Þingsköp Alþingis
Miðvikudaginn 15. maí 1991


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil lýsa ánægju minni yfir því að þing skuli komið saman til þess að fjalla um þau frumvörp sem liggja nú fyrir deildum þingsins. Það er ánægjuefni að það var brugðist svo fljótt við eins og raun ber vitni af ríkisstjórn að kveðja þing saman til þess að halda áfram því starfi sem drög voru lögð að á síðasta þingi með undirbúningi þessara mála. Þetta eru einhver mikilverðustu mál sem borið hefur fyrir Alþingi sjálft og varða starfshætti þess um langan tíma og ég sé ástæðu til þess að lýsa yfir fylgi við þá málamiðlun sem hér hefur náðst.
    Þó að ég hefði kannski kosið að sjá eitt og annað með öðrum hætti heldur en hér er gert ráð fyrir, þá sýnist mér samt að hér hafi menn náð saman um mjög þýðingarmiklar breytingar á starfsháttum Alþingis sem geti á heildina litið fært málsmeðferð hér til bóta og bætt svipinn á störfum þingsins. Það verður auðvitað reynslan ein sem skorið getur úr um það hvernig til hefur tekist með þessa smíð og vonandi verður Alþingi ekki svo íhaldssamt að taka mál ekki til leiðréttingar eða breytinga ef sú reynsla verður öðruvísi heldur en vonir eru bundnar við.
    Ég held að þeir þættir, sem varða málsmeðferð á Alþingi, starf þingsins í einni deild og fækkun nefnda til samræmis við það, viðbót að því er varðar nefnd umhverfismála, eigi að horfa til bóta varðandi starfshætti þingsins og ég hef engar áhyggjur af því að mál fari hér í gegn með óvandaðri hætti þó að þau séu afgreidd í einni deild við þrjár umferðir, í trausti þess m.a. að ef einhver glöp verða í sambandi við afgreiðslu mála hér þá verði Alþingi bært til þess og sjái til þess að mál séu tekin upp öðru sinni og leiðrétt, t.d. lagasmíð, ef eitthvað hefur farið úr böndum, öðruvísi en ætlað var, af fljótfærni.
    Ég held að oft á tíðum sé hraðferðin í gegnum þingið sem við þekkjum frá fyrri þingum og varðar skipulag á þingstörfum kannski meginástæðan fyrir því að mál fái ekki þá meðferð sem skyldi, þá efnislegu meðferð og athugun, og það sé meira komið undir því að málum sé hér jafnað niður á þingtímann og það sé sæmilega eðlilegur tími til þess að fjalla um þau heldur en þetta formsatriði hvort þau fara í gegnum þrjár umræður í tveimur deildum sem nú er verið að afnema.
    Ég þekki vissulega dæmi þess eða man eftir dæmum um það að þrátt fyrir þetta, þrátt fyrir þetta sigti, þrátt fyrir þetta öryggiskerfi tveggja deilda þá hafa auðvitað verið afgreidd héðan frv. með agnúum sem augljósir hafa verið jafnvel degi eftir að lögfest hafa verið og þá er að grípa til þeirra ráða sem bær eru, að taka mál upp að nýju eftir því sem reglur leyfa og vilji stendur til.
    Það er starf þingsins, ekki aðeins í einni málstofu og það sem gerist þar innan veggja, heldur enn frekar störfin í þingnefndunum sem skipta afar miklu um það hvernig háttar og hvernig til tekst varðandi störf Alþingis. Ég held að við sem höfum setið hér á nokkrum þingum vitum það og viðurkennum að störf

nefnda þingsins hafa verið langt frá því með þeim hætti sem æskilegt hefði verið varðandi fyrirkomulag og þann tíma sem menn hafa tekið til þess og einnig ögun þingmanna sjálfra í sambandi við nefndastörf. Um það mætti rekja mörg dæmi. Ég ætla ekki að gera það hér en þarna fer auðvitað mjög eftir vilja þingmanna sjálfra, ögun þeirra til starfa og vilja til starfa og þar bæta auðvitað engar formlegar reglur einar sér um. Ég el þó von í brjósti um það að fækkun nefndanna sem hverjum þingmanni verður gert að sitja í, eða gefst kostur á að sitja í, verði til þess að áhugi manna á nefndastörfunum verði meiri en verið hefur því að oft á tíðum hafa menn þurft að sinna nefndastörfum í allt of mörgum nefndum, allt of víða, og hafa þá einnig haft þá möguleika á afsökun á fjarveru sinni án þess að eftir hafi verið gengið vegna þess að þeir séu tepptir í þessari eða hinni nefndinni og hafi því ekki ástæður til þess að sinna fundarboði.
    Þetta horfir vonandi verulega til bóta enda verði nefndunum búin aðstaða, enn betri heldur en hefur tekist til þessa, og vil ég þó taka fram að á undanförnum fáum árum hefur orðið gjörbreyting á starfsaðstöðu nefnda. Fráfarandi forseti Sþ. og forsetar þingsins á síðasta kjörtímabili eiga ómældar þakkir skildar fyrir bættan aðbúnað hér í sambandi við störf nefnda og fleira sem lýtur að starfsháttum þingsins og varða mjög miklu. Ég held að hin nýja forusta þingsins, forsætisnefndin sem tekur við forustu þingsins, þurfi að gæta þess sérstaklega að halda þessu starfi áfram, að búa enn betur að starfi nefndanna og raunar mun betur því að álagið á starfsfólkið hér á Alþingi í mörgum greinum er allt of mikið og óboðlegt með öllu. Það ber síst að horfa í tilkostnað sem lýtur að því að vanda undirbúning og gera þinginu kleift að rækja störf sín með góðum hætti. Þetta varðandi starfsrammann og starfsemina sem fram fer í deildum og í nefndum.
    Ég vildi aðeins víkja að því sem snertir formið varðandi ræður, málfrelsi og annað þess háttar. Ég tel almennt séð að þá eigi að vera mjög rúmt um þá þætti á Alþingi, að það beri að gæta þess að fara mjög varlega í að setja málfrelsi manna skorður í þinginu. Þó er eðlilegt að það sé gert með einhverjum hætti og mér sýnist að þrátt fyrir þær þrengingar sem hér hafa verið gerðar, ef ekki verður gengið lengra í þá veru, þá ættu menn að geta sæmilega við það unað. Kannski er ein mesta skerðingin sem hér er sett, og er nýmæli, varðandi umræður utan dagskrár og ég set vissulega spurningarmerki við: Var þörf á því að fara að binda það í reglur nú að setja þar mörk varðandi hina lengri utandagskrárumræðu? Hefðum við ekki átt að sjá hvernig til hefur tekist í sameinuðu þingi, þ.e. í einni málstofu, án þess að fara í það að setja þennan ramma? En verði þetta niðurstaðan og verði gengið lengra í því að þrengja málfrelsi þingmanna þá tel ég út af fyrir sig eðlilegt að eiga hlut að þeirri málamiðlun sem hér hefur verið gerð með framlagningu þessa frv. og vona að vel geti til tekist.
    Vegna þess sem fram kom hjá hv. 2. þm. Vestf.

sem vildi fá hér reyndan þingmann, þingbróður sinn, í sal til þess að nota hann sem einhvers konar prófraun á þingsköpin. Ég ætla nú ekki að fara að taka upp á neinu slíku. Einhver hefði kannski viljað kalla mig til til að mæla þetta, en menn hafa heyrt mín viðhorf hér. Ég vil benda hv. 2. þm. Vestf. á að það er nú mörg smugan sem hægt er að beita ef menn svo kjósa, einnig innan ramma þeirra þingskapa sem hér eru lögð drög að, ef menn vilja og hafa ástæður til að taka upp umræður við forseta um þingsköp. Þó að hér sé t.d. settur rammi um ákveðna heildarlengd þingskapaumræðu, þá er nú tiltölulega auðvelt að hefja slíka umræðu á nýjan leik, ef ég skil málið rétt, því það segir ekki hér, hafi ég lesið rétt í málið, að það megi aðeins einu sinni á þingfundi eða svo eða einu sinni undir umræðu um viðkomandi mál ræða um slík formsatriði og meðferð mála. Og ætla ég þó ekki að fara að taka að mér neinar sérstakar leiðbeiningar eða kennslu í þessu efni, en ég tel sem sagt að þarna sé niðurstaða sem allir, einnig hæstv. landbrh., ætti að geta við unað þó að það sé hans að svara fyrir um það.
    Auðvitað erum við ekki að sníða þennan ramma fyrir einhverja einstaka þingmenn, hvorki þá sem nú sitja á Alþingi eða í framtíðinni, ekki fyrir tiltekna menn heldur almennt og við eigum að vanda verkið með tilliti til þess alveg sérstaklega. Ég held að þingið þurfi að hafa ákveðið svigrúm og frelsi sem málþing og það eigi alveg sérstaklega að varast að taka það einkenni af þinginu, það er jú þáttur í okkar lýðræði sem ber að vernda og varðveita.
    Eitt er það atriði, virðulegur forseti, sem ég vildi nefna hér áður en ég lýk mínu máli og það er að Alþingi starfi opið. Það skiptir mjög miklu máli að þingið starfi sem opnast gagnvart almenningi og almenningur eigi greiðan aðgang að þinginu og þingmönnum og því sem hér fer fram. Það eru ákvæði hér í þingsköpum, hafa verið í þingsköpum og eru hér í þessu frv., varðandi sjónvarp og útvarp frá Alþingi og það er allt með réttum hætti. Við verðum vör við það hér að það eru kveikt ljósin öðru hvoru hér á þingfundum og það er þá til merkis um það að mönnum finnst að nú sé sjónvarpið komið til leiks og það geti jafnvel borið við að það fjölgi í þingsal ef það berst út fyrir salinn að það sé eitthvað að gerast af því það birtir yfir þingsalnum. Nú held ég að það væri ósköp gott að hafa notalegri lýsingu hér heldur en fylgir þessari sjónvarpsútsendingu í þingsal, það er tæknilegt atriði. En það sem ég vildi nefna er þörfin á að það sé sjónvarpað og útvarpað frá öllum fundum Alþingis. Það sé ekki einhver undantekning að hlustandi utan þings geti fylgst með því sem hér gerist í þingsölum, heldur verði það regla og það verði ríkisfjölmiðlunum sem verði gert, verði sköpuð aðstaða til þess að hafa stöðuga sendingu úr þingsal þannig að a.m.k. á öllum reglulegum fundatímum Alþingis sé útvarpað bæði gegnum hljóðvarp og sjónvarp. Þetta er gert í ýmsum þingum, þessi háttur hefur verið upp tekinn. Mér finnst það vera góð tilbreytni þar sem ég hef haft aðstæður til þess að fylgjast með slíkri umræðu og ég er ekki í vafa um það að slíkt mundi verða til þess að tengja þingið nánari böndum við þjóðina, svo sem vert væri, og jafnvel ekki frá því að það mundi bæta svipinn á störfum Alþingis ef það væri regla að allt sem hér er til umræðu, allt sem hér gerist sé fyrir opnum tjöldum án þess að menn þurfi að sitja hér á áhorfendapöllum til að fylgjast með. Þess vegna vildi ég beina þeim tilmælum til forustu þingsins, bæði nú og í framtíðinni, að þetta verði gert kleift.
    Hér hafa einstakir þingmenn komið með ábendingar og athugasemdir. Allt er það gilt og skoðunarvert. Ég tel þá breytingu sem hv. 2. þm. Norðurl. v. vék hér að varðandi störf fjárlaganefndarinnar væntanlegu og fjh.- og viðskn. eða efnahags- og viðskiptanefndar. Þær breytingar sem eru teknar upp varðandi störf þessara nefnda og alveg sérstaklega sá háttur sem hér á að lögleiða að allar nefndir þingsins, væntanlega, fái hluta af fjárlagafrv. til meðferðar --- því væntanlega varða einhverjir kaflar þeirra allar nefndir sem hér eru lögboðnar --- að það sé eitt af hinum bestu nýmælum þessara breytinga sem hér eru lagðar til. Það er svo annað mál hvernig því megi við koma þannig að allt gangi upp. Það getur vel verið að það reyni nokkuð á að fella þetta nú allt saman. Þess verður auðvitað að gæta að fjárlaganefndin sem ætlað er að stýra þessu starfi hafi eðlilegt svigrúm til þess að vinna og sinna sínu. Þetta sýnist mér vera meira kannski spurning um það hvernig raðað er verkunum á haustþingi sem fjallar um fjárlagagerðina, hversu langan tíma fagnefndirnar svonefndu fá til að fjalla um málin, hversu langur tími er milli 2. og 3. umr., eins og hér er gert ráð fyrir, þar sem fjárlaganefndin þarf auðvitað sitt svigrúm til þess að allt fari bærilega fram.
    Það eru fleiri atriði sem ástæða væri til að ræða hér, virðulegur forseti, en ég ætla ekki að taka tíma til þess. Hér er vettvangur við 1. umr. til að fjalla almennt um mál og við 2. umr. er færi á að ræða frekar þegar þetta hefur verið gaumgæft af þeirri sérnefnd sem hér verður kosin, væntanlega á þessum fundi.
    Ég vil ljúka hér máli mínu með því að þakka þeim mörgu sem hafa lagt til þessa máls á fyrri þingum og í aðdraganda framlags þessa þingmáls fyrir gott verk og vandað, svo sem vera ber. Ég vek athygli á því að í þessu verki eiga ekki aðeins þátt þingmenn heldur hafa reyndir embættismenn á vegum Alþingis komið hér að máli og veitt drjúgt liðsinni til þess að efna í það frv. sem við ræðum hér.