Vaxta- og kjaramál
Fimmtudaginn 16. maí 1991


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Helsta verkefni í stjórn efnahagsmála á Íslandi um þessar mundir er að verja forsendur þeirra kjarasamninga sem kenndir eru við þjóðarsátt. Það er verkefnið. Sem betur fer hefur hulu verðbólgunnar verið svipt burt og við okkur blasa hin raunverulegu verkefni á sviði efnahagsmála bæði til skamms og langs tíma. Allir sem um þessi mál hafa fjallað, og það gildir jafnt um fulltrúa stjórnar sem stjórnarandstöðu, viðurkenna að þenslumerki megi greina. Aukinn halli á ríkissjóði er staðreynd. Ég ætla hér ekki að tala um tölur en það blasir við okkur að útkoman verður lakari en að var stefnt með fjárlögum. Það er vaxandi innflutningur, það er vaxandi viðskiptahalli. Á sama tíma er ljóst að sem betur fer hafa forsendur kjarasamninganna um verðlagsþróun staðist og heldur betur en það, þannig að kaupmáttur er aðeins yfir þeim mörkum sem að var stefnt með samningunum.
    Við þurfum núna að verja forsendurnar og bregðast við með aðhaldsaðgerðum á sviði ríkisfjármála og peningamála. Það er óhyggilegt að tala um það sem byrjun á vaxtaskrúfu að nú eigi að breyta vöxtum á ríkisvíxlum. Mig langar aðeins til að rifja það upp að enginn notaði þau orð þegar hv. 8. þm. Reykn., þá hæstv. fjmrh., lét breyta vöxtum ríkisvíxla um áramótin síðustu úr 10% í 11 -- 12%. Var það upphafið að nýrri vaxtaskrúfu? Ég segi nei. Það var nauðsynlegt vegna þess að staða víxlanna hafði fallið úr 13,3 milljörðum í september í 6,7 milljarða um áramótin. Þetta eru staðreyndirnar í málinu. Svo kemur apríl og maí og við stöndum frammi fyrir því að staða víxlanna hefur fallið í 4,4 milljarða. Áttum við að láta kyrrt liggja? Nei, hér varð að bregðast við og hér er ekki um neinn víxlgang eða skrúfu að ræða heldur eðlilega aðlögun.
    Ég ætla að minna á það að afkoma fyrirtækjanna var sem betur fer betri á árinu sem leið en verið hefur um alllangt skeið. Þetta var einmitt að þakka stöðugleikanum í efnahagsmálum og gengisfestunni. Og það er þessi áframhaldandi stöðugleiki sem við eigum nú að verja. Við verjum hann aðeins og leggjum þannig aðeins grunn að farsælum kjarasamningum á næstunni, og það gildir líka um ákvarðanir launanefndanna, að við þorum að bregðast við framvindunni með réttum hætti. Og í þetta sinn eru það aðhaldsaðgerðir, bæði á sviði peningamála og ríkisfjármála, sem eru réttu viðbrögðin.