Vaxta- og kjaramál
Fimmtudaginn 16. maí 1991


     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Forseti vill í upphafi minna á eftir hvaða reglum þessi umræða fer fram, þ.e. eftir fyrri mgr. 32. gr. þingskapa sem þýðir það að umræðan má standa í allt að hálftíma, ekki lengur, og ég vænti þess að eiga gott samstarf um að það takist að ljúka þessari umræðu innan þess tilskilda tíma, enda verður hún ekki leyfð lengur. Þetta þýðir það að ef fulltrúar frá öllum þingflokkum eiga að fá tækifæri til að taka þátt í þessari umræðu, þá er aðeins rúm fyrir tvisvar sinnum tvær mínútur fyrir fulltrúa hvers þingflokks, en málshefjandi hefur tvisvar sinnum þrjár mínútur og ráðherra tvisvar sinnum tvær mínútur.
    Þetta vildi ég aðeins minna á, ekki síst með tilliti til þess að nú er að hefjast nýtt kjörtímabil og margir hér nýir hv. þm.