Stjórnarskipunarlög
Fimmtudaginn 16. maí 1991


     Salome Þorkelsdóttir :
    Hæstv. forseti. Mér láðist að nefna það við umræður um þetta mál í gær vegna þess hvernig umræðu lauk og ég fór eiginlega að ósk forseta úr ræðustóli fyrr en ég hafði ætlað mér, en það voru orð hv. 1. þm. Austurl. þegar honum varð tíðrætt um húsakost Alþingis og kaup á Hótel Borg sem ég ætla ekki að fara að rifja upp frekar. En hann beindi því til ríkisstjórnarinnar eða ráðherra hennar að þeir beiti sér fyrir því að kaupa Hótel Borg eða annað húsnæði. Ég ætlaði aðeins að benda hv. þm. á að það er ekki í verkahring ráðherra að hafa forgöngu um húsakaup Alþingis heldur eru það forsetar þingsins sem hafa það á sinni verkefnaskrá. En að sjálfsögðu er það af hinu góða að hafa stuðning ráðherra sem annarra hv. þm. sem að sjálfsögðu hljóta alltaf að koma að því máli þegar þar að kemur.