Ferill 374. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 374 . mál.


Sþ.

658. Skýrsla



um 6. fund Vestnorræna þingmannaráðsins árið 1990.

Frá Íslandsdeild Vestnorræna þingmannaráðsins.



    Árlegur fundur Vestnorræna þingmannaráðsins var á síðasta ári haldinn í Þórshöfn í Færeyjum 3. 5. september. Fundinn sóttu alls sextán þingmenn frá Færeyjum, Grænlandi og Íslandi. Karin Kjölbro, þingmaður í Færeyjum, tók við formennsku í ráðinu til eins árs af Árna Gunnarssyni. Af Íslands hálfu sátu fundinn Árni Gunnarsson, Birgir Ísl. Gunnarsson, Hreggviður Jónsson, Málmfríður Sigurðardóttir og Ásgeir Hannes Eiríksson.
    Þetta er í annað sinn sem ráðið heldur fund sinn í Færeyjum og var þess minnst í setningarræðu fráfarandi formanns að einmitt í Færeyjum hefði hugmyndin að vestnorrænu þingmannaráði fæðst hjá Erlendi Paturssyni. Ráðið var formlega stofnað í Nuuk á Grænlandi árið 1985 og hefur haldið fundi árlega síðan.
    Aðalefni fundarins að þessu sinni var: Hvar stöndum við; hvert ætlum við? Fram kom talsverð óánægja með hversu seint og illa samþykktir ráðsins næðu fram að ganga. Ræðumenn voru þó allir sammála um nauðsyn þess að halda störfum ráðsins áfram, en einhverjar ráðstafanir þyrfti að gera til að þau yrðu markvissari og farið væri að samþykktum ráðsins. Fram kom tillaga um að bjóða ráðherrum setu á fundum ráðsins sem áheyrnarfulltrúum í því skyni að þeir yrðu betur upplýstir um það sem þar færi fram, en sú tillaga var ekki samþykkt. Hins vegar var samþykkt að formenn landsnefnda ásamt riturum hittust einu sinni milli aðalfunda og yrði samstarfsráðherrum boðið til þeirra funda. Enn hefur þó ekki verið ákveðið hvar eða hvenær fundur verður haldinn.
    Í almennu umræðunum bar umhverfisvernd einna hæst og þá sérstaklega nauðsyn þess að halda hafinu umhverfis okkur hreinu og ómenguðu. Löndunum þremur bæri að keppa að því að vinna ötullega að ræktun og verndun náttúru á landsvæðum sínum. Þá varð einnig talsverð umræða um þær breytingar sem nú eiga sér stað á meginlandi Evrópu og hvernig Færeyjar, Grænland og Ísland geti best unnið að sameiginlegum hagsmunamálum sínum, sér í lagi eftir 1992.
    Árni Gunnarsson setti þingið og sagði í ræðu sinni að nú væri unnið að því að hrinda samþykktum ráðsins í framkvæmd af ráðherrum landanna og sagði að Vestnorræna þingmannaráðið væri orðið stofnun sem hefði mikla möguleika á að hafa áhrif á gang mála, en það tæki tíma. Hann nefndi að samþykkt ráðsins frá 1988, sem ítrekuð var á fundinum í Stykkishólmi 1989, um að löndin þrjú komi sameiginlega á fót skrifstofu er samræmi það starf sem þegar er verið að vinna að við mælingar á mengun á vestnorrænum hafsvæðum, hefði vakið mikla athygli og m.a. hefði sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi kynnt tillöguna í heimalandi sínu og íslenski utanríkisráðherrann hefði lagt fram tillögu innan NATO-ráðsins um afvopnun á höfunum. Sagði hann alvarlegar umræður í gangi og vonaðist til að sjá mætti árangur þeirra innan fárra mánaða.
    Málmfríður Sigurðardóttir lagði í ræðu sinni út af orðum skáldsins „föðurland vort hálft er hafið“ og minnti á að íbúar vestnorrænu landanna gerðu sér betur grein fyrir því en flestir aðrir hversu lífsnauðsynlegt það væri að halda náttúru landsins hreinni. Verndun hafsins væri stórmál fyrir þessar þjóðir og vísaði hún til samþykkta ráðsins frá 1988 og 1989 þar sem skorað er á landsstjórnir Færeyja og Grænlands og ríkisstjórn Íslands að þær geri allt sem í þeirra valdi stendur til að beita stórveldin þrýstingi í því skyni að flýta afvopnun á Norður-Atlantshafi. Þá mælti Málmfríður fyrir tillögu sem Íslandsdeild flutti þar sem ráðið fer þess á leit við ríkisstjórn Íslands og landsstjórnir Færeyja og Grænlands að þær hafi frumkvæði að samningu námsefnis um samfélagsaðstæður, menningu og lífsskilyrði í Færeyjum, á Grænlandi og Íslandi til notkunar í skólum landanna í því skyni að auka upplýsingar og gagnkvæma kynningu þeirra þjóða sem byggja þessi lönd.
    Birgir Ísl. Gunnarsson sagði í ræðu sinni að allra mikilvægasta verkefni Vestnorræna þingmannaráðsins væri hvernig löndin, hvert í sínu lagi og þau saman, gætu varðveitt dýrmæt fiskimið sín. Nefndi hann í þessu sambandi fjögur atriði sem ráðið ætti að ræða sérstaklega: 1) verndun fiskstofna, 2) nýtingu þessara náttúruauðlinda, 3) mengunarvarnir og 4) hvernig löndin gætu sameiginlega mætt þeim miklu breytingum sem nú eiga sér stað í Evrópu. Hann minnti á baráttu Íslendinga og Færeyinga fyrir nýtingu hvalastofna og Grænlendinga fyrir nýtingu sels og sagði þessar þrjár þjóðir hafa sýnt að þær væru ábyrgar og ættu sjálfar að ákveða hvernig þær nýttu auðlindir sínar innan ramma alþjóðlegra laga. Birgir sagði einnig æ mikilvægara að vera á verði gegn mengun hafsins. Nefndi hann sérstaklega í því sambandi kjarnorkuendurvinnslustöðina í Dounreay í Skotlandi og sagði nauðsynlegt að stjórnvöld gerðu allt sem í þeirra valdi stæði til að vinna gegn fyrirhuguðum áætlunum um flutning kjarnorkuúrgangs þangað.
    Hreggviður Jónsson sagði að efnahagsleg samvinna landanna þriggja þyrfti að aukast. Í því sambandi þyrfti t.d. að fækka takmörkunum á tollum og minnti á tillögu sem liggur fyrir Alþingi um landanir færeyskra og grænlenskra fiskiskipa á Íslandi. Sagði hann að fiskiðnaður væri stærsta og mikilvægasta málefnið sem löndin þrjú ættu að vinna að. Hvatti hann þjóðirnar til að vinna sameiginlega að markaðsmálum fyrir fiskafurðir sínar og það sama gilti raunar um landbúnaðarafurðir. Sagði hann að ráðið ætti að leggja höfuðáherslu á aukna samvinnu á sviði sjávarútvegs og nýtingar auðlinda hafsins, sér í lagi með tilliti til þess sem nú væri að gerast í Evrópu. Hreggviður talaði einnig um nauðsyn þess að auka samvinnu á sviði ferðamála og kvaðst fylgjandi meira samstarfi á sviði íþróttamála. Vildi hann að athugað yrði hvort ekki væri möguleiki á stofnun sjóðs til styrktar íþróttamálum sem m.a. veitti fé til ferðalaga ungmenna milli landanna.
    Vestnorræna þingmannaráðið samþykkti á fundi sínum þrjár tillögur forsætisnefndarinnar, þ.e. 1) að skrifstofa Norðurlandaráðs í Reykjavík yrði skrifstofa Vestnorræna þingmannaráðsins, 2) að hvert ár yrðu haldnir aukafundir í forsætisnefndinni með þátttöku samstarfsráðherranna og 3) að formenn sendinefndanna beri ábyrgð á að árlegum ályktunum sé komið á framfæri.
    Þá var lögð fram til umræðu tillaga um að kallað verði til vestnorrænnar ráðstefnu til þess að fjalla um fiskvinnslu og samvinnu á sviði útflutnings. Í máli framsögumanns nefndarinnar, sem flutti tillöguna, kom fram að hugmyndin á bak við flutning hennar væri að sjávarútvegsráðherrar landanna ræddu málið á fundum sínum og tækju afstöðu til hvort af þess háttar ráðstefnu gæti orðið.
    Loks ber að nefna að stefnt er að því að árið 1992 verði sérstakt vestnorrænt ár samkvæmt tillögu sem samþykkt var á fundi Vestnorræna þingmannaráðsins í Stykkishólmi 1989. Ráðgert er að halda þrjár ráðstefnur, eina í hverju landi, um umhverfismál á Grænlandi, æskulýðsmál í Færeyjum og jafnréttismál á Íslandi.
    Ályktanir 6. fundar Vestnorræna þingmannaráðsins og yfirlýsingar verða fluttar í formi þingsályktunartillögu á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 15. febr. 1991.



Árni Gunnarsson.

Málmfríður Sigurðardóttir.

Hreggviður Jónsson.


Margrét Frímannsdóttir.

Alexander Stefánsson.