Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Vegna orða hv. 2. þm. Vestf. vill forseti geta þess að þó hann hafi hér áður fyrr haft gaman af því að prjóna, jafnvel af fingrum fram, þá telur hann nú að það sé fyllilega farið eftir þingsköpum varðandi meðferð þessa máls. Það var reyndar mjög skýrt tekið fram hér áður en þessi umræða hófst með hvaða hætti samkomulag var gert milli allra þingflokksformanna. Það var ekki gert í hliðarsölum, það var gert á fundi með formönnum þingflokkanna í skrifstofu forseta hér á 1. hæð Alþingishússins. Og ég held að það fari ekkert á milli mála að hér er ekki verið að tala um utandagskrárumræðu, hálftíma umræðu, heldur var það skýrt tekið fram að hver þingflokkur taldi sig geta lokið þessari umræðu með því að fá til umráða einn klukkutíma sem þingmenn mundu þá skipta á milli sín. Forseti gekk út frá því að þingflokksformenn hefðu komið þessum atriðum til skila til sinna þingmanna sem hefðu hug á að taka til máls í þessari umræðu.