Kosning forseta og skrifara
Þriðjudaginn 14. maí 1991


     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Ég þakka hæstv. aldursforseta fyrir árnaðaróskir í minn garð. Enn fremur þakka ég hv. alþm. það traust sem þeir hafa sýnt mér með þessu kjöri og ég vænti þess að eiga við þá gott samstarf.
    Fyrir þessu aukaþingi liggja mikilvæg mál er varða stjórnskipun landsins og starfshætti Alþingis. Það er því mikið í húfi að vel takist til og gifta fylgi störfum okkar. Það er von mín og ósk að sú samstaða og eindrægni sem ríkt hefur við undirbúning þeirra mála endist okkur til loka þannig að þessari æðstu stofnun þjóðarinnar, Alþingi Íslendinga, sé sómi að.
    Á þessu þingi mun ný ríkisstjórn kynna stefnumál sín og umræður verða um þau. Það er einlæg von mín að stjórn og stjórnarandstaða geti treyst réttlátri fundarstjórn úr þessum stóli þótt sjónarmið til þjóðmála kunni stundum að verða með ólíkum hætti.