Stjórnarskipunarlög
Miðvikudaginn 15. maí 1991


     Björn Bjarnason :
    Herra forseti. Ég vildi í tilefni af þeim umræðum sem hér eru um breytingar á stjórnarskránni, frv. til stjórnarskipunarlaga, sem snýst að meginhluta um það að ein deild verði tekin upp hér í þinginu, fá að ræða þau mál aðeins, stjórnarskipunarlögin, en ekki sérstaklega hitt frv., sem kemur hér til frekari umræðu í deildinni á síðari stigum, frv. til laga um þingsköp Alþingis, þótt fyrir því hafi einnig verið mælt, ef þannig mætti að orði komast, í máli frsm. hér áðan.
    Mér finnst ánægjulegt að þing skuli hafa verið kallað saman með svo skömmum fyrirvara til að fjalla um þessa miklu breytingu sem nú verður, ef þessi frv. ná fram, á störfum þingsins og skipan þingsins.
    Fræðimenn voru á sínum tíma þeirrar skoðunar að það mætti rekja deildaskiptingu hér í þinginu til þeirrar skiptingar sem var á Alþingi hinu forna þar sem annars vegar var lögrétta og hins vegar Lögberg og töldu að þessi deildaskipting endurspeglaði þá skiptingu sem var á hinu forna Alþingi. Síðan hefur verið sýnt fram á að þessi skipting á ekki þær djúpu sögulegu rætur heldur má rekja hana til þeirrar skipunar og þeirra hugmynda sem menn höfðu um skipan stjórnmála og þjóðfélagsmála um miðja síðustu öld þegar menn voru annars vegar kjörnir til starfa á þingi og hins vegar hafði ríkisvaldið hönd í bagga með skipan manna í þau störf sem við gegnum hér. Til þeirrar skipanar og þeirra hátta má rekja þessa deildaskiptingu. Ég tel að þróunin í tímans rás hafi verið með þeim hætti að það sé eðlilegt að standa að málum eins og gert hefur verið með því frv. til stjórnarskipunarlaga sem hér liggur fyrir og það sé skynsamleg ráðstöfun að fella þingið í eina deild og breyta skipan þess í samræmi við það og taka upp þá starfshætti sem hér er mælt fyrir um.
    Að öðru leyti fjallar frv. til stjórnarskipunarlaga m.a. um breytingar á 28. gr. stjórnarskrárinnar varðandi útgáfu á bráðabirgðalögum þar sem tekið er mið af því að nú á þingið að sitja í raun og veru allt árið. Því er ekki slitið og það er ekki hægt þess vegna að tala um að atburðir gerist á milli þinga heldur þegar Alþingi er ekki að störfum. Ég held að það sé mjög brýnt að það komi fram í umræðu um þennan lið, þessa 6. gr. í frv. til stjórnarskipunarlaga, að með þessu líta menn þannig á að það sé verið að þrengja möguleika ríkisvaldsins til að gefa út bráðabirgðalög. Eins og menn vita sem hafa kynnt sér sögu ákvæðisins í 28. gr., þá hefur túlkun á því rýmkað í tímans rás og menn hafa talið sig hafa meira frelsi heldur en var talið í upphafi til að gefa út bráðabirgðalög. Ég tel að það hafi keyrt úr hófi á sl. sumri þegar ríkisstjórnin gaf út bráðabirgðalögin vegna kjaradeilnanna við BHMR. Ég tel að sú viðleitni sem kemur fram í frv. og það orðalag og þær breytingar sem menn hafa rætt hér um eigi að stuðla að því að þrengja kost ríkisvaldsins ekki síst með hliðsjón af þeim atburðum sem hér gerðust á sl. sumri.
    En mér finnst nauðsynlegt að það komi fram í umræðum að þessi skilningur er lagður í þessa breytingu

því eins og stjórnarskrárgreinin verður orðuð eftir þessa breytingu þá er látið í vald ríkisvaldsins og ríkisstjórnarinnar að túlka hana en það er, eins og hér hefur komið fram áður, ætlunin að þrengja þetta vald og það verði gert í framkvæmd einnig og tekið mið af því sem fram kemur í umræðum hér um það mál.
    Þetta voru þau tvö atriði sem ég vildi nefna hér sérstaklega. Ég ætla ekki að blanda mér í deilur um 15. gr. frv., þar sem er rætt um hvenær reglulegar alþingiskosningar skuli fara fram. Mér er ekki kunnugt um efni þeirra deilna sem urðu hér í þessari hv. þingdeild á sl. vetri um þetta mál. En ég get tekið undir það að orðalagið er ekki eins skýrt og æskilegt væri. Það væri æskilegt, eins og hér hefur komið fram, að fá á því frekari skýringar hvernig þetta liti út. Hér hefur komið fram að það væri æskilegt að fá um þetta lögfræðiálit. Ég held að það mætti einnig fá álit sérfræðinga í almanaksfræðum sem gætu útskýrt fyrir manni hvernig þetta liti út miðað við þær dagsetningar sem við störfum eftir samkvæmt þeim kosningum sem nú eru nýafstaðnar og fóru fram 20. apríl sl.
    Ég verð að viðurkenna að ég áttaði mig aldrei á því hvernig fyrrv. ríkisstjórn og fyrrv. meiri hluta hér á Alþingi datt í hug að það yrði unnt að efna til kosninga 11. maí miðað við ákvæði stjórnarskrárinnar um þingrof og annað slíkt miðað við kjördag, þá gat ég aldrei skilið hvernig mönnum kom til hugar að það yrði unnt að framlengja kjörtímabilið til 11. maí eins og um var rætt hér á sínum tíma. En ég tek undir það að 15. gr. er ekki afdráttarlaus og ekki skýr og það væri æskilegt að menn skoðuðu það og ræddu og áttuðu sig á því nákvæmlega hvað í henni felst, en efni málsins samkvæmt er ekki hægt að breyta henni miðað við framgang málsins.
    Ég verð að lýsa þeirri skoðun minni að mér finnst ákaflega einkennilegt það orðalag sem kemur fram í frv. um þingsköpin þar sem miðað er við að lengd svara við skriflegum fyrirspurnum eigi að miða við þann tíma sem það tekur að lesa ákveðinn texta. Ég hef í störfum mínum sem blaðamaður kynnst ýmsum reglum sem gilda um það hvað greinar eigi að vera langar en ég hef aldrei heyrt nokkurn mann varpa fram þeirri reglu að það eigi að taka ákveðinn tíma að lesa textann og það eigi að mæla lengd ritaðs máls eftir þeim tíma sem það tekur að lesa textann. Ég tel því að til þess að þetta sé skýrt og ótvírætt þá eigi frekar að miða hreint og beint við ákveðinn blaðsíðufjölda og segja nákvæmlega hvað textinn eigi að vera langur í blaðsíðum talið en ekki miða við það hvað menn eru lengi að lesa texta eða svara fyrirspurnum almennt. Ég veit ekki hvort það hefur verið mælt hér á hinu háa Alþingi hvað ráðherrar eru almennt lengi að svara fyrirspurnum og síðan talið út hvað það eru margar ritaðar blaðsíður þannig að mér finnst að ef menn vilja hafa einhverjar slíkar reglur til takmörkunar þá eigi að miða við ákveðinn blaðsíðufjölda en ekki hvað það tekur langan tíma að lesa ákveðinn texta.
    Ég tek undir það sjónarmið að það sé skynsamlegt að huga að því hvort ekki eigi að setja sérstaka stjórn

yfir Ríkisendurskoðun sem þingið kýs eða velur eða forsætisnefndin eða hvernig sem að því máli yrði staðið.
    Varðandi húsnæðismálin þá verð ég einnig að lýsa undrun yfir því að það mál skuli yfirleitt vera hér á dagskrá með þeim hætti sem fram hefur komið í ræðum manna að þeir séu enn að velta því fyrir sér að kaupa Hótel Borg. Ég hélt að það mál hefði nú verið með þeim hætti fyrir hið háa Alþingi að það væri tímabært að snúa sér að öðru heldur en að ræða það hér í þingsölum hvort kaupa eigi Hótel Borg. Það er búið að selja það Reykjavíkurborg, eins og fram hefur komið, og það eru uppi áform um að endurreisa húsið, ef ég mætti þannig komast að orði, og hafa þar hótel hér í miðbænum og einnig jafnvel að byggja við það og gera aðrar ráðstafanir á þessu svæði sem eigi að tryggja að í miðbænum verði starfrækt glæsilegt hótel. Mér finnst því að það sé eins og að snúa klukku til baka í umræðum um húsnæðismál Alþingis að ætla að fara að ræða um það hér eða deila um hvort Alþingi eigi að kaupa Hótel Borg eða ekki og menn eigi að líta á aðra þætti.
    Við sem erum nýir hér í þinginu höfum fengið tækifæri til þess að fræðast m.a. um húsakost þingsins hjá starfsmönnum þingsins og kynnast þeirri aðstöðu sem menn hafa. Ég verð nú að segja að miðað við það að koma hér í fyrsta sinn og hafa heyrt umræður þingmanna um það við hve bág húsnæðiskjör þeir búa þá kom það mér þægilega á óvart hve víða er þó vel að mönnum búið og mér finnst að það eigi ekki að draga upp of dökka mynd af því. Auðvitað er æskilegt og það mundi sparast fé og sparast margt við það ef allir þingmenn gætu haft skrifstofur á sama stað og þannig yrði staðið að málum að skrifstofur þingmanna yrðu allar í sömu byggingunni. En mér finnst kannski vegna þess hvernig oft hefur verið um þetta talað og maður hefur heyrt umræður um það hvað illa sé að þinginu búið þá kom það mér þægilega á óvart að sjá þá aðstöðu sem okkur þingmönnum er búin.