Ferill 370. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 370 . mál.


Ed.

769. Nefndarálit



um frv. til l. um ráðstafanir vegna aflabrests í loðnuveiðum.

Frá 2. minni hl. sjávarútvegsnefndar.



    Með frumvarpi þessu er lagt til að tekjutap loðnuflotans vegna aflabrests í loðnuveiðum verði bætt með tvennum hætti. Annars vegar með því að veita sjávarútvegsráðherra tímabundna heimild til að ráðstafa til loðnuskipa að hluta eða öllu leyti veiðiheimildum Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins, alls 8.000 þorskígildislestum. Hins vegar með því að úthluta tímabundið 5.000 lesta viðbótarafla af úthafsrækju til loðnuflotans.
    Með frumvarpinu er því gerð tilraun til að mæta vanda loðnuflotans, en ekki er tekið á þeim atvinnuvanda og tekjumissi sem bæði landverkafólk og einstök byggðarlög standa frammi fyrir.
    Í lögum nr. 40 frá 15. maí 1990, um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins, er markmiðið með stofnun sjóðsins skilgreint í 1. gr. laganna sem hér segir: „að stuðla að aukinni hagkvæmni í útgerð og koma til aðstoðar byggðarlögum er standa höllum fæti vegna breytinga á útgerðarháttum“.
    Annar minni hl. getur tekið undir þetta markmið og minnir á að þingkonur Kvennalistans hafa lagt áherslu á að tekið verði fyllsta tillit til byggðasjónarmiða við mótun fiskveiðistefnunnar. Í samræmi við þá stefnu sína lögðu kvennalistakonur fram breytingartillögur við frumvarp til laga um stjórn fiskveiða bæði á 110. löggjafarþingi og aftur er núgildandi lög voru afgreidd sl. vor.
    Með stofnun Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins örlar aðeins á viðurkenningu stjórnvalda á þeim sjónarmiðum Kvennalistans að nauðsynlegt sé að gera byggðasjónarmiðum hærra undir höfði við úthlutun veiðiheimilda.
    Þegar frumvarp þetta var lagt fram höfðu skapast óvenjulegar aðstæður vegna aflabrests loðnuflotans og sá sjávarútvegsráðherra ástæðu til að bregðast við vandanum með þeim hætti sem frumvarpið gerir ráð fyrir og hér hefur verið lýst. Með frumvarpinu er sjávarútvegsráðherra veitt tímabundin heimild til að víkja frá því ákvæði laganna um Hagræðingarsjóð þar sem segir í 1. gr.: „ . . . Sjóðurinn skal koma til aðstoðar í einstökum byggðarlögum með því að efla vinnslu sjávarfangs á þeim stöðum þar sem straumhvörf hafa orðið í atvinnulífi vegna sölu fiskiskipa . . . “ Frumvarpið gerir hins vegar ráð fyrir að sjávarútvegráðherra úthluti eftir atvikum öllum veiðiheimildum sjóðsins til loðnuflotans eingöngu.
    Annar minni hl. getur ekki samþykkt að veiðiheimildum Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins verði eingöngu úthlutað til flotans án þess að um leið sé reynt að leita leiða til að leysa vanda landverkafólks og byggðarlaga eins og lögin kveða á um. Jafnframt varar 2. minni hl. við því að sjávarútvegsráðherra verði veitt heimild til að tæma Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins í þessu skyni og útiloka þar með að unnt reynist að taka á vanda einstakra byggðarlaga sem upp kann að koma á árinu.
    Í ljósi þess sem hér hefur verið lýst og með hliðsjón af stefnu Kvennalistans í sjávarútvegsmálum leggur 2. minni hl. fram breytingartillögu við 1. gr. frumvarpsins. Breytingartillagan felur í sér að sjávarútvegsráðherra verði ekki heimilt að úthluta meira en 6.000 þorskígildislestum úr Hagræðingarsjóði sjávarútvegsins og að þeim verði úthlutað til byggðarlaga en ekki einstakra skipa.
    2. gr. frumvarpsins gerir ráð fyrir að rækjukvóta verði úthlutað beint til loðnuflotans og gerir 2. minni hl. að svo stöddu ekki athugasemdir við að komið verði til móts við loðnuflotann með þeim hætti.
    Verði breytingartillaga 2. minni hl. samþykkt mun hann styðja frumvarpið.

Alþingi, 1. mars 1991.



Danfríður Skarphéðinsdóttir,


fundaskr.