Ferill 233. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 233 . mál.


Nd.

477. Nefndarálit



um frv. til l. um tryggingagjald.

Frá 2. minni hl. fjárhags- og viðskiptanefndar.



    Frumvarp þetta var, líkt og fleiri tekjuöflunarfrumvörp, lagt fram á síðustu starfsviku þingsins. Fjárhags- og viðskiptanefnd sýndi þá lipurð í samvinnu að taka málið fyrir áður en það var lagt fram í þinginu. Á þann fund mættu fulltrúar hinna ýmsu atvinnugreina sem málið varðar til viðtals og kom þá í ljós að þeir höfðu ekki haft nokkurn tíma til að kynna sér málið. Sitt sýndist hverjum og varð að samkomulagi að þeir mundu mæta aftur eftir að búið væri að mæla fyrir frumvarpinu.
    Þá tók ekki betra við því þá kom í ljós að ósamkomulag var milli stjórnarflokkanna um málið. Þeir sem boðaðir voru til fundarins vissu því ekki hvort þeir voru að lýsa afstöðu til frumvarpsins eins og það lá fyrir eða einhvers allt annars. Enda kom á daginn að gerðar voru breytingar á frumvarpinu sem kipptu stoðum undan einu meginmarkmiði þess sem var að draga úr mismunun milli atvinnugreina annars vegar og milli mismunandi rekstrarforma hins vegar.
    Í upphaflega frumvarpinu var gert ráð fyrir að tryggingagjald, þar sem fimm launatengd gjöld voru felld saman í eitt, skyldi nema 4,25% af tilteknum gjaldstofni. Þar sem sumar atvinnugreinar, sjávarútvegur, landbúnaður og iðnaður, höfðu verið undanskildar launaskatti, en áttu samkvæmt frumvarpinu að greiða hann framvegis, voru ákvæði til bráðabirgða þess efnis að nýjar álögur skyldu koma í þrepum til að gefa hæfilegan aðlögunartíma, þ.e. til ársins 1993.
    Kvennalistinn telur eðlilegt að öllu jöfnu að allar atvinnugreinar sitji við sama borð og tekur því undir þau sjónarmið sem fram koma í greinargerð með frumvarpinu þar sem segir:
    „Vafalaust má færa rök fyrir tímabundinni mismunun í skattlagningu fyrirtækja, til dæmis vegna sérstakra aðstæðna, sem kalla á stuðningsaðgerðir af einhverju tagi. Hins vegar verður að telja hana óheppilega til lengdar, þar sem hún getur dregið úr aðhaldi og stuðlað að óhagkvæmni í rekstri. Jafnframt felst í slíkri mismunun að sumar atvinnugreinar eru í reynd að niðurgreiða starfsemi annarra greina.“
    En með þeirri breytingu sem orðið hefur á frumvarpinu er mismunun milli atvinnugreina fest í sessi. Gert er ráð fyrir að tryggingagjaldið verði lagt á í tveimur gjaldflokkum, sérstökum og almennum. Þær sömu atvinnugreinar og áður voru undanþegnar frá launaskatti, skulu vera í „sérstaka“ flokknum.
    Ýmislegt í frumvarpinu horfir þó til bóta. Einföldun er að tryggingagjaldinu, skattstofn breikkar og staðgreiðsla er tekin upp. Innheimta verður eflaust einfaldari og árangursríkari eftir en áður.
    En böggull fylgir skammrifi. Til stóð að sögn að fella niður aðstöðugjald samhliða þeirri breytingu sem frumvarpið boðar og þyngja mun álögur á fyrirtæki og atvinnugreinar. Málið er þó ekki komið lengra en það að skipuð hefur verið samstarfsnefnd ráðuneyta og Sambands íslenskra sveitarfélaga til að gera tillögur þar að lútandi og um það hvort og hvernig þurfi að breyta öðrum tekjustofnum sveitarfélaga.
    Auk þess leggur frumvarpið nýjum aðilum þær skyldur á herðar með tilkomu tryggingagjaldsins að greiða til Atvinnuleysistryggingasjóðs án þess að ljóst sé hvaða réttindi þeir fái samhliða. Breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar hefðu því þurft að koma fram samhliða þessu frumvarpi.
    Þegar við fyrstu umfjöllun um frumvarpið benti fulltrúi Kvennalistans á þessa vankanta og taldi ráðlegra að flýta sér hægt, svo ekki þyrfti að taka til við breytingar á nýsettum lögum eins og allt of oft á sér stað ef ekki er nægilega vel séð fyrir endann á málinu í heild. Varlegt þykir kvennalistaþingkonum að byggja á loforðum um eitthvað sem „gera á seinna“. Það hafa ekki alltaf reynst haldbær loforð.
    Þegar við bætist svo það ósamkomulag sem varð í stjórnarliðinu um frumvarpið, sem leiddi til framangreindra breytinga er viðhalda mismunun milli atvinnugreina í landinu, er ljóst að þingkonur Kvennalistans sjá sér ekki fært að styðja frumvarpið en munu, vegna þess sem er fært til betri vegar með því, ekki leggjast gegn því heldur sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 21. des. 1990.



Þórhildur Þorleifsdóttir.