Þingsköp Alþingis
Miðvikudaginn 15. maí 1991


     Jón Kristjánsson :
    Herra forseti. Það hefði nú verið skemmtilegt ef fleiri ráðherrar úr hinni nýju ríkisstjórn heldur en hæstv. iðnrh. hefðu sýnt Alþingi þá virðingu að hlýða á þessa umræðu. Ég geri reyndar enga kröfu til þess en það er greinilegt að hér verður ekki mikil breyting á þó að ný ríkisstjórn sé sest að völdum um viðveru ráðherra. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið enda byggist þetta mál á samkomulagi milli þingflokka. Ég vildi aðeins benda á örfá atriði til skoðunar í þeirri nefnd sem fær málið til meðferðar.
    Tilgangur nýrra þingskapalaga er sá að sjálfsögðu að þingið skili sínum störfum á vandaðan og skilvirkan hátt og að hér sé haft í heiðri málfrelsi og lýðræði og réttur minni hlutans sé tryggður. Þetta er það markmið sem við erum að setja okkur með þeim starfsreglum sem til umræðu eru.
Það er til bóta að stjórnarandstaðan kemur nú með beinum hætti inn í stjórn þingsins. Það er reiknað með því að forsetar skipi stjórn þingsins. En til þessa hefur það eingöngu verið á ábyrgð stjórnarliðsins og varaforsetar hafa verið frá stjórnarandstöðunni eins og kunnugt er og bera ábyrgð að því leyti til.
    Það er samkomulag um 3. gr. og er það málamiðlun. Það hafa heyrst þær raddir að eðlilegt væri að kjósa forsetana hlutfallskosningu og þeir spegluðu valdahlutföllin í þinginu, en þetta hefur orðið niðurstaðan, að fara þá leið sem kveður á um í 3. gr. En það var ekki þetta sem ég ætlaði að leggja aðaláherslu á með því að taka til máls heldur það að allt þetta starf, öll þessi þingskapalög, öll þessi breyting á þinginu, sem við erum að gera og vinna að, stendur og fellur með því að nefndir þingsins fái skilyrði til starfa og starf þeirra verði skilvirkt og vandað. Ef svo er ekki, þá erum við í mikilli hættu með þá breytingu sem hér er gerð að hún skili ekki þeim árangri sem við ætlumst til og þá verði hætta á því ef starf nefndanna verður ekki nógu skilvirkt að við gerum breytingu til hins verra.
    Ég var fylgjandi þeirri stjórnarskrárbreytingu sem hér er gerð. Ég tel að þessi nýja skipan geti verið til mikilla bóta. En hinu mega menn ekki gleyma að hv. þm. verða að vara sig og reyna að búa nefndunum þau starfsskilyrði að þær geti unnið vandaða vinnu.
    Í 23. gr. þessara þingskapalaga er ákvæði um það að hægt sé að vísa máli til nefndar áður en umræðu er lokið, það sé hægt að vísa máli til vinnslu á hverju stigi þess, eins og segir í 23. gr., og sé það gert áður en umræðu er lokið sé henni frestað. Ég tel þetta ákvæði til bóta. Hins vegar finnst mér vanta í þessa grein nánari ákvæði um hvernig á að vísa máli til nefndar áður en umræðu er lokið, hver á að hafa um það frumkvæði og festa það í þessari grein. Þetta er ábending til þeirrar nefndar sem fær málið til meðferðar að fara nánar í framkvæmdaratriði varðandi þessa grein, en efni hennar tel ég til bóta.
    Í 40. gr. eru ákvæði varðandi 3. umr. máls, en samkvæmt þessu nýja skipulagi er 3. umr. máls afar mikilvæg vegna þess að það er síðasta umræðan og þá

á málið ekki eftir að fara milli deilda eins og er nú hvað lagafrumvörp snertir. Þar eru ákvæði um að það eigi að vísa málinu til nefndar ef brtt. er samþykkt. Þetta er til mikilla bóta.
    Það var til umræðu í okkar flokki hvort það væri ekki rétt að í stórmálum, ef ákveðinn hópur þingmanna krefðist þess, væri heimiluð 4. umr. um mál. Hér hefur verið farin önnur leið en eigi að síður vildi ég koma þessari hugmynd hér á framfæri, koma henni til þeirrar nefndar sem fjallar um málið, að hún skoði þá möguleika hvort það sé mögulegt ef málið er stórt og þarfnast mikillar skoðunar að nokkuð stór hópur þingmanna eftir atvikum geti krafist 4. umr. um málið. Mér skilst að um þetta hafi verið gert samkomulag og menn hafi gengið til þess samkomulags að leggja frv. svona fram eins og er í 40. gr.
    Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu öllu meira. Ég tel að þetta mál þarfnist vandlegrar skoðunar í þeirri þingnefnd sem væntanlega verður kosin til þess að fara yfir málið og ég efast ekki um það að sú vinna verður vel af hendi leyst. En ég undirstrika það að við erum að gera hér afdrifaríka breytingu á þingstörfum sem vonandi verður til bóta, sem vonandi verður til þess að gera þingið skilvirkara og til að vinnubrögð verði hér vandaðri. Ég vil enn undirstrika það að aðstaða og starf þingnefndanna er grundvöllur til þess að svo geti orðið.