Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegur forseti. Hv. 8. þm. Reykn. vakti athygli á því að enn hefðu í þessari umræðu ekki talað ráðherrar af hálfu Sjálfstfl. Utanrrh. hafði talað hér, flutt ítarlega, vandaða og yfirgripsmikla álitsgerð af hálfu ríkisstjórnarinnar, álitsgerð sem við sjálfstæðismenn, ráðherrar flokksins sem aðrir, erum afskaplega sáttir við. Í framhaldi af því hefur hv. 3. þm. Reykv. Björn Bjarnason gert ítarlega grein fyrir stöðu málsins og þá ekki síst það sem ekki virtist vera vanþörf á, að gera grein fyrir því með hvaða hætti málið hefði verið statt meðan m.a. hv. 8. þm. Reykn. starfaði í ríkisstjórn ásamt með hæstv. utanrrh. Því svo virtist mér a.m.k. og kannski fleiri þingmönnum að ráðherrann fyrrv. talaði með þeim hætti eins og hann hefði hvergi komið nærri þeim hlutum sem áður hafði verið samið um og áður hafði verið unnið að af hálfu utanrrh. í þeirri stjórn sem og í þessari stjórn.
    Ég skal viðurkenna að hv. 3. þm. Reykv. Björn Bjarnason gerði að vísu frekar grein fyrir afstöðu núlifandi manna heldur en þeirra sem horfnir væru, en fyrrv. hæstv. fjmrh. fjallaði ekki síst um þá þætti og áhuga þeirra og lundarfar.
    Vegna þess að hv. 8. þm. Reykn. Ólafur Ragnar Grímsson spurði sérstaklega um það í tilefni af samþykkt ríkisstjórnarinnar hvort fallið hefði verið frá öllum efasemdum um annað en fiskinn, þá vil ég aðeins undirstrika að ástæða þess að ekki var þörf sérstakra fyrirvara af hálfu ráðherra Sjálfstfl. í ríkisstjórninni var auðvitað sú að bæði í stjórnarmyndunarviðræðum og eins á þessum sérstaka fundi, löngum vinnufundi ríkisstjórnarinnar, fór utanrrh. vandlega yfir málið. Það kom glögglega fram hjá honum hvar hann vildi setja mörk á hverjum einstökum þáttum. Og það kom fram hjá okkur að um það væri ekki ágreiningur milli flokkanna. Því var engin sérstök ástæða til þess fyrir okkur að setja fyrirvara við það umboð sem utanrrh. hefur. Við höfum treyst málsmeðferð ráðherrans fullkomlega og ég hef talið reyndar að hann hafi sinnt þessum málaflokki afskaplega vel. Menn minnast sérstaklega þegar hann var í forustu fyrir EFTA-ríkjunum og hlaut almennt lof fyrir það með hvaða hætti hann hélt á málum þá.
    Af þessum sökum tel ég enga ástæðu til þess að Sjálfstfl. sérstaklega setji fyrirvara í þessum efnum. Það var kannski vandi ráðherrans þegar hann fjallaði um málið í tíð hinnar fyrri ríkisstjórnar að það lá ekki ljóst fyrir þá hvaða umboð ráðherrann hafði. Það hefur örugglega gert honum erfiðara um vik í sínum störfum. Það kemur fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, það kom fram í stjórnarmyndunarviðræðum og það kom fram á þessum vinnufundi að það er ekki meiningarmunur á milli ráðherra Sjálfstfl. og hæstv. utanrrh. eða ráðherra Alþfl. um meðferð þessa máls.
    Ég hygg ég láti þessi orð nægja sem skýringu á því hvers vegna ekki voru settir neinir sérstakir fyrirvarar af okkar hálfu.