Ferill 233. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 233 . mál.


Nd.

450. Nefndarálit



um frv. til l. um tryggingagjald.

Frá 1. minni hl. fjárhags- og viðskiptanefndar.



    Frumvarp þetta kom fram allt of seint. Ágreiningur varð milli stjórnarflokkanna um nokkur ákvæði frumvarpsins eftir að það kom til afgreiðslu á Alþingi. Vegna tímaskorts fékk frumvarpið óverulega skoðun í nefndinni.
    Eftir breytingar, sem meiri hl. vill gera á frumvarpinu, verður greinargerðin í ósamræmi við ákvæði frumvarpsins. Samkvæmt greinargerðinni er markmiðið að jafna gjaldið í áföngum. Með breytingartillögunni er horfið frá því.
    Frumvarpið er einn þáttur skattkerfisbreytinga sem nefnd á vegum fjármálaráðuneytis vinnur að til „að jafna samkeppnisstöðu innlendra útflutnings - og samkeppnisgreina gagnvart erlendum keppinautum“. Önnur frumvörp hafa ekki verið lögð fram, en ríkisstjórnin hefur boðað að lagt verði fram frumvarp til laga um tekjuskatt og eignarskatt strax eftir áramót. Meginsjónarmið í því frumvarpi er „að minnkandi verðbólga leiði ekki til hækkunar á raungildi eftirágreiddra tekjuskatta og eignarskatta fyrirtækja“ eins og sagt er í meðfylgjandi umsögn Vinnuveitendasambands Íslands. Bæði þarf að lækka álagningarhlutfall og heimila aðra viðmiðun verðbólguleiðréttingar en þeirrar sem skattauppgjör miðast nú við.
    Eina breytingin, sem verður við samþykkt þessa frumvarps, er að ýmsir sem njóta ekki réttinda úr Atvinnuleysistryggingasjóði verða að greiða til sjóðsins. Nauðsynlegt er að tryggja réttindi þeirra með lögum þannig að skyldur og réttindi fara saman. Í því sambandi má benda á frumvarp Geirs H. Haarde á þskj. 329 en það gæti leyst úr því máli.
    Fyrsti minni hl. nefndarinnar telur ótækt að ekki skuli liggja fyrir þau frumvörp sem nauðsynlegt er að fylgi þessari kerfisbreytingu. Samþykkt þeirra frumvarpa er grundvöllur stuðnings stórra samtaka í atvinnulífinu við þetta frumvarpið.
    Því miður virðist undirbúningur við gerð frumvarpsins ekki nægilega traustur eins og m.a. sést á 19. gr. sem er skólabókardæmi um það hvernig lagaákvæði á ekki að vera.
    Fyrsti minni hl. nefndarinnar flytur breytingartillögu á þskj. 447. Sú breytingartillaga er í samræmi við upphaflegar tillögur þeirrar nefndar sem samdi frumvarpið. Þar er hugmyndin sú að nota tekjurnar, sem fást við breikkun skattstofnsins, til að lækka gjaldið á þeim sem hæst launaskattshlutfall hafa greitt hingað til.

Alþingi, 20. des. 1990.



Friðrik Sophusson,


frsm.

Matthías Bjarnason.



Fylgiskjal.



Landssamband iðnaðarmanna:


Umsögn um frumvarp til laga um tryggingagjald.


Bréf til fjárhags - og viðskiptanefndar neðri deildar Alþingis.


(19. desember 1990.)



    Að beiðni yðar hefur Landssamband iðnaðarmanna yfirfarið frumvarp til laga um tryggingagjald og gert um það hjálagða ályktun.
    Ályktunin nær raunar einnig til frumvarps til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt og frumvarps til laga um breytingu á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, enda nauðsynlegt að skoða í samhengi heildaráhrif þessara frumvarpa á skattlagningu atvinnurekstrarins.
    Eins og sjá má leggur Landssamband iðnaðarmanna til að frumvarpi um tryggingagjald verði vísað frá og annarra leiða leitað til þess að samræma launatengda skatta fyrirtækja.
    Varðandi frumvarp um tekjuskatt og eignarskatt teldi Landssamband iðnaðarmanna mjög æskilegt, í ljósi samanburðar við skatthlutfall fyrirtækja í helstu samkeppnislöndum, að tekjuskattshlutfall félaga verði lækkað úr 50% í 40%. Með tilliti til fyrirsjáanlegs halla á fjárlögum næsta árs leggur Landssamband iðnaðarmanna þó til að tekjuskattshlutfall félaga verði lækkað úr 50% í 44%. Að mati Landssambands iðnaðarmanna fæli þessi breyting í sér, miðað við forsendur þjóðhagsáætlunar og fjárlagafrumvarps um verðlagsbreytingar á næsta ári, að skattbyrði fyrirtækja (virkt skatthlutfall) yrði óbreytt frá því sem var á þessu ári og því í samræmi við fyrirheit sem stjórnvöld hafa gefið atvinnulífinu varðandi skattlagningu þess.

Virðingarfyllst,


Landssamband iðnaðarmanna,


Þórleifur Jónsson framkvæmdastjóri.





Landssamband iðnaðarmanna:


Ályktun um fyrirhugaðar skattahækkanir.


(19. desember 1990.)



    Stjórn Landssambands iðnaðarmanna mótmælir harðlega áformum um stórfellda skattahækkun sem fram koma í frumvörpum ríkisstjórnarinnar er lögð hafa verið fram á Alþingi, um tryggingagjald og um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt.

Um tryggingagjald.
    Samkvæmt frumvarpi um tryggingagjald er ráðgert að leggja á einn skatt, tryggingagjald, í stað núgildandi launaskatts og ýmissa smærri launatengdra skatta. Jafnframt er gert ráð fyrir að tryggingagjald verði lagt á allar atvinnugreinar, en landbúnaður, sjávarútvegur og iðnaður greiða nú ekki launaskatt. Enn fremur er ætlunin að tryggingagjald verði innheimt með staðgreiðslu skatta, en sumir þeirra skatta, sem því er ætlað að koma í stað, eru nú eftirágreiddir. Loks felur frumvarpið í sér að gjaldstofn hins nýja skatts er mun breiðari en þeirra skatta sem hann leysir af hólmi.
    Samkvæmt frumvarpinu er ráð gert að tryggingagjald verði 4,25% af launum til frambúðar, eða frá og með árinu 1993. Þó er ekki ljóst hvort samstaða er í ríkisstjórninni um að stefna þannig að einu skatthlutfalli fyrir allar atvinnugreinar eða hvort niðurstaðan verði að leggja til tvö skatthlutföll um óákveðinn tíma, mishá eftir atvinnugreinum. Samkvæmt ákvæðum til bráðabirgða er þannig lagt til að á næsta ári verði gjaldhlutfallið 6% á þeim atvinnugreinum sem nú eru launaskattsskyldar, en 2,5% á þeim atvinnugreinum sem eru undanþegnar launaskatti.
    Markmið frumvarpsins er sagt það að samræma skattlagningu milli atvinnugreina innan lands og jafna samkeppnisstöðu útflutnings - og samkeppnisgreina gagnvart erlendum keppinautum.
    Landssamband iðnaðarmanna vill af þessu tilefni koma eftirfarandi á framfæri:
     Óviðunandi er að ætla Alþingi og samtökum atvinnulífsins aðeins fáeina daga eða jafnvel klukkustundir til þess að fjalla um svo margþætt mál sem frumvarpið er. Er því eðlilegast að afgreiðslu þess verði frestað eða því vísað frá.
     Augljóst er að frumvarp um tryggingagjald miðar hvorki að samræmingu milli atvinnugreina innan lands né jöfnun samkeppnisstöðu útflutnings - og samkeppnisgreina, eins og þó er sagt vera markmið þess, heldur eingöngu að aukinni skattheimtu.
     Þar sem ekki er samstaða um eitt skatthlutfall til frambúðar liggur í augum uppi að frumvarpið felur ekki í sér samræmingu milli atvinnugreina.
     Verði lögfest 4,25% tryggingagjald á útflutnings - og samkeppnisgreinar til frambúðar felur það í sér stóraukna skattbyrði á þessum atvinnugreinum. Þegar tillit er tekið til þess að tryggingagjald er staðgreiðsluskattur og skattstofn þess mun breiðari en núgildandi launaskattur felur 2,5% tryggingagjald einnig í sér aukna skattbyrði útflutnings - og samkeppnisgreina. Er því fráleitt að þessi nýi skattur stefni að jöfnun samkeppnisstöðu gagnvart erlendum keppinautum.
     Vandséð er hvernig t.d. útflutnings - og samkeppnisiðnaður eiga að rísa undir þessari auknu skattbyrði. Verði frumvarpið að lögum mun það óhjákvæmilega leiða til verðhækkana á ýmsum sviðum, m.a. á útseldri vinnu í ýmsum iðngreinum.
     Tekjuauki ríkissjóðs af breytingunni gróflega vanreiknaður. Í reynd felur frumvarpið í sér skattahækkun alls staðar í atvinnulífinu en aðeins mismikla eftir atvinnugreinum.
     Skattahækkun verður langmest hjá sjálfstæðum atvinnurekendum. Er það mjög óeðlilegt, m.a. í ljósi þess að réttur þeirra í almannatryggingakerfinu er rýrari en almennra launþega.
     Sérstök athygli er vakin á að laun eru mjög óheppilegur skattstofn hjá fyrirtækjum, m.a. þar sem hlutfall launa í veltu fyrirtækja er afar mishátt eftir atvinnugreinum. Þannig er launahlutfallið, samkvæmt upplýsingum Þjóðhagsstofnunar, allt frá 10 15% í verslun og ýmsum öðrum atvinnugreinum upp í 50 75% í ýmsum greinum iðnaðar og byggingariðnaðar, sbr. meðfylgjandi súlurit. Af þessu leiðir að skattbyrði atvinnugreina verður mjög mismikil, jafnvel eftir að eitt skatthlutfall væri komið á, eða allt frá um 0,35% af veltu upp í um 2,9% af veltu. Skattbyrði vinnuaflsfrekustu greina yrði með öðrum orðum áttföld skattbyrði þeirra atvinnugreina sem þessi skattur er hagstæðastur. Það er því augljóst að með því að festa í sessi og hækka skatta fyrirtækja á launastofn er alls ekki stefnt að jöfnun skatta milli atvinnugreina. Þessi skattur er óhagstæðastur þeirri atvinnustarfsemi sem veitir hlutfallslega mesta atvinnu.

Um tekjuskatt fyrirtækja.
    Samkvæmt frumvarpi um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt hefur ríkisstjórnin ákveðið að fara ekki að tillögum fyrirtækjaskattanefndar, sem starfar á vegum fjármálaráðherra, um að lækka tekjuskattshlutfall félaga úr 50% í 45%. Miðað við forsendur þjóðhagsáætlunar og fjárlagafrumvarps um verðlagsþróun á næsta ári þýðir óbreytt skatthlutfall, eins og í frumvarpinu felst, verulega aukningu á skattbyrði fyrirtækja. Landssamband iðnaðarmanna lýsir undrun sinni á þessari ákvörðun ríkisstjórnarinnar.
    Eins og fram kemur í áliti fyrirtækjaskattanefndar er skatthlutfall fyrirtækja talsvert hærra hér á landi en í helstu samkeppnislöndum. Auk þess er þar víða stefnt að lækkun. Í ljósi sífellt opnari viðskipta milli þjóða og aukinnar samkeppni erlendis frá við íslenskt atvinnulíf er því mjög brýnt að hér á landi verði þegar á næsta ári stigið skref til lækkunar og samræmingar við tekjuskatt fyrirtækja erlendis, þannig að skattlagning skerði ekki samkeppnisgetu íslenskra fyrirtækja. Væri því mjög æskilegt að skatthlutfall fyrirtækja lækkaði á næsta ári í 40%. Með tilliti til fyrirsjáanlegs halla ríkissjóðs á næsta ári leggur Landssamband iðnaðarmanna þó til að tekjuskattshlutfall fyrirtækja á næsta ári verði 44%. Í því fælist, miðað við fyrirliggjandi verðlagsspár, að skattbyrði fyrirtækja (virkt skatthlutfall) yrði óbreytt á næsta ári, og væri það í samræmi við fyrirheit sem stjórnvöld hafa gefið atvinnulífinu varðandi skattlagningu þess.
    Fjármálaráðherra hefur kynnt opinberlega tillögur um að afnema heimild fyrirtækja til þess að leggja 15% af hreinum hagnaði sínum í fjárfestingarsjóð. Þótt þessa tillögu sé ekki að finna í fyrirliggjandi frumvarpi vill Landssamband iðnaðarmanna eindregið vara við þessari hugmynd. Með afnámi þessa frádráttar væri beinlínis unnið gegn því að fyrirtæki geti byggt upp sterkari eiginfjárstöðu. Mundi það bitna verst á þeim fyrirtækjum sem ekki hafa náð að byggja upp nægjanlega styrkan fjárhag til þess að taka þátt í ört vaxandi hlutabréfamarkaði og njóta þar með óbeint þess skattalega hagræðis sem það getur falið í sér.


Repró í Gut.





Vinnuveitendasamband Íslands:


Umsögn VSÍ um frumvarp til laga um tryggingagjald.


Bréf til fjárhags - og viðskiptanefndar neðri deildar Alþingis.


(19. desember 1990.)



    Vinnuveitendasamband Íslands lítur á frumvarp um tryggingagjald sem annan af tveimur þáttum fyrsta áfanga endurskoðunar á reglum um skattlagningu fyrirtækja en ekki sjálfstætt og afmarkað mál.
    Frumvarpið miðar að því að á árinu 1991 verði innheimta fimm launatengdra gjalda sameinuð í eitt gjald sem greiðist samhliða staðgreiðslu tekjuskatta einstaklinga. Þá er iðgjaldsstofn samræmdur. Í því felst að iðgjaldið reiknast af sama stofni og staðgreiðsla tekjuskatts og greiðist á sama tíma. Í þessu felst nokkur breikkun á iðgjaldsstofni en á móti kemur mikil einföldun sem telja verður til kosta.
    Frumvarpið miðar að því að á árinu 1991 verði innheimt 2,5% tryggingagjald af þeim atvinnugreinum sem undanþegnar hafa verið 3,5% launaskatti en 6,0% iðgjald af öðrum greinum. Í heildina tekið er hér um óverulega breytingu að ræða á skattbyrði þótt aðeins sé það mismunandi eftir greinum. Þannig hefur útgerð ekki greitt vinnueftirlitsgjald sem er 0,1% af launum og atvinnuleysistryggingagjald er þar tiltölulega lægra hlutfall en í öðrum atvinnugreinum.
    Meginbreytingin er hins vegar sú að samkvæmt gildandi lögum hafa ýmsir launagreiðendur, einkum sjálfstætt starfandi aðilar, verið lausir undan greiðslum til almannatrygginga. Launagreiðslur þessara aðila hafa þannig ekki verið stofn fyrir lífeyristryggingagjald. Einstaklingsrekstur hefur því ekki borið sömu byrðar vegna almannatrygginga og rekstur félaga, en í því hefur að mati VSÍ falist óeðlilegt misræmi. Lagabreytingin miðar að því að allur atvinnurekstur sitji við sama borð í þessu efni.
    Þá verður einnig að vekja á því athygli að lagabreytingin miðar við að iðgjald til atvinnuleysistrygginga verði greitt af öllum launum. Vinnuveitendasambandið hefur vegna þessa bent á að þessari breytingu hljóti að fylgja breyting á lögum um atvinnuleysistryggingar. Nú er réttur til atvinnuleysisbóta bundinn aðild að stéttarfélagi, og iðgjald er einungis skylt að greiða vegna þeirra starfsmanna sem réttar geta notið. VSÍ telur það algera forsendu fyrir iðgjaldsgreiðslum af launum allra starfsmanna að tryggilega verði frá réttindum þeirra gengið þannig að samhengi iðgjaldsgreiðslna og réttinda haldist.
    Hið nýja tryggingagjald er svo sem áður er sagt aðeins annar þáttur fyrsta hluta endurskoðunar á reglum um skattgreiðslur fyrirtækja. Í athugasemdum með frumvarpi til laga um tekjuskatt og eignarskatt, sem dreift hefur verið, er boðað að í upphafi þinghalds eftir áramót verði lagðar fram tillögur sem miða að breytingum á skattlagningu fyrirtækja. Meginsjónarmiðið er að minnkandi verðbólga leiði ekki til hækkunar á raungildi eftirágreiddra tekju - og eignarskatta fyrirtækja. Til þess þarf bæði að lækka álagningarhlutfall og heimila aðra viðmiðun verðbólguleiðréttingar en þeirrar sem skattauppgjör er nú bundið við.
    Ljóst er að ofangreindar breytingar á launagjöldum á árinu 1991 horfa misjafnlega við einstökum atvinnugreinum, en VSÍ telur hins vegar eðlilegt að meta málið í samhengi við ofangreind fyrirheit um breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt fyrirtækja í upphafi næsta árs og mæla því ekki gegn þessum fyrsta áfanga álagningar samræmds launagjalds.
    Hvað síðari áfanga áformaðrar samræmingar varðar er ljóst að viðhorf einstakra aðildarfélaga VSÍ eru mismunandi. Stuðningur við þau áform hljóta að byggjast á enn víðtækari breytingum á skattlagningu opinberra aðila, ríkis og sveitarfélaga, á atvinnulífið. Frekari samræming skattkerfisins við það sem gerist í nálægum löndum er að mati VSÍ forsenda frekari samræmingar á launatengdum gjöldum en þeim áfanga sem gilda á árið 1991.
    Með hliðsjón af ofanskráðu og meðan ekki er séð hvernig fer um efndir fyrirheita um endurbætur í skattamálum fyrirtækja eru ekki efni til að binda fyrirvaralaust í lög þá miklu hækkun launaskatta útflutnings - og samkeppnisgreina sem frumvarpið stefnir að á árunum 1992 og 1993. Í ljósi þessa telur VSÍ mikilvægt að frekari breytingar á launagjöldum séu látnar bíða næstu áfanga í endurskoðun á skattamálum fyrirtækja.

Virðingarfyllst,


Þórarinn V. Þórarinsson .