Stjórnarskipunarlög
Fimmtudaginn 16. maí 1991


     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið, það er aðeins eitt atriði sem mig langaði að benda á sem ég er mjög óánægð með í frv. um þingsköp Alþingis sem mér láðist að geta um í fyrri ræðu minni. Það er 64. gr. frv. Eins og hún lítur út núna er hægt að samþykkja á Alþingi bæði lög og ályktanir með því að aðeins einn þingmaður segi já ef allir hinir sitja hjá. Þetta þykir mér ekki nógu gott. Ég tel að þetta geti ekki gengið. Ég minntist reyndar aðeins á þetta á fundum okkar þar sem ég var við undirbúning þessa máls í nefnd sem undirbjó þetta frv. og þá þótti eðlilegt að ákvæðið væri svona. Ég tel að breytingin eins og hún lítur út, það er 45. gr. gildandi þingskapalaga þar sem segir: ,,Engin ályktun er lögmæt nema meira en helmingur fundarmanna, þeirra sem atkvæðisbærir eru, greiði atkvæði með henni.`` En í frv. segir: ,,Engin ályktun er lögmæt nema meira en helmingur fundarmanna, þeirra sem atkvæði greiða, greiði atkvæði með henni.`` Þá er gert ráð fyrir að allir greiði atkvæði með rafeindabúnaði, og það sé eins og nafnakall í raun. Það þýðir að ef allir nema einn sitja hjá er hægt að samþykkja bæði lagafrv. og þáltill. Ég tel að þetta sé ekki eðlilegt og vildi vekja athygli á þessu við þessa umræðu þar sem farið verður að vinna við þetta í nefnd og vil óska að þingmenn, aðrir en einungis þeir sem eru í nefndinni, tjái sig um þetta atriði þar sem það hlaut ekki hljómgrunn þegar ég vakti athygli á þessu í nefndinni sem undirbjó þetta frv.