Ferill 274. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


113. löggjafarþing 1990–1991.
Nr. 10/113.

Þskj. 506  —  274. mál.


Þingsályktun

um fordæmingu á ofbeldisaðgerðum sovésks herliðs í Litáen.


    Alþingi ályktar að fordæma harðlega ofbeldisaðgerðir sovésks herliðs gegn litáísku þjóðinni og lýðræðislega kjörinni ríkisstjórn hennar. Alþingi skorar á stjórnvöld í Sovétríkjunum að hætta þegar í stað hvers konar beitingu hervalds í samskiptum við Eystrasaltsríkin og flytja herlið sitt brott þegar í stað. Aðgerðir Sovéthersins undanfarna daga eru brot á þeim grundvallarreglum í samskiptum ríkja sem felast í gagnkvæmum skuldbindingum Helsinki- lokasamþykktar aðildarríkja ráðstefnunnar um öryggi og samvinnu í Evrópu og í beinni andstöðu við Parísaryfirlýsingu aðildarríkjanna um nýja Evrópu frá nóvember 1990.
    Alþingi lýsir þeirri skoðun sinni að engin lausn sé viðunandi á málefnum Eystrasaltsríkjanna önnur en fullt og óskorað sjálfstæði þeirra.
    Alþingi skorar á þjóðir heims, og ríki Vesturlanda sérstaklega, að veita Eystrasaltsríkjunum þann stuðning sem þau þurfa til að endurheimta sjálfstæði sitt.
    Alþingi vekur athygli á þeim miklu vonum sem bundnar eru við varanlegan frið í Evrópu í kjölfar þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað á undanförnum árum og varar við alvarlegum afleiðingum þess að sjálfsákvörðunarréttur þjóða sé fótum troðinn.

Samþykkt á Alþingi 14. janúar 1991.