Vaxta- og kjaramál
Fimmtudaginn 16. maí 1991


     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Fyrst um launamál. Launanefndir opinberra starfsmanna eru að skoða þessi mál, bæði þróun verðlags, kaupmáttar og viðskiptakjara. Og eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda er þess að vænta að ákvörðun verði tekin um næstu helgi. Sú ákvörðun er sjálfstæð eins og ljóst var þegar gengið var frá síðustu ákvörðun í febrúar. Það liggur fyrir að verðlagsþróun hefur verið hagstæð og hækkanir minni en reiknað var með í nóvember á sl. hausti. Þetta stafar ekki síst af hagstæðri þróun viðskiptakjara sem lækkar innflutningsverð og eykur kaupmáttinn. Frá nóvember til maí hefur verðlag hækkað mælt á framfærsluvísitölu um 2,2% en laun um 5,7% og þá er ég að tala um taxta í því sambandi. Kaupmátturinn hefur því aukist um 3,5%.
    Að mínu áliti er það mikilvægast fyrir þjóðina, ekki síst launþega, að forðast allar kollsteypur í launamálum. Aðalatriðið er að tryggja jafnvægi í efnahagsmálum. Vaxandi þensla að undanförnu er áhyggjuefni og getur valdið aukinni verðbólgu verði ekkert að gert. Mér finnst eðlilegt að allir samningsaðilar fylgist að, bæði á almenna markaðnum og hjá ríkinu, til að tryggja stöðugleika og koma í veg fyrir misræmi.
    Um vaxtamálin vil ég segja þetta. Fyrri ríkisstjórn bjó til vandamálið, eins og hæstv. forsrh. hefur lýst hér, með því að fresta vaxtahækkun fram yfir kosningar. Bætti síðan við þetta vandamál með því að stórauka hallarekstur ríkissjóðs og skapa gífurlega lánsfjárþörf opinbera kerfisins. Vextir hafa verið að hækka að undanförnu, t.d. almennir skuldabréfavextir úr 13,5% um áramót í 15,5% nú. Ávöxtunarkrafa húsbréfa hækkaði úr 7,3% í 8,4%. Með hækkun vaxta á ríkisvíxlum er verið að leiðrétta vaxtakjörin og samræma þau almennum vaxtakjörum á markaðnum.
    Afleiðingin af aðgerðaleysi núv. ríkisstjórnar er hrun á sölu á ríkisvíxlum og þrefalt meiri yfirdráttur í Seðlabanka en í fyrra. Um áramót voru útistandandi víxlar upp á 8,1 milljarð en í byrjun maí 4,8 milljarðar. Eftir vaxtahækkun hefur salan tekið kipp og í gær var staðan 8,3 milljarðar. Salan á einni viku er þess vegna 3,5 milljarðar.
    Virðulegur forseti. Ég er alveg að ljúka þessu síðara svari, en það voru tvær spurningar sem til mín var beint. Svarið við þessari síðari spurningu er að vextir spariskírteina eru enn óbreyttir en það er í skoðun að breyta þeim innan tíðar, ekki síðar en í næstu viku. Það er ekki til siðs að segja fyrir fram hver hækkunin muni verða.
    Það er mikilvægt að lokum, virðulegi forseti, að átta sig á því að frestun á leiðréttingu vaxta gerir þetta vandamál enn erfiðara, grefur undan stöðugleika í efnahagsmálum og áframhaldandi sátt í kjaramálum. Markmiðið með þessum aðgerðum og öðrum aðgerðum ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, þar með talið ákvörðun um vexti, er að ná jafnvægi og stöðugleika í efnahagslífinu á nýjan leik.