Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. utanrrh. fyrir skýrslu hans hér í Sþ. og hæstv. forseta fyrir að leyfa þessa umræðu.
    Tilefni umræðunnar er yfirlýsing utanríkisráðherrafundarins frá því 13. maí í Brussel. Sú yfirlýsing kom mér e.t.v. ekki neitt sérstaklega á óvart þó mér fyndist hún verri en ég var þó að vona. Hins vegar virðist mér að farið sé að renna upp ljós fyrir ýmsum um eðli og innihald þessara samninga sem þó hefur legið skýrt fyrir frá því að könnunarviðræðunum lauk fyrir meira en ári síðan. Kvennalistinn mótaði þá þegar stefnu um það að Ísland ætti ekki að keppa að því að gerast aðili að Evrópsku efnahagssvæði. Meginástæðurnar fyrir því komu m.a. fram í séráliti mínu í sjöunda riti Evrópustefnunefndar Alþingis sem var gefið út í maí 1990 og vil ég nefna helstu atriðin fyrir því áliti.
    Með samningnum taldi ég að Ísland væri augljóslega að afsala sér valdi til yfirþjóðlegra stofnana á mjög mikilvægum sviðum þjóðmála. Í samningum um Evrópskt efnahagssvæði felst að Ísland yrði að yfirtaka meiri hlutann af núverandi réttargrundvelli Evrópubandalagsins, þ.e. 1400 lagabálka úr samþykktum Evrópubandalagsins að því er varðar innri markaðinn og fjórfrelsið svonefnda. Fyrri ríkisstjórn hafði samþykkt að gangast undir þessi lög, sem eru að því er mér skilst liðlega 60% af öllum lagagrunni Evrópubandalagsins. Þessi lög og reglur bandalagsins yrðu þá æðri íslenskum lögum á sama hátt og sérstakur evrópskur EES - dómstóll yrði í raun hæstiréttur í málefnum að því er varðar allt samningssviðið. Með þessum samningum væru Íslendingar í raun að afsala sér bæði löggjafar - og dómsvaldi í ríkum mæli. Slíkt afsal stangast að mínu mati á við ákvæði stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, 2. og 61. gr.
    Í upphafi komu fram ýmsir fyrirvarar varðandi þessa samninga af hálfu Íslendinga en þeim hefur smám saman fækkað og nú eru engir eftir. Með aðild að Evrópsku efnahagssvæði væru Íslendingar að ganga hálfa leið og vel það inn í sjálft EB ásamt öðrum EFTA - ríkjum án þess þó að hafa nokkur raunveruleg áhrif á þróun mála þar eð EB hleypir EFTA - ríkjunum hvergi að ákvarðanatöku innan sinna vébanda. Með aðild Íslands að Evrópsku efnahagssvæði væru Íslendingar að einangra sig til frambúðar frá öðrum hlutum heimsins en Evrópu. Þetta voru aðalástæðurnar fyrir því að Kvennalistinn tók þá afstöðu að Ísland ætti ekki að gerast aðili að EB, sem er raunar sama álit og aðrir hafa, en við töldum heldur ekki að Íslendingar ættu að gerast aðilar að Evrópsku efnahagssvæði þar sem við töldum að þetta væri svo stórt skref inn í EB að við ættum ekki að taka það.
    Í umræðunni hérlendis að undanförnu hefur verið fjallað um þetta mál eins og það væri nær einvörðungu spurningin um tollfrjálsan aðgang okkar fyrir fiskafurðir á markaði EB. Varla hefur verið minnst á þá þætti sem ég hef hér áður talið, þ.e. yfirtöku okkar á reglum innri markaðarins með öllu sem þeim fylgir. Að mínu mati er það með öllu ótæk málsmeðferð sem er eingöngu til þess fallin að fela fyrir almenningi, og stjórnmálamönnum einnig, aðalatriði málsins. Þetta passar hins vegar vel fyrir þá sem hlynntir eru því að óheft frelsi fyrir fjármagn og markaðsöfl Vestur - Evrópu nái einnig til Íslands. Sannleikurinn er sá að með Evrópsku efnahagssvæði væri verið að veita 350 millj. manna sama rétt hér á landi og okkur sem teljumst Íslendingar. Er þetta það sem við viljum?
    Ég vil benda á það að þótt hagfræðingar margir hverjir hafi sýnt fram á að hagvöxtur mundi aukast svo og svo mikið á svæðinu öllu með frjálsum fjármagnsflutningum þá eru þeir mjög margir sem efast um þá útreikninga og enn fleiri sem benda á að frjálsir fjármagnsflutningar geta haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir jaðarsvæði eins og Ísland mundi verða innan Evrópska efnahagssvæðisins. Þá hefur oft verið bent á dæmi frá Suður - Ameríku þar sem það hefur haft mjög alvarlegar afleiðingar að hleypa lausu frelsi fjármagnsins. Innan Evrópubandalagsins hefur t.d. Írland farið mjög illa út úr aðild sinni að Evrópubandalaginu. Þar hefur ekki eingöngu mikið fjármagn streymt burtu, heldur hefur atvinnuleysi verið þar mjög mikið, viðvarandi atvinnuleysi upp á 17% núna í langan tíma, auk þess sem fólk flytur þar í stórum stíl í burtu. Jaðarsvæði, eins og Írland virðist vera innan Evrópubandalagsins, fara því illa út úr þessu og það eru mjög margir sem benda á að Ísland muni lenda í því sama ef við gerumst aðilar að Evrópsku efnahagssvæði. Enn fleiri benda á að hinar dreifðu byggðir Íslands mundu fara mjög illa út úr því, enn verr en suðvesturhornið.
    Ef við lítum aðeins yfir sögu þessa máls er það saga mikilla blekkinga. Alþfl. hefur frá byrjun haft forustu í þessu máli. Hann hefur dregið vagninn og notið til þess stuðnings bæði Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu og, það sem afdrifaríkara var, einnig Framsfl. og Alþb. í tíð fyrrv. ríkisstjórnar. Forsrh. í síðustu ríkisstjórn, hv. 7. þm. Reykn. Steingrímur Hermannsson, margítrekaði bæði fyrir og eftir alþingiskosningarnar nú á dögunum að, eins og hann orðaði það, ekki kæmist hnífurinn á milli hans og utanrrh. í afstöðu til EES - samninganna og vitnaði til þess hér áðan úr þessum ræðustól. Alþb. var að vísu að nefna einhverja fyrirvara en í reynd veittu þeir utanrrh. Jóni Baldvini Hannibalssyni ótakmarkað umboð til samninga fyrir hönd Íslands. Fulltrúi Alþb. í Evrópustefnunefnd, Hjörleifur Guttormsson, lýsti sig að vísu ætíð andvígan samningaviðræðunum, en ráðherra flokksins, þó sérstaklega formaðurinn, sóru þá afstöðu jafnharðan af sér þannig að það var í raun einungis þingflokkur Kvennalistans sem á síðasta kjörtímbili hafði eindregna og skýra afstöðu á móti stefnu utanrrh. í málinu. Í samræmi við það óskaði Kvennalistinn þegar í upphafi þessa vorþings eftir umræðum utan dagskrár um þróun samningaviðræðna um Evrópska efnahagssvæðið sem við erum nú að ræða sem betur fer.
    Upphaf þessa máls má rekja allt til mars 1989. Þá komu utanríkisráðherrar og forsætisráðherrar EFTA-ríkjanna saman í Ósló. Það var birt sameiginleg yfirlýsing með ýmsum fyrirvörum forsrh. Forsrh. hélt ræðu þar sem kom fram að Ísland yrði að gera fyrirvara að því er varðaði fjármagnsflutninga, flutninga á fólki og um yfirþjóðlegar stofnanir. Þetta voru yfirlýsingar sem ég taldi mjög mikilvægar og var í raun ekki mjög áhyggjufull eftir að hafa heyrt hversu ákveðið þáv. forsrh. tók á þessu máli að því er varðaði fyrirvara Íslands. En því miður var ekkert gert með þessa yfirlýsingu í könnunarviðræðunum við Evrópubandalagið. Kom það afar skýrt fram í skýrslu utanrrh. sem hann gaf þinginu í nóvember árið 1989 og einnig í umræðum um hana. Eftir að samningaviðræðurnar hófust var heldur ekkert gert með yfirlýsingu forsrh. landsins. Það er hægt að lesa það greinilega í Alþingistíðindum, bæði í ummælum hæstv. utanrrh. og hæstv. viðskrh. í þáv. ríkisstjórn, sem eru einnig í þessari ríkisstjórn, þar sem þeir marglýstu því yfir að engir fyrirvarar hefðu verið gerðir eða mjög óverulegir fyrirvarar hefðu verið gerðir af hálfu íslensku ríkisstjórnarinnar. Og í bókun sem ríkisstjórn Íslands gerði 29. nóv. 1989 kom fram að utanrrh. var veitt mjög víðtækt umboð. Þó stendur þar að utanrrh. muni taka áfram þátt í undirbúnings - og samningaviðræðum sem, orðrétt, með leyfi forseta: ,,byggðar verði á sameiginlegum niðurstöðum könnunarviðræðna, þar með talið þeim fyrirvörum sem Íslendingar hafa sett fram.`` Og síðan túlkaði hæstv. utanrrh. þessa fyrirvara og þeir voru fyrst og fremst um fjárfestingar erlendra aðila í fiskiskipum á Íslandi og um fólksflutninga. Í Alþingistíðindum 29. okt. í haust þar sem verið var að ræða þetta kemur þetta mjög greinilega fram þar sem hann var spurður um þá fyrirvara sem settir höfðu verið og það kemur, með leyfi forseta, orðrétt:
    ,,Við settum fyrirvara um rétt erlendra aðila til fjárfestingar og eignarréttar í fyrirtækjum sem nýttu auðlindir okkar, bæði að því er varðar sjávarútveg, aðallega fiskveiðar, og orkugeirann.`` Það eru engir aðrir fyrirvarar. Síðan kemur aðeins síðar að settir hafi verið fyrirvarar um fjárfestingar en einungis á aðlögunartíma fyrir banka um verðbréfaviðskipti og tryggingar. Og að því er varðar fjölmiðlun fyrir þýðingarskyldu og að því er sneri að fjarskiptum og gagnaflutningskerfum. Það voru einungis tímabundnir fyrirvarar en hinir fyrirvararnir voru eingöngu að því er varðaði rétt erlendra aðila til fjárfestinga í fiskiskipum. Þar var ekki talað um neina frumvinnslu sjávarafla sem þó var oft talað um og komið hefur fram í máli hv. 7. þm. Reykn. sem var forsrh. í fyrrv. ríkisstjórn. Það kom aldrei fram af hálfu utanrrh. að hann teldi þetta vera neina fyrirvara. Síðan voru líka fyrirvarar að því er varðaði fólksflutninga og þá var vísað til Norðurlandaákvæðisins, en mér heyrðist að væri hugmyndin að falla frá því núna, eða svo virtist vera í máli hæstv. utanrrh. áðan.
    Það kom einnig fram í viðtali við hæstv. utanrrh. mjög greinilega, t.d. í viðtali í Tímanum miðvikudaginn 17. jan. 1990 segir utanrrh.: ,,Fyrirvararnir verða að byggjast á því að við fáum viðurkenningu á reglum um fríverslun með fiskafurðir sem er milljarðamál``, sem reyndar er fallið frá líka, ,,og í öðru lagi getum við fallist á sameiginlegan fjármagnsmarkað með þeim fyrirvara að við getum ekki samþykkt eignarrétt erlendra fyrirtækja að því er varðar þær auðlindir sem við byggjum tilveru okkar á, þ.e. sjávarútveginn og orkuiðnaðinn.`` Þarna er alveg greinilegt að utanrrh. gerði aldrei neitt með þá fyrirvara sem forsrh. gerði þá og þeim ummælum sem bæði utanrrh. og viðskrh. höfðu úr þessum ræðustól var aldrei mótmælt hér á þinginu af hálfu annarra í ríkisstjórninni.
    Það ætti því í raun ekkert að koma á óvart af því sem stendur í yfirlýsingu utanríkisráðherrafundar EB og EFTA í Brussel þó að málið sé að vísu enn svartara en ég bjóst við. Ég bjóst ekki við þessu svona slæmu. En ef við lítum aðeins nánar á þessa yfirlýsingu þá kemur fram í henni margt merkilegt sem ástæða er til að spyrja um og kom ekki fram í máli hæstv. utanrrh. áðan. Í lið 4 segir að þeir hafi komist að þeirri niðurstöðu að leiðir virtust færar til úrlausnar á þeim atriðum sem enn væru eftir. Ég les það út úr þessu að þarna sé verið að höfða til sjávarútvegshagsmuna og það kom reyndar fram hér áður og þarna virðist það vera mat ráðherranna að leiðir séu færar. Ég heyrði ekki betur og vona að það sé rétt að því hafi verið algerlega hafnað af hálfu Íslendinga að leyfa fiskveiðar inni í landhelgi Íslands þó að mér finnist að vísu ráðherrann gefa ansi undir fótinn í þeim viðtölum sem ég hef hlustað á varðandi veiðiheimildir erlendra aðila. En ég vona að þetta atriði standi. Því miður heyrði ég í einu útvarpsviðtali að hæstv. utanrrh. virðist geta hugsað sér að veita veiðiheimildir innan íslenskrar lögsögu.
    Fljótlega eftir þá yfirlýsingu sem ríkisstjórnin gerði, sem hæstv. utanrrh. las hér áðan, þá birtist við hann viðtal í útvarpinu þar sem hann sagði, með leyfi forseta, þegar verið var að ræða um sjávarútvegshagsmunina:
    ,,Því næst gætu auðvitað komið til greina óskir frá EB um einhvers konar samstarfssamning. Við erum eina þjóðin sem hefur ekki samstarfssamning við þá um sjávarútvegsmál almennt.`` Síðar í þessu viðtali sagði hæstv. ráðherra: ,,Og þegar um er að ræða sameiginlega stofna, þá gætum við hugsanlega boðið upp á samning um sameiginlega nýtingu á slíkum stofnum en ég orða ekki slíka hluti nema bara prívat við ykkur,`` sagði ráðherrann í útvarpsviðtali einn morguninn. Það er von að menn hlæi, að hann láti sér detta í hug að þetta sé prívatsamtal.
    Mér þótti mjög slæmt að heyra þetta og bjóst við því að hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson mundi stökkva upp á nef sér því að hann hefur yfirleitt ekki látið hjá líða að mótmæla kröftuglega ef einhver hefur látið sér detta í hug að nefna slíkt. Það var hans háttur á síðasta kjörtímabili og kom mér mjög á óvart að heyra ekki hávær mótmæli frá honum sem og öðrum við þessi ummæli því mér þótti þetta gefa ýmislegt undir fótinn. ( Gripið fram í: Hann hefur ekki heyrt þetta.) Væntanlega ekki heyrt það, en þess vegna vil ég spyrja hæstv. utanrrh. hvað þarna er á ferðinni og þegar talað var um að leiðir virtust færar

til úrlausnar í 4. lið þessa samkomulags, hvort hann hafi hugsanlega komið með þetta sem hann nefndi prívat í útvarpinu. ( Gripið fram í: Hvar er ráðherrann?) Ég veit ekki hvort ráðherrann heyrir til mín en ég vona að hann sjái sér fært að svara þessu. Hann hefur að vísu oft látið hjá líða að hlusta á það sem ég hef sagt og ekki svarað því sem ég hef spurt um, en ég kem þá bara aftur og spyr hann ítrekað ef hann hefur ekki heyrt það sem ég segi. Mér þykir mjög nauðsynlegt að fá að vita hvað hann meinti í þessu prívatsamtali sem hann hafði við fréttamanninn og hvort hann hafi kannski orðað þetta á fundinum 13. maí í Brussel.
    Ég get ekki lesið annað út úr 6. lið þessarar samþykktar en að þarna sé verið að koma upp yfirþjóðlegri stofnun, þ.e. talað er um að koma eigi á fót sjálfstæðri EFTA - stofnun sem hafi samsvarandi umboð og svipað hlutverk og framkvæmdastjórn Efnahagsbandalagsins. Það vita allir sem vilja vita að þetta er ekkert annað en að færa verulegt vald til yfirþjóðlegra stofnana frá íslenska stjórnkerfinu. Alþingi er þarna að afsala sér miklu hlutverki ef þessi stofnun á að vera eitthvað í líkingu við það sem framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins er. Þarna er því greinilega verið að afhenda völd frá okkur til yfirþjóðlegra stofnana.
    Ég tek líka eftir því að í 8. lið er talað um að samningurinn muni fela í sér aukið samstarf í tollamálum. Hæstv. utanrrh. margítrekaði það hér áðan að það væri langt frá því að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið væri eitthvað í líkingu við Evrópubandalagið og tók sérstaklega fram að þarna væri ekki um tollabandalag að ræða. En mér finnst þarna vera gefið undir fótinn með það að þarna eigi að vera meira samstarf í tollamálum og ég vil gjarnan inna hann eftir hvað þarna er á ferðinni.
    Í 10. lið yfirlýsingarinnar segir orðrétt: ,,Þeir fögnuðu enn fremur því samkomulagi sem náðst hefur í tengslum við hindrunarlausa fjármagnsflutninga og þjónustuviðskipti. EFTA - löndin munu taka upp viðeigandi samþykktir Evrópubandalagsins frá 1. jan. 1993 með þeim undantekningum þó að um vissa þætti munu gilda aðlögunartímabil. Þau EFTA - ríki sem í hlut eiga munu beita núgildandi löggjöf sinni um fjármagnsflutninga frjálslega á aðlögunartíma.`` Mér finnst það mjög merkileg yfirlýsing að það eigi að fara að beita löggjöf frjálslega. Það er kannski í stíl við það sem nú þegar hefur verið gert þegar gefin var út reglugerð af hálfu viðskrh. um frjálsa fjármagnsflutninga sem gengu að flestra mati mjög á svig við lögin, ef reglugerðin var ekki hreint lögbrot eins og ég taldi nú raunar. Það er kannski það sem menn eiga við að ekki verði farið eftir lögum í nokkur ár þannig að það eigi að vera í lagi að gera slíka hluti. Því verð ég að vísa á bug.
    Ég hnaut einnig um það sem kom fram í máli fyrri ræðumanns sem talaði á undan mér og kemur fram í 14. lið að sérstaklega verði unnið að því marki að afnema viðskiptahindranir af völdum reglugerða um heilbrigði dýra og jurta. Þar sem hæstv. landbrh. er nú

staddur hér og hlýðir á mál mitt langar mig til að vita hvort ætlunin er að slaka eitthvað á reglum um innflutning á dýrum og jurtum vegna þess að þetta er okkur mjög mikilvægt. Á Íslandi hafa gilt mjög strangar reglur og reyndar hafa gilt líka strangar reglur á öðrum Norðurlöndum. En við höfum haft mikla sérstöðu á þessu sviði og okkur hefur tekist nokkuð vel að halda vissum dýra- og plöntusjúkdómum fyrir utan landið af því að við höfum þá sérstöðu að geta reist skorður við innflutningi. Mér leist því ekki á þetta atriði í yfirlýsingunni og vona að ekki eigi að slaka neitt á þeim kröfum sem við höfum haft varðandi þetta atriði.
    Í 16. lið yfirlýsingarinnar er talað um fjárhagsstofnun sem væntanlega er þessi þróunarsjóður sem talað er um að við eigum að greiða í. Það eru alveg ný sannindi fyrir mér að þetta ætti að vera kannski fjögurra ára sjóður og ég hefði gjarnan viljað fá nákvæmari upplýsingar um þennan sjóð og hver framlög Íslendinga eiga að vera í hann. Eitthvað hefur verið talað um 170 millj. kr. á ári. Ég veit ekki hvort þær tölur eru réttar eða eftir hverju á að fara varðandi þennan sjóð og hverjir eiga að hafa yfirráð yfir honum.
    Í 18. lið er raunverulega það sem eftir er af fyrirvörum Íslands, þ.e. um öryggisákvæði þegar alvarleg efnahagsleg, þjóðfélags- og/eða umhverfisvandamál í atvinnugrein eða í héraði væru að koma upp. Og hver á að meta þetta? Hefur verið reynt að leggja eitthvert mat á það hvað ,,alvarleg`` þýðir?
    Í 19. lið er einnig talað um aðild EFTA - landanna að nýjum samþykktum Evrópubandalagsins. Mér þykja þau ákvæði æði veikburða ef þau eiga að vera það sem á að duga fyrir EFTA - löndin til þess að fá aðild að frekari lögum og samþykktum eftir að samningur hefur verið gerður. Ég tel það allsendis ófullnægjandi ef þetta á að vera aðild EFTA - landanna að ákvarðanatökuferlinu.
    Það sem er kannski það alvarlegasta í þessari yfirlýsingu kemur fram í 22. og 23. lið þar sem talað er um að lög og reglur svæðisins eiga að vera æðri lögum landanna sem og að dómstóllinn verði eins konar hæstiréttur yfir lögrétti Evrópuríkjanna, en ekki er hægt að lesa annað út úr þessu. Vil ég benda á að Gro Harlem Brundtland, forsætisráðherra Noregs, telur að þetta ákvæði stangist á við stjórnarskrá Noregs og það þurfi aukinn meiri hluta á þinginu til þess að þessi samningur gæti verið samþykktur þar vegna þessara ákvæða. Ég tel það ljóst að ef af þessu verður gangi það í berhögg við íslensku stjórnarskrána, það sé ekki hægt að samþykkja þetta. Það er í samræmi við álit ýmissa annarra. Í sjónvarpinu í gær var viðtal við Gunnar G. Schram lögfræðiprófessor þar sem hann segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Ef við gerumst aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, þá er náttúrlega ljóst að í öllum þeim efnum sem það tekur til, en það er mjög breitt svið efnahagslífsins, þá verður þarna um hæstarétt að ræða ef upp koma deilumál sem skotið er til þessa dómstóls í Lúxemborg. Það sýnir að hann hefur endanlegt dómsorð og við sem önnur aðildarríki

yrðum þá að hlíta dómum þessa nýja alþjóðlega dómstóls.``
    Þetta er hans álit og ég vil benda á að Stefán Már Stefánsson prófessor hefur einnig haft svipaðar skoðanir um það að ef um svona dómstól yrði að ræða, þá þyrfti að gera breytingar á íslensku stjórnarskránni.
    Ég vil, virðulegur forseti, að lokum leggja áherslu á það að í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið er fyrst og fremst verið að semja um að afnema landamæri milli ríkja þannig að þeir sem eiga fjármagn geti farið með það þangað sem talið er hagkvæmast að fjárfesta og stofna fyrirtæki. Einnig er gert ráð fyrir óheftum vöruviðskiptum með iðnaðarvörur en viðskipti með sjávarafurðir eru ekki frjáls. Aðild að Evrópubandalaginu er að mati okkar kvennalistakvenna ekki kostur fyrir Íslendinga. Aðild að Evrópsku efnahagssvæði er stórt skref inn í EB eins og ég hef hér rakið. Þess vegna hefur Kvennalistinn ekki aðeins lýst yfir andstöðu við aðild Íslands að EB heldur höfum við lýst andstöðu við aðild Íslands að Evrópsku efnahagssvæði þegar það er haft í huga hversu víðtækur sá samningur á að vera og hefur nú komið í ljós að hann gengur miklu lengra heldur en nokkurn hafði grunað. Ég tel að það sé mjög eðlilegt fyrir okkur að hafa góð samskipti við EB eins og við höfum haft en við megum ekki hefta okkur, við megum ekki loka okkur inni á einum markaði, við verðum að gæta þess að við lokum engum leiðum.
    Fyrir nokkrum árum fór meiri hlutinn af okkar fiskútflutningi á Bandaríkjamarkað en hin síðari ár hefur EB - markaðurinn tekið við stærstum hluta hans. Nú hefur þetta örlítið verið að snúast við, þ.e. Bandaríkjamarkaður hefur glæðst aftur og hann getur orðið okkur mikilvægur sem og markaðir í Austur - Evrópu og Asíu. Við þurfum því að gæta þess vel í samskiptum við aðrar þjóðir að binda okkur ekki fast í efnahagsheildir hvort sem þær heita Evrópubandalag eða Evrópskt efnahagssvæði heldur eigum við að líta til fleiri átta.