Þingsköp Alþingis
Miðvikudaginn 15. maí 1991


     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil fyrst taka undir það sem hér kom fram hjá hv. þm. Páli Péturssyni að það ber að fagna þeirri víðtæku samstöðu sem virðist vera að skapast um þetta frv. Það eru hins vegar fáein atriði sem ég vildi nefna hér og biðja nefndina að hugleiða.
    Það fyrsta snertir málfrelsi ráðherra hér í þinginu. Ég tók eftir því að hv. þm. Páll Pétursson taldi að ráðherrar ættu þar að vera eins og aðrir þingmenn nema sá ráðherra sem málið snerti. Þetta er að mörgu leyti skiljanlegt sjónarmið en ég held að það sé óframkvæmanlegt í því kerfi sem við búum við. Það er ljóst að forsrh. t.d. þarf iðulega að svara eða blanda sér inn í umræður þegar verið er að fjalla um mál sem snerta fleiri en einn ráðherra í hans ríkisstjórn. Og þó að það sé nú kannski sérkennilegt að ég sé við núverandi aðstæður að hvetja til aukins málfrelsis hæstv. núv. forsrh., þá er það nú engu að síður þannig að ég tel að það geti hindrað störf þingsins mjög og eðlilega umræðu í þinginu ef forsrh. hefur t.d. eingöngu þann rétt að geta talað tvisvar í máli.
    Önnur rök fyrir því að það eigi að gilda sérreglur um ráðherra eru að ríkisstjórnir á Íslandi eru samsteypustjórnir. Það er ekki þannig að flokkarnir í ríkisstjórninni hafi falið viðkomandi fagráðherra að vera talsmaður ríkisstjórnarinnar í heild í viðkomandi málaflokki. Ég held að það geti líka reynst óframkvæmanlegt að ætla sér að leggja þau bönd á ráðherra sem eru fulltrúar annarra flokka en viðkomandi fagráðherra, að þeir verði að beygja sig undir almenna umræðuskilmála einstakra þingmanna. Ég bið nefndina að hugleiða þennan þátt málsins. Kannski hafa þeir gert það sem þetta frv. hafa samið, en fljótt á litið virðist mér þetta geta reynst mjög erfitt í framkvæmd og ekki stuðlað að eðlilegum umræðum hér í þinginu.
    Í öðru lagi vildi ég nefna að hér eru ekki mér vitanlega sérstök ákvæði um umfjöllun um stofnanir Alþingis, þ.e. Ríkisendurskoðun og umboðsmann Alþingis. Ég tel hins vegar að reynslan sýni að það er nauðsynlegt að finna eðlilegri farveg fyrir umfjöllun um skýrslur, ársskýrslur þessara stofnana og einstakar skýrslur þeirra heldur en verið hefur á undanförnum þingum. Þetta eru mál sem er nauðsynlegt að ákveðnar þingnefndir geti fjallað um og kallað þá til sín sérfræðinga utan þings og starfsmenn viðkomandi stofnana og þinginu gerð grein fyrir slíkum athugunum þingsins á viðkomandi skýrslu. Það er óeðlilegt að þingið fái hér bæði ársskýrslur þessara stofnana sem heyra undir þingið og skýrslur um einstök mál án þess að það sé til neinn sérstakur vettvangur annar en þingsalurinn til þess að fjalla um það.
    Í þriðja lagi vildi ég nefna þann rétt sem í frv. er veittur fjárlaganefnd en að mínu viti þyrfti að veita öllum nefndum þingsins, að geta óskað eftir upplýsingum frá opinberum stofnunum og öðrum hliðstæðum stofnunum um þau málefni sem nefndirnar fjalla um. Það er eðlilegt ákvæði um fjárlaganefnd í þessu þingskapafrv. um slíkan rétt til þess að kalla eftir upplýsingum en hann á auðvitað ekki síður við á sviði

hinna einstöku málefnanefnda sem í þessum þingsköpum eru settar upp.
    Þetta vildi ég nefna hér, virðulegi forseti, sem ábendingar til þeirrar nefndar sem um þetta fjallar.