Þingsköp Alþingis
Miðvikudaginn 15. maí 1991


     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Breytingar á þingsköpum Alþingis eru ekki einungis það að verið sé að breyta fundareglum þings þótt þá eina skýringu gefi Orðabók Menningarsjóðs á orðinu þingsköp, heldur verður einnig og ekki síður breyting á þeim aðstæðum sem þingi eru skapaðar til starfs. Starf þingsins getur auk þess skapað flestum þegnum samfélagsins skilyrði til lífs og starfs á jákvæðan og neikvæðan hátt.
    Margt er gott í því frv. sem hér liggur fyrir. Má þar ekki síst nefna að ef vel tekst til þá ættu störf þingsins í einni málstofu að geta orðið markvissari en nú er raunin í tveimur deildum. En jafnframt skiptir þá sköpum að nefndum verði gefinn kostur á að fjalla ítarlegar um frumvörp í nefndum sem og á þingi í hinni einu málstofu heldur en nú hefur á tíðum verið svigrúm til. Þetta er ekki síst brýnt þar sem ein nefnd fjallar nú um mál sem fengu áður umfjöllun í tveimur nefndum, í efri og neðri deild. Svigrúm til þess að vísa máli til nefndar í 3. umr. eins og fram kemur í 40. gr. frv. er því af hinu góða og ætti að geta tryggt vandaðri vinnubrögð við umræður ef brtt. koma fram á síðasta stigi málsins. Því miður hefur það viljað bera við að önnur deildin hefur orðið að leiðrétta mál, jafnvel augljós mistök sem hafa orðið í hinni deildinni og er þá fyrst og fremst tímaskorti um að kenna. Ég vona að með nýrri skipan þings muni ekki verða þörf á að leiðrétta frumvörp eftir á en ég bendi á að því aðeins að skilyrði séu góð til ítarlegrar og góðrar umfjöllunar veigamikilla mála er hægt að búast við slíku.
    Ég vil sérstaklega lýsa ánægju minni með ákvæði 56. gr. þessa frv. þar sem gefinn er kostur á að gera stuttar athugasemdir strax á eftir ræðum í umræðum eftir sérstökum reglum. Ég tel að umræður verði markvissari og betri og jafnvel að þarfar ábendingar geti komið fram í umræðu frekar en nú er og tek ég undir orð hv. 1. flm. þessa frv. er hann gerði grein fyrir þessu.
    Einnig sýnist mér að ákvæði 49. gr., þar sem sérstakur fyrirspurnatími er leyfður, sé af hinu góða, þ.e. annars konar fyrirspurnatími heldur en nú er við lýði, þar sem munnlegar fyrirspurnir um málefni líðandi stundar verða heimilaðar.
    Ég tel einnig til bóta að allar nefndir starfi nú í raun allt árið, en samkvæmt þingsköpum og frv. til stjórnarskipunarlaga verður það í reynd mögulegt.
    Breytingar á störfum fjárlaganefndar, eins og fjvn. mun væntanlega verða nefnd í framtíðinni, og aukið samstarf við aðrar nefndir þingsins lofa góðu ef vel tekst til um framkvæmdina. Auðvitað er á vissan hátt verið að fara hér nýja braut og það þarf áreiðanlega að vanda vel til þessarar samvinnu. Í öllu samstarfi þarf að gera málamiðlanir. Við kvennalistakonur höfum þurft að teygja okkur æði langt til þess að taka þátt í flutningi þessa frv., þá aðeins í stökum efnum. En þar sem ýmislegt er til bóta í frv. tökum við þó heils hugar þátt í flutningi þess og munum að sjálfsögðu styðja þetta frv. Helstu galla á frv. teljum við

vera að enn er þrengt að málfrelsi þingmanna umfram það sem áður hefur verið gert, t.d. með því að takmarka ræðutíma í lengri utandagskrárumræðu. Hömlur á tímalengd þingskapaumræðu eru einnig settar. Við teljum þær óþarflega strangar en sættum okkur þó fremur við þær.
    Nú þegar Alþingi er að hefja störf í einni málstofu, ef allur gangur verður á þann veg sem vænta má, þá er sérlega brýnt að takmarka ekki málfrelsi þingmanna. Sem betur fer hefur verið horfið frá því að veita framkvæmdarvaldinu, þ.e. forsrh., möguleika til að stytta ræðutíma þingmanna enda hefði slíkt verið mjög óeðlilegt. Ég hygg að flestum þyki nóg um það hve framkvæmdarvaldið hefur seilst inn á svið löggjafarvaldsins og jafnvel, þótt ég vilji ekki endilega taka undir þau orð eða vona að þau séu ekki rétt, þá hafa sumir kveðið svo fast að orði að segja að þingið sé í rauninni ekki annað en afgreiðslustofnun ráðuneyta. Við megum ekki við slíku orðspori og við megum ekki við slíku stjórnvaldi. Vonandi er að reisn og völd þingsins verði þau sem sómasamlegt er og sjálfstæði þess gagnvart framkvæmdarvaldinu tryggt.
    Við kvennalistakonur höfum sett stranga fyrirvara við stuðning okkar við 2. mgr. 50. gr. frv. Við hefðum að sjálfsögðu frekar viljað geta breytt þessari grein. Ég hef nú þegar skýrt að þetta er vegna þess að við viljum ekki að málfrelsi verði takmarkað meira en nú er. Ég vil þó gleðjast yfir því að fyrirspyrjandi í fyrirspurnatíma, munnlegum, hefðbundnum fyrirspurnatíma, hefur nú þrjár mínútur til umráða í stað tveggja áður. Við kvennalistakonur hefðum að vísu viljað ganga lengra og færa til eldra horfs þar sem meira svigrúm gafst í fyrirspurnatíma, en okkur þykir þetta þó viðurkenning á því að tvær mínútur hafi ekki dugað. Ég held að margir þekki það.
    Að lokum þykir mér rétt að taka fram eftirfarandi varðandi stjórn þingsins: Mjög mikilvægt er að ábyrgð á stjórn þingsins sé í sem bestu samkomulagi allra þingmanna og að hlutur minni hlutans sé þar virtur til að sem mest reisn og sem best samstarf verði um stjórn þingsins.
    Ég lít svo á að í 3. gr. sé sá andi ríkjandi að menn vilji geta viðhaft þau vinnubrögð sem samkomulag hefur verið um síðan árið 1971, að tryggja yfirleitt öllum þingflokkum aðild að stjórn þingsins. Þetta samkomulag hefur gefið góða raun og er bent á það í skýringum við þessa grein að þessi leið sé ágætlega fær samkvæmt ákvæðum 3. gr. þótt opið sé að fara samkvæmt þeim ákvæðum á einhvern annan hátt.
    Lýðræði er vandmeðfarið. Í því má aldrei felast að brotið sé á hlut manna, heldur ber meiri hluta og minni hluta, sem getur verið síbreytilegur, að rækja sínar skyldur og hafa sína ábyrgð, með sem bestum friði og með sem mestri staðfestu. Þetta á ekki síst við á þjóðþingum, a.m.k. þjóðþingum þeirra landa sem vilja telja sig lýðræðislönd.
    Alþingi Íslendinga á sér lengsta sögu þjóðþinga. Við höfum hampað því, við höfum verið stolt af því. Saga þess hefur verið misjöfn, sviptingasöm og rofin. En vegur þess í framtíðinni verður væntanlega

fyrst og fremst mannanna verk. Því er mikið í húfi að starfsreglur þess séu sem lýðræðislegastar og sem réttlátastar.