Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég geri ráð fyrir því að hæstv. utanrrh. hljóti að vera á leið til fundar, það er sennilega eitthvað treggengt undir honum úr því að hann hefur tafist þetta. En ég ætlaði ekki síst að víkja nokkrum orðum að máli sem hann kom að í framsöguræðu sinni og laut að mínum verkum í landbrn. á sl. ári og auk þess ræða lítillega ein tvö, þrjú önnur atriði sem því máli tengjast. Þá væri það ekki síður ánægjulegt ef hæstv. landb.- og samgrh. heiðraði okkur með nærveru sinni í kvöld. Hann hefur stundum iðkað þá íþrótt að óska eftir því að ráðherrar væru kallaðir til þingfunda, en ég ætla í sjálfu sér ekki að fara út í slíkt. ( Forseti: Hæstv. landbrh. er mættur hér.) Já, oft kemur góður þá getið er. ( Forseti: Forseti vill láta þess getið að hæstv. utanrrh. mun ekki vera kominn en hlýtur að vera væntanlegur á hverri stundu.) Ég þakka hæstv. forseta. Þar sem ljóst er að við höfum nægan tíma til umræðunnar og sú skynsamlega ákvörðun var tekin að hverfa frá því að reyna að pressa þessa umræðu inn í mjög þröngan stakk get ég reynt að haga máli mínu þannig að víkja fyrst að því sem ekki er eins nátengt störfum hæstv. utanrrh. kannski þó allt þetta heyri nú undir hann.
    Ég ætla þá fyrst að ræða lítillega það sem lýtur að verslun og viðskiptum með landbúnaðarvörur og nokkuð hefur borist inn í viðræður Evrópubandalagsins og EFTA - ríkjanna um stofnun Evrópsks efnahagssvæðis í hinum síðari hluta þeirra viðræðna. Nú var það svo að í upphafi viðræðnanna og lengi framan af var því næstum að segja staðfastlega neitað að landbúnaðarmál kæmu yfirleitt við þessar viðræður og þessa samningagerð. En það fór að kvisast fyrir um einu og hálfu eða tveimur árum síðan að eitthvað væri þetta að breytast og núna sl. ár hefur æ meira borið á því, sérstaklega að Evrópubandalagsríkin hafa viljað keyra málefni landbúnaðarins og viðskiptin með landbúnaðarvörur inn í þessa samningagerð og gengu þar lengst þegar þau sendu inn tilboð, eða kröfur eftir því hvað menn kjósa að kalla það, um allviðamiklar breytingar á innflutningstakmörkunum EFTA - ríkjanna í þá veruna að opna þær fyrir innflutningi frá Evrópubandalagsríkjunum.
    Í þessu skyni varð til listi allmikill upp á um 70 vörutegundir, ef ég man rétt, flokkaður niður, og var hann sendur af viðræðuaðilum, fram kominn af hálfu Evrópubandalagsins upphaflega og síðan sendur af viðræðuaðilunum til viðkomandi landa og síðan ráðuneyta til yfirferðar með óskum um að afstaða kæmi fram gagnvart þessum kröfum Evrópubandalagsins um að fríverslun yrði tekin upp með þessar tilteknu vörur innan hins Evrópska efnahagssvæðis. Með öðrum orðum, á mannamáli sagt, að EFTA - ríkin opnuðu landamæri sín og felldu niður allar innflutningstakmarkanir gagnvart þessum vörum. Hér voru aðallega á ferðinni trópískar vörur, framleiðsluvörur Suður-Evrópuríkjanna. Þar er næst til að taka sem að okkur Íslendingum snýr að þessi listi kom hingað og landbrn. var beðið af utanrrn. að fara yfir hann og láta í

ljósi sitt álit á óskum Evrópubandalagsins sem þarna birtust. Og því er ég nú að skýra frá þessu að mér þykir rétt að þetta komi hér fram af því að þetta hefur nokkuð borið á góma, m.a. verið umfjöllunarefni í blaðaviðtölum upp á síðkastið, að yfir þennan lista var farið í landbrn., ekki einu sinni heldur tvisvar, með stuttu millibili og hann var frá landbrn. sendur til utanrrn. með merkingum og bréfi og í þeim merkingum kom það skýrt fram í bæði skiptin að við léðum ekki máls á því að opnað yrði fyrir innflutning á neinum þeim vörum sem við Íslendingar framleiðum sjálfir í verulegu magni eða fullnægjandi fyrir okkar þarfir. Með öðrum orðum: Afstaða landbrn. kom alveg skýrt fram í bæði þessi skipti og utanrrn. mátti vera fullkunnugt um hana. Við vorum andvígir því að opnað yrði fyrir óheftan innflutning á t.d. grænmeti, afskornum blómum og öðrum slíkum vörum sem þarna voru á listanum og kröfur voru gerðar um af hálfu EB - ríkjanna. Ég vona að þetta sé nógu skýrt hvað yfirferð landbrn. og afstöðu í tíð annars og þriðja ráðuneytis Steingríms Hermannssonar snertir.
    Það er síðan ástæða til þess að vekja athygli manna á því vegna þess að það gætir mikils misskilnings að mínu mati í þessari umræðu þegar því er haldið fram að þarna sé eftir einhverju umtalsverðu að slægjast hvað Ísland snertir fyrir Suður-Evrópuþjóðirnar. Staðreyndin er sú að svo er ekki. Staðreyndin er sú að nánast án undantekninga er þegar frjáls og ótakmarkaður innflutningur á þeim framleiðsluvörum Suður-Evrópuríkjanna sem þau á annað borð mundu setja hingað á markað. En svo undarlega virðist vilja til að það er eins og þeim sé ekki kunnugt um þessa staðreynd og það er ekkert gert í því að fræða þá um það. Það er bókstaflega sagt þannig að ég á erfitt með að nefna nokkur dæmi nema ef vera skyldi árstíðabundið í ákveðnum tilvikum þar sem Suður-Evrópuþjóðir ættu mikla möguleika á því að auka sinn innflutning á trópískum vörum hingað þó að breytingar yrðu á innflutningsreglum Íslands. Hér eru ekki takmarkanir á t.d. eplum og appelsínum eða öðrum slíkum ávöxtum sem aðrar EFTA - þjóðir og hinar Norðurlandaþjóðirnar eru að takmarka innflutning á til að verja sína framleiðslu. Fræg eru dæmin af eplastríði Norðmanna sem eru með ákveðnar takmarkanir og reglur í gangi til þess að verja sína eplaframleiðslu og hafa af hlotist styrjaldir miklar kenndar við epli sem Norðmenn hafa háð við aðrar þjóðir, ekki síst Bandaríkjamenn. Þetta á ekki við í tilviki Íslands. Þvert á móti er þegar opið fyrir allar þessar suðrænu vörur og það mundi engu breyta þó að við færum að hrófla eitthvað við þeim innflutningstakmörkunum t.d. sem eru á gróðurhúsaafurðum til landsins. Þeir sem mundu hagnast á því yrðu Norður-Evrópuþjóðir, fyrst og fremst Hollendingar sem hafa yfirburðastöðu hvað samkeppnina snertir í þessum efnum og mundu væntanlega verða þeir sem helst mundu hagnast á að Ísland opnaði sín landamæri hvað þetta snertir meira en orðið er. Hollendingar og Danir, ef ég ætti að nefna þær tvær þjóðir sem ég teldi líklegast að gætu sótt einhverja ávinninga í formi aukins innflutnings til Íslands ef við breyttum þessum reglum.
    Það hefur hins vegar vakið athygli mína að það er eins og ekkert sé gert í því að upplýsa þessa staðreynd í viðræðum við þessar þjóðir. Ég hef hins vegar gert svolítið að því, fyrst og fremst þegar ég var að gæta hagsmuna íslensks landbúnaðar í Úrúgvæ-viðræðum innan GATT og átti þess kost að hitta ýmsa af framámönnum landbúnaðar og viðskipta, bæði Evrópubandalagsþjóða, EFTA - þjóða, Bandaríkjanna og fleiri landa og það tók yfirleitt ekki mjög langan tíma að útskýra það fyrir þessum mönnum af þeirri einföldu ástæðu að menn sáu að vegna sinnar landfræðilegu legu hefur Ísland ekki möguleika til framleiðslu á suðrænum afurðum af því tagi sem hér eiga hlut að máli. Sama mundi eiga við ef við rýmkuðum innflutningsreglur hvað snertir unnar landbúnaðarvörur, þær sem við framleiðum sjálfir í dag, þ.e. fyrst og fremst mjólkurvörur og kjötvörur. Það yrðu ekki Grikkir eða Spánverjar eða Portúgalir eða Ítalir sem fyrst og fremst mundu græða á því. Ég fullyrði að það yrðu aftur þessir sömu Norður-Evrópubúar, Hollendingar, Danir og kannski einhverjir fleiri sem þar mundu eiga langmesta möguleika á að hirða markaðinn sem við höfum varið fyrir okkar innlendu framleiðslu hingað til í þessum efnum.
    Þess vegna skil ég það nú eiginlega ekki að í tilvikinu Ísland skuli það enn vera í plöggum og uppi á borðum af þessu tagi að þarna sé einhverja skiptimynt að selja í staðinn fyrir rýmri viðskiptakjör með fisk. Það er svo sem kannski allt í lagi ef menn vilja spila þetta á þeim nótum að það eigi að láta útlendingana halda að þeir séu að fá eitthvað í staðinn og það sé réttlætanlegt að vera svo kaldrifjaður í þessum póker að það eigi bara að láta þá halda að við séum þarna með ása í staðinn fyrir tóma hunda, þ.e. þessa aumingja Suður-Evrópubúa sem eiga víst að trúa því að þeir mundu rétta eitthvað úr klyfjunum hjá sér ef við rýmkuðum reglur um innflutning á búvörum. En svo er sem sagt ekki. Og ég verð að segja það alveg eins og er í fullri hreinskilni hér á hv. Alþingi að stundum læðist sá ónotalegi grunur að mér að þetta sé að þvælast þarna meira ætlað til heimabrúks heldur en raunverulega til nota í þessum viðræðum og það sé þannig að ýmsir sjái sér kannski hag í því að læða með rýmkun á innflutningi á landbúnaðarvörum inn í þessa samninga, látandi Íslendinga halda það, Íslandsmanninn halda það að þetta hafi verið nauðsynlegt af samningatæknilegum ástæðum, vegna þess að það þyrfti ekki langa skoðun hjá þessum viðsemjendum okkar til þess að átta sig á því að þeir eru í þessu tilviki ekki að fá neitt í staðinn, bókstaflega ekki nokkurn hlut.
    En ég vona að ég hafi gert nægjanlega skýra afstöðu landbrn. og mína sem landbrh. meðan ég fór með þau mál. Ég var andvígur því, lagðist gegn því og lét þá afstöðu koma skýrt fram af hálfu landbrn. að rýmka þarna um, enda sá ég ekki að það þjónaði neinum tilgangi. Ég taldi það enn fremur óskynsamlegt á sama tíma og við stóðum í viðræðum á vettvangi GATT að fara að gefa slíku undir fótinn.

    Það er reyndar ástæða til þess að það komi þá fram hérna líka vegna þess að mér þykir stundum á það skorta að það sé munað eftir þessum viðamiklu viðræðum sem staðið höfðu og stóðu á vettvangi GATT í fjögur til fimm ár um í raun og veru algjörlega nýja heimsskipan í viðskiptum á sviði vöru og þjónustu. Það var ekkert meira né minna sem Úrúgvæ - viðræðurnar, sem hófust í Punta del Este í þvísa landi fyrir um fimm árum síðan, ætluðu sér að gera. Þær eru reyndar í strandi sem stendur en ekki er að vita nema þær verði teknar upp á nýjan leik og þá er rétt að menn minnist þess að svo mikið sem hugur manna hefur verið bundinn við þessar viðræður Evrópubandalagsins og EFTA þá mundu þó niðurstöður í GATT - viðræðunum, ef þær yrðu í líkingu við þær væntingar sem um tíma voru bundnar við þær viðræður, hafa miklu, miklu víðtækari áhrif og heimsáhrif í þessum efnum, á Evrópuríki jafnt sem önnur lönd. Þar var nú þessi klúbbur sem við erum þarna að ræða við Evrópubandalagið ekki hátt skrifaður, satt best að segja, í þessum Úrúgvæ - viðræðum og það var í raun og veru lærdómsríkt að kynnast því hversu geysileg andúð ríkti á Evrópubandalaginu, nánast án undantekninga, alls staðar annars staðar í heiminum. Það er ekki nema ein þjóð, held ég, sem þykir slakari karakter í þessum efnum og það eru þá Japanir vinir okkar sem voru nefndir í kvöldfréttum á Íslandi í kvöld.
    Eitt af því sem gerðist í þessum GATT - viðræðum og hleypti mjög illu blóði í ýmsa var nákvæmlega það að Evrópubandalagið væri að reyna í viðræðum við EFTA - ríkin að komast bakdyramegin inn á markaði EFTA - ríkjanna með sínar landbúnaðarvörur áður en niðurstaða yrði í GATT - viðræðunum. Það var tilboðið eða krafan til EFTA - ríkjanna um fríverslun með m.a. suðrænar vörur sem sett var fram á sl. ári. Þessi krafa var skilin af öðrum útflytjendum búvara og öðrum útflytjendum suðrænna ávaxta sem mjög óhrein tilraun Evrópubandalagsríkjanna til þess að ná þarna forskoti umfram aðra, til að mynda Afríkuþjóðirnar sem líka eru að reyna að flytja út trópískar vörur. Þær sáu þetta sem slíka tilraun af hálfu Suður-Evrópuríkjanna. Það hjálpaði ekki til og bætti ekki andrúmsloftið í þessum efnum.
    Og af því að hæstv. utanrrh. sagði að Evrópska efnahagssvæðið yrði ekki tollabandalag, þá kann það rétt að vera að í eðli sínu yrði það ekki tollabandalag, en hver yrði munurinn í reynd þegar við værum búnir að undirgangast fríverslun til að mynda með slíkar vörur? Værum við þá ekki í raun og veru komnir inn fyrir þessa tollamúra? Og mundi það ekki gefa Evrópubandalagsríkjunum forgang á okkar mörkuðum umfram aðrar þjóðir, augljóslega, eins og Afríkuþjóðir t.d. sem líka eru að reyna að koma þessum sömu vörum á markað, trópísku vörum, og þarna eiga í hlut?
    Varðandi jarðnæði þá hefur það heilmikið verið rætt og ég held að það sé rétt, m.a. vegna orða hæstv. utanrrh. hér áðan, að ég geri sömuleiðis grein fyrir því sem gert var eða ekki gert öllu heldur í landbrn.

í minni tíð í þeim efnum. Það mátti skilja það á hæstv. utanrrh. að það hefðu verið hysknir menn og jafnvel latir í landbrn., að þeir hefðu ekki nennt að útbúa tilteknar lagabreytingar handa honum í viðræðurnar, þ.e. hvernig ætti að breyta íslensku jarðalögunum, ábúðarlögunum, og jafnvel lögum um afnota- og fjárfestingarrétt útlendinga á fasteignum, þ.e. til að tryggja hagsmuni Íslendinga í þessu sambandi. Það er rétt ég svari því þá og játi að það er rétt hjá hæstv. utanrrh. að ég tók þá ákvörðun að láta ekki vinna þessar breytingar og ekki gera tillögur að því að breyta íslensku jarðalögunum og íslensku ábúðarlögunum í þessu skyni. Hvers vegna gerði ég það? Ég gerði það af þeirri einföldu ástæðu að ríkisstjórn Íslands, sú sem ég sat í, tók aldrei ákvörðun um það að fallast á að falla frá varanlegum fyrirvara í þessum efnum og setja í staðinn inn breytingar í íslensk ábúðarlög og jarðalög. Það var rætt í ríkisstjórninni, það kom um það ósk frá samninganefndarmanni Íslands, og reyndar tekið undir hana af utanrrn., að landbrn. færi í þessa vinnu að reyna að setja upp girðingar í íslensku jarðalögunum og ábúðarlögunum þannig að óhætt væri að falla frá öllum fyrirvörum um jafnræði útlendinga á móti Íslendingum til kaupa á jarðnæði í landinu. Hins vegar var aldrei tekin ákvörðun um að gera þetta í ríkisstjórninni og aldrei veitt neitt umboð til samninga á þeim grundvelli. Þess vegna taldi ég ekki rétt, það hefði verið villandi og gefið ranga mynd af stöðu málsins í ríkisstjórninni, að landbrn. færi að útfæra slíkar breytingar. Ég skýrði mönnum frá því að ég mundi ekki láta gera það á meðan staða málsins væri þessi.
    Það er síðan nauðsynlegt að það sé alveg skýrt hvað hér er á ferðinni. Þetta er ósköp einfalt í raun og veru. Spurningin snýst bara um það: Eru menn tilbúnir til þess að afsala sér öllum rétti til þess að staða Íslendinga, íslenskra ríkisborgara, til þess að eiga jarðnæði eða land verði önnur en útlendinga?
    Sú röksemd að það sé hægt að tryggja hagsmuni Íslands með því að setja girðingar við t.d. jarðalög sem geri það mjög erfitt og nánast óaðgengilegt fyrir einstaklinga, hvort sem þeir eru af íslensku eða erlendu bergi brotnir, að eiga land, það er alveg augljóslega hægt að gera það. Það skiptir ekki máli. Það er handavinna að setja það í lög t.d. að menn þurfi að vera 1,95 á hæð og með 20 cm grátt skegg til þess að mega eiga jarðir á Íslandi. Það mundi að sjálfsögðu eiga jafnt við um Þjóðverja sem og Íslendinga. Það mundi takmarka stórlega möguleika einstaklinga til þess að kaupa jarðir. En það er ekki málið. Spurningin snýst bara um það hvort þýðverskir eigi að hafa hér sama rétt og við og því hef ég verið andvígur. Ég hef ekki treyst mér til þess að gangast inn á þá línu að við ætlum um aldur og ævi, ad infinitum, að afsala okkur sem íslenskir ríkisborgarar rétti til þess að hafa sterkari stöðu til slíkra grundvallarréttinda í landinu en erlendir menn. Um það snýst málið. Og þar sem þetta sneri svona var ég ekki tilbúinn til þess að láta leggja í það vinnu í landbrn. að útfæra slíkar breytingar sem hefðu þá í raun gefið það í skyn að

menn væru búnir að ákveða að falla frá því að þarna gæti orðið um mismunun að ræða.
Þetta snýr þá auðvitað að því sem ég ætla að nefna næst, og fer nú senn að ljúka máli mínu, og hæstv. utanrrh. taldi mikinn árangur. Það er öryggisákvæðið í einni grein þessa plaggs ráðherranna frá fundinum um daginn. Ég gat ekki skilið hæstv. utanrrh. öðruvísi en svo að hann teldi það stórfellda framför að nú væru menn búnir að ákveða að henda út öllum varanlegum fyrirvörum og ekkert skyldi vera þar í staðinn annað en tiltekið öryggisákvæði. Þetta er ekki framför í mínum huga heldur stórkostleg uppgjöf vegna þess að í henni fælist, má ég spyrja felst kannski endanleg ákvörðun um það að falla frá því í hverju einasta tilviki að um mismunun geti verið að ræða milli innlendra og erlendra aðila á svæðinu? Vegna þess að það er verið að kasta út síðustu möguleikunum á því að hafa einhverjar varanlegar undanþágur inni í samningagerðinni í staðinn fyrir varnagla, öryggisákvæði. Þar með er það augljóslega þannig að þetta gagnvart jarðnæði og landnæði, ef ber að skilja yfirlýsingu ráðherrafundarins frá 13. maí þannig, er búið og hæstv. íslenski utanrrh. meira að segja lýsti sérstakri ánægju sinni með það, þennan 18. staflið, ef ég hef skilið hann rétt.
    Eitt atriði enn langar mig til að ræða og lýtur að búvörunum. Það varðar orðalag hér í kaflanum um landbúnaðarmálin þar sem vikið er að heilbrigðisreglum. Það hefur reyndar þegar verið nefnt hér af hv. 7. þm. Reykn. og ég hef svo sem ekki miklu við ágætan rökstuðning hans þar að bæta. En þetta er þó ákvæði sem mér er ákaflega illa við að sjá standa þarna, alveg geysilega illa við að sjá standa þarna vegna þess að ef menn gangast inn á þessa braut, þá er ekki bara að hrynja í raun og veru málsvörn okkar í þessum viðræðum gagnvart samningaviðræðum Evrópubandalagsins og EFTA. Þetta er í raun og veru allur sá grundvöllur sem núverandi íslensk landbúnaðarstefna hvílir á vegna þess að þetta er það eina handfasta sem við höfum, hvort sem heldur er í GATT - viðræðum, EB -- EFTA - viðræðum eða annars staðar til að réttlæta og rökstyðja þær sérreglur sem við höfum hér um innflutningsmálefni og viðskipti með landbúnaðarvörur. Þetta er það sem heldur. Þetta er það sem er sterkt. Það er það að menn skilja og sjá að vegna landfræðilegrar legu Íslands og afbrigðilegrar heilbrigðisstöðu sem við höfum hér og okkur hefur tekist að varðveita og verja í ljósi þessarar landfræðilegu einangrunar og stjórnarstefnu sem fellur að henni, þetta gefur okkur sterka stöðu í viðræðum um þessi mál almennt talað. Ef við förum að gangast inn á það á annað borð að Ísland sé tilbúið til að samræma sínar heilbrigðisreglur og viðskiptahindranir sem byggja á heilbrigðissjónarmiðum. Það stendur hér skýrum stöfum að menn ætli að hverfa frá öllum viðskiptatakmörkunum sem byggi á heilbrigðissjónarmiðum. Þar með talið yrði þá væntanlega að hætta banni á innflutningi lifandi dýra, hætta banni á innflutningi á hráu kjöti ef ekki væri hægt að sanna að nein sérstök sjúkdómahætta fylgdi því.

    Ég held að það sé ákaflega vont fyrir okkur, ekki bara í þessu samhengi eins og ég nefni heldur ýmsu öðru, ef léð verður yfirleitt máls á því að við Íslendingar, eyþjóðin úti í miðju Atlantshafi með algerlega afbrigðilega og sérstaka stöðu í þessum efnum, getum farið að taka upp í stórum stíl, jafnvel almennt reglur Evrópubandalagsins, meginlandsríkja Evrópu, í þessu sambandi. Það væri í raun og veru alveg þvert á alla skynsemi og fráleit niðurstaða fyrir okkur.
    Ég vil að það komi skýrt fram sömuleiðis að þann tíma sem ég var í landbrn. reyndum við einmitt að byggja á og nota þetta atriði sérstaklega. Við sömdum til að mynda ítarlega greinargerð um heilbrigðisstöðu í íslenskum landbúnaði og sendum hana fastanefnd Íslands í Genf til nota í GATT - viðræðunum og dreifðum henni eins víða og við gátum. Og við fundum ekki annað en það væri tiltölulega auðvelt að útskýra sérstöðu og þarfir Íslands í þessu sambandi á þessum grundvelli.
    Ég ætla svo ekki að lengja hér umræðuna með mikilli almennri umfjöllun af minni hálfu. Það hafa aðrir talsmenn Alþb. þegar gert, hv. 4. þm. Austurl. og hv. 8. þm. Reykn. og ég hef ekki miklu þar við að bæta. Ég vil þó segja að það undrar mig dálítið --- ja, margt undrar mig reyndar í umræðum um þetta og hefur lengi gert. En það segir mér nú eiginlega langleiðina nóg að lesa 23. stafliðinn í yfirlýsingu ráðherrafundar EB - og EFTA - ríkjanna frá 13. maí í Brussel til þess að menn eigi nú að fá sæmilega tilfinningu fyrir því hvað hér er á ferðinni. Ég er ekki viss um að Íslandsmanninum svona saklausum og í sínum lögskýringum sé endilega bót að hálærðum prófessorum utan úr heimi í þeim efnum þrátt fyrir ágæta uppástungu hv. 8. þm. Reykn. um það, sem ég ætla ekkert að lasta, fyrir þá sem eru djúpt sokknir í fræðin. En ég held að Íslandsmaðurinn þurfi ekkert að lesa í raun og veru nema þennan 23. staflið til þess að, eins og honum er lögskýringin í blóð borin, vita allt sem þarf að vita um þetta. Í þessu skjali stendur, með leyfi forseta sem er góðfúslega veitt:
    ,,Þeir tóku fram``, það munu vera hinir háu ráðherrar ,,að aðildarríki EFTA væru reiðubúin til þess að setja ákvæði í innri löggjöf sína í þá veru að reglur samningsins um Evrópskt efnahagssvæði skuli hafa forgang í þeim tilfellum sem þær rekast á við önnur ákvæði innri löggjafar þeirra``, þ.e. EFTA - ríkjanna. Þetta hlýtur nú að segja ákveðið um réttarstöðu þessara hluta hvers gagnvart öðrum. Það finnst mér a.m.k.
    Að lokum, virðulegi forseti. Ég hef eins og ýmsir fleiri, ég þykist skynja að það sé þannig, haft vaxandi efasemdir um það á síðustu mánuðum að út úr þessum samningaviðræðum ætlaði að koma það sem yrði okkur Íslendingum nógu hagstætt til þess að taka á okkur það óhagræði og taka þá áhættu, bera þá mínusa sem tvímælalaust eru í þeirri hlið reikningsdæmisins. Og það verður nú eiginlega að segjast eins og er að enn sem komið er sér maður lítið annað en þessa mínusa, því miður. Málið stendur þannig að plúsarnir, stóri plúsinn, sem alltaf hefur verið veifað framan í okkur, lætur ekkert á sér kræla enn þá, þessi

stóri með fríverslun með fisk sem hét nú svo í upphafi. Svo var hætt að kalla hann því nafni af því að það varð smátt og smátt ljóst að ekki yrði um neina fríverslun í eiginlegum skilningi þess orðs að ræða. Þá hörfuðu menn í það vígi að tala um betri og innri viðskiptakjör með fiskafurðir og hvað verður þá næst? Þessi stóri plús er enn ókominn.
    En hér er augljóslega á ferðinni ýmislegt sem er erfitt fyrir okkur, sem er óhagstætt okkur, annað sem er kannski meira tilfinningalega erfitt, snertir okkar vitund sem þjóðar í landinu, tilfinningar til landsins, eignarréttar á því o.s.frv. og hér hefur verið rætt um. Ég held að við verðum auðvitað að vera menn til þess að gera dæmið upp kalt og yfirvegað, mér liggur við að segja bara svona á stærðfræðilegum grundvelli, án þess að ég ætli nú að gera því skóna að síðan geti ekki fleiri gildi, sem ekki verða mæld í tölum, komið líka inn í myndina. En við verðum þá a.m.k. að skoða það fordómalaust hvernig plúsarnir og mínusarnir leggjast í þessu dæmi. Og meðan ekkert bólar á plúsunum, þá hlýtur maður að leyfa sér að hafa verulegar efasemdir um útkomuna í dæminu. Þannig er nú það.
    Ég held að ég þurfi svo ekki, hæstv. forseti, að segja í sjálfu sér mikið meira um þetta. Þetta verður sjálfsagt rætt nokkuð, enda ærin tilefni til og ég tek undir það sem hér hefur komið fram að þegar svona stórmál eru á ferðinni, ef marka má það, ef trúa má því að þessu máli verði jafnvel lent, það verði til lykta leitt hér innan fárra vikna, þá er spurningin um eina eða tvær vikur til eða frá í fundasetu Alþingis ekkert mál í því sambandi. Þó komið sé nokkuð fram á vorið og farið að lengja nokkuð daginn, þá er okkur ekkert að vanbúnaði að halda áfram þingstörfum, jafnvel þó ekki væri nema til þess að Alþingi væri til staðar á lokaspretti viðræðnanna til þess að fylgjast með, mér liggur við að segja árangrinum og útkomunni dag frá degi. Einhvern tíma hefði nú verið af minna tilefni kallað til fundar jafnvel á hinu háa Alþingi.