Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Ég flyt hér með hinu háa Alþingi greinargerð um stöðu samningaviðræðna af hálfu EFTA - ríkja við Evrópubandalagið um myndun Evrópsks efnahagssvæðis. Áður en ég hef að skýra frá því nánar vil ég, með leyfi forseta, kynna þingheimi samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 5. maí sl. um stefnu ríkisstjórnarinnar í málinu. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Ríkisstjórnin hefur kynnt sér stöðu samningaviðræðnanna um Evrópskt efnahagssvæði og ræddi hana á fundum sínum 2. og 5. maí 1991. Ríkisstjórnin lýsir yfir fullum stuðningi við meðferð utanrrh. á þessu máli.
    Ríkisstjórnin hefur ákveðið að fela aðalsamningamanni sínum og öðrum íslenskum fulltrúum í þessum samningaviðræðum að setjast að nýju að samningaborði og leita allra leiða til þess að tryggja að viðunandi samningar um Evrópskt efnahagssvæði náist.
    Ríkisstjórnin ítrekar jafnframt að af Íslands hálfu getur samningur um Evrópskt efnahagssvæði hvorki talist viðunandi né í jafnvægi nema tollar falli niður á íslenskum sjávarafurðum í ríkjum Evrópubandalagsins til mótvægis við frekari opnun íslensks markaðar fyrir iðnvarning, þjónustustarfsemi og vissar tegundir suðrænna landbúnaðarafurða frá öðrum ríkjum innan efnahagssvæðisins.
    Ríkisstjórnin minnir á að íslenskar sjávarafurðir þurfa að keppa á útflutningsmarkaði við sjávarútveg sem nýtur opinberra styrkja. Veiðiheimildir í íslenskri fiskveiðilögsögu til endurgjalds fyrir lækkun tolla af sjávarafurðum mundu valda óviðunandi ójafnvægi fyrir Ísland í EES - samningi og geta þegar af þeirri ástæðu ekki komið til álita.
    Jafnframt minnir ríkisstjórnin á að fiskstofnar við Ísland eru fullnýttir og að íslenskir sjómenn þurfa að sæta ströngum aflatakmörkunum svo komið verði í veg fyrir hrun þessara stofna. Það er skylda strandríkis að alþjóðalögum að tryggja innan sinnar efnahagslögsögu að ekki sé of nærri auðlindum sjávar gengið.``
    Virðulegi forseti. Á sameiginlegum samningafundi utanríkisviðskiptaráðherra EFTA - ríkjanna og Evrópubandalagsins sem haldinn var í Brussel mánudaginn 13. maí sl. náðist umtalsverður árangur á ýmsum sviðum, svo sem fram kemur í sameiginlegri yfirlýsingu sem birt hefur verið frá fundinum. Þessi yfirlýsing hefur þegar verið kynnt í íslenskri þýðingu, hún er að vísu ekki kannski hin kórrétta þýðing, sem og yfirlýsing sem sá sem hér stendur birti um sérmál Íslands í þessum samningum á almennum fréttamannafundi í Brussel daginn eftir, þann 14. þ.m.
    Mér þykir miður að ekki hefur unnist tími til að ganga frá tæmandi greinargerð í skriflegu formi fyrir þennan fund Alþingis, en að sjálfsögðu verður það gert. En hér hefur verið dreift á borð þingmanna samkomulaginu sjálfu ásamt með yfirlýsingu utanrrh. um sérmál Íslands og, ef ég er rétt upplýstur, stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í málinu.

    Fyrir þennan fund höfðu verið vaktar upp nokkrar væntingar um að þarna kynni að draga til úrslita um framhald málsins. Sumir höfðu uppi orð um það að fullar líkur væru á að hugmyndin um stofnun Evrópsks efnahagssvæðis yrði e.t.v. ef illa gengi endanlega jörðuð. Aðrir töldu sig eiga von á að öll hin stóru ágreiningsmál sem út af stóðu yrðu leyst. Talsmenn framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins höfðu gefið okkur fulltrúum Íslendinga sterklega til kynna að við mættum vænta þess á þessum fundi eða fyrir þennan fund að fá fram sérstakt tilboð um sjávarútvegsmálin frá framkvæmdastjórninni en eftir slíku tilboði höfum við beðið frá því í byrjun febrúar, þegar framkvæmdastjórnin boðaði fyrst að hún hygðist leggja fram slíkt samningstilboð. Það gerðist ekki. Ekkert slíkt samningstilboð kom fram.
    Það sem raunverulega gerðist á þessum fundi var að umtalsverður árangur náðist með samkomulagi sem nánar er lýst í þessari yfirlýsingu varðandi eftirtalin mál:
    1. Samkomulag varð um sjálfstætt eftirlitskerfi á vegum EFTA - ríkjanna með framkvæmd samningsins.
    2. Samkomulag varð um dómstól til þess að leysa ágreiningsefni, hlutverk þess dómstóls, skipan hans og verksvið.
    3. Samkomulag varð um hlutdeild fulltrúa EFTA - ríkjanna við undirbúning ákvarðana, þ.e. rétt ríkisstjórna EFTA - landanna til þess að tilnefna sérfræðinga í ótal margar nefndir sem undirbúa nýjar ákvarðanir og frá því máli gengið með samkomulagi.
    4. Samkomulag náðist um orðalag varðandi almennt öryggis- og varnaglaákvæði sem kemur í stað upphaflegra varanlegra fyrirvara sem og um það hvernig beita megi því ákvæði.
    5. Samkomulag náðist um tímabundnar undanþágur frá hinum almennu lögum og reglum er varða fjórfrelsið í þessu samkomulagi.
    6. Um atvinnu- og búseturéttindi er það að segja að þar lá fyrir samkomulag sem fulltrúar allra ríkja nema eins, þ.e. Sviss, töldu sig geta sætt sig við. Niðurstaðan varð hins vegar sú vegna ágreinings eða fyrirvara Sviss að því máli var slegið á frest til framhaldsvinnu.
    Það má því segja eftir atvikum að fimm ágreiningsmál hafi verið leyst með samkomulagi og eitt svona á lokastigi samkomulags.
    Þá er að nefna eitt vandamál sem tengist þessum samningum en er ekki á samningssviðinu og það varðar samgöngur milli Suður - og Norður - Evrópu um land tveggja EFTA - ríkja, Sviss og Austurríkis. Ég tek það skýrt fram að þetta mál er ekki á samningssviðinu. Það er ekki hlutur af samningum um Evrópskt efnahagssvæði. Hins vegar hafa Evrópubandalagsríkin og framkvæmdastjórnin fyrir þeirra hönd sótt mjög fast að samkomulag næðist í tvíhliða samningum Evrópubandalagsins og þessara landa um þetta mál áður en af stofnun Evrópsks efnahagssvæðis yrði.
    Þetta mál var rætt mjög rækilega í þessum samningum en það leystist ekki við þetta samningaborð. Vonir standa hins vegar til að það megi finna á því

lausn, þannig að það verði ekki í vegi fyrir endanlegu samkomulagi þegar þar að kemur.
    Það voru þess vegna þrjú meginmál sem eftir sem áður eftir þennan fund standa út af sem óleyst mál. Þessi þrjú mál eru þau sem ég hef gjarnan kennt við hina vanheilögu þrenningu og á með því við að þau eru innbyrðis tengd. Þau varða samkomulag um landbúnað, viðskipti með landbúnaðarafurðir. Þau varða markaðsaðgengi fyrir sjávarafurðir og þau varða hugsanlega stofnun byggða- eða þróunarsjóðs sem EFTA - ríkin stæðu að, fjármögnuðu og stjórnuðu, en fjármunir úr honum ættu að renna til þróunarhjálpar við hin vanþróuðu svæði innan Evrópubandalagsins.
    Víkjum nánar að þessum málum. Fyrst örfá orð um landbúnaðinn. Um hann er fjallað í grein 14 í hinni sameiginlegu yfirlýsingu. Það sem um hann kemur fram er eftirfarandi:
    Aðilar eru sammála um það, almennt orðað, að stefna að auknu frjálsræði í viðskiptum með landbúnaðarafurðir sín í milli. Fyrir lágu drög að eins konar þróunarákvæði sem lýsir þessu nánar, þ.e. pólitísk viljayfirlýsing um að stefna í þessa átt, þó innan ramma gildandi landbúnaðarstefnu ríkjanna. Undir þessum málaflokki er einnig að finna lista yfir 72 tegundir suðrænna aldina og grænmetisafurða sem Evrópubandalagsríkin óska eftir að fá tollfrjálsan aðgang að á EFTA - mörkuðum til mótvægis við tollfrjálsan aðgang með sjávarafurðir. Ég tek það fram að að því er okkur varðar þá er þetta minna vandamál en hin EFTA - ríkin af þeirri einföldu ástæðu að allar nema fjórar eða fimm afurðir á þessum lista búa þegar við frjáls innflutningsskilyrði hér á landi og auk þess mun ekki vera erfiðleikum bundið að fá tímabundin ákvæði til þess að vernda innlenda gróðurhúsaframleiðslu að því er varðar fjórar eða fimm tegundir.
    Að öðru leyti er landbúnaðurinn raunverulega á samningssviði tvíhliða samninga milli landanna. Hann er hér fyrst og fremst til umræðu vegna þess að gegn kröfu okkar EFTA - ríkja, fyrst og fremst að frumkvæði Íslendinga, um tollfrjálsan aðgang fyrir sjávarafurðir hefur Evrópubandalagið lýst því að það mundi greiða fyrir samkomulagi varðandi sjávarafurðirnar ef EFTA-ríkin væru reiðubúin til þess að rýmka fyrir innflutning varðandi sumar tegundir landbúnaðarafurða á móti og líta þá á hugsanlega sjóðstofnun sem einhvers konar endanlegan þrýstijafnara í þessum samningum, þ.e. þegar kæmi að lokamati á heildarniðurstöðu samninganna um jafnvægi ávinnings og skuldbindinga einstakra ríkja, þá mundu þessir þrír þættir verða metnir nokkuð innbyrðis um það hvernig þeir vegi hver upp á móti öðrum. Við erum hér í raun og veru að tala um vandamál sem varðar ójafna þróun einstakra ríkja sem aðild eiga að þessum samningum. Innan Evrópubandalagsins eru þetta hin suðrænu Evrópubandalagsríki, Spánn, Portúgal, Grikkland, fyrst og fremst. Að því er EFTA - ríkin varðar erum við fyrst og fremst hér að tala um sérstöðu Íslands, eina landið í Evrópu sem byggir beinlínis afkomu þjóðarinnar og efnahagslegt öryggi sitt á nýtingu fiskimiðanna og framleiðslu og sölu sjávarafurða. Þetta eru því af þeim sökum rökræn innbyrðis tengsl í þessum málum.
    Af því er varðar sjávarútvegsmálin þá er þess að geta að ekkert tilboð kom fram af hálfu Evrópubandalagsins á því sviði þótt margir ættu á því von. Niðurstaðan, sem samkomulag varð um, var sú að um sjávarafurðirnar er fjallað í 15. gr., sérstaklega í því ákvæði sem þarna er inn komið að frumkvæði EFTA - ríkjanna, nánar tiltekið okkar, sem setur fram formúlu um lausn. Hún byggir á því að hafna því sjónarmiði að það eigi að meta hagræði þjóða í sjávarútveginum með því að meta innbyrðis hagræði innan greinarinnar en í staðinn eigi að meta þetta út frá heildarhagsmunum, út frá því hvernig ávinningur hvers lands kemur út þegar samningurinn er metinn í heild á öllum sviðum á móti því óhagræði sem viðkomandi land fengi á öðrum sviðum. Af sjálfu leiðir að okkar sjónarmið er þetta: land sem er með 75 -- 80% af sínum vöruútflutningi í formi sjávarafurða getur ekki uppskorið ávinning til jafns við önnur lönd í þessum samningi nema með því að fá tollfrjálsan aðgang fyrir sínar afurðir. Það er kjarni málsins.
    Því næst er þess að geta að fyrirvara Íslendinga að því er varðar rétt til fjárfestingar í íslenskum sjávarútvegi var haldið til haga. Honum var lýst á lokafundi samninganna að kvöldi mánudagsins 13. maí afdráttarlaust og með þeim hætti að honum var ekki andmælt. Rökin eru að sjálfsögðu þau að þar sem ekki gildir fríverslun á sviði sjávarafurða og Evrópubandalagið býr þar við margvíslegt
ríkisstyrkjakerfi, þá leiðir af sjálfu sér að þar sem þetta er utan fjórfrelsisins, þá fylgir ekki í kjölfarið réttur til fjárfestingar, stofnunar fyrirtækja, í grein sem býr við slík ójöfn samkeppnisskilyrði þar sem samkeppnisreglur eru ekki umsamdar, samræmdar.
    Að því er varðar þriðja þátt hinnar vanheilögu þrenningar, þ.e. hugsanlega sjóðstofnun, þá er ekki mikið um það að segja annað en það að frá því var gengið að EFTA - ríkin lýsa sig reiðubúin til þess að skoða það mál nánar í ljósi niðurstöðu og mats á heildarniðurstöðu samninganna sem endanlega afgangsstærð. Það er ekki farið að ræða um upphæðir en þó nokkuð rætt um form og líklegasta niðurstaðan yrði sú að þetta yrði sjóður sem tæki á sig skuldbindingar í fjögur eða fimm ár og EFTA - ríkin mundu sem sé greiða í hann og stjórna honum sjálf.
    Virðulegi forseti. Þá er að víkja að öðrum þáttum málsins sem varða lög, lagaramma og stofnanir ákvörðunarferla hins Evrópska efnahagssvæðis. Það sem mönnum þótti einkum tíðindum sæta á þessum fundi var hversu víðtækt samkomulag náðist á þessu málasviði. Um það er fjallað í hinni sameiginlegu yfirlýsingu í grein 17, þar sem fjallað er um nauðsyn samræmingar á lögum og reglum um ákvörðunarferli og eftirlitsstofnun, í grein 18, þar sem fjallað er um öryggis - og varnaglaákvæði í stað varanlegra fyrirvara, í grein 19, þar sem fjallað er um aðild EFTA - ríkja að sérfræðinganefndum til undirbúnings ákvörðunum, í grein 20, sem er mikilvæg grein þar sem fjallað er um þá grundvallarreglu að því er varðar stjórnun Evrópsks efnahagssvæðis að þar verða engar ákvarðanir teknar nema með fullkominni samstöðu. Þar verður ekki beitt atkvæðagreiðslu um einstök mál sem jafngildir því að þar gildir vissulega eins konar neitunarvald hvers aðildarríkis. Jafnframt þýðir það um leið að í þessum samningum er ekki um að ræða neitt afsal eða framsal á valdi löggjafarsamkundna eða ríkisstjórna af hálfu EFTA - ríkjanna varðandi stjórnun svæðisins. Auk þess tengist þetta að sjálfsögðu beitingu öryggisákvæðanna. Öryggisákvæðið er almennt. Það er mat mitt og íslenskra sérfræðinga að það sé hagstæðara fyrir Ísland að hafa almennt öryggisákvæði heldur en sértæk öryggisákvæði um hverja einstaka grein. Það mundi þá skuldbinda okkur til þess að þrengja mjög skilgreiningu á beitingarrétti á slíku ákvæði, en tengslin þarna á milli eru þau, eins og fram kemur þegar ég lýsi betur öryggisákvæðinu, að það er réttur hvers lands að eigin frumkvæði að beita þessu almenna öryggisákvæði þótt fleira þurfi þar að koma til.
    Loks er þarna um að ræða í grein 21 almennt orðað ákvæði eða kafla þar sem fjallað er um eftirlitið og dómstólinn. Í grein 22 er fjallað um dómstólinn í ítarlegu máli, hlutverk hans, skipan og viðfangsefni og að lokum er fjallað um forgangsrétt þeirra reglna sem gilda um Evrópskt efnahagssvæði samkvæmt alþjóðasamningi umfram aðrar reglur og um það með hvaða hætti bein réttaráhrif verða af þessum samningi.
    Virðulegi forseti. Það sem ég vil í sambandi við þetta leggja höfuðáherslu á er þetta: Allt tal um það að þessi samningur feli í sér afsal á fullveldi, framsal á valdi þjóðþinga eða afsal á valdi dómstóla styðst ekki við rök. Svo einfalt er það. Það er aðalatriði að menn átti sig á því hver munur er á annars vegar Evrópubandalaginu sem slíku og hins vegar því Evrópska efnahagssvæði sem hér er verið að semja um. Ég vil bara nefna nokkur dæmi máli mínu til stuðnings.
    1. Evrópubandalagið er tollabandalag. Evrópskt efnahagssvæði er það ekki. Tollabandalagið EB felur í sér sameiginlega tollskrá, sameiginlega tolla í sameiginlega sjóði, samræmda viðskiptastefnu gagnvart öðrum ríkjum og samræmda ytri tolla. Ekkert af þessu er á samningssviði Evrópsks efnahagssvæðis.
    2. Innan Evrópubandalagsins eru bandalagsríkin skuldbundin af sameiginlegri landbúnaðarstefnu. Það er ekki svo að því er varðar Evrópskt efnahagssvæði.
    3. Evrópubandalagið er skuldbundið af sameiginlegri sjávarútvegsstefnu. Það er ekki svo varðandi Evrópskt efnahagssvæði.
    4. Innan Evrópubandalagsins er stefnt að því fyrir árslok 1992 að afnema öll innbyrðis landamæri. Það er ekki svo innan Evrópsks efnahagssvæðis.
    5. Innan Evrópubandalagsins fer fram tiltekið skilgreint framsal á valdi frá löggjafarsamkundum EB - ríkjanna og frá ríkisstjórnum EB - ríkjanna til sameiginlegra yfirþjóðlegra stofnana, eins og t.d. framkvæmdastjórnar og ráðherraráðs, auk þess sem kosið er beinni kosningu innan Evrópubandalagsins til sameiginlegs Evrópuþings. Ekkert af þessu er á samningssviði Evrópsks efnahagssvæðis.

    6. Þá vil ég nefna að innan Evrópubandalagsins er um að ræða samræmda stefnu að því er varðar félagslega samhjálp eða félagsmálastefnu, social cohesion eins og það heitir, sem ekki er á samningssviði okkar nema að svo miklu leyti sem við kjósum varðandi einstök samstarfsverkefni.
    7. Ég vil nefna að innan Evrópubandalagsins starfar sameiginlegur fjárfestingarbanki sem ekki er á samningssviðinu. Þá er þess að geta, sem er aðalatriði málsins, að Evrópubandalagslöndin eru nú á tveimur pólitískum ráðstefnum bandalagsins, sem eru yfirstandandi, að semja um frekari þróun Evrópubandalagsins í átt til sambandsríkis í raun og veru með því að koma á pólitísku bandalagi sem tekur til samræmingar á utanríkisstefnu, samræmingar á stefnu í öryggis - og varnarmálum og að flestra mati mun leiða til sameiginlegra landvarna bandalagsins. Hin ráðstefnan þar sem verið er að semja um samræmt myntbandalag með einum sameiginlegum gjaldmiðli, einum seðlabanka, samræmdri peningamálastjórn o.s.frv. sem ekki er varðandi Evrópskt efnahagssvæði.
    Loks vil ég geta þess að það er meginatriði í framhaldi af einingarlögum Evrópu sem stjórnunarregla innan Evrópubandalagsins að þar eru fjölmargir málaflokkar þess eðlis að ákvarðanir eru teknar, bæði í framkvæmdastjórn og ráðherraráði, með meirihlutaákvörðunum. En því er ekki til að dreifa innan hins Evrópska efnahagssvæðis. Allt tal manna um það að í þessum samningum sé um að ræða breytingar sem kalla á breytingar á stjórnarskrá eða fela í sér grundvallartilfærslur valds að því er varðar þjóðþing og ríkisstjórnir eru þess vegna einfaldlega með þeim hætti að það styðst ekki við rök. Það er afar mikilvægt að menn átti sig á þessu. Ég vil minna á að af hálfu talsmanna okkar sem áttum aðild að fyrrv. hæstv. ríkisstjórn lögðum við gjarnan mikla áherslu á þetta mál og minni ég gjarnan á frægan sjónvarpsþátt til kynningar þessu máli í því efni þar sem ég minnist þess að ekki komst hnífurinn í milli okkar hæstv. fyrrv. forsrh. og fyrrv. hæstv. fjmrh. þegar við skýrðum þessar grundvallarstaðreyndir og vona ég að þessar staðreyndir hafi ekkert breyst og hvað þá mennirnir sem túlkuðu þær.
    Þá vil ég víkja aðeins að einstökum þáttum varðandi lagarammann og stofnanirnar og þá fyrst að ákvæði í grein 18 um öryggis - og varnaglaákvæðin. Það verður ein allsherjar öryggisgrein í þessum samningi sem unnt er að beita við þau skilyrði að um sé að ræða verulega erfiðleika á sviði efnahagsmála, þjóðfélagsmála eða umhverfismála í viðkomandi landi, hvort heldur tekur til einhverrar atvinnugreinar eða landsvæðis. Ef það er svo að mati viðkomandi lands, þá getur viðkomandi land með einhliða yfirlýsingu gert þetta ákvæði virkt og beitt því. Það er hins vegar skuldbundið til þess að gera þetta í samráði við hin samningslöndin og þau hafa rétt á því, ef upp kemur ágreiningur um málið, út frá grundvallarreglum að vísa því til dómstóls og grípa þá til gagnráðstafana ef niðurstaða dómstóls verður á þá leið. Ég endurtek að að okkar mati er þetta einn meginávinningurinn sem

tókst á þessum fundi. Það er mat okkar talsmanna EFTA - ríkja að þetta sé mjög mikilvægt ákvæði, í því sé mikið öryggi fólgið og við séum betur settir, einmitt minni ríkin í þessu samstarfi, í skjóli slíks ákvæðis heldur en ef við hefðum sett þau sem sértæk og orðið þá að skilgreina við hvaða skilyrði mætti beita ákvæðinu, varðandi t.d. einstakar atvinnugreinar o.s.frv. Með öðrum orðum er ákvæðið almennt og það er tvímælalaust á valdi ríkisstjórnar að beita því að vissum skilyrðum fullnægðum. Ég legg síðan megináherslu á að menn kynni sér vel grein 20 og það sem í þessu felst, en þar kemur kyrfilega fram að grundvallarstjórnunarreglan innan Evrópska efnahagssvæðisins verður alveg eins og í EFTA samstaða, ekki meirihlutaákvarðanir.
    Þá er að víkja að dómstólnum. Um hann er fjallað nánar í ákvæðum í grein 22. Hann verður skipaður sjö dómurum frá EFTA - löndum. Hann er sjálfstæður dómstóll, en þó í starfstengslum við Evrópudómstólinn í Lúxemborg og þegar hann starfar sem slíkur munu vera þarna fimm dómarar frá Evrópubandalagsdómstólnum og þrír af hinum tilnefndu EFTA - dómurum. Hlutverk dómstólsins er að leysa ágreiningsmál varðandi túlkun á samningnum sem upp koma milli samningsaðilanna, þ.e. milli ríkjanna sem hér er um að ræða. Jafnframt að kveða upp úrskurði varðandi ágreiningsmál sem upp koma varðandi starf og eftirlit stofnunarinnar eða milli eftirlitsstofnunarinnar og EFTA - lands auk þess sem eftirlitsstofnunin og dómstóllinn munu bæði verða til þess að leysa úr ágreiningsmálum varðandi brot á samkeppnisreglum sem er einna þýðingarmest fyrir fyrirtæki í hinum minni löndum í þessu samstarfi.
    Ég vil vekja athygli á því varðandi dómstólsákvæðið að það var krafa okkar, fulltrúa EFTA - landanna, í allri þeirri togstreitu sem um þetta mál hefur farið fram að ná því fram að hlutverk dómstólsins væri að gefa út svokallaða forúrskurði varðandi túlkun á samningnum. Þegar ljóst var orðið að við krefðumst þess að þessi dómstóll yrði jafnsjálfstæður og hann verður, þá féllst Evrópubandalagið ekki á það sjónarmið. Niðurstaðan varð því sú að þessi dómstóll mun ekki kveða upp forúrskurði sem að okkar mati hefði verið um kannski 80 -- 90% af þeim málum sem hann ella hefði fengið til umfjöllunar. Okkur þótti það út af fyrir sig miður en það þýðir auðvitað jafnframt, úr því að þetta er niðurstaðan, að allt tal um það að þetta sé einhvers konar hæstiréttur sem sé æðri hæstarétti viðkomandi landa er algerlega á misskilningi byggt.
    Hitt er svo annað mál að því er varðar annars vegar réttaráhrif og hins vegar forræði reglna á samningssviðinu. Fyrst er að segja um réttaráhrifin að ekkert af þeim lögum eða reglum sem koma til framkvæmda samkvæmt þessum samningi hafa sjálfkrafa bein réttaráhrif. Þau hafa ekki sjálfkrafa bein réttaráhrif. Þau hafa það ekki og öðlast þau ekki fyrr en þjóðþing viðkomandi ríkis hefur samþykkt viðkomandi lög eða reglur. Eina frávikið frá því eru þá reglugerðir um tæknileg atriði. En um löggjafaratriði gildir það að það er ekkert framsal frá þjóðþingum viðkomandi þjóða.
    Að því er varðar hins vegar forræði þessara reglna, þá er það svo samkvæmt almennum íslenskum rétti að slíkar reglur byggðar á alþjóðasamningum hafa það þegar í íslenskum rétti þannig að út af fyrir sig er á því engin breyting heldur. Niðurstaðan er því sú, virðulegi forseti, að það er óhætt að benda þingmönnum á að kynna sér sérstaklega þann þátt skýrslu utanrrh. til Alþingis um samningsstöðuna eins og hún var fyrir þinglausnir og þá sérstaklega kaflann um lagagrundvöll og stofnanir, þ.e. kafla F. frá samninganefnd V: Laga - og stofnanamál, þar sem fjallað er um frá bls. 17 og til loka skýrslunnar um þætti eins og ákvarðanatökuna, stofnanirnar, EES - ráðið og hina sameiginlegu EES - stofnun, um hlutverk þjóðþinga, um þátttöku EFTA - þjóðanna í undirbúningsnefndum, um eftirlitsstofnunina, um dómstólinn, um spurninguna um yfirþjóðlegt vald og framsal á valdi og um öryggisákvæði. Í stórum dráttum má segja að það sem hér er fram sett um það atriði eins og samningsstaðan var í tíð hæstv. fyrrv. ríkisstjórnar gildir, þó að því frátöldu að við náðum ekki fram þeirri kröfu að dómstóllinn skyldi hafa vald til þess að gefa út forúrskurði í málum. Hann er þess vegna raunverulega minni stofnun heldur en við höfðum óskað eftir út frá því almenna sjónarmiði smáríkja að við teljum það okkur í hag en ekki í óhag að sameiginlegur úrskurðaraðili sé öflugur vegna þess að við þekkjum það af reynslunni að það er meira á valdi hinna öflugri ríkja að sniðganga eða fara á bak við samningsákvæðin heldur en hinna minni ríkja.
    Virðulegi forseti. Þá vil ég víkja nokkrum orðum að því áhættumati sem tengt er svona samningum. Ég rifja upp að við gengum á sínum tíma til þessara samninga með því að setja fram tiltölulega fáa en mjög skýra fyrirvara. Eins og fram kom í umræðum um þetta mál á seinasta þingi, þá var það sjónarmið okkar, sem að þessum samningum stóðum í tíð fyrrv. ríkisstjórnar, að við hefðum haldið þeim fyrirvörum til haga þrátt fyrir það að við höfðum í ýmsum tilvikum breytt því í hvaða formi þeir eru fram settir. Ég nefni nú helstu dæmin af þessu tagi sem valda okkur áhyggjum og þörf er á að skýra nákvæmlega.
    1. Spurningin varðandi sjávarútveg. Fyrsta mál er það að þessi ríkisstjórn eins og sú hin fyrri segir skýrt og afdráttarlaust: Aðgangur að auðlindinni sjálfri, veiðiheimildir, kemur ekki til greina. Það mál er hins vegar óútkljáð á þessum tíma.
    2. Við segjum: Heimild til stofnunar fyrirtækja og fjárfestingar við að nýta þessa auðlind í formi útgerðar er óheimil samkvæmt þessum samningum af þeirri einföldu ástæðu að um hana gilda ekki samræmdar samkeppnisreglur.
    3. Varðandi orkulindirnar er ekkert í þessum samningum eða í lögum og reglum Evrópubandalagsins sem kemur í veg fyrir það að við höfum þá skipan varðandi orkuframleiðslu og dreifingu og nýtingu orkulinda sem við nú búum við. Hitt er annað mál að við töldum rétt að herða frekar á þeirri skipan mála.

Þess vegna beitti hæstv. fyrrv. og núv. iðnrh. sér fyrir því á seinasta þingi að beina því erindi til hv. iðnn., sem þá hafði til umfjöllunar þingmannafrv. um þessi mál, um eignarhald á orkulindum, að koma fram ákveðnum breytingum til þess að styrkja þjóðareign á auðlindunum sjálfum. Því miður náði þetta mál ekki fram að ganga vegna vöntunar á stuðningi fulltrúa einstakra stjórnmálaflokka. Ég tel nauðsynlegt að taka þetta mál upp aftur, ekki vegna þess að orkugeirinn sé ekki í lagi gagnvart þessum samningum eins og hann er, heldur vegna þess að ég tel skynsamlegt að herða á þessum ákvæðum í ljósi óvissu um framtíðina.
    Þriðja málið sem ég vil nefna er spurningin um fasteignir, eignarrétt á löndum og lendum sem mikið hefur verið rætt um almennt séð í pólitískri umræðu og vaktar upp spurningar um það hvort þessir samningar gefi erlendum auðkýfingum kost á því að kaupa íslenskar náttúrugersemar o.s.frv. Þetta var jafnvel á dagskrá skilst mér í kosningabaráttunni.
    Um þetta mál er það að segja að á samningssviði III, um búsetu- og atvinnurétt, og á samningssviði II, um flæði fjármagns, heimildir til fjárfestinga og eignarréttar gildir sú almenna grundvallarregla að útlendingar hafa að sjálfsögðu undir engum kringumstæðum annan eða meiri rétt en Íslendingar sjálfir eða þegnar viðkomandi ríkis. Ef við viljum koma í veg fyrir að einstaklingar, gjarnan auðugir einstaklingar, geti keypt upp hlunnindajarðir þurfum við að gera það með breytingum á löggjöf eða með því að styrkja gildandi löggjöf sem gilti þá jafnt fyrir alla þegna Evrópsks efnahagssvæðis, innlenda menn jafnt sem erlenda, bæði forstjóra Kóka kóla og forstjóra Pepsí kóla --- eða hvað þetta heitir.
    Við lögðum þess vegna það til í umræðum í fyrrv. ríkisstjórn og beindum því til þáv. hæstv. landbrh. að hann beitti sér fyrir því að herða á þessum ákvæðum varðandi jarðalög og ábúðarlög til þess að styrkja forkaupsréttarákvæði sveitarfélaga, styrkja þau enn frekar með því að koma á forkaupsréttarákvæðum ríkisins sjálfs, og því var jafnframt beint til dómsmrn., með því að herða á ákvæðum sem eiga að gilda um búsetu í landinu og nýtingu á slíkum jörðum. Allt er þetta okkur í lófa lagið að gera. Því miður skilst mér að ekki hafi orðið mikið um framkvæmdir að því er þetta varðar, en ég árétta að sé það svo að undirbúningi hafi verið áfátt þá tel ég nauðsynlegt, og beini því til samstarfsmanna í núverandi ríkisstjórn, að taka það mál til skoðunar og undirbúnings og framkvæmdar þannig að það megi leggja fyrir þing hið fyrsta. Með öðrum orðum, það er ekkert í þessum samningum sem býður heim áróðri um það að hér sé allt varnarlaust gagnvart því að kaupa upp land og lendur. Það hafa verið skiptar skoðanir í íslenskum stjórnmálum um það hvort fara eigi þá leið að koma í veg fyrir að einstaklingar, þéttbýlisbúar, geti haft not af t.d. ósetnum jörðum, jörðum úr ábúð o.s.frv. En ef mönnum sýnist svo þá er það einfaldlega á okkar valdi að gera það.
    Þá vil ég nefna þann ótta sem stundum er látinn uppi varðandi hættu á innflutningi fólks. Um þetta er

það að segja að upphaflega settum við almennan fyrirvara að því er varðar frelsi fólks til búsetu- og atvinnuréttar með því að vísa til ákvæðis í norræna vinnumarkaðssamningnum sem við höfum mikla reynslu af. Niðurstaðan verður hins vegar sú að við höfum hér almennt varnaglaákvæði sem ég lýsti áðan og því getur ríkisstjórnin beitt að eigin frumkvæði hvenær sem henni þóknast. Þetta ber hins vegar að meta í ljósi reynslunnar. Við vitum hver reynslan er að því er varðar norræna vinnumarkaðinn og þátttöku okkar í honum. Reynslan er sú að Íslendingar hafa notað Skandinavíu sem þrýstijafnara á innlendan vinnumarkað. Það eru rúmlega 12 þús. Íslendingar búsettir í Skandinavíu nú, en það eru ekki nema rúmlega 1800 Skandinavar búsettir hér. Með öðrum orðum, reynslan er sú að Íslendingar hafa nýtt sér þennan rétt í miklu meira mæli heldur en þeir rétt sinn hér. Sömu sögu er reyndar að segja að því er varðar reynsluna innan Evrópubandalagsins sjálfs, þar hefur reynslan orðið öll önnur en menn áttu von á. Þar hafa ekki orðið þjóðflutningar frá suðri til norðurs í leit að bættum lífskjörum. Það hafa miklu fremur orðið flutningar af hálfu ellilífeyrisþega úr norðri sem hafa valið sér tímabundna búsetu af heilsufars- og loftslagsástæðum fyrir þá sem þola mikla sólarhita í suðri.
    Virðulegi forseti. Ég held að ég hafi með því sem þegar er sagt haldið til skila öllum meginatriðum þessa máls. Ég dreg alls ekki úr því að það er rétt mál, sjálfsagt og eðlilegt að við framkvæmum mjög vandað og ítarlegt áhættumat í svona viðamiklum samningum. Við eigum ekki að nálgast þetta með neina glýju í augunum og við eigum ekki að gefa okkur neina fyrir fram niðurstöðu. Vilji okkar til þess að ná þessum samningum er ekki af því tagi, a.m.k. að því er mig varðar, að ég vilji kaupa hann hvaða verði sem er. Við eigum að skoða það vandlega hvernig við bindum okkar hnúta að því er varðar þau réttindi sem við viljum tryggja í samningum.
    Örfá orð þá að lokum um það sem fram undan er. Stærsta málið sem fram undan er er hin vanhelga þrenning, þ.e. að reyna að fá að lokum lausn varðandi markaðsaðgengi fyrir sjávarafurðir móti einhverri rýmkun fyrir landbúnaðarafurðir og hugsanlega stofnun sjóðs. Þetta er markmið sem við setjum okkur að ná án þess að til greina komi að heimila einhliða veiðiheimildir í okkar lögsögu, eins og rækilega hefur verið tíundað.
    Ég skal á þessari stundu ekkert fullyrða um það hvort þetta tekst. Ég veit alla vega að það verður mjög harðsótt. Ég vil skýra frá því hér að um miðjan dag, þennan samningadag, mánudaginn 13. maí, var þreifað á því með óformlegum hætti með því að Poos, forseti framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins, sendi sendiboða á minn fund og síðar til Norðmanna og lagði fyrir svohljóðandi spurningu: Munu þið vera tilbúnir að semja um fullkomið markaðsaðgengi fyrir sjávarafurðir innan EES gegn því að Evrópubandalagið fengi 30.000 tonna veiðiheimildir í efnahagslögsögu EFTA - ríkjanna á móti?
    Ég svaraði því á staðnum og stundinni í ljósi þess

umboðs sem ég hef frá núverandi ríkisstjórn og stjórnarflokkum að slíkt komi ekki til greina og vísaði því gjörsamlega á bug og um það var ekki meira rætt. Slíkt tilboð var, eins og ég segi, aldrei lagt fram á formlegum fundi og kom þar af leiðandi ekki til neinnar frekari umræðu. Ég ræddi það hins vegar í þaula við fulltrúa Norðmanna og jafnframt lét ég fylgja því skilaboð til baka með rækilegum rökstuðningi hvers vegna við höfnuðum þessu algjörlega.
    Þetta er það fyrsta sem við höfum heyrt frá framkvæmdastjórninni á þessu málasviði fyrir utan það að við vissum af því að í byrjun febrúar sendi hún til aðildarríkisstjórnanna vinnuskjal, drög að tilboði sem hún hefur verið að leitast við að fá samstöðu um innan Evrópubandalagsins allan tímann síðan. Það tilboð höfum við aldrei fengið í hendurnar formlega. Því var hins vegar lekið í pressu eins og öllum öðrum skjölum í kringum þetta apparat og það var mikið um það fjallað í tæknilegum fagtímaritum um sjávarútvegsmál og menn þekkja það hér. Þar var krafa um 30.000 tonn en á móti kom ekki fullt afnám tolla í sjávarútvegi, fjarri því. Við mátum það svo þá að það tilboð hefði þýtt tollaívilnun sem hefði samsvarað um 10% aukningu miðað við núverandi magn innan ramma bókunar 6, ef menn skilja hvað ég á við með þeim orðum. Þeir hafa því ögn bætt tilboðið að því er varðar fullkomið markaðsaðgengi fyrir sjávarafurðir en í þessu óformlega tilboði héldu þeir sig enn við veiðiheimildirnar sem við vísuðum á bug.
    Ég er hér að lýsa því hvað mér finnst vera fram undan. Það eru eftir einhverjar vikur þar sem á það verður látið reyna til loka hvort við náum landi í þessum samningum. Við þurfum nú að einbeita okkur að því að sannfæra þá lykilaðila sem að lokum koma að þessari ákvörðun um að það stafi hvorki af þrákelkni, óbilgirni, ósanngirni eða einhverju slíku að við höfnum þessum kröfum, heldur styðjist það við rétt og skynsamleg rök varðandi verndun á lífríki sjávar, varðandi stöðu nytjastofna, varðandi heildarjafnvægi samningsins o.s.frv. að Íslendingar vilja halda svona á þessu máli.
    Auðvitað er það svo að það er eftir miklu að slægjast í þessum samningum. Ávinningurinn af þeim, ef þeir takast á þessum skilmálum, er alveg ótvíræður fyrir íslenskt þjóðfélag og íslenskan þjóðarbúskap í framtíðinni. Ég þarf ekki að tíunda það fyrir hv. alþm. hvað það mundi þýða fyrir íslenskan sjávarbúskap að verða laus við tollmúra Evrópubandalagsins. Alveg sama hvernig menn vilja skipta byrðinni af tollum milli útflutnings landsins og neytenda, sem fer auðvitað eftir markaðsaðstæðum á hverjum tíma, menn geta metið það einhvers staðar á bilinu frá einum milljarði til tveggja milljarða, þ.e. 10 -- 20 milljarðar á þessum áratug. Það er þó alls ekki aðalávinningurinn. Meginávinningurinn væri sá að ef sjávarútvegurinn íslenski fengi tollfrjálsan aðgang að 380 millj. markaði með mikilli kaupgetu þar sem sjávarafurðaneysla er mikil, þá mundi það einfaldlega skapa algjörlega ný vaxtarskilyrði fyrir fiskvinnslu á Íslandi. Þá væru komin skilyrði þess að byggja hér upp háþróaðan matvælaiðnað, að fara fram hjá uppboðsmörkuðum Evrópubandalagsins, að komast með háþróaða, fullunna neytendavöru undir íslenskum vörumerkjum beint inn á neytendamarkaðinn, að auka vinnsluvirði þessarar framleiðslu í innlendum höndum og að flytja atvinnuna heim, vegna þess að auðvitað er það svo að tollakerfi EB er við það miðað að hvetja sjávarútvegsþjóðirnar til þess     að verða hráefnisframleiðendur í stað þess að verða háþróaðir matvælaframleiðendur.
    Hér hef ég einkum staldrað við sjávarútvegsmálin en við erum eindregið þeirrar skoðunar að sama máli gegni um hlut Íslands í þessu Evrópska efnahagssvæði að öðru leyti. Það er eftir miklu að slægjast, bæði á fjármagnssviðinu, atvinnu- og búseturéttarsviðinu og í samstarfsverkefnunum öllum og það ræður miklu um það hver verður staða þessarar þjóðar og þessa þjóðfélags í Evrópu framtíðarinnar og hvaða vonir við getum gert okkur um það að halda okkar hlut í samanburði við aðrar þjóðir, bæði varðandi lífskjör, vísindi, tækni og menningu.
    Virðulegi forseti. Ég vona að þessi greinargerð hafi skýrt málið fyrir hv. alþingismönnum og efa ekki að hér muni fara fram málefnalegar og gagnlegar umræður.