Ferill 341. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 341 . mál.


Sþ.

600. Skýrsla



um norrænt samstarf frá desember 1989 til janúar 1991.

Frá Íslandsdeild Norðurlandaráðs.



1. Inngangur.
    Sá háttur hefur nú verið tekinn upp að ársskýrslur frá þeim fjölþjóðlegu samtökum, sem Alþingi á aðild að, eru samtímis til umfjöllunar í sameinuðu þingi. Þeirra á meðal er skýrsla Íslandsdeildar Norðurlandaráðs. Jafnframt leggur samstarfsráðherra Norðurlanda fram skýrslu um störf norrænu ráðherranefndarinnar frá 1989 til 1990 og verður fjallað um hana með skýrslu Íslandsdeildar.

2. Íslandsdeild Norðurlandaráðs.
2.1. Kjör fulltrúa í Íslandsdeild og í fastanefndir Norðurlandaráðs.
    Kjör fulltrúa í Íslandsdeild Norðurlandaráðs fer fram í sameinuðu Alþingi og gildir frá kjördegi og þar til ný kosning hefur farið fram á næsta reglulega Alþingi. Þann 22. desember 1989 voru eftirtaldir þingmenn kosnir til setu í Norðurlandaráði: Páll Pétursson, Ólafur G. Einarsson, Sighvatur Björgvinsson, Þorsteinn Pálsson, Hjörleifur Guttormsson, Valgerður Sverrisdóttir, Hreggviður Jónsson. Varamenn voru þá kosnir Guðni Ágústsson, Friðrik Sophusson, Rannveig Guðmundsdóttir, Birgir Ísl. Gunnarsson, Guðrún Helgadóttir, Jón Kristjánsson, Ingi Björn Albertsson.
    Á fundi 23. janúar 1990 skipti Íslandsdeild þannig með sér verkum að Ólafur G. Einarsson var endurkjörinn formaður deildarinnar og fulltrúi í fjárlaga- og eftirlitsnefnd ráðsins. Hann var auk þess tilnefndur í forsætisnefnd. Páll Pétursson var endurkjörinn varaformaður Íslandsdeildar og í félags- og umhverfismálanefnd. Hann var tilnefndur í forsætisnefnd ráðsins og í embætti forseta Norðurlandaráðs. Þorsteinn Pálsson og Hjörleifur Guttormsson voru kjörnir í efnahagsmálanefnd, Hreggviður Jónsson í samgöngumálanefnd, Valgerður Sverrisdóttir í menningarmálanefnd og Sighvatur Björgvinsson í laganefnd. Hjörleifur Guttormsson og Valgerður Sverrisdóttir voru tilnefnd í ritstjórnarnefnd tímaritsins Nordisk Kontakt og Valgerður Sverrisdóttir í stjórn Norræna menningarsjóðsins fyrir árin 1991 og 1992.
    Að tillögu Íslandsdeildar kaus 38. þing Norðurlandaráðs Pál Pétursson og Ólaf G. Einarsson í forsætisnefnd og Pál Pétursson í embætti forseta Norðurlandaráðs, Valgerði Sverrisdóttur og Hjörleif Guttormsson í ritstjórnarnefnd tímaritsins Nordisk Kontakt og Valgerði Sverrisdóttur í stjórn Norræna menningarsjóðsins.
    Kosið var á ný í Íslandsdeild Norðurlandaráðs 28. nóvember 1990 og hlutu eftirtaldir kosningu: Páll Pétursson, Ólafur G. Einarsson, Sighvatur Björgvinsson, Þorsteinn Pálsson, Hjörleifur Guttormsson, Jón Kristjánsson og Hreggviður Jónsson. Varamenn voru kosnir Valgerður Sverrisdóttir, Friðrik Sophusson, Rannveig Guðmundsdóttir, Birgir Ísl. Gunnarsson, Guðrún Helgadóttir, Guðni Ágústsson, Ingi Björn Albertsson.
    Á fundi 4. janúar 1991 skipti nýkjörin stjórn með sér verkum. Ekki voru þá gerðar aðrar breytingar frá verkaskiptingu síðasta árs en þær að Jón Kristjánsson, sem kosinn hafði verið aðalfulltrúi í Íslandsdeild í stað Valgerðar Sverrisdóttur, tók sæti hennar í menningarmálanefnd og ritstjórnarnefnd Nordisk Kontakt . Páll Pétursson og Ólafur G. Einarsson voru á ný tilnefndir í forsætisnefnd og Ólafur G. Einarsson í eftirlitsnefnd Norræna fjárfestingarbankans fyrir tímabilið frá maí 1991 til maí 1993.
2.2. Fundir Íslandsdeildar og störf.
    Á tímabilinu frá lokum 38. þings Norðurlandaráðs og til janúar 1991 hélt Íslandsdeild níu fundi og var einn þeirra með Júlíusi Sólnes, samstarfsráðherra Norðurlanda.

2.2.1.
    Störf Íslandsdeildar og skrifstofu hennar mótuðust fyrstu mánuði ársins af undirbúningi fyrir Norðurlandaráðsþing sem haldið var í Háskólabíói 27. febrúar til 2. mars 1990. Þinghaldið sjálft fór fram í stóra sal Háskólabíós, en fundir í minni sölum Háskólabíós og fundarsölum Hótels Sögu. Skrifstofur voru að mestu í þeim hluta nýbyggingar Háskólabíós sem Landsbanki Íslands leigir. Af starfsfólki Alþingis aðstoðuðu 26 manns við framkvæmd þingsins. Í allt tengdust þinghaldinu um 800 manns, 87 þingmenn, 65 ráðherrar, um 135 norrænir starfsmenn, um 200 embættismenn, auk tæknifólks og fréttamanna.
    Afhending bókmennta- og tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs fór fram í Borgarleikhúsinu. Að henni lokinni hélt forsætisráðherra þingfulltrúum hóf á Hótel Sögu. Þinghaldið sjálft var degi styttra en venja hefur verið og var talið takast vel. Kostnaður var nokkuð undir áætlun, en hún hafði verið gerð með tilliti til kostnaðar síðasta þings, sem haldið var hér á landi fyrir fimm árum í Þjóðleikhúsinu. Skýrt er frá almennu umræðum þingsins í kafla 5.

2.2.2.
    Á fundi í Íslandsdeild var lögð fram skýrsla um starfsemi NORDJOBB á Íslandi. Sighvatur Björgvinsson skýrði frá starfseminni hér á landi. 163 íslenskir unglingar fóru til annarra norrænna landa á síðasta ári og 87 unglingar komu hingað til starfa. Starfsemin gengur vel og er framkvæmdin á hendi Norræna félagsins, en norræna ráðherranefndin styrkir starfsemina með árlegum fjárframlögum auk þess sem mishátt mótframlag er veitt á fjárlögum allra norrænu ríkjanna.

2.2.3.
    Íslandsdeild fjallaði um framkvæmd og undirbúning norræna umhverfisársins hér á landi og samnorræna yfirstjórn þess í Ósló. Íslandsdeild á fulltrúa í framkvæmdastjórn þess hér á landi.

2.2.4.
    Íslandsdeild hafði borist erindi frá umboðsmanni Alþingis í október 1989 en ekki lokið meðferð þess á síðasta starfsári. Tilefni þess var að dönskum stúdent, búsettum á Íslandi, hafði verið synjað um námslán frá Lánasjóði íslenskra námsmanna vegna náms í Skotlandi. Það var álit umboðsmanns Alþingis að synjun þessi væri ekki í samræmi við 2. gr. Helsinki-sáttmálans, en í henni er kveðið á um að samningsaðilar (þ.e. ríkisstjórnir norrænu ríkjanna) skuli vinna að því að norrænir ríkisborgarar, sem dvelja á Norðurlöndum utan heimalands síns, njóti svo sem framast er unnt sömu réttarstöðu og ríkisborgarar dvalarlandsins. Íslandsdeild féllst á það með umboðsmanni að réttarstaða danskra ríkisborgara búsettra á Íslandi og íslenskra ríkisborgara búsettra hér væri, hvað varðaði námslán og styrki vegna náms í þriðja landi, ekki alfarið sú sama. Íslandsdeild beindi því í bréfi dagsettu 9. október 1990 þeim tilmælum til Júlíusar Sólnes samstarfsráðherra að hann léti kanna hvort unnt væri að samræma reglur norrænu námsmannalánasjóðanna innbyrðis.

2.2.5.
    Utanríkismálanefnd sendi á síðasta starfsári til Íslandsdeildar til umsagnar þingsályktunartillögur um ályktanir Vestnorræna þingmannaráðsins sem samþykktar höfðu verið 1989. Íslandsdeild samþykkti á fundi sínum í janúar 1990 að leggja til að samþykkt yrði tillaga Vestnorræna þingmannaráðsins um að Alþingi veitti fjárstuðning næstu þrjú ár til að auka ferðamannastraum til vestnorrænu landanna. Íslandsdeild studdi og tillöguna um að koma á nemenda- og kennaraskiptum milli vestnorrænu landanna þriggja. Hún benti þó á, í svari sínu, að þegar væri búið að koma á nemenda- og kennaraskiptum milli vestnorrænu landanna annars vegar og annarra norrænna landa hins vegar. Sú starfsemi er kostuð af norrænu ráðherranefndinni, en Norrænu félögin sjá um framkvæmdina. Vestnorræna þingmannaráðið hafði og lagt til að skrifstofa Íslandsdeildar Norðurlandaráðs yrði aðalskrifstofa Vestnorræna þingmannaráðsins. Íslandsdeild taldi eðlilegt að Alþingi stæði straum af kostnaði við þau stjórnunarverkefni sem framkvæma þyrfti sameiginlega á vegum ráðsins. Einnig taldi Íslandsdeild eðlilegt að skrifstofa hennar aðstoðaði við slíkt eftir föngum og að hún tæki við þeim bréfum sem bærust til Vestnorræna þingmannaráðsins og sæi um skjalavörslu fyrir ráðið. Vestnorræna þingmannaráðið hafði einnig lagt til að árið 1992 yrði vestnorrænt ár. Íslandsdeild var ekki andvíg tillögunni en benti þó á, með tilliti til að lagt hafði verið til að sérstök áhersla yrði lögð á umhverfismál og jafnréttismál á vestnorræna árinu, m.a. með kvennaráðstefnu, að norræna umhverfisárinu lyki ekki fyrr en í júni 1991 og að norræn kvennaráðstefna „Nordisk Forum“ yrði líklega haldin á ný árið 1992.

2.2.6.
    Til umræðu voru í Íslandsdeild tillögur frá vinnuhópi á vegum norrænu ráðherranefndarinnar um að leggja niður fjórar norrænar stofnanir, NORDPLAN, Asíustofnunina, Sjóréttarstofnunina og Norrænu þjóðkvæðastofnunina. Sterk mótmæli höfðu borist til Íslandsdeildar frá íslenskum aðilum sem tengdust þessum stofnunum eða höfðu verið þar við nám. Fulltrúar í Íslandsdeild lýstu áhyggjum sínum vegna þessara áforma og óánægju með það hvernig staðið hefði verið að málinu. Hins vegar var það álit deildarinnar að eðlilegt væri að norræna ráðherranefndin gerði reglulega úttekt á starfsemi þeirra stofnana sem hún starfrækti og benti á að ekki væri hægt að ætlast til að allar norrænar stofnanir störfuðu um alla framtíð. Þessar tillögur hafa ekki komið til framkvæmda, en þær hafa ekki verið formlega felldar.

2.2.7.
     Samstarf skrifstofu Íslandsdeildar við Námsgagnastofnun, kennarasamtök og einstaka kennara eykst ár frá ári, og því fylgir aukin eftirspurn eftir því norræna náms- og kynningarefni sem gefið er út. Íslandsdeild telur þennan þátt starfseminnar afar mikilvægan og mun leitast við að styrkja þetta samstarf og hafa áhrif í þá veru að útgáfa námsefnis um norrænt samstarf, norræn mál og um Norðurlönd verði aukin.

2.2.8.
     Norrænir fréttamannastyrkir voru á starfsárinu veittir að venju. Úthlutað var til fréttamanna hér á landi jafnvirði 57.500 sænskra króna. Styrkirnir voru auglýstir í fréttabréfi Blaðamannafélagsins, Blaðamanninum. Eftirtaldir fréttamenn fengu styrki: Keneva Kunz, Arnar Páll Hauksson, Stefán Ásgrímsson, Árni Gunnarsson, Kristinn Briem og Guðrún Eyjólfsdóttir.

2.2.9.
    Á starfsárinu var stofnuð nefnd til að koma með tillögur um bætta skipulagshætti í starfsemi Norðurlandaráðs. Upphaflega var ætlunin að bæði norræna ráðherranefndin og forsætisnefnd Norðurlandaráðs skipuðu fulltrúa í nefndina. Ráðherranefndin taldi ekki rétt að skipa fulltrúa frá sér og var því nefndin einungis skipuð fulltrúum frá Norðurlandaráði. Formaður nefndarinnar var Bjarne Mørk Eidem, sem þá var fulltrúi í Norðurlandaráði, en Páll Pétursson fulltrúi Íslands. Hún skilaði áliti í október 1990. Tillögur hennar eru til umfjöllunar í laganefnd og koma til afgreiðslu á Norðurlandaráðsþingi í Kaupmannahöfn um mánaðamót febrúar/mars 1991. Íslandsdeild fylgdist grannt með starfi nefndarinnar. Páll Pétursson gaf með reglulegu millibili upplýsingar um framgang mála og fékk álit Íslandsdeildar. Skýrslan kom síðan formlega til umsagnar Íslandsdeildar í byrjun árs 1991. Íslandsdeild styður í aðalatriðum tillögurnar. Nefndin leggur m.a. til að bætt verði í Helsinki-sáttmálann ákvæði um samráð um alþjóðamál. En eitt helsta markmið starfs nefndarinnar var annars vegar að leggja fram tillögu um formlega heimild fyrir Norðurlandaráð til að fjalla um alþjóðamál, og hins vegar tillögu um breytingar á starfsháttum ráðsins þannig að þeir falli betur að þeim öru breytingum sem nú kunna að verða á samstarfi þjóða í Evrópu.
    Lagt er og til að staða forsætisnefndar verði styrkt og að hún fari með þau alþjóðamál sem upp koma, að svo miklu leyti sem þau eigi ekki beint undir einhverja fastanefnd ráðsins.
    Lagt er og til að forsætisnefnd verði heimilað að bjóða fulltrúum þjóðþinga utan Norðurlanda að sækja þing Norðurlandaráðs og veita þeim heimild til að taka þar til máls. Ekki er lagt til að þeir fái þar stöðu áheyrnarfulltrúa með heimild til að taka fullan þátt í umræðum og nefndafundum. Sú skoðun hefur verið uppi hjá sumum fulltrúum í Íslandsdeild að stíga bæri þetta skref til fulls og veita forsætisnefnd heimild til að bjóða þjóðþingum áheyrnarfulltrúarétt hjá Norðurlandaráði.
    Þá er lagt til að fjármálaráðherrar Norðurlanda fái ákvörðunarvald um norrænu fjárlögin í stað samstarfsráðherra. Einnig er lagt til að utanríkisráðherrar verði samstarfsráðherrar Norðurlanda. Íslandsdeild er mótfallin báðum þessum tillögum. Íslandsdeild styður hins vegar tillögu nefndarinnar um að utanríkisráðherrar og utanríkisviðskiptaráðherrar Norðurlanda myndi ráðherranefnd. Utanríkisráðherrar Norðurlanda halda sameiginlega fundi, eins og kunnugt er, en ekki sem ráðherranefnd. Tillagan um ráðherranefndir utanríkisráðherra og utanríkisviðskiptaráðherra er til orðin vegna þess að Norðurlandaráð mun á komandi árum, eins og fram hefur komið, sinna alþjóðamálum í auknum mæli og þá er til bóta að Norðurlandaráð geti snúið sér til ráðherranefndar sem fari með þau mál.
    Skipulagsnefnd leggur til að Norðurlandaráði verði veitt heimild til að taka lokaákvörðun um skiptingu norrænu fjárlaganna milli verkefna, en að ráðherranefndin ákveði eins og hingað til upphæð fjárlaganna. Íslandsdeild styður þessa tillögu, en hún mætir mótspyrnu frá ráðherranefndinni.
    Varðandi innra skipulag Norðurlandaráðs leggur skipulagsnefnd til að völd og áhrif flokkahópanna á störf ráðsins verði aukin á kostnað landsdeildanna. Íslandsdeild er ekki sátt við þessar tillögur og heldur fast við þá skoðun að fimm jafnrétthá þjóðþing eigi aðild að Norðurlandaráði. Landsdeildirnar, kosnar af þjóðþingunum, eigi því að ráða því í raun hverjir taki sæti í forsætisnefnd ráðsins og skipi trúnaðarstöður. Þó sé skapaður sveigjanleiki þannig að unnt sé að taka tillit til minni flokkahópa sem ekki hafa bolmagn til að hljóta tilnefningar í trúnaðarstöður frá landsdeildunum. Flokkspólitísk sjónarmið ráði síðan að sjálfsögðu miklu um afstöðu manna til þeirra málefna sem til umræðu eru.
    Skipulagsnefnd leggur til fjölda minni háttar breytinga á þingsköpum ráðsins sem Íslandsdeild telur allar til bóta.
    Tillögunni um norrænan umboðsmann hafði verið vísað til skipulagsnefndar sem vildi kanna það mál nánar. Ekki tók skipulagsnefnd heldur beina afstöðu til tillögu um að sameina skrifstofu forsætisnefndar Norðurlandaráðs í Stokkhólmi og skrifstofu norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn.

3. Forsætisnefnd Norðurlandaráðs.
3.1. Kjör í forsætisnefnd og fundir.
    Á 38. þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík 27. febrúar 1990 var Páll Pétursson kjörinn forseti Norðurlandaráðs til eins árs og tók hann við af sænska þingmanninum Karin Söder. Aðrir fulltrúar í forsætisnefnd voru kjörnir dönsku þingmennirnir Ivar Hansen og Anker Jørgensen, finnsku þingmennirnir Elsi Hetemäki-Olander og Mats Nyby, Ólafur G. Einarsson alþingismaður, norsku þingmennirnir Bjarne Mørk Eidem og Thea Knutzen og sænsku þingmennirnir Grethe Lundblad og Karin Söder. Danski þingmaðurinn Lilli Gyldenkilde var kosinn áheyrnarfulltrúi þar. Við kosningu í Noregsdeild Norðurlandaráðs 8. nóvember 1990 tóku þingmennirnir Kirsti Kolle Grøndahl og Jan P. Syse við af Bjarne Mørk Eidem og Thea Knutzen.
    Forsætisnefnd hélt tíu fundi á starfsárinu og tvær ákvarðanir voru teknar bréflega (per capsulam). Nefndin hélt einn fund með forsætisráðherrum Norðurlanda og einn fund með formönnum fastanefnda ráðsins. Forseti Norðurlandaráðs hélt einn óformlegan fund með formanni norrænu ráðherranefndarinnar, Thor Pedersen, samstarfsráðherra í dönsku ríkisstjórninni.
    Á fundi forsætisnefndar með forsætisráðherrum Norðurlanda var m.a. rætt um samningana um Evrópskt efnahagssvæði og samskipti Norðurlanda og Norðurlandaráðs við Austur-Evrópu.
    Á fundi forsætisnefndar með samstarfsráðherrum landanna voru til umræðu alþjóðamál, skipulagsmál Norðurlandaráðs, undirbúningur næsta Norðurlandaráðsþings og framkvæmd ákvarðana síðasta þings.

3.2. Alþjóðleg samskipti.
    Alþjóðleg samskipti Norðurlandaráðs jukust á starfsárinu bæði á vegum forsætisnefndar og fastanefndanna. Samþykkt var starfsáætlun um alþjóðleg samskipti.

3.2.1.
    Forsætisnefnd Norðurlandaráðs hélt í september fund í Strassborg með forsætisnefnd Evrópuráðsins. Var þar gerður samningur um samstarf og reglubundin samskipti, þátttöku í nefndafundum og námsstefnum og um upplýsingaskipti. Norðurlandaráð tekur þátt í skipulagningu fimmtu þingmannaráðstefnu Evrópuráðsins sem haldin verður í Rovaniemi í sumar. Þar verður fjallað um svæðisbundið samstarf.

3.2.2.
    Aukin samskipti við Evrópuþingið standa fyrir dyrum og verið er að undirbúa fund milli forsætisnefndar Norðurlandaráðs og þeirrar nefndar Evrópuþingsins sem hefur með höndum samskiptin við Finnland, Ísland, Svíþjóð og Norðurlandaráð. Formaður laganefndar, Sighvatur Björgvinsson, og sænski fulltrúinn, Hans Nyhage, heimsóttu Evrópuþingið í byrjun árs 1991 ásamt ritara nefndarinnar (sjá 4.1.).

3.2.3.
    Norðurlandaráð fékk á starfsárinu stöðu áheyrnarfulltrúa hjá Alþjóðaþingmannasambandinu (IPU). Ekki hafa fundir eða ráðstefnur IPU verið sóttar af hálfu Norðurlandaráðs.

3.2.4.
    Dagana 14. 16. júní tóku Ólafur G. Einarsson alþingismaður, sænski þingmaðurinn Grethe Lundblad og norski þingmaðurinn Thea Knutzen þátt í þingi Benelux - ráðsins í Lúxemborg. Þar var aðallega rætt um framtíð Benelux-samstarfsins í ljósi Evrópuþróunarinnar.

3.2.5.
    Áætlað er að sameiginlegur fundur forsætisnefndar Norðurlandaráðs og þingmannanefndar EFTA verði haldinn að loknum samningsviðræðunum um Evrópskt efnahagssvæði.

3.2.6.
    Í febrúar 1990 skipaði forsætisnefnd sendinefnd sjö þingmanna til að heimsækja æðsta ráð Sovétríkjanna í Moskvu og höfuðborgir Eystrasaltsríkjanna þriggja. Páll Pétursson forseti Norðurlandaráðs var fulltrúi Íslands þar. Förin var upphaflega áætluð í maí, en þá fékkst ekki vegabréfsáritun til Litáen. Páll Pétursson, forseti Norðurlandaráðs, fékk síðan, er hann var viðstaddur opnun sýningarinnar „Modernismens genombrott“ í Moskvu, vilyrði fyrir vegabréfsáritun til ríkjanna allra. Það gekk eftir og förin var farin í október 1990. Tilgangur fararinnar var að koma á sambandi við lýðræðislega kjörin þing í Eystrasaltsríkjunum og komast að raun um á hvern hátt samstarf á sviði umhverfismála, menningarmála og viðskipta gæti best orðið. Sendinefndin átti m.a. fundi með forsetunum Landsbergis, Gorbunovs og Rüütel. Einnig var haldinn fundur með Eystrasaltsráðinu og þar voru og forsetarnir vidstaddir. Áhugi var á að koma á formlega sambandi milli Norðurlandaráðs og Eystrasaltsráðsins, en sendinefndinni var tjáð að til greina kæmi að gera það að þingmannaráði. Fulltrúar Eystrasaltsríkjanna sýndu mikinn áhuga á að þing ríkjanna fengju að senda áheyrnarfulltrúa á þing Norðurlandaráðs. Sendinefndin tjáði þeim að forsætisnefnd Norðurlandaráðs mundi bjóða þingum Eystrasaltsríkjanna að senda fulltrúa þinganna sem gesti á næsta þing Norðurlandaráðs. Í lok ferðarinnar voru skráð niður þau verkefni sem sendinefndin taldi að Norðurlandaráð, norrænu ríkisstjórnirnar eða þjóðþingin gætu framkvæmt í samvinnu við Eystrasaltsríkin til hagsbóta fyrir þau. Brýnustu verkefnin voru á sviði umhverfismála, heilbrigðismála, menntunarmála og samgöngumála. Einnig var nánast á öllum fundum óskað sérstaklega eftir því að fá að kynnast nánar störfum þingmanna og þjóðþinganna. Á fundum þeim, sem forsætisnefnd hefur haldið um ferðina, var ákveðið að fara þess á leit við þjóðþingin á Norðurlöndum að þau bjóði þingmönnum frá Eystrasaltsríkjunum að senda þingmenn þangað til að kynnast störfum þeirra og starfsháttum.
    Lagðar hafa verið fram þrettán þingmannatillögur varðandi samstarf Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna og annarra Austur-Evrópuríkja. Þær verða allar til afgreiðslu á næsta þingi Norðurlandaráðs. Ákveðið hefur verið að meðferð þessara tillagna verði samræmd og að þær komi allar til umræðu síðasta dag þingsins. Hefst sú umræða væntanlega með almennum umræðum um málefni Eystrasaltsríkjanna. Þeim tilmælum hefur verið beint til samstarfsráðherra Norðurlanda að sem flestir þeir ráðherrar, sem sækja þingið, og þá sérstaklega forsætisráðherrarnir, sitji það til loka.
    Hver framtíð samstarfsins við þing Eystrasaltsríkjanna verður ræðst væntanlega af því hvert framhald verður á þeirri lýðræðisþróun sem þar á sér nú stað.

3.2.7.
    Í tilefni þróunarinnar í Evrópu og með sérstöku tilliti til Eystrasaltsríkjanna hélt Norðurlandaráð eins dags ráðstefnu í tengslum við haustfundi ráðsins í nóvember. Yfirskrift hennar var Parlamentarikernas roll i regionernas Europa . Auk fulltrúa í Norðurlandaráði sóttu hana um tuttugu þingmenn frá Eystrasaltsríkjunum og nokkrum öðrum ríkjum við Eystrasalt. Allir fulltrúar í Íslandsdeild sóttu ráðstefnuna.

3.2.8.
    Forsætisnefndin og samstarfsráðherrar létu gera á starfsárinu úttekt á áhrifum þeirra samninga um Evrópskt efnahagssvæði, sem í undirbúningi eru, fyrir framtíð norræns samstarfs. Þegar niðurstöður úttektarinnar lágu fyrir ákvað forsætisnefnd Norðurlandaráðs að fara þess bréflega á leit við forsætisráðherra norrænu ríkjanna að rætt verði um það á næsta sameiginlega fundi þeirra hvernig tryggja megi framtíð norræns samstarfs í ljósi samningsviðræðnanna.

4. Fastanefndir Norðurlandaráðs.
4.1. Laganefnd.
    Formaður laganefndar var Sighvatur Björgvinsson og varaformaður danski þingmaðurinn Helge Adam Møller.
    Árið 1990 hélt laganefnd sex nefndarfundi og tvo fundi með norrænu ráðherranefndinni, annan með þeim ráðherrum sem fara með neytendamál og hinn með dómsmálaráðherrunum. Auk þess hélt nefndin fund með sérfræðingum um barnarétt. Í þeim fundi tók Anna Guðrún Björnsdóttir, deildarstjóri í dómsmálaráðuneytinu, þátt.
    Störf nefndarinnar á starfsárinu mótuðust aðallega af auknu alþjóðastarfi Norðurlandaráðs. Nefndin hefur m.a. fjallað um starfsáætlanir ráðherranefndarinnar um „Norden i Europa til 1991“ og um Eystrasaltsríkin og Austur-Evrópu. Eins og áður var vikið að fékk nefndin í lok starfsársins til meðferðar tillögur skipulagsnefndar Norðurlandaráðs og er það tímafrekt og vandasamt starf að undirbúa málið fyrir þing ráðsins í lok febrúar 1991.
    Á starfsárinu hefur ellefu tillögum verið vísað til laganefndar til afgreiðslu fyrir næsta þing.
    Af þingmannatillögum þeim, sem nefndin hefur haft til meðferðar á árinu, má nefna tillögu um sameiginlegar norrænar reglur um meðferð skotvopna sem nefndin leggur til að þing ráðsins samþykki, tvær tillögur um gentækni, aðra um bann við notkun erfðafræðilegra prófana á umsækjendum um stöður o.fl. og hina um norrænan milliríkjasamning um líftækni og gentækni, tvær tillögur um neytendamál og tvær tillögur um samstarf og aðstoð við ríki í Austur-Evrópu til að styrkja þingræði og lýðræði þar. Þá eru til umfjöllunar tillögur á sviði jafnréttismála og barnaverndar.
    Á fundi nefndarinnar með ráðherrum þeim, sem fara með neytendamál, voru m.a. til umræðu mál er varða staðla, möguleika neytenda til að hafa áhrif á markaðinn og afstaðan til Evrópubandalagsins og sjónvarpsauglýsingar.
    Á fundi nefndarinnar með ráðherrum þeim, sem fara með málefni flóttamanna, var rætt um Norðurlönd sem sameiginlegt vegabréfasvæði í ljósi fyrirhugaðrar tilhögunar landamæragæslu milli ríkja Evrópubandalagsins, um niðurfellingu vegabréfsáritunar með tilliti til þróunarinnar í Austur-Evrópu og um möguleikana á norrænni samstarfsáætlun um málefni flóttamanna.
    Á áðurnefndum fundi nefndarinnar með sérfræðingum á sviði barnaréttar var m.a. fjallað um fjárhagstöðu barna, barnavernd og alþjóðasamning Sameinuðu þjóðanna um málefni barna.
    Formaður laganefndar ásamt einum fulltrúa öðrum frá nefndinni og ritari hennar héldu í byrjun janúar 1991 fund með fulltrúum nefnda Evrópuþingsins sem fara með lagaleg málefni og neytendamál. Tilgangurinn var annars vegar að kynna sér tilhögun nefndastarfa hjá Evrópuþinginu og hins vegar að ræða málefni sem varða Norðurlandaráð og Evrópuþingið.

4.2. Menningarmálanefnd.
    Formaður menningarmálanefndar var danski þingmaðurinn J.K. Hansen og varaformaður Valgerður Sverrisdóttir.
    Nefndin hélt átta nefndarfundi á árinu og einn fund með menningar- og menntamálaráðherrum Norðurlanda.
    Þau mál, sem nefndin taldi mikilvægust á starfsárinu, varða þróunina í Eystrasaltsríkjunum og samstarf Norðurlandaþjóða og Norðurlandaráðs við þjóðir þeirra og mál varðandi þróunina í Evrópu að öðru leyti. Tillögur skipulagsnefndar Norðurlandaráðs um bætta starfshætti hafa og verið til umsagnar í nefndinni.
    Í upphafi starfsársins voru tillögur starfshóps norrænu ráðherranefndarinnar um að fjórar norrænar stofnanir yrðu lagðar niður til umfjöllunar í nefndinni. Mál þetta er enn til umfjöllunar og nú í tengslum við ráðherranefndartillögu um breytingar á fjármögnum og skipulagi norrænu stofnananna.
    Menningarmálanefnd hefur lýst óánægju yfir að ekki skuli verða nein aukning á norrænu fjárlögunum fyrir árið 1991 og að ekki sé veitt nægum fjármunum til menningarsamstarfsins til að þau verkefni, sem ákvörðun var tekin um í norrænu samstarfsáætluninni um menningarmál, verði framkvæmd.
    Á dagskrá nefndarinnar voru m.a. þingmannatillögur um aðgerðir til að varðveita kunnáttu á sviði heimilisiðnaðar og handverks á Norðurlöndum, um norræna útvarpsstöð, um menningarsamstarf við þjóðir Austur-Evrópu og Sovétríkjanna og aðgang nemenda frá Austur-Evrópu að norrænum lýðháskólum, um starfsemi NORDPLAN og um aukið upplýsingastarf utan Norðurlanda um norrænt samstarf.
    Norræna ráðherranefndin samþykkti á árinu ráðherranefndartillögu um breytingar á gildandi reglum um Norræna menningarsjóðinn sem fela í sér að Færeyingar, Grænlendingar og Álendingar fá þar meiri áhrif.
    Einnig samþykkti ráðherranefndin á starfsárinu tillögu um norræna samstarfsáætlun, um samstarf á sviði tungumála á Norðurlöndum. Tillögur þessar höfðu verið lagðar fyrir síðasta Norðurlandaráðsþing sem lagt hafði til að ráðherranefndin samþykkti tillögurnar.
    Á fundi nefndarinnar í nóvember ræddi menningarmálanefnd við formann norrænu ráðherranefndarinnar um norrænu starfsáætlunina um Eystrasalt og Austur-Evrópu. Með jöfnu millibili hafa starfsmenn skrifstofu ráðherranefndarinnar tekið þátt í fundum menningarmálanefndar til að gefa upplýsingar um starfið innan ramma menningarmálasamningsins.
    Á fundi nefndarinnar með norrænu ráðherranefndinni, menningar- og menntamálaráðherrunum, voru eftirgreind mál til umræðu: framtíð norrænu samstarfsáætlunarinnar um menningarmál, norrænt menningarsamstarf í ljósi þróunarinnar í Evrópu og áhrif ákvörðunarinnar um enga aukningu á norrænu fjárlögunum.
    Fulltrúar frá nefndinni héldu á starfsárinu fundi með fulltrúum menningarmálanefndar Evrópuráðsins um samstarfsverkefni sem til greina gætu komið. Ákveðið hefur verið að framhald verði á samstarfi nefndanna. Hér eftir mun menningarmálanefnd Norðurlandaráðs verða boðin þátttaka í þeim ráðstefnum sem menningarmálanefnd Evrópuráðsins heldur.

4.3. Félags- og umhverfismálanefnd.
    Formaður félags- og umhverfismálanefndar var finnski þingmaðurinn Marjatta Väänänen og varaformaður norski þingmaðurinn Svein Alsaker.
    Nefndin hélt sjö nefndarfundi á árinu og einn fund með heilbrigðis- og félagsmálaráðherrum Norðurlanda.
    Umfjöllun um umhverfismál var í brennidepli hjá nefndinni á starfsárinu. Þrjár ráðherranefndartillögur á því sviði voru lagðar fyrir nefndina, um samstarfsáætlun gegn mengun sjávar, um samstarfsáætlun gegn mengun andrúmsloftsins og umhverfisvæna tækni, úrgang og endurvinnslu. Þingið samþykkti tilmæli til ráðherranefndarinnar um að samþykkja þessar samstarfsáætlanir. Auk þess voru 18 tilmæli samþykkt á síðasta Norðurlandaráðsþingi á sviði félags- og umhverfismálanefndar. Helmingur þeirra var um umhverfismál. Þar á meðal voru tilmæli um alþjóðlegar aðgerðir gegn olíumengun sjávar vegna sjóslysa og um aðgerðir gegn mengun andrúmsloftsins á Norðurheimskautssvæðinu. Þá voru samþykkt tilmæli til ríkisstjórna norrænu ríkjanna um að vinna að því á vettvangi Sameinuðu þjóðanna að því verði beint til iðnríkjanna að ákveðnum hluta þjóðartekna verði varið til alþjóðlegs umhverfissamstarfs og til varðveislu skógarsvæða heimsins.
    Í samræmi við tilmæli frá nefndinni samþykkti 38. þingið að beina því til ráðherranefndarinnar að gera samstarfsáætlun gegn atvinnuleysi ungs fólks.
    Fimm tillögur voru til meðferðar á félagsmálasviði. Þær voru m.a. um barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, um þjónustu við fatlaða og um félagslegar aðstæður samkynhneigðra.
    Í áliti sínu um ársskýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar benti nefndin sérstaklega á mikilvægi þess að ekki yrði hvikað frá þeim markmiðum sem Norðurlönd hafa sett sér um almannatryggingar þó að unnið verði að samræmingu norrænna reglna við Evrópubandalagsreglur á þessu sviði.
    Nefndin tók og fram að fylgja ætti þeirri meginreglu, sem orðuð er í skýrslu Brundtland-nefndarinnar, að í alþjóðasamstarfi um umhverfismál skuli beita reglum þess lands sem gerir mestar kröfur um umhverfisvernd.
    Fyrir nefndinni liggja nú m.a. tillögur um alþjóðlegt samstarf um málefni fatlaðra og um samstarf við ríki Austur-Evrópu á sviði umhverfisverndar.
    Í október stóð nefndin fyrir ráðstefnu um aðstöðu fatlaðra á Norðurlöndum. Ráðstefnan var haldin í tilefni þess að Sameinuðu Þjóðirnar hafa lýst áratuginn 1983 1992 áratug fatlaðra. Ráðstefnugestir voru um 80 talsins og meðal þeirra voru 20 fulltrúar ýmissa samtaka fatlaðra á Norðurlöndum. Engin íslensk samtök sáu sér þó fært að senda fulltrúa þangað.
    Í nóvember átti nefndin fund með félagsmála- og heilbrigðisráðherrum Norðurlanda. Var þar m.a. rætt um tilmæli sem samþykkt hafa verið af Norðurlandaráði, um barnarétt, starfsréttindi kirópraktora og aðgerðir gegn áfengisneyslu.
    Í júní sóttu fulltrúi frá nefndinni og ritari hennar þing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar í Genf og lýstu þar sjónarmiðum Norðurlanda um jafnréttismál og aðbúnað á vinnustöðum.
    Í október tóku formaður nefndarinnar og ritari hennar þátt í ráðstefnu á vegum Evrópuráðsins um umhverfismál í Austur- og Vestur-Evrópu.
    Í nóvember fóru fimm fulltrúar frá nefndinni ásamt ritara í kynnisför til Leningrad og Eystrasaltsríkjanna. Hópurinn hélt fundi með borgarstjórn Leningrad og þingmönnum og embættismönnum í Eystrasaltsríkjunum. Hópurinn heimsótti einnig orkuverið í Narva, námurnar í Sirgala og efnaverksmiðjur í Kohtla-Jarve.

4.4. Samgöngumálanefnd.
    Formaður nefndarinnar var sænski þingmaðurinn Elver Jonsson og varaformaður finnski þingmaðurinn Sakari Knuuttila. Á starfsárinu hélt nefndin sjö nefndarfundi og einn fund með samgöngumálaráðherrum og ráðherrum þeim sem fara með umferðaröryggismál.
    Fyrir 38. þing ráðsins voru lagðar tvær tillögur á sviði samgöngumálanefndar. Önnur þeirra var um afslátt af flugfargjöldum innan Norðurlanda fyrir eftirlaunaþega, fatlaða og ungt fólk og hin um flugsamgöngur á svæði því sem nefnt er Mittnorden, en það er svæði það í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi sem er á sömu breiddargráðu og Reykjavík. Að tillögu nefndarinnar samþykkti þingið seinni tillöguna, en ekki þá fyrri.
    Fyrir nefndinni liggja nú átta þingmannatillögur, sem koma til afgreiðslu á næsta þingi ráðsins. Fjórar þeirra eru um stefnu í flutningamálum, rannsóknir á því sviði og járnbrautarsamgöngur. Ein tillaga er um samstarf við Eystrasaltsríkin á sviði flutninga, ein er um mengun frá bifreiðaumferð og ein um tölvumál.
    Í maí hélt nefndin fund í Ósló með norræna umferðaröryggisráðinu. Voru þar veittar upplýsingar um norrænu samstarfsáætlunina um umferðaröryggi. Í nóvember hélt nefndin fund með samgöngumálaráðherrunum og þeim ráðherrum sem fara með umferðaröryggismál. Þar var m.a. rætt um samgöngumál á Norðurlöndum í ljósi samningsviðræðna um Evrópskt efnahagssvæði, um endurskoðun samstarfsáætlunarinnar um umferðaröryggi og um samræmingu reglna á Norðurlöndum um leyfilegt áfengismagn í blóði ökumanna. Þá var og rætt um möguleika á endurskoðun norræna sáttmálans um samstarf á sviði flutninga og samgangna í því skyni að fella samstarf um samgöngur á sjó og í lofti inn í sáttmálann.
    Nefndin hafði á starfsárinu samband við fjölda norrænna stofnana og fyrirtækja til að kynna sér starfsemi þeirra og ganga úr skugga um hvort þörf væri á norrænu samstarfi um málefni þeirra. Einnig bauð nefndin á fundi sína ýmsum sérfræðingum sem skýrðu frá norrænum verkefnum sem unnið var að. Sumarfundur nefndarinnar var haldinn á Íslandi og þá kynnti nefndin sér starfsemi Flugmálastjórnar, Bifreiðaskoðunar Íslands og gerð ganganna gegnum Ólafsfjarðarmúla. Á árinu kynnti nefndin sér starfsemi Flugfélagsins SAS.
    
Í október hélt nefndin ráðstefnu í Lillehammer um framtíðarskipulag samgangna og flutninga.

4.5. Efnahagsmálanefnd.
    Formaður nefndarinnar var norski þingmaðurinn Anders Talleraas og varaformaður sænski þingmaðurinn Hans Gustavsson.
    Nefndin hélt fimm nefndarfundi og ein fund með fjármálaráðherrum Norðurlanda.
    Fyrir 38. þing Norðurlandaráðs afgreiddi nefndin frá sér tvær þingmannatillögur og fjórar ráðherranefndartillögur. Á dagskrá nefndarinnar hafa á starfsárinu verið tólf þingmannatillögur og ein ráðherranefndartillaga. Einnig hefur nefndin fjallað um fjárlög ársins 1991.
    Lögð var fyrir nefndina ráðherranefndartillaga um starfsáætlun um byggðamál. Nefndin hafði samtímis til meðferðar þingmannatillögu um byggðamál og samræmingu við Evróðubandalagið. Ráðherrar þeir, sem fara með byggðamál, komu til fundar við nefndina og þá var þess óskað að þeir legðu fram mat á áhrifum samrunaferlisins í Evrópu á byggðaþróun á Norðurlöndum og að skýrsla um það yrði lögð fram fyrir Norðurlandaráðsþingið í Kaupmannahöfn. Skýrslan hafur enn ekki verið lögð fram og hefur þess nú verið óskað að hún berist hið fyrsta.
    Nefndin studdi ráðherranefndartillögu um viðbót við norrænu samstarfsáætlunina á sviði landbúnaðar og skógræktar og lýsti ánægju yfir að sérstakt tillit skyldi þar vera tekið til umhverfisverndarsjónarmiða. Samtímis hafði nefndin til meðferðar tvær þingmannatillögur um skógrækt.
    Ráðherranefndin lagði fram tillögu sem vísað var til efnahagsmálanefndar um stofnun norræns umhverfisfjárfestingafélags (NEFCO) sem á að hafa það að markmiði að fjármagna samstarf milli norrænna og evrópskra fyrirtækja um þjónustu og framleiðslu vara sem eru umhverfisvænar eða ætlaðar til umhverfisverndar. NEFCO hefur eigin stjórn en starfar í tengslum við Norræna fjárfestingarbankann. Ráðherranefndin lagði og fram tillögu, sem vísað var til efnahagsnefndar, um hækkun fjárfestingarlána Norræna fjárfestingarbankans. Nefndin studdi báðar þessar ráðherranefndartillögur.
    Þremur þingmannatillögum á sviði orkumála var vísað til nefndarinnar. Voru þær um aðgerðir til orkusparnaðar heimilanna, norrænt háspennunet og sameiginlega stefnu norrænu ríkjanna á sviði orkumála. Nefndin studdi fyrri þingmannatillögurnar tvær en ekki þá síðustu.
    Fjórum þingmannatillögum um norrænt samstarf við ríki Austur-Evrópu var vísað til nefndarinnar sem styður þær allar í stórum dráttum. Tillögurnar eru um stuðning við aðgerðir til umhverfisverndar í Eystrasaltsríkjunum og Póllandi, um aukið efnahags- og menningarsamstarf við ríkin sem land eiga að Eystrasalti og um samstarf milli Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna á sviði landbúnaðar.
    Á fundi nefndarinnar með fjármálaráðherrunum í nóvember lögðu ráðherrarnir fram yfirlit um stöðu efnahagsmála á Norðurlöndum og efnahagsástand og horfur voru rædd. Einnig var rætt um norrænu fjárlögin og framtíð norræns efnahagssamstarfs.
    Á sumarfundi nefndarinnar í Austur-Finnlandi ræddi nefndin við sveitarstjórnarmenn þar og fulltrúa atvinnulífsins.
    Í maí tók fulltrúi frá nefndinni ásamt ritara þátt í ráðstefnu Evrópuráðsins í Búdapest um úrbætur í efnahagslífi ríkja Mið- og Austur-Evrópu.
    Nefndin ræddi á starfsárinu um framkvæmd áætlunar norrænu ráðherranefndarinnar, Norden i Europa 1989 1992, og lýsti í stórum dráttum ánægju með hana. Nefndin óskaði samtímis eindregið eftir því að gerð yrði ný áætlun um samstarfið eftir 1992. Af því tilefni gáfu fjármálaráðherrarnir skýrslu um mikilvæg samstarfsverkefni sem yrðu á dagskrá eftir 1992 og kváðust síðar mundu leggja fram áætlun.
    Það féll og í góðan jarðveg hjá nefndinni að ráðherranefndin lagði fram í október áætlun um samstarf Norðurlanda við Austur-Evrópu, með sérstöku tilliti til samstarfs við Eystrasaltsríkin. Nefndin gerði þó athugasemdir við það að hafa ekki fengið drögin að áætluninni og getað komið með athugasemdir áður en hún var endanlega samþykkt.

4.6. Fjárlaga- og eftirlitsnefnd.
    Formaður nefndarinnar var sænski þingmaðurinn Wiggo Komstedt og varaformaður var Per Olof Håkansson.
    Nefndin hélt ellefu nefndarfundi á árinu, einn fund með fulltrúum hinna fastanefnda ráðsins og tvo fundi með fulltúum samstarfsráðherra landanna, þann fyrra með sænska samstarfsráðherranum Mats Hellström og þann síðari með danska samstarfsráðherranum Thor Pedersen.
    Nefndin lagði í nefndaráliti sínu um ársskýrslu ráðherranefndarinnar áherslu á að þar ættu að koma fram upplýsingar um áætlaðan kostnað þeirra verkefna og starfsáætlana sem fyrirhuguð væru og á hve löngum tíma þau yrðu framkvæmd. Einnig lagði nefndin áherslu á að þar kæmi fram sú forgangsröðun verkefna sem ráðherranefndin hygðist viðhafa.
    Nefndin lagði til að verkefni á sviði menningarmála, þróunar og rannsókna, umhverfisverndar, umferðaröryggis og verkefni varðandi þróunina í Evrópu og Evrópskt efnahagssvæði hefðu forgang næstu ár.
    Á árinu lét nefndin gera úttekt á norrænu samstarfi um byggingarmál. Verkfræðingur sá, sem tók verkið að sér, átti viðtöl við 50 aðila og sat fundi um staðla- og byggingarmál. Úttektin hefur verið send efnahgasmálanefnd, en skýrslan birtist með nefndaráliti fjárlaga- og eftirlitsnefndarinnar um ráðherranefndarskýrsluna 1991. Í tilefni úttektarinnar bauð nefndin sérfræðingi frá danska húsnæðismálaráðuneytinu á fund í ágúst til að skýra frá samstarfi á sviði byggingarmála í Evrópubandalaginu.
    Stofnanir Norðurlandaráðs koma nú fyrr við sögu við undirbúning norrænu fjárlaganna en áður var. Því fékk nefndin þegar í maí 1990 tillögur aðalframkvæmdastjóra skrifstofu ráðherranefndarinnar um fjárlög ársins 1991 til umfjöllunar. Tillögum samstarfsráðherra um fjárlög ársins 1991, sem að mestu voru byggðar á tillögum aðalframkvæmdastjórans, voru sendar ráðinu í september. Í þeim hafði nokkuð tillit verið tekið til ábendinga nefndarinnar. Allar nefndir ráðsins fjölluðu síðan um tillögurnar um haustið og í nóvember lauk fjárlaga- og eftirlitsnefnd meðferð um þær. Að fengnu áliti fjárlaga- og eftirlitsnefndar tóku síðan samstarfsráðherrar endanlega ákvörðun um fjárlögin í desember.
    Á 38. þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík var ákveðið að fækka fulltrúum í fjárlaga- og eftirlitsnefnd í níu og voru þá formenn hinna fastanefnda ráðsins ekki lengur fulltrúar þar. Var þetta gert að tillögu fjárlaga- og eftirlitsnefndar. Hún hafði talið samsetningu nefndarinnar standa henni fyrir þrifum við samræmingu á fjárlagatillögum hinna nefndanna.

5. 38. þing Norðurlandaráðs í Reykjavík.
    Norðurlandaráð hélt 38. aðalþing sitt í Reykjavík dagana 26. febrúar til 2. mars 1990. Það hófst að venju með almennum umræðum sem að þessu sinni stóðu í níu klukkustundir. Fráfarandi forseti, Karin Söder, setti þingið. Því næst var kosið í forsætisnefnd og Páll Pétursson kosinn forseti ráðsins næsta starfsár. Hann þakkaði í upphafi þann trúnað sem sér hefði verið sýndur með kjörinu, þakkaði Karin Söder fyrir afburðagóð störf og bauð þingfulltrúa og aðra tengda þingstarfinu velkomna. Hann skýrði frá skipun skipulagsnefndarinnar og lagði í því sambandi áherslu á að Norðurlandaráð væri skipað fulltrúum kjörnum af þjóðþingunum og að sjálfstæði landsdeildanna mætti því ekki skerða. Hann kvað aukið samstarf flokkahópanna í Norðurlandaráði til bóta en sagði mikilvægt að sú aukning yrði ekki til þess að áhrif landsdeildanna minnkuðu. Hann kvaðst ekki sjá ástæðu til að breyta Helsinki-samningnum þannig að hann næði til samstarfs um bein utanríkis- og varnarmál. Hins vegar gæti Norðurlandaráð ekki horft fram hjá þeim breytingum sem ættu sér stað í nágrannalöndunum og samstarf um mengunarmál og þróun Evrópumálanna væri í eðli sínu alþjóðlegt og Norðurlandaráð væri þegar farið að sinna þeim málaflokkum. Hann fjallaði í ræðunni um breytingarnar í Austur-Evrópu og ákvörðun forsætisnefndar að senda nefnd til Moskvu og Eystrasaltsríkjanna. Hann minnti á aukið vægi umhverfismála í alþjóðasamstarfi bæði á norrænum vettvangi og í samstarfi ríkja í austri og vestri.
    Næstur tók til máls Júlíus Sólnes, formaður norrænu ráðherranefndarinnar, og talaði fyrir ársskýrslu hennar. Hann tók upp þróun mála í Vestur- og Austur-Evrópu og norrænt samstarf á þeim vettvangi. Hann kvað fyrirhugaðan samning um Evrópskt efnahagssvæði milli Evrópubandalagsins og EFTA-ríkjanna aldrei mundu taka gildi fyrr en 1. janúar 1993. Því þyrftu Norðurlandaríkin ekki að bíða eftir niðurstöðum samningsviðræðanna ef unnt væri að ná betri árangri á norrænum vettvangi, svo lengi sem niðurstöðurnar stríddu ekki gegn því sem unnið væri að á evrópskum vettvangi. Hann kvað sérstaklega mikilvægt að vinna áfram að auknum réttindum þeirra sem flytja milli norrænna landa og nefndi sérstaklega ráðherranefndartillöguna um norrænan vinnumarkað fyrir fólk sem hlotið hefur æðri menntun sem veitir starfsréttindi. Næst á dagskrá ráðherranefndar kvað hann vera norrænan vinnumarkað fyrir fólk með skemmri menntun sem veitir starfsréttindi.
    Hann kvað samstarf að umhverfismálum vera forgangsverkefni og minnti á að átta af þeim tólf ráðherranefndartillögum, sem fyrir þinginu lægju, snertu að einu eða öðru leyti umhverfismál. Hann skýrði frá efni ráðherranefndartillagnanna og upplýsti síðan að ráðherranefndin hefði ákveðið með hliðsjón af ráðstefnu Norðurlandaráðs um mengun sjávar að kanna í samstarfi við ýmsar alþjóðlegar stofnanir hvort rétt sé að kalla saman alþjóðlega ráðstefnu um hlutverk þeirra alþjóðasamninga sem í gildi eru á þessu sviði.
    Hann skýrði frá ákvörðuninni um norrænt umhverfisár og þakkaði forseta Íslands, frú Vigdísi Finnbogadóttur, fyrir að hafa tekið að sér formennsku hinnar norrænu stjórnarnefndar ársins.
    Hann kvað NORDJOB- og NORDPLUS- verkefnin mikilvæg vegna þess að þau stuðluðu að kynnum ungs fólks af norrænu samstarfi. Hann skýrði frá samþykkt norrænu ráðherranefndarinnar um að NORDJOB-verkefnið væri rekið á vegum Norrænu félaganna með 2,5 milljóna danskra króna árlegum fjárstuðningi frá ráðherranefndinni.
    Hann kvað NORDPLUS hafa fengið afar góðar viðtökur bæði háskólanema og kennara og minnti á að Norðurlandaráð hefði lengi óskað slíks samstarfs. Á árinu 1989 hefði svo NORDPLUS-Junior farið af stað, nemendaskiptasamstarf fyrir kennara og nemendur á framhaldsskólastigi.
    Hann skýrði frá því að norrænu fjárlögin fyrir 1990 væru að upphæð 678 milljónir danskra króna og að það þýddi 3% raunhækkun frá fyrra ári, en frá og með 1991 væri ekki hægt að reikna með sjálfvirkri raunhækkun fjárlaganna.
    Hann kvað það skoðun sína að ætíð yrði þörf fyrir starfsemi eins og þá sem rekin er af Norðurlandaráði, hver sem þróunin yrði í Evrópu. Máli sínu til stuðnings benti hann á Benelux-samstarfið.
    Að ræðu Júlíusar lokinni tók til máls Karin Söder sem skýrði frá starfsemi forsætisnefndar. Að ræðu hennar lokinni tóku til máls fulltrúar flokkahópanna, Bjarne Mørk Eidem fyrir flokkahóp sósíaldemókrata, Gustav Björkstrand fyrir flokkahóp miðflokkamanna, Anders Talleraas fyrir flokkahóp hægri manna og Hjörleifur Guttormsson fyrir flokkahóp vinstri sósíalista. Hjörleifur kvað Norðurlandaráð standa á krossgötum og aðstæður á meginlandi Evrópu vera að gjörbreytast. Hann kvað eðlilegt að verja þeim fjármunum, sem spöruðust við minnkaða vopnaframleiðsla, til umhverfismála, aðallega í Austur-Evrópu, og til efnahagsaðstoðar við þjóðir þriðja heimsins. Í ljósi breyttra aðstæðna í heiminum kvað hann nú auðveldara að koma á norrænu samstarfi um utanríkis- og öryggismál og því ætti að breyta reglum Norðurlandaráðs til að unnt væri að taka slík mál á dagskrá þar.
    Hann kvað samninga um Evrópskt efnahagssvæði mundu geta veikt norrænt samstarf. Norrænu þjóðirnar vissu líka of lítið um þessar samningaviðræður, en slíkir samningar mundu hafa í för með sér víðtækan flutning valds frá þjóðþingunum til yfirþjóðlegra stofnana. Hann kvað þetta valda flokkahópi vinstri sósíalista áhyggjum. Hann lagði til að aukaþing yrði haldið haustið 1990 um Norðurlönd og Austur-Evrópu.
    Hann kvað menn nú fyrst vera farna að sýna umhverfismálunum þann áhuga sem þau ættu skilið og lýsti samstarfinu um þau. Einnig kvað hann slys sovéskra kjarorkukafbáta á liðnu ári hafa vakið athygli manna á hættunni á kjarnorkumengun hafanna sem sífellt vofði yfir. Ætíð væri og hætta á mengun frá endurvinnslustöðvunum í Sellafield og Dounreay í Skotlandi.
    Þá tók til máls Jan P. Syse, forsætisráðherra Noregs. Hann fjallaði um samskipti Norðurlandaráðs við ríki Austur-Evrópu og kvað ráðið hafa tekið skynsamlega á tillögum Gorbatsjovs. Ekki mætti gleyma að hlutverk ráðsins væri fyrst og fremst að auka og styrkja samstarf norrænu ríkjanna innbyrðis. Utanríkismálum ríkjanna væri ekki á sama veg farið, og varðandi umfjöllun í Norðurlandaráði um utanríkis- og varnarmál ætti að fylgja ákvæðum Helsinki - samningsins. Þó væri rétt að auka samskiptin við lýðræðisöflin í ríkjum Austur-Evrópu.
     Steingrímur Hermannsson, forsætisráðherra Íslands, nefndi í upphafi ræðu sinnar þær breytingar sem orðið hefðu á alþjóðavettvangi við afvopnunarviðræðurnar, aukið lýðræði í Austur-Evrópu og fall Berlínarmúrsins. Hann kvað aðild að Evrópubandalaginu ekki koma til greina fyrir Íslendinga, þeir væru ákveðnir í að ráða sjálfir auðlindum sínum.
    Hann kvað Norðurlönd hafa hlutverki að gegna til aðstoðar þjóðum Austur-Evrópu, t.d. þyrftu þær mikla aðstoð á sviði mengunarvarna. Íslendingar sem hefðu næga vatnsorku gætu í auknum mæli tekið að sér framleiðslu orkufrekra iðnaðarvara og stuðlað þannig að minnkun brúnkola- og olíunotkunar. Hann skýrði frá áformum um stofnun umhverfisráðuneytis á Íslandi og minnti á að umhverfismál kæmu öllum þjóðum við. Í lok ræðu sinnar kvað hann Íslendinga vona að samstarf Norðurlanda mundi ekki dragast saman þrátt fyrir þær breytingar sem fyrir dyrum stæðu. Norrænt samstarf bæri að styrkja.
     Poul Schlüter, forsætisráðherra Danmerkur, kvað Norðurlandaráð hafa verið stofnað við allt aðrar aðstæður en nú réðu í Evrópu þar sem breytingarnar hefðu verið gífurlegar. Því sagði hann að þjóðir Norðurlanda ættu að þekkja sinn vitjunartíma og sú stund væri runnin upp er Norðurlönd ættu að taka fullan þátt í þróuninni í Evrópu. Evrópa hefði þörf fyrir Norðurlönd og Norðurlönd þörf fyrir bæði Austur- og Vestur-Evrópu. Verðugt verkefni næstu ár væri að vinna að auknum samskiptum allra þjóða við Eystrasalt.
    Hann kvað því ekki vera að leyna að norrænt samstarf næstu ár yrði ekki eins kraftmikið og áður. Það hefði undanfarið ekki verið nógu kraftmikið, enda hefði hinn pólitíski vilji verið of veikur. Enn hefði t.d. ekki tekist að ryðja úr vegi viðskiptahindrunum milli landanna. Löngu hefði átt að vera búið að skapa raunverulegan norrænan heimamarkað fyrir vinnuafl, vörur og þjónustu, en menn hefðu ekki verið tilbúnir og væru það víst ekki enn þá. Nú væri það pólitískur vilji utan Norðurlanda sem stjórnaði ferðinni. Hann taldi það vafalaust að ríki Austur-Evrópu gerðust aðilar að Evrópubandalaginu og þá gætu Norðurlönd ekki staðið fyrir utan.
     Harri Holkeri, forsætisráðherra Finnlands, minnti á að öryggismál hefðu ekki verið á dagskrá Norðurlandaráðs og kvað það ekki mundi breytast, en Evrópuumræður færu þar auðvitað fram. Um þróunina í Evrópu kvað hann ríkja óvissu og því væri ástæðulaust fyrir Finnland að breyta afstöðu sinni. Hlutleysi væri til hagsbóta fyrir þjóðina nú, en hlutleysið væri þó ekki óumbreytanlegt ástand. Hann kvaðst þess fullviss að rúm væri fyrir norrænt samstarf í Evrópu framtíðarinnar.
     Ólafur G. Einarsson kvað Norðurlandaráðsþing ætíð blása lífi í umræðuna um norrænt samstarf í því ríki sem þingið væri haldið í. Þetta ætti e.t.v. helst við um Ísland þar sem 1.000 manna þinghald færi ekki framhjá neinum. Sú umræða þyrfti og endurnýjunar við í ljósi breyttra aðstæðna í Evrópu, falls kommúnismans í Austur-Evrópu og samningaviðræðnanna um Evrópskt efnahagssvæði. Þær raddir heyrðust meðal norrænna stjórnmálamanna að norrænt samstarf yrði þýðingarminna í ljósi þessara breyttu aðstæðna, en það væri ekki rétt. Jafnmikilvægt yrði í framtíðinni að standa vörð um sameiginlega menningararfleifð norrænu þjóðanna og ekki mætti slaka á kröfunum. Hann kvað því ómögulegt að samþykkja niðurskurð fjárveitinga til norrænna stofnanna um 10 hundraðshluta.
    Hann kvað það ekki fara fram hjá Íslendingum að æ erfiðara væri fyrir íslenska námsmenn að fá inngöngu í norræna háskóla utan heimalandsins og að samningurinn um Norðurlönd sem sameiginlegt vegabréfasvæði væri í hættu. Þetta vekti ugg um að ríkisstjórnir landanna mætu norrænt samstarf í raun minna en opinberlega væri viðurkennt.
    Hann kvað samstarf í flokkahópum í Norðurlandaráði mikilvægt, en ekki mætti breyta reglum Norðurlandaráðs þannig að allar ákvarðanir yrðu teknar þar. Það gæti t.d. leitt til þess að ekki þætti í framtíðinni nauðsynlegt að öll ríkin ættu fulltrúa í forsætisnefnd eða fastanefndum ráðsins.
     Páll Pétursson kvað menn nú spyrja sig hver þróun norræns samstarfs yrði næsta áratug og hvort Norðurlandaráð yrði til árið 2010. Ekki kvað hann unnt að svara þessum spurningum örugglega játandi. Margir Norðurlandabúar væru svo uppteknir af Evrópuþróuninni að þeir vildu ekki leggja næga áherslu á norrænt samstarf. Í fyrirsjáanlegri framtíð væri það alveg vafalaust að aðild að Evrópubandalaginu væri Íslandi ekki hagstæð. Ekki væri hægt að ganga lengra en að eiga aðild að samningum EFTA við Evrópubandalagið. Hann kvað Íslendinga óska fríverslunar einnig með fisk og fiskafurðir en ekki geta samþykkt án fyrirvara frjálsa flutninga fjármagns, vinnuafls og þjónustu.
    Hann kvað Dani ganga of langt í að leggja sífellt til að norrænu ríkin fjögur, sem standa utan Evrópubandalagsins, sæktu um aðild. Slíkt væri hverju ríki í sjálfsvald sett.
    Hann kvað nauðsynlegt að styrkja Norðurlandaráð, aukið starf flokkahópanna væri jákvætt en rétt landsdeildanna mætti ekki skerða.
    Í lok ræðu sinnar átaldi hann Færeyinga og Grænlendinga fyrir að heimila laxveiðar í hafi og kvað Íslendinga árangurslaust hafa reynt að semja við þá og nú væri vitað að lax væri veiddur ólöglega utan fiskveiðilögsögu Íslands og Færeyja.
     Jón Sigurðsson iðnaðarráðherra kvað nú nauðsyn að marka norrænu samstarfi stefnu. Spurt væri hvort norrænt samstarf hefði hlutverki að gegna næsta áratug í ljósi aukins samstarfs EFTA-ríkjanna og Evrópubandalagsins. Hann kvað norrænt samstarf einnig hafa mikilvægu hlutverki að gegna í framtíðinni og minnti á að Danmörk hefði verið aðili að Evrópubandalaginu í 18 ár. Sérstaklega benti hann á mikilvægi norræns samstarfs á sviði rannsókna og þróunar. Það þyrfti að gefa Norðurlöndum þá ímynd að þau væru framleiðendur gæðavara, það þyrfti að styrkja samkeppnisaðstöðu norræns atvinnulífs og því hefðu iðnaðarráðherrar landanna samþykkt tvær samstarfsáætlanir á þessu sviði.
    Hann kvað Norðurlönd standa framarlega varðandi tækniþróun á sviði mengunarvarna og á því sviði væru bæði góðir heimamarkaðir og útflutningsmöguleikar. Því bæri sérstaklega að fagna ráðherranefndartillögu um stofnun norræns fjárfestingarfélags fyrir umhverfisfjárfestingar í Austur-Evrópu.
    Norrænt samstarf á sviði orkumála kvað hann í vaxandi mæli beinast að umhverfisþáttum orkuframleiðslunnar. Hann kvað á dagskrá að tengja norrænt samstarf á sviði orkumála nánar starfi Evrópubandalagsins á því sviði. Hann kvað norrænt samstarf nú standa frammi fyrir mikilvægum verkefnum og þar bæri hæst aðlögun að breytingum á fjármagnsmarkaðnum. Norræn fyrirtæki þyrftu aðgang að fjármagni og fjármagnsþjónustu á sömu kjörum og samkeppnisaðilar þeirra. Því væri mikil áhersla lögð á þessi atriði í norrænu samstarfsáætluninni um efnahagsmál.
     Óli Þ. Guðbjartsson dóms- og kirkjumálaráðherra hóf ræðu sína með frásögn af heimsókn Havels til Íslands og minnti í því sambandi á þá þróun í átt að lýðræði sem orðið hefði í Austur-Evrópu. Hann kvað það ætíð hafa verið eitt aðalverkefni Norðurlandaráðs að styrkja grundvöll þjóðfélagsuppbyggingarinnar á Norðurlöndum og lýðræðið væri ein aðalundirstaða þess og þannig mundi það ætíð vera. Hann kvað umhverfismál og þróunina í Evrópu hafa verið aðalverkefni Norðurlandaráðs undanfarin ár og Norðurlandaráð hentaði vel fyrir þá mikilvæga umfjöllun.
     Svavar Gestsson menntamálaráðherra sagðist hafa sagt fyrir ári síðan, þegar hann hefði tekið við formennsku í norrænu ráðherranefndinni, að hann mundi leggja höfuðáherslu á fjögur atriði, stofnun norræns kvikmyndasjóðs, gerð samstarfsáætlunar um tungumálasamstarf á Norðurlöndum, samþykkt nýrra reglna fyrir norræna vísindaráðið og NORDPLUS-áætlunina. Á öllum þessum sviðum kvað hann góðan árangur hafa náðst. Hann sagði þá hröðu þróun, sem átt hefði sér stað í Evrópu, vekja nýjar vonir um bættan heim og möguleika, en jafnframt þyrfti að gæta þess að skerpa ekki andstæður milli norðurs og suðurs og milli iðnríkjanna og þriðja heimsins. Hann lagði til að þessu fordæmi yrði fylgt og markmið sett í upphafi hvers tímabils. Hann kvað afar mikilvægt að taka ákvörðun um stofnun norrænnar menningar- og menntamiðstöðvar í Nuuk. Fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands gæti hann stutt slíka stofnun og lagði eindregið til að hinar ríkisstjórnirnar gerðu slíkt hið sama, enda væri sterkur vilji fyrir því á Grænlandi.

6. Tillögur lagðar fram af fulltrúum í Íslandsdeild á tímabilinu frá lokum 38. þings    Norðurlandaráðs til loka ársins 1990.
     Hjörleifur Guttormsson var fyrsti flutningsmaður þingmannatillögu um mat á þjóðarframleiðslu með tilliti til umhverfisþátta og náttúruauðlinda og aukið norrænt samstarf um tölfræði um umhverfismál.
     Hjörleifur Guttormsson var meðflutningsmaður þingmannatillögu um menningarsamstarf milli Norðurlandaþjóða og þjóða Austur-Evrópu og Sovétríkjanna.
     Hjörleifur Guttormsson var meðflutningsmaður þingmannatillögu um stuðning við alþjóðasamstarf og lýðræðisþróunina í Austur-Evrópu.
     Hjörleifur Guttormsson var meðflutningsmaður þingmannatillögu um aukið samstarf um umhverfismál milli Norðurlanda og Austur-Evrópu og Sovétríkjanna.
     Hjörleifur Guttormsson var meðflutningsmaður þingmannatillögu um þjóðfélagsformið á Norðurlöndum sem framtíðarmarkmið.
     Hjörleifur Guttormsson var meðflutningsmaður þingmannatillögu um framtíð Eystrasaltssvæðisins.
     Sighvatur Björgvinsson var meðflutningsmaður þingmannatillögu um samræmda stefnu á Norðurlöndum um samgöngu- og flutningamál.
     Sighvatur Björgvinsson var meðflutningsmaður þingmannatillögu um samræmingu rannsókna um samgöngu- og flutningamál.
     Hreggviður Jónsson var meðflutningsmaður þingmannatillögu um að gæði tölvukerfa í stjórnsýslunni séu tryggð og eftirlit haft með lögmæti þeirra.
     Valgerður Sverrisdóttir var meðflutningsmaður þingmannatillögu um samstarf um landbúnaðarmál milli þjóða Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna.
     Ólafur G. Einarsson og Páll Pétursson voru meðflutningsmenn þingmannatillögu um bætt skipulag norræns samstarfs.
     Ólafur G. Einarsson og Páll Pétursson voru meðflutningsmenn þingmannatillögu um áætlun um samstarf Norðurlanda eftir 1992.
     Sighvatur Björgvinsson var meðflutningsmaður þingmannatillögu um samstarf stéttarfélaga í fjölþjóðafyrirtækjum á Norðurlöndum.
     Hjörleifur Guttormsson var meðflutningsmaður þingmannatillögu um samstarf náttúragripasafna á Norðurlöndum.
     Hjörleifur Guttormsson var meðflutningsmaður þingmannatillögu um bindandi samstarf um umhverfismál á Eystrasaltssvæðinu.
     Páll Pétursson og Hjörleifur Guttormsson voru meðflutningsmenn þingsmannatillögu um samstarf við Eystrasaltsríkin um samgöngu- og flutningamál.
     Jón Kristjánsson var meðflutningsmaður þingmannatillögu um að komið verði á kerfi sem geri stjórnmálamönnum í Eystrasaltsríkjunum kleift að kynna sér störf þjóðþinganna á Norðurlöndum.
     Ólafur G. Einarsson var meðflutningsmaður þingmannatillögu um bætta umferðarkennslu í grunnskólum og um símenntun á því sviði.
     Ólafur G. Einarsson var meðflutningsmaður þingmannatillögu um fjármögnun rannsókna á Norðurlöndum á ósonlaginu.

7. Fyrirspurnir bornar fram af fulltrúum í Íslandsdeild á starfsárinu.
    Á 37. þingi Norðurlandaráðs bar Hjörleifur Guttormsson fram fyrirspurn til norrænu ráðherranefndarinnar um fyrirhugaða endurvinnslu kjarnorkuúrgangs í Dounreay í Skotlandi.
    Þann 19. desember sl. bar Hjörleifur Guttormsson fram fyrirspurn til ríkisstjórnar Svíþjóðar um það hvort sænska ríkisstjórnin mundi leyfa að kjarnorkuúrgangur frá kjarnorkuverinu í Studsvik verði sendur til endurvinnslu í endurvinnslustöðinni í Dounreay í Skotlandi.