Ferill 248. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


113. löggjafarþing 1990–1991.
Nr. 6/113.

Þskj. 394  — 248. mál.


Þingsályktun

um stuðning við sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna.


    Alþingi ályktar að ítreka stuðning sinn við sjálfstæðisbaráttu Litáens og minnir á að íslensk stjórnvöld hafa viðurkennt sjálfstæði Eistlands, Lettlands og Litáens óslitið frá 1922 eins og Alþingi og ríkisstjórn Íslands hafa staðfest.
    Alþingi áréttar ályktun frá 13. mars 1990 þar sem lýst var yfir því að sjálfsákvörðunarréttur þjóða með lýðræðislega kjörin þing væri grundvöllur frjálsra samskipta þjóða í milli og stuðlaði að heimsfriði.
    Alþingi leggur áherslu á að afar mikilvægt er að jákvæð niðurstaða fáist í sérstökum viðræðum Eystrasaltsríkjanna við stjórn Sovétríkjanna eins og fram kom í ræðu forsætisráðherra á leiðtogafundinum í París 19.–20. nóvember 1990. Alþingi telur að á meðan Eystrasaltsríkin hafa ekki fengið fulla viðurkenningu á sjálfstæði sínu vanti enn mikið á að settar hafi verið niður deilur í Evrópu.
    Alþingi leggur áherslu á rétt Eystrasaltsríkjanna til sjálfsákvörðunar og lýsir yfir stuðningi við allar friðsamlegar aðgerðir til að leysa ágreining þeirra og Sovétríkjanna. Alþingi lýsir yfir stuðningi við boð íslenskra stjórnvalda um Reykjavík sem fundarstað til viðræðna milli aðila og beinir því til ríkisstjórnarinnar að hún beiti sér fyrir því á alþjóðavettvangi að finna farsæla lausn á sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna.

Samþykkt á Alþingi 19. desember 1990.