.


     Þingsætum landslista skal úthlutað, sbr. 5. gr., sem hér segir:
    Deila skal í tölu gildra atkvæða, sem greidd eru landslistum, með tölu þingsæta, 43, og sú tala sem þá er fengin lögð til grundvallar við úthlutun þingsæta af landslistum, þannig að hver listi fái þingsæti í sem réttustu hlutfalli við heildaratkvæðamagn sitt samkvæmt landslistum, að meðtöldum þingsætum úr kjördæmum.
    Listar sem hafa heildaratkvæði landslista, sem er lægri en tala skv. 1. tölul., koma ekki til álita við úthlutun þingsæta samkvæmt landslistum.
    Deila skal tölu kjördæmakjörinna þingsæta hvers landslista í atkvæði þau er listinn hefur hlotið á landsvísu, ef sú tala sem þá fæst er lægri en tala skv. 1. tölul., kemur listinn ekki til álita við úthlutun sæta samkvæmt landslistum.
    Deila skal tölu sem fékkst skv. tölul. 1, í tölu þeirra atkvæða,sem hver landslisti hefur fengið, og fæst með því tala þeirra þingmanna sem listinn á rétt á. Síðan skal draga tölu kjördæmakjörinna þingmanna frá þessari tölu, og fæst þá tala þingmanna kjörinna af landslista hverra stjórnmálasamtaka.
    Deila skal í atkvæðatölur þeirra landslista, sem rétt eiga á þingsætum, skv. 1. til 4. tölul. með tölunum 1, 2, 3, 4, o.s.frv. upp að 21. Útkomutölur eru skráðar fyrir hvern lista.
    Fyrsta þingsæti fær sá landslisti sem hæsta útkomutölu hefur, og á rétt á þingsæti af landslista. Sú tala er síðan felld niður. Annað þingsæti hlýtur sá landslisti, sem nú hefur hæsta útkomutölu, og á rétt á þingsæti af landslista. Þessu skal haldið áfram uns úthlutað hefur verið 21 þingsæti.
    Nú eru tvær eða fleiri útkomutölur jafnháar þegar að þeim kemur skv. 6. tölul. og skal þá hluta til um röð þeirra.
    Nú eru of fá nöfn á lista þegar til úthlutunar kemur skv. 6. tölul. og skal þá ganga fram hjá þeim lista við frekari úthlutun.
    Ekki er nauðsynlegt að listi fái kjördæmakjörinn þingmann til að koma til álita við úthlutun þingsæta af landslista.

113. gr.


     Til þess að finna hvaða frambjóðandi hefur náð kosningu á hverjum lista í kjördæmi og á landslista skal reikna frambjóðendum atkvæðatölu á þennan hátt:
     Yfirkjörstjórn tekur saman þá kjörseðla þar sem engin breyting hefur verið gerð á listum, kjördæmislista eða landslista. Þar teljast efstu nöfn listanna vera í fyrsta sæti, næsta nafn í öðru sæti, o.s.frv.
     Næst tekur yfirkjörstjórn alla þá seðla þar sem kjósendur hafa gert einhverjar breytingar á röð frambjóðenda á kjördæmislista og telur atkvæði hvers frambjóðanda í hvert sæti listans.
     Þá tekur yfirkjörstjórn alla þá seðla þar sem kjósendur hafa gert einhverjar breytingar á röð frambjóðenda á landslista og telur atkvæði hvers frambjóðanda í hvert sæti listans.
     Landskjörstjórn skal raða nöfnum frambjóðenda á hverjum kjördæmislista þannig að sá, sem hlotið hefur flest atkvæði í 1. sæti, skv. 3. mgr. hér á undan, hlýtur það sæti. Sá frambjóðandi, að þessum slepptum, sem hlotið hefur flest atkvæði í 1. og 2. sæti samanlagt, hlýtur 2. sætið, o.s.frv. Framboðslisti í kjördæmi, sem hlotið hefur þingsæti þess, skv. 111. gr., á rétt á varaþingmanni, sem skal vera sá er hlotið hefur 2. sætið, samkvæmt þessari málsgrein.
     Landskjörstjórn skal raða nöfnum frambjóðenda á hverjum landslista þannig að sá sem hlotið hefur flest atkvæði í 1. sæti skv. 3. mgr. hér á undan hlýtur það sæti. Sá frambjóðandi, að þessum slepptum, sem hlotið hefur flest atkvæði í 1. og 2. sæti samanlagt, hlýtur 2. sætið, o.s.frv. Landslisti, sem hlotið hefur þingmann, eða þingmenn kjörna, hefur að jafnaði rétt til jafnmargra varaþingmanna meðan nöfn endast á listanum.