Ferill 356. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 356 . mál.


Sþ.

624. Skýrslafulltrúa Íslands í þingmannanefnd Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA.

I. ALMENN STARFSEMI ÞINGMANNANEFNDAR EFTA


    Þingmannanefndin hefur á sl. ári einkum unnið að tveimur verkefnum:
    að fylgjast með samningagerð EFTA og Efnahagsbandalags Evrópu, EB, um myndun Evrópska efnahagssvæðisins, EES, og í því sambandi sérstaklega huga að hlutverki þingmanna EFTA-ríkjanna,
    að koma á samstarfi við þær þjóðir í Austur-Evrópu sem tekið hafa upp lýðræðislega stjórnarhætti, en EFTA vinnur nú að aðstoð þeim til handa varðandi efnahagslega uppbyggingu.
    Í þingmannanefnd EFTA eiga sæti af Íslands hálfu þeir Matthías Á. Mathiesen og Jón Sæmundur Sigurjónsson, en ritari er Þórður Bogason lögfræðingur, starfsmaður nefndadeildar skrifstofu Alþingis.

1.      Aukið samstarf við EFTA-ráðið.
    Á fundi sínum í desember 1989 ákvað ráðherraráð EFTA að haldnir skyldu sameiginlegir fundir með þingmannanefndinni og staða þingmanna þannig styrkt innan samtakanna þar sem ráðið taldi nauðsynlegt að leitað væri álits þingmannanefndarinnar í öllum meiri háttar málum sem vörðuðu samtökin. Ráðherraráðið hvatti til áframhaldandi funda þingmannanefndarinnar og þingmanna Evrópuþingsins og lagði áherslu á að þingmannanefndin kæmi sjónarmiðum EFTA-ríkjanna á framfæri við þingmenn EB. Á þessu ári hafa verið haldnir þrír sameiginlegir fundir EFTA-ráðherra og nefndarinnar og einn fundur með formanni EFTA-ráðsins og þingmannanefndinni. Fundarefnið hefur í fyrsta lagi verið væntanlegur samningur um EES og í öðru lagi samskipti EFTA og ríkja í Austur-Evrópu.

2.      Janúarfundur.
    Í janúar hélt nefndin undirbúningsfund fyrir fund sinn með EFTA-ráðherrum í byrjun apríl. Á þeim fundi var rætt hvernig samstarfi þingmanna EFTA og EB innan EES gæti verið háttað í framtíðinni og gerð voru drög að bréfi þingmannanefndarinnar til formanns EFTA-ráðsins. Í bréfinu var gert ráð fyrir sérstöku þingmannaráði EES þar sem þingmenn gætu komið sjónarmiðum sínum á framfæri áður en ákvarðanir yrðu teknar.

3.      Aprílfundur.
    Á fundi nefndarinnar í byrjun apríl var rætt um málefni Austur-Evrópu, auk þess sem
ákveðið var að áheyrnarfulltrúar gætu setið fundi nefndarinnar væri þess óskað. Á sama tíma var haldinn fundur með EFTA-ráðherrum. Umræður á þeim fundi snerust að mestu leyti um hugsanlegt þingmannaráð innan EES. Ekki var nein samþykkt gerð um fyrirkomulag þessa málaflokks.

4.      Aðalfundur þingmannanefndarinnar.
    Aðalfundur þingmannanefndarinnar fór fram í Vínarborg í maí og tók Austurríkismaðurinn dr. Peter Jankowitsch, fyrrverandi utanríkisráðherra, við formennsku í nefndinni af Ingvari Melin frá Finnlandi, en annar fulltrúi Íslands, Matthías Á. Mathiesen, tók við varaformennsku. Fundur nefndarinnar fór að mestu í umræður og undirbúning fyrir fundi nefndarinnar með fulltrúum Evrópuþingsins og þingmönnum frá Austur-Evrópu sem fram fóru næstu tvo daga á eftir.

a.      Fundur með fulltrúum frá Evrópuþinginu.
    Umræður um EES-samningagerðina voru helsta dagskrárefnið og einkenndust þær nokkuð af skoðanamun sem er milli Evrópuþingsins og framkvæmdastjórnar EB um áhrif Evrópuþingsins innan EB.

b.      Sameiginlegur fundur með þingmönnum EB og þingmönnum frá Tékkóslóvakíu, Júgóslavíu, Ungverjalandi, Póllandi og Austur-Þýskalandi.
    Meira en fimmtíu þingmenn frá EFTA-ríkjum, EB og Austur-Evrópu komu saman til þess að ræða þau mál sem helst voru á döfinni í Evrópu. Var þetta söguleg stund því að eins og fram kom í upphafsræðu formanns þingmannanefndarinnar var þetta í fyrsta skipti sem lýðræðislega kjörnir þingfulltrúar þessara landa komu saman. Umræður spunnust aðallega um ástand mála í hinum nýfrjálsu ríkjum Austur-Evrópu og hvaða aðgerðir væru nauðsynlegar til þess að rétta efnahag þeirra við. Greint var frá þeim áætlunum sem bæði EFTA og EB hafa til þess að veita þessum ríkjum efnahags- og þróunaraðstoð.

c.      Fundur með þingmönnum frá Tékkóslóvakíu, Júgóslavíu, Ungverjalandi, Póllandi og Austur-Þýskalandi.
    Á fundinum flutti Birgir Árnason frá EFTA fyrirlestur um fríverslun í Austur-Evrópu. Kom fram sú skoðun að enn væri langt í land með að Austur-Evrópuþjóðir gætu tekið upp fríverslun að fullu. Ákveðið var að halda samstarfi við þingmenn frá þessum ríkjum áfram og var næsti fundur þingmannanefndarinnar með þeim ákveðinn 4. 5. febrúar í Genf. Þangað var einnig boðið fulltrúum EB.

5.      Heimsókn í boði ungverska þingsins til Búdapest.
    Í beinu framhaldi af aðalfundi nefndarinnar bauð ungverska þingið fulltrúum úr þingmannanefndinni til Búdapest til þess að kynnast þeim umbótum sem hafa átt sér stað í landinu. Var ferðin vel heppnuð, en þetta er í fyrsta sinn sem þingmenn frá aðildarríkjum EFTA heimsækja land utan samtakanna í nafni EFTA ef frá eru taldir fundir með þingmönnum EB.

6.      Gautaborgarfundurinn, 30 ára afmæli EFTA.
    Í tilefni 30 ára afmælis EFTA var haldinn sérstakur hátíðarfundur samtakanna. Á sameiginlegum fundi ráðherraráðs EFTA og þingmannanefndarinnar snerust umræðurnar um EES og hlutverk þjóðþinganna. Vegna fjarveru formanns var Matthías Á. Mathiesen varaformaður í forsvari fyrir þingmannanefndinni. Gerði hann grein fyrir störfum þingmannanefndarinnar og vék sérstaklega að þýðingu þjóðþinga EFTA-ríkjanna varðandi afgreiðslu á væntanlegum samningi EFTA og EB um EES.
    Á fundi þingmannanefndarinnar var rætt sérstaklega um ályktanir sem Evrópuþingið hafði nýverið samþykkt um samskipti við EFTA, svokallaða Rossetti-skýrslu frá REX-nefnd Evrópuþingsins (the European Parliament's Committee on External Economic Relations) og Jepsen-skýrslu stjórnmálanefndar þingsins (European Parliament's Political Affairs Committee). Willy de Clercq, formaður REX-nefndarinnar, kom á fund nefndarinnar og útskýrði afstöðu þingmanna EB.

7.      Fundur formanna þingmannanefndarinnar með formönnum stjórnmálaflokka á Evrópuþinginu.
    Formaður, varaformaður og fráfarandi formaður þingmannanefndarinnar fóru til Strassborgar 11. júlí til fundar við formenn stjórnmálaflokka á Evrópuþinginu. Voru sjónarmið EFTA-þingmanna kynnt en einungis var um kynningar- og könnunarviðræður að ræða.

8.      Októberfundur.
    Nefndin hitti ráðherra EFTA-ríkjanna í þriðja skipti á árinu og hélt samhliða sinn eiginn fund. Sérstaklega var farið yfir hugmyndir varðandi hlutverk þingmanna innan EES sem fjallað hafði verið um hjá samninganefnd EFTA.

9.      Nóvemberfundur.
    Fundað var í Lúxemborg og var einnig haldinn fundur með þingmönnum EB þar sem enn var rætt um samninga um EES og skipst á skoðunum við þá. Jón Sæmundur Sigurjónsson sat fundinn af hálfu íslensku sendinefndarinnar og tók þátt í umræðum. Hann lagði m.a. ríka áherslu á sérstöðu Íslands, en fram kom skilningur nokkurra þingmanna EB á því sjónarmiði.

10.          Desemberfundur.
    Fundur var í nefndinni og jafnframt með formanni EFTA-ráðsins, J.P. Delamuraz. Rætt var um GATT-viðræður og EES-samningana. Greint var frá stöðu samninganna sem síðan var staðfest á fundi ráðherra EFTA og EB 19. desember 1990.

II. VINNUHÓPUR UM ENDURSKOÐUN Á HLUTVERKI


NEFNDARINNAR (DAGSKRÁRNEFND)


    Í hópnum eiga sæti tveir fulltrúar frá hverju landi. Verkefni hópsins eru nátengd störfum nefndarinnar, en á aðalfundi nefndarinnar var ákveðið að breyta vinnuhópnum í fasta undirnefnd sem hefur það meginhlutverk að undirbúa fundi þingmannanefndarinnar og vinna nánar að verkefnum milli funda. Nefndin kallast dagskrárnefnd (agenda committee). Nefndin hefur haldið fundi samhliða fundum þingmannanefndarinnar, auk þess sem aukafundur var haldinn í september til undirbúnings haustfundum aðalnefndarinnar.

III. VINNUHÓPUR UM FISK OG UNNIN MATVÆLI


         Að undanförnu hefur hópurinn einkum beint sjónum að landbúnaðarvörum og umhverfisvernd. Fundur vinnuhópsins í janúar 1990 fjallaði um þau málefni.
    Íslandsdeild þingmannanefndarinnar bauð til fundar í vinnuhópnum í apríl og var sá fundur haldinn í Reykjavík. Var hann að mestu nýttur til þess að kynna fyrir þingmönnum fiskvinnslu á Íslandi og þá sérstöðu sem hún skipar í efnahagslífi þjóðarinnar. Einnig var landbúnaður á Íslandi kynntur og þau umhverfisáhrif sem hann hefur. Fyrirlesarar voru Sverri Haukur Gunnlaugsson sendiherra, Magnús Gunnarsson frá SÍF, Jónas Jónsson búnaðarmálastjóri og Ingvi Þorsteinsson frá Rala.
    Í byrjun nóvember var haldinn þriðji fundur vinnuhópsins. Fór hann fram í aðalstöðvum OECD í París þar sem sérfræðingar stofnunarinnar héldu fyrirlestra um störf hennar tengd sjávarútvegi, landbúnaði og umhverfisvernd.

IV. ÖNNUR STARFSEMI


    Þann 13. nóv. 1990 bauð Norðurlandaráð til ráðstefnu sem bar heitið „The role of Parliamentarians in the new European architecture“. Þar var rætt um framtíðarhlutverk þingmanna í Evrópu með tilliti til hinna miklu og öru breytinga sem átt hafa sér stað. Jón Sæmundur Sigurjónsson var einn fulltrúa þingmannanefndar EFTA á ráðstefnunni.

V. STARFIÐ Á ÁRINU 1991


    Finnska þingið bauð til ráðstefnu þingmanna um samvinnu á Eystrasaltssvæðinu (Parliamentary Conference on Co-operation in the Baltic Sea Area) dagana 7. 9. janúar sl. Var Matthías Á. Mathiesen á ráðstefnunni fyrir þingmannanefnd EFTA og flutti þar ræðu. Þar kom m.a. fram að stofnun Eystrasaltsráðs, sem í ættu sæti þingmenn ríkja á svæðinu, mundi ekki einungis styrkja samvinnu í þessum hluta Evrópu, heldur verða til þess að styrkja lýðræði og áhrif þjóðkjörinna fulltrúa í álfunni allri nú þegar vonast væri til að tímar samvinnu og sameiningar færu í hönd.
    Dagana 4. 5. febrúar 1991 hélt þingmannanefnd EFTA ráðstefnu þingmanna frá EFTA-ríkjunum, EB og lýðræðisríkjum Austur-Evrópu þar sem fjallað var um þróun samstarfs ríkja í Evrópu. Bar ráðstefnan heitið: Europe in Transition from Co-operation to Intergration. Til ráðstefnunnar var einnig boðið fulltrúum tíu alþjóðastofnana sem starfa í Evrópu. Fulltrúar Austur-Evrópuríkjanna fjögurra lýstu ástandi efnahagsmála í sínum ríkjum. Öll þessi ríki eiga við verulegan efnahagsvanda að etja og kom fram ósk þeirra eftir aðstoð Vestur-Evrópuríkja, bæði fjárhagslegri sem og tæknilegri.
    Á fundi þingmannanefndarinnar, sem haldinn var 4. febrúar sl., var Herbert Schmidtmeier frá Austurríki kosinn formaður nefndarinnar í stað dr. Peter Jankowitsch en hann tók sæti í ríkisstjórn Austurríkis í desember 1990.
    Þingmannanefnd EFTA og REX-nefnd hafa ákveðið að stofna vinnuhóp til að kanna hvernig samstarfi þingmanna EFTA og EB innan EES gæti verið háttað og er einnig búist við þátttöku fulltrúa frá stjórnmálanefnd Evrópuþingsins í vinnuhópnum.
    Á sumri komanda 18. 20. júní verður aðalfundur þingmannanefndar EFTA haldinn hér landi og mun Ísland þá taka við formennsku í nefndinni. Auk EFTA-þingmanna koma á fundinn þingmenn frá Evrópuþinginu og er von á að hugmyndir um samstarf þingmanna innan EES verði orðnar mótaðar þá þar sem ráðgert er að samningaviðræður verði á lokastigi næsta sumar.

Alþingi, 11. febr. 1991.Matthías Á. Mathiesen.

Jón Sæmundur Sigurjónsson.