Ferill 370. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 370 . mál.


Ed.

770. Breytingartillaga



við frv. til l. um ráðstafanir vegna aflabrests í loðnuveiðum.

Frá Danfríði Skarphéðinsdóttur og Guðrúnu J. Halldórsdóttur.



    Við 1. gr. Greinin orðist svo:
    Á fiskveiðitímabilinu 1. janúar til 31. ágúst 1991 er sjávarútvegsráðherra heimilt að ákveða með reglugerð að allt að 6.000 þorskígildislestum af aflaheimildum samkvæmt ákvæði til bráðabirgða I í lögum nr. 40 15. maí 1990, um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins, skuli ráðstafað án endurgjalds til þeirra sveitarfélaga sem verða fyrir beinum tekjumissi vegna aflabrests á loðnu.
    Ráðherra skal skipta þessum heimildum í ákveðnu hlutfalli milli sveitarfélaga sem miðist við meðaltal landaðrar loðnu í viðkomandi sveitarfélagi sl. þrjú ár.
    Skylt er að landa þeim afla, sem úthlutað er samkvæmt þessari heimild, til vinnslu í viðkomandi byggðarlagi, sbr. ákvæði í 1. mgr. 9. gr. laga nr. 40/1990, um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins.
    Sveitarstjórnir, sem fá úthlutað aflaheimildum samkvæmt þessari grein, skulu við ráðstöfun þeirra til skipa setja skilyrði sem miði að því að tryggja starfsfólki loðnuverksmiðja atvinnu við vinnslu aflans.