Björn Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka síðasta ræðumanni hlý orð í garð forfeðra minna sem hafa starfað hér í þingsölunum og hvernig hann hefur minnst þeirra hér í ræðu sinni.
    Ég ætla í upphafi þessa máls að minna á það hvernig gangur mála hefur verið varðandi þátttöku Íslendinga í umræðunum um Evrópska efnahagssvæðið. Það er um það rætt nú að verið sé að mynda nýja Evrópu, Evrópumyndin hafi breyst og það sé verið að taka upp nýja skipan í Evrópu eftir að múrarnir hrundu og eftir að samvinna þjóðanna hefur stóraukist á þeim grundvelli sem lagður var með Evrópubandalaginu árið 1957 og síðan framvindu mála frá þeim degi. Þessi breyting hefur verið kennd við húsagerðarlist, að menn séu að reisa nýtt hús í Evrópu, og grunnurinn hefur verið lagður og síðan eru menn að bæta ofan á hann hver með sínum hætti.
    Íslendingar ákváðu í mars 1989 undir forustu þeirra hæstv. utanrrh. og hæstv. fyrrv. forsrh. Steingríms Hermannssonar að taka þátt í þessari nýskipan í Evrópu með aðild að viðræðum EFTA og Evrópubandalagsins um Evrópskt efnahagssvæði. Á fundi sem haldinn var í Ósló í mars 1989 var þessi ákvörðun tekin. Það var um það rætt síðan haustið 1989 hvort Alþingi Íslendinga ætti að setja viðræðumönnum um þessi mál umboð. Það var tillaga Sjálfstfl. á þeim tíma í nóvember og desember 1989 að slíkt umboð yrði samþykkt hér á Alþingi. Því var þá eindregið hafnað af hæstv. utanrrh. og hæstv. þáv. forsrh. og talið að þetta mál ætti að vera í höndum ríkisstjórnarinnar og í höndum utanrrh. í samræmi við þær venjur og reglur sem giltu um slík mál og slíka samninga. Sjálfstfl. taldi á þessum tíma að hér væri um slíkt stórmál að ræða að það væri eðlilegt að Alþingi hefði beinan atbeina að stefnumótun í því með því að veita þingumboð til ríkisstjórnarinnar vegna þess. Sjálfstfl. hefur síðan sætt sig við þá málsmeðferð sem ríkisstjórnin hafði í málinu og tekið þátt í umræðum hér á þingi um skýrslur utanrrh. þegar þær hafa verið lagðar fram.
    Sjálfstæðismenn beittu sér fyrir því 12. febr. sl. með sérstakri beiðni til hæstv. utanrrh. að hann legði fram skýrslu um málið eins og það stæði í lok þess kjörtímabils sem lauk nú í apríl. Þessi skýrsla var lögð fram í mars sl. en því miður tókst ekki á síðustu dögum þingsins að ræða hana og ekki að fjalla um þau mál sem þá voru efst á baugi og lágu þá til grundvallar í þeim viðræðum sem höfðu farið fram allt frá árinu 1989 um þátttöku Íslands í Evrópska efnahagssvæðinu. Hæstv. utanrrh. lét dreifa þessari skýrslu sinni á fundinum í dag og leggur hana til grundvallar þegar hann ræðir um þau mál sem nú eru á dagskrá og leggur því til grundvallar þegar hann greinir þinginu frá síðasta sameiginlega fundi ráðherra Evrópubandalagsins og EFTA - ríkjanna sem haldinn var í Brussel á mánudaginn.
    Það er fullkomlega eðlilegt hjá hæstv. utanrrh. að standa þannig að málum að leggja þessa skýrslu hér fram og kynna hana þingmönnum um leið og hann

greinir frá fundinum í Brussel á mánudaginn því að í þeirri skýrslu er getið um sambærilegan fund og haldinn var á mánudaginn og fram fór 19. des. 1990. Og ég verð að segja að það kemur mér mjög á óvart að hlýða hér á ræðu hæstv. fyrrv. forsrh. og hæstv. fyrrv. fjmrh. um þessi mál og sérstaklega um þau mál sem lúta að yfirþjóðlega þættinum í öllu þessu stóra máli þegar maður lítur á þá skýrslu sem samin var í mars 1991 og byggist á ráðherrafundi sem haldinn var 19. des. 1990 þegar þeir báðir sátu í ríkisstjórn. Þeir gerðu báðir að sérstöku umræðuefni hinn yfirþjóðlega þátt. Og hæstv. fyrrv. forsrh. Steingrímur Hermannsson vék í ræðu sinni sérstaklega að 6. tölul. í ályktun ráðherrafundar EFTA og EB, sem var haldinn á mánudaginn sl., þar sem segir um ráðherrana, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Þeir fögnuðu þeim árangri sem náðst hefur við skilgreiningu lausnar á rekstrarvanda kerfis sem tryggt gæti jöfn samkeppnisskilyrði um allt EES, þar með talið að því er varðar ríkisstyrki. Þeir tóku fram að dregið hefði saman með samningsaðilum við að skilgreina í meginatriðum verkaskiptingu og samstarf milli framkvæmdastjórnar EB annars vegar og sjálfstæðrar EFTA - stofnunar sem hefði samsvarandi umboð og svipað hlutverk og framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins hins vegar.``
    Þetta segir í 6. tölul. yfirlýsingar sem ráðherrarnir gáfu út nú á mánudaginn. Í ályktun ráðherranna, sem gefin var út 19. des. og er að finna í þessari skýrslu sem utanrrh. lagði hér fram og hefur verið kynnt þingmönnum hér í dag að nýju, er komist þannig að orði, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Ráðherrar tóku fram að samningamenn ynnu nú á þeim grundvelli að sett yrði upp sjálfstæð EFTA - stofnun til að beita samkeppnisreglum. Slík stofnun ætti að hafa samsvarandi umboð og hlutverk og framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins.``
    Um þetta mál var rætt þá þegar þegar þessi skýrsla var gefin út. Og þegar þessi fréttatilkynning kom fram, 19. des. 1990, var vakin athygli á þessu orðalagi sérstaklega, hvað í því fælist. Það hlýtur einnig að hafa verið í verkahring ráðherra á þeim tíma að fjalla um þetta og gera sér grein fyrir því hvað í þessu orðalagi fælist. Þess vegna kemur mér á óvart að hv. 8. þm. Reykn. skuli tala hér eins og þessi mál komi honum sérstaklega á óvart nú á þessari stundu þegar hann sat í ríkisstjórn á þeim tíma sem þetta ákvæði kom fyrst inn í ályktanir sameiginlegs fundar EFTA og Evrópubandalagsins.
    Það kemur mér einnig á óvart að heyra hæstv. fyrrv. forsrh. taka þannig til orða í blaðaviðtölum að hann hefði ekki getað sætt sig við og talið að um slík mál, væntanlega þetta mál eins og hann vék sérstaklega að í ræðu sinni, hefði ríkisstjórnin átt að fjalla sérstaklega og hann hefði aldrei getað sætt sig við það ef hann sæti í ríkisstjórn að um slíkar ákvarðanir væri ályktað nema ríkisstjórnin hefði sérstaklega verið kölluð saman til þess. Ég tel að í þessu efni gangi núv. ríkisstjórn aðeins að því sem var og hafði verið gert þegar hún var mynduð 30. apríl sl. Þannig er þetta

mál vaxið.
    Og þegar ræðumenn tíunda hér einstök atriði í þessari ályktun, sem liggur til grundvallar þessum almennu umræðum, þ.e. yfirlýsingu ráðherranna frá 13. maí sl., þá verða menn að hafa í huga að þessar viðræður, sem hófust í mars 1989, byggjast á þeim grundvelli að EFTA - ríkin samþykkja í upphafi að ganga að þeim skilyrðum Evrópubandalagsins að 1400 réttargjörningar Evrópubandalagsins skuli verða lög í EFTA - löndunum. Annars verði Evrópska efnahagssvæðið ekki til. Þetta er sá grundvöllur sem lagður var í tíð fyrrv. ríkisstjórnar og sá grundvöllur sem liggur að baki umræðunum um Evrópska efnahagssvæðið. Síðan hafa menn frá þeim tíma sem þessar ákvarðanir voru teknar, frá árinu 1989, verið að fikra sig áfram stig af stigi og reyna að ræða um þau atriði sem ágreiningur er sérstaklega um. Þessi ályktun, sem liggur nú hér fyrir okkur og umræður hafa spunnist um, er aðeins eitt þrep á þeirri leið, einn áfangi á þeirri leið og þar eru tíunduð þau atriði sem ekki hefur enn náðst samkomulag um. Og þar kemur fram, eins og hæstv. utanrrh. gat um, að það eru sérstaklega sjávarútvegsmál, landbúnaðarmál og síðan spurning um að stofna sérstakan sjóð og síðan einstök ákvörðunaratriði varðandi hinar sameiginlegu stofnanir.
    Varðandi hinar sameiginlegu stofnanir, eins og hæstv. utanrrh. benti réttilega á í sinni ágætu skýrslu sem hann flutti þingheimi í upphafi þessara umræðna, er á lokablaðsíðum þessarar skýrslu, sem lögð hefur verið fram á fundinum, ítarlega fjallað um laga - og stofnanamál þar sem tekið er á öllum þeim atriðum sem koma til álita þegar þessi skýrsla og þessi yfirlýsing ráðherrafundarins frá 13. maí er lesin. Þar er ítarleg greinargerð um hvert einasta og einstakt atriði, um EES - stofnunina, um hlutverk þjóðþinga, um EES - dómstólinn, um öryggisákvæði og annað slíkt. Þar er lagður grunnurinn og í tíð fyrrv. ríkisstjórnar var lagður grunnur að þessu leyti einnig, eins og fyrrv. ríkisstjórn samþykkti, að Íslendingar gengju til þessa samstarfs á þeim grundvelli að allur lagabálkur Evrópubandalagsins, 1400 réttargjörningar, yrði lagður til grundvallar í viðræðunum. Um hann yrði ekki samið heldur einstök atriði sem menn tækju og teldu að væri ágreiningur um.
    Þannig stendur því þetta mál nú þegar stjórnarskipti fara fram og í ljósi þessa ber að skoða þá ályktun sem ráðherrarnir samþykktu á fundi sínum á mánudaginn og í ljósi þessa verður einnig að skoða þær yfirlýsingar og þær umræður sem hér fara fram og það hvað ráðherrar í fyrrv. ríkisstjórn hafa um þetta mál að segja. Þeir hafa staðið að þessu í meginatriðum.
    Hæstv. utanrrh. sagði á fundi fyrir kosningarnar að 98% af því sem um þyrfti að semja vegna þátttöku í Evrópska efnahagssvæðinu væri þegar um samið og að það væri búið að ganga frá þessu og það ætti einungis eftir að ganga frá --- ég segi einungis en vil nú setja það innan gæsalappa því að það eru vissulega mjög mikilvæg atriði --- 2% af þeim atriðum sem um þyrfti að semja í þessum málum.
    Þetta eru staðreyndir sem liggja fyrir og það liggur einnig fyrir að við erum hér að tala um 70 -- 80% af því sem við þyrftum að semja um við Evrópubandalagið ef við tækjum þá ákvörðun að sækja um aðild að bandalaginu. Þetta var gert í tíð fyrrv. ríkisstjórnar. Mér finnst nauðsynlegt að menn hafi þetta í hyggju og í huga í þessum umræðum og minnist þess hvernig fyrrv. ríkisstjórn stóð að þessum málum. Ég vil rifja upp að við sjálfstæðismenn lögðum til að þetta yrði gert með sérstöku umboði Alþingis, en því var hafnað af fyrrv. ríkisstjórn. Hún vildi hafa þetta mál alfarið í sínum höndum og þar voru þeir samstiga allir forustumenn í þeirri ríkisstjórn, þeir menn sem hér hafa áður talað, hæstv. fyrrv. forsrh. og hæstv. fyrrv. fjmrh. Við nokkrir þingmenn tókum þátt í fundi fyrir kosningarnar þar sem þetta mál var rætt sérstaklega og þar sem hæstv. utanrrh. minntist á þá staðreynd að búið væri að semja um 98% af þeim atriðum sem um þyrfti að semja og var því ekki andmælt, en hv. 8. þm. Reykn. lét þess getið að sér hefði ekki verið kunnugt um að um jafnmikið hefði verið samið og raun bar vitni. Ég vil taka það fram að hann taldi að hæstv. utanrrh. hefði ef til vill ekki skýrt ríkisstjórninni frá þessu öllu en hann mótmælti ekki þeirri staðreynd að málið væri komið jafnlangt og raun ber vitni. Mér finnst nauðsynlegt að hafa þetta í huga.
    En mikilvæg atriði eru eftir. Og vissulega verður það mikið verk fyrir hið háa Alþingi að taka ákvarðanir síðan um einstök atriði í þessu máli öllu ef það kemst á það stig að það verði lagt hér fyrir og menn fari að taka einstök mál sem við þurfum að taka afstöðu til þegar samningar hafa verið gerðir. Það er mikið starf óunnið að því leyti.
    Pólitíska stefnumótunin var í höndum hæstv. utanrrh. og fyrrv. ríkisstjórnar sem lagði grunninn að þessu máli og síðan hafa þessir samningsaðilar verið að þrengja ágreiningsatriðin. Þau liggja nú hér fyrir í þessari ályktun sem hæstv. utanrrh. gerði góða grein fyrir í upphafi máls síns og ég ætla ekki að rekja einstaka þætti þess máls.
    Spurningin hlýtur að vera eftir hverju er að slægjast eins og fram kom í máli hæstv. utanrrh. Hann gat þess að á döfinni væru ráðagerðir um það að gert yrði, eins og hann kallaði, sérstakt áhættumat. Menn færu yfir þetta og kynntu sér einstaka þætti þessara mála enn frekar með íslenska hagsmuni í huga og síðan yrði tekin afstaða að því leyti. Þá er eftir, eins og fram hefur komið, að ræða um sjávarútvegsmál, landbúnaðarmál og ýmis fleiri mál og þau mál sem almennt er talað um í þessari ályktun ráðherrafundarins i Brussel.
    Það er ekki langur tími til stefnu ef að líkum lætur og það er komið fram að innan EFTA - hópsins og innan Evrópubandalagsins eru skiptar skoðanir milli ríkja. Innan EFTA - hópsins vitum við að það er alveg yfirlýst stefna a.m.k. tveggja EFTA - ríkja, þ.e. Austurríkis og Svíþjóðar, að líta þannig á að þessir samningar um Evrópska efnahagssvæðið séu fyrsti áfanginn, fyrsta, annað og jafnvel þriðja skrefið inn í Evrópubandalagið. Við vitum það. Það er yfirlýst stefna

þessara þjóða.
    Finnar hafa verið að breyta sinni stefnu. Það er alveg augljóst að andstaða Finna við þátttöku í Evrópubandalaginu er ekki jafnmikil og áður og raunar má segja að hún sé að hverfa. Og það er athyglisvert að hinn nýi forsætisráðherra Finna, sem er úr Miðflokknum þar sem andstaðan hefur verið mest við þátttöku í Evrópubandalaginu, hefur gefið yfirlýsingar sem túlka má með þeim hætti að Miðflokkurinn sé að breyta um afstöðu í þessu máli.
    Við vitum síðan hvað er að gerast í Noregi, að norska ríkisstjórnin hefur ekki tekið ákvörðun um aðild að Evrópubandalaginu, en þróunin þar er í þá átt og í Noregi ræða menn um að þessi samningsgerð sé ekki annað en áfangi eða að menn séu að komast í biðstöðu til þess að geta tekið stefnuna alfarið inn í Evrópubandalagið.
    Þessi skref hafa verið stigin hér á undanförnum árum undir forustu fyrrv. ríkisstjórnar og með vilja og vitund Alþingis á grundvelli þeirra skýrslna sem utanrrh. hefur lagt fram á þinginu á hverjum tíma og hvað skýrast kom fram í skýrslunni sem lögð var fram í mars sl. samkvæmt ósk sjálfstæðismanna. Eins og ég sagði vannst því miður ekki tími til að ræða þá skýrslu en ef menn hefðu rætt hana þá hefði margt af því sem hér hefur verið sagt í þessum umræðum e.t.v. verið talið óþarft.
    En það eru mörg og mikilvæg mál og miklar ákvarðanir sem þarf að taka og sjálfsagt að líta á einstaka þætti og skoða einstök lagaleg atriði og öll þau atriði sem lúta að þessari samningsgerð sem nákvæmast til þess að fyrirbyggja misskilning og koma í veg fyrir að menn séu að deila um atriði sem kannski er óþarft að deila um. Menn þurfa að átta sig á lögsögu hins nýja dómstóls og menn þurfa að átta sig á gildi þessara stofnana. En fyrir íslenska ríkið, miðað við það hvað þegar hefur verið gengið langt í þessum samningum og miðað við þær yfirlýsingar sem gefnar hafa verið í tíð fyrrv. stjórnar og miðað við framvinduna á þeim tíma sem verið hefur frá því að núv. ríkisstjórn tók við völdum, þarf náttúrlega sérstaklega sterkar og öflugar ástæður til þess að Ísland fari allt í einu nú að taka ákvörðun um það að draga sig í hlé í þessum viðkvæmu samningaviðræðum. Það hefur hins vegar komið fram að ýmsum félögum okkar í EFTA t.d. virðist ekki endilega á móti skapi að við drögumst aftur úr eða að við höfum ekki samleið með þeim og þeim mundi væntanlega finnast auðveldara að ná samkomulagi við Evrópubandalagið um hin óleystu mál ef Íslendingar stæðu ekki jafnfast á kröfunni í sjávarútvegsmálum eins og gert hefur verið undir forustu hæstv. utanrrh. Um það er enginn ágreiningur hér á þingi miðað við ræður manna, þar eru allir flokkar sammála um það hvernig á málum skuli haldið.
    Ég tek undir það með hv. 8. þm. Reykn. að það vakti sérstaka athygli mína að hæstv. utanrrh. hefur minnst á varnarmálin í sambandi við þessa stefnumótun nú á síðustu dögum. En þó ætti það ekki að koma neinum á óvart því að hæstv. utanrrh. hefur áður rætt um varnarmálin í tengslum við þátttöku Íslands í evrópsku samstarfi. Var það gert m.a. á þeim tíma og áður en samstarf þeirra flokka hófst sem sátu í síðustu ríkisstjórn. Ég hef lýst þeirri skoðun minni opinberlega, og tel að ég eigi að gera það hér í þessum umræðum vegna þess hvernig um það mál var fjallað hér áðan, að ég tel sjálfsagt fyrir Íslendinga að huga að því hvort þeir eigi að tengjast með einum eða öðrum hætti Vestur - Evrópusambandinu, þ.e. því bandalagi sem var stofnað árið 1948 og má kalla eins konar aðdraganda að því að Atlantshafsbandalagið var stofnað, bandalag sem stofnað var meðal þjóða á meginlandi Evrópu til þess að tryggja öryggi sitt og hefur síðan nú á síðustu árum þróast á þann veg að það er orðið samstarfsvettvangur aðildarþjóða Evrópubandalagsins um varnar - og öryggismál og gegndi m.a. miklu hlutverki í sambandi við Persaflóastríðið á dögunum. Norðmenn hafa hugað að því að tengjast þessu sambandi, Vestur - Evrópusambandinu, og ég tel að við Íslendingar eigum að líta á það mál eins og öll önnur sem eru til þess fallin að við fáum sem besta og mesta aðild og getum orðið sem bestir þátttakendur í þeirri miklu breytingu sem er að gerast í Evrópu á þessari stundu.
    Það er ljóst að það hefur lengi ríkt vafi um það hvort þetta Evrópska efnahagssvæði yrði að veruleika eða ekki og menn hafa beðið í eftirvæntingu eftir því hvað gerðist á fundinum sem hæstv. utanrrh. var á í Brussel á mánudaginn og veltu því fyrir sér hvort hann mundi bera þann árangur sem við stöndum nú frammi fyrir eða hvort hann yrði jafnvel til þess að upp úr slitnaði. Það gerðist ekki. Hin pólitíska ákvörðun var tekin um að halda áfram og nú vænta menn þess að fyrir sumarleyfi eins og kallað er eða fyrir 1. ágúst verði unnt að stíga enn eitt skrefið í þessu efni og nálgast enn frekar markmiðið um að koma formlega á fót hinu Evrópska efnahagssvæði sem hefur verið í mótun frá árinu 1989 og hefur verið hér mikil samstaða um, mikil pólitísk samstaða um og aðeins Kvennalistinn hefur í raun og veru lýst andstöðu við, því að allir aðrir stjórnmálaflokkar sem nú eiga sæti á Alþingi hafa verið virkir þátttakendur í því að móta þá stefnu sem ríkisstjórn Íslands fylgir nú og leggja grunninn að þeim ályktunum sem Íslendingar hafa staðið að, bæði nú 13. maí og einnig 19. des. sl. og alla daga frá því að hæstv. fyrrv. forsrh. Steingrímur Hermannsson og hæstv. utanrrh. sóttu leiðtogafund EFTA í Ósló í marsmánuði 1989. Og þeir hafa síðan á þessum árum, á þessum mánuðum eða missirum sem liðin eru --- þetta hefur gengið mjög hratt fyrir sig og menn hafa sett sér þröngar tímaskorður og miða að því að þetta svæði verði orðið að veruleika 1. jan. 1993 --- á þeim missirum sem liðin eru frá fundinum í Ósló 1989 hafa þeir sjálfir verið að slípa og þróa þær yfirlýsingar sem þeir gáfu, þá fyrirvara sem þeir settu og við stöndum hér og höfum nú í höndunum skýrslu utanrrh. og ályktanir sem gerðar hafa verið á þeim grunni og þær eru hér til umræðu.