Ferill 219. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 219 . mál.


Nd.

281. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 73 28. maí 1969, um Stjórnarráð Íslands, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi 1990.)



1. gr.


     6. gr. laganna falli niður.

2. gr.


     2. og 3. mgr. 10. gr. falli niður.

3. gr.


     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í þessu frumvarpi er lagt til að fjármálaráðuneytið og Fjárlaga - og hagsýslustofnun verði sameinuð. Samkvæmt núgildandi lögum um Stjórnarráð Íslands er Fjárlaga - og hagsýslustofnun sjálfstæð stjórnardeild innan fjármálaráðuneytisins sem lýtur stjórn hagsýslustjóra. Miklar breytingar hafa orðið frá því að gildandi stjórnarráðslög voru samþykkt. Þrískipting fjármálaráðuneytisins undir stjórn þriggja jafnsettra manna, þ.e. ráðuneytisstjóra, hagsýslustjóra og ríkisendurskoðanda var breytt eins og kunnugt er með lögum nr. 12/1986, um ríkisendurskoðun; þar sem ákveðið var að starfsemi Ríkisendurskoðunar færðist frá fjármálaráðuneytinu til Alþingis.
    Samkvæmt 5. mgr. 10. gr. laga nr. 73/1969, um Stjórnarráð Íslands, er forsætisráðherra heimilt að kveða á um að ráðuneytisstjóri veiti fleiri en einu ráðuneyti forstöðu og að fleiri en eitt ráðuneyti hafi eftir því sem við verður komið sameiginlegt starfslið og húsnæði. Með bréfi, dags. 1. febrúar 1990, heimilaði forsætisráðherra að hagsýslustjóra yrði jafnframt embætti sínu falið að gegna starfi ráðuneytisstjóra í hinu almenna fjármálaráðuneyti og að vinna að sameiningu fjármálaráðuneytisins og Fjárlaga - og hagsýslustofnunar. Ástæða þessarar sameiningar eru breyttar aðstæður og sú skoðun að með henni náist fram hagræðing í rekstri ráðuneytisins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um l. gr.


    Samkvæmt þessari grein er lagt til að sérákvæði um Fjárlaga - og hagsýslustofnun og Ríkisendurskoðun verði felld niður. Eins og kunnugt er var með lögum nr. 12/1986, um ríkisendurskoðun, gerð áþekk breyting er tók til stöðu þeirrar stofnunar.

Um 2. gr.


     Samkvæmt þessari grein er lagt til að ákvæði, sem fjalla um ríkisendurskoðanda og hagsýslustjóra, verði felld niður.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.