Ferill 120. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 120 . mál.


Nd.

611. Nefndarálit



um frv. til l. um brottnám líffæra og krufningar.

Frá heilbrigðis- og trygginganefnd.



    Nefndin hefur fjallað ítarlega um frumvarpið. Á fund nefndarinnar komu Björn Björnsson prófessor, Páll Ásmundsson yfirlæknir og Páll Sigurðsson ráðuneytisstjóri. Umsagnir bárust frá biskupi Íslands, Prestafélagi Íslands, Læknafélagi Íslands, læknaráði Landakotsspítala, læknaráði Borgarspítala, landlækni, læknaráði Landspítala, Árna Kristinssyni yfirlækni, guðfræðideild Háskóla Íslands, læknadeild Háskóla Íslands, Rannsóknastofnun Háskóla Íslands í siðfræði, Hjúkrunarfélagi Íslands og Félagi háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga.
    Nefndin er sammála um að flytja nokkrar breytingartillögur við frumvarpið en engin þeirra breytir efni þess verulega.
     Í fyrsta lagi er lagt til að líffæragjafa sé tryggður réttur til að ráðfæra sig við annan lækni en lækni þess sem þiggur líffærið.
    Í öðru lagi er lagt til að sömu læknar og staðfesta andlát skuli meta hvort brottnám líffæra geti haft áhrif á niðurstöður réttarkrufingar ef framkvæma þarf.
    Í þriðja lagi leggur nefndin til að skýrt verði kveðið á um að réttarkrufningar falli ekki undir ákvæði þessara laga um krufningu, enda af öðrum toga spunnin. Ákvæði um réttarkrufningu eru í 7. gr. laga nr. 42/1913, um mannskaðaskýrslur og rannsókn á fundnum líkum, sbr. reglugerð nr. 24/1936 og 106. gr. laga nr. 74/1974, um meðferð opinberra mála, þótt hugtakið réttarkrufning sé ekki notað í lögunum. Hins vegar er hugtakið notað í reglugerð nr. 24/1936 þar sem er að finna leiðbeiningar um réttarlæknisskoðun á líkum.
    Að lokum leggur nefndin til að læknir hins látna, sbr. orðalag í 3. mgr. 5. gr. frumvarpsins, verði látinn meta hvort líkur séu til að réttarkrufningar verði krafist.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 8. febr. 1991.



Guðmundur G. Þórarinsson,


varaform., frsm.

Anna Ólafsdóttir Björnsson,


fundaskr.

Geir Gunnarsson.


Helga Hannesdóttir.

Ragnhildur Helgadóttir.

Geir H. Haarde.


Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir.