Ferill 233. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 233 . mál.


Nd.

485. Frumvarp til laga



um tryggingagjald.

(Eftir 2. umr. í Nd., 21. des.)



    Samhljóða þskj. 335 með þessum breytingum:

    2. gr. hljóðar svo:
    Tryggingagjald skal lagt á í tveimur gjaldflokkum, sérstökum og almennum. Tryggingagjald í sérstökum gjaldflokki, sbr. 2. mgr., skal vera 2,5% af gjaldstofni og í almennum gjaldflokki, sbr. 3. mgr., skal gjaldið vera 6%.
    Í sérstökum gjaldflokki skulu vera atvinnugreinar sem flokkast undir fiskveiðar eða iðnað, skv. 1., 2., eða 3. flokki í atvinnuvegaflokkun Hagstofu Íslands, eða landbúnað, þar með talið skógrækt, fiskeldi, fiskrækt, jarðræktarframkvæmdir og byggingarframkvæmdir á bújörðum.
    Í almennum gjaldflokki skulu vera allar aðrar gjaldskyldar atvinnugreinar.
    Reki aðili fjölþættan atvinnurekstur eða starfsemi, sem ýmist fellur undir sérstakan gjaldflokk eða almennan gjaldflokk, skal hann aðgreina launagreiðslur í bókhaldi sínu þannig að séð verði hvað af þeim tilheyri hvorum þætti. Greiðslum fyrir yfirstjórn og öðrum slíkum greiðslum, sem ekki eru beint tengdar ákveðnum þáttum starfseminnar, skal skipt upp í gjaldflokka, þ.e. tryggingagjaldsskyld laun sem falla undir almennan flokk og sérstakan flokk, í sömu hlutföllum og eru á milli heildargreiðslu í hvorum gjaldflokki áður en umræddar yfirstjórnargreiðslur eru meðtaldar og reikna tryggingagjald af þeim í samræmi við það. Ef slík aðgreining er ekki fyrir hendi í bókhaldi eða ef hún er í verulegum atriðum röng eða ófullnægjandi að mati skattstjóra skal hann áætla skiptinguna.

    Ákvæði til bráðabirgða hljóða svo:

I.


    Iðgjöld af lögskráðum sjómönnum, sem lögð voru á og innheimt fyrir fram á árinu 1990 af lögskráningarstjórum, sbr. 3. mgr. 12. gr. laga nr. 64/1981, skulu dragast frá greiðslum tryggingagjalds ársins 1991 hjá viðkomandi launagreiðendum eftir nánari reglum sem settar skulu af fjármálaráðherra.

II.


    Við álagningu opinberra gjalda á árinu 1991, vegna rekstrar á árinu 1990, er þeim aðilum sem ekki hafa fært til frádráttar álögð og greidd tryggingaiðgjöld á árinu 1990 heimilt að draga frá rekstrartekjum fjárhæð er nemi 2,5% af gjaldfærðum frádráttarbærum launum samkvæmt rekstrarreikningi þess árs.
     Þeim aðilum, sem hafa fært til frádráttar álögð og greidd tryggingaiðgjöld á árinu 1990, er einnig heimilt að draga frá rekstrartekjum fjárhæð er nemi 2,5% af gjaldfærðum frádráttarbærum launum samkvæmt rekstrarreikningi þess árs, að frádreginni þeirri fjárhæð sem þegar hefur verið færð til gjalda á árinu 1990.
     Frádráttur þessi skal ekki reiknast af reiknuðu endurgjaldi sem fært er til gjalda. Hvorki má mynda rekstrartap vegna frádráttar samkvæmt þessu sérstaka frádráttarákvæði né nota það til að fresta yfirfærslu rekstrartaps frá fyrri árum.