Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Það hlýtur að vera skilningur þeirra sem gengu frá þessum lögum á sínum tíma að það sem ekki væri hægt að gera á 2. fundi bæri þá að gera á 3. fundi, en ekki hitt að með afbrigðum væri hægt að breyta lögunum og kippa út heilum greinum langan tíma. Mér þætti fróðlegt að fá upp hjá forseta hvar sú lögskýring hefur farið fram að það sé hægt með munnlegum tillöguflutningi um afbrigði að breyta þingsköpum á þann veg. Ég tel það sjálfgefið að sá frestur sem hér er verið að tala um sé aðeins til næsta fundar í Sþ.
    Jafnframt vil ég vekja athygli hæstv. forseta á því að það er ekki vandi þingsins mestur ef ekki er kosið í utanrmn. Það er vandi ríkisstjórnarinnar. Hún brýtur þá lög. Hún hefur þá ekki samráð við nefndina einfaldlega vegna þess að nefndin er ekki starfandi. Og það er nú ekki beysin byrjun að byrja á því að brjóta lög. Ég tel þess vegna að það hljóti að vera umhugsunarefni hvort það er slíkt kappsmál að geyma í töskunni hjá Jóni Baldvini, hæstv. utanrrh., hvort sem hún er nú á vísum stað eða ekki þessa stundina, þessi gögn eða að utanrmn. fái þau til aflestrar.