Vaxta- og kjaramál
Fimmtudaginn 16. maí 1991


     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Það er alveg ljóst að það er mjög skaðlegt að hækka vexti um þessar mundir. Ég skil hæstv. ráðherra með þeim hætti að þeir vilji komast hjá því og það standi ekki til að hækka hér vexti, a.m.k. ekki til langframa. Það hefur líka verið staðfest að ein meginástæða þess hversu mikil eftirspurn er nú á peningamarkaði sé hin mikla útgáfa húsbréfanna. Þetta var því miður aldrei viðurkennt í fyrri ríkisstjórn en nú heyrist mér að núv. ríkisstjórn hafi staðfest þann skilning m.a. sem hefur komið frá Seðlabankanum. Það er að sjálfsögðu mikilvægt fyrir fólk að vita af þessu og því vil ég spyrja hæstv. forsrh.: Stendur til að takmarka útgáfu húsbréfanna svo að ekki þurfi að koma til hækkunar vaxta á almennum markaði? Það er að mínu mati mikilvægara að takmarka þessa útgáfu heldur en að stefna að mikilli vaxtahækkun. Ég óttast það að þetta standi ekki til og því verði ekki komið í veg fyrir vaxtahækkanir á næstunni.