Vaxta- og kjaramál
Fimmtudaginn 16. maí 1991


     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Ég man ekki betur en að höfundarréttinn að því að telja að yfirlýsingar ráðherra séu efnahagslegt vandamál eigi hæstv. fyrrv. fjmrh. og hafi átt við hæstv. fyrrv. forsrh. á sínum tíma, ef ég man rétt. En ég býst við að hv. þm. borgi fyrrv. fjmrh. höfundarlaun af þessari kenningu sinni.
    Varðandi fsp. hv. 18. þm. Reykv., hver sé stefna ríkisstjórnarinnar varðandi kjarasamning opinberra starfsmanna, þá er sú stefna í samræmi við stefnu stjórnarinnar almennt gagnvart kjarasamningum, að þeir eigi þann grundvöll sem felist í sáttargjörð um kjör sem ekki byggist á hinum gamla farvegi stórfelldra krónutöluhækkana sem ekki skila sér í kaupmætti, heldur á samningum sem stuðla að stöðugleika, jafnvægi, skilyrðum fyrir hagvexti, þar með auknum sameiginlegum tekjum til þjóðarinnar allrar og þar með til launþega.
    Varðandi það sem hv. 1. þm. Austurl. vék að, hvort ríkisstjórnin hefði ákveðið að takmarka útgáfu húsbréfa, þá hefur engin slík ákvörðun verið tekin. Á hinn bóginn vil ég vekja athygli á því að það hefur verið rætt og komið fram af hálfu félmrh. opinberlega að til athugunar er að nýta ekki strax þær heimildir sem ég hygg að hv. 1. þm. Austurl. hafi tekið þátt í að samþykkja hér á vorþingi um að auka hlutfall húsbréfanna úr 65% upp í 75% í tilteknum afmörkuðum tilvikum.
    Ég vil líka vekja athygli á því varðandi húsbréfin að við búum enn þá við leifar af hinu gamla kerfi sem lokað var. Það leggur tvöfaldan þunga á lánsfjárþörf. Það er tímabundið vandamál sem hverfur en menn hafa jafnframt í huga og hafa rætt hluti sem tengjast vaxtaákvörðunum varðandi þann biðraðahóp sem fyrir hendi er.