Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Á þessum vetri upphófust allharkalegar deilur hér í þinginu um það hvað þingmenn hefðu umboð til langs tíma. Deilurnar stóðu um það hvort löglegt væri að lögum landsins og stjórnarskrá að hafa hér vetrarkosningar eða hafa vorkosningar. Og það var fast á því máli haldið að menn væru að taka sér rétt sem þeir hefðu ekki ef þingmenn sætu hér sem þingmenn þessarar þjóðar, jafnvel þó þeir væru nú farnir út af Alþingi, nokkrum dögum lengur heldur en nákvæmlega fjögur ár. Þó að kosningalög töluðu um fjögur ár og þar með ekki um fimm og samkvæmt stærðfræðinni mætti gera ráð fyrir að menn mættu sitja allt að fjögur og hálft ár áður en þeir væru búnir að sitja fimm.
    En þetta: til hvers hafa menn umboð, hlýtur að vera það umhugsunarefni sem menn hafa til umræðu hér í kvöld, því að hv. 2. þm. Norðurl. e. hélt því fram að þingmenn hefðu ekki umboð nema nákvæmlega þann tíma sem þeir væru kjörnir, í fjögur ár. Og þá er það fyrsta spurning: Til hve langs tíma hafa ráðherrar umboð? Er það ekki nákvæmlega fjögur ár eins og þingmenn ef þeir fá völdin og eru á ábyrgð kosins þings, þ.e. Alþingi veitir þeim umboð í fjögur ár? Og hvað gerist svo, hv. 2. þm. Norðurl. e., ef þeir með samningum hafa framlengt sitt umboð, ekki um fjögur ár, fimm eða tíu, kannski nokkrar aldir? Hvar fengu þeir umboðið til þess?
    Ég tel alveg sjálfsagt að þessi umræða verði skýrð og varin. Það þýðir ekki að láta eins og stjörnuvitlaus maður í Ed. og halda því fram að þingmenn hafi ekki umboð nema í nákvæmlega fjögur ár upp á punkt og prik, en svo hafi ráðherrar umboð til að semja --- hve langt fram í tímann? Hvar eru svörin? Eru menn að tala um uppsegjanlegan samning ef þeir ganga inn í þetta samfélag eða ekki? Hefur næsta kjörið Alþingi eftir fjögur ár rétt til að segja: Far vel Frans. Jón hafði umboð í fjögur ár. Hans tími er liðinn. Við erum að hugsa um að senda hann út eins og Kjartan. Hans tími er allur. Liggur það þá ljóst fyrir að við höfum valdið til þess? Eða er komið svo að ráðherrarnir séu að gæla við þá hugsun að þeir hafi rétt til að taka hér ákvarðanir fyrir ókomnar aldir? Þetta hlýtur að vera kjarni þeirrar hugsunar sem menn verða að gera upp við sig í umræðunum hér í kvöld.
    Einn ráðherra Íslands leiðrétti fyrrverandi verk annars ráðherra að eigin mati, hikaði ekki við það. Verða þá næstu ráðherrar með rétt til að strika yfir undirskriftina ef þeim sýnist svo? Það er hárrétt sem hér hefur komið fram í umræðum. Fyrrv. utanrrh. hafði ekki umboð frá ríkisstjórninni. Hvers vegna þótti það nú tryggara að láta hann ekki hafa umboð? Hvers vegna skyldi það hafa þótt tryggara? Það voru sömu vinnubrögðin og verkalýðshreyfingin hafði alltaf notað við sína foringja. Þeir máttu sitja og semja og svo máttu þeir koma með plaggið og þá var metið hvort þeir hefðu nú unnið það vel af viti að það ætti að samþykkja það eða fella það. Hannibal mátti alltaf búa við þessa kosti. Þeim datt aldrei í hug að veita honum meira umboð. Og við töldum alveg fráleitt að veita Jóni Baldvini, hæstv. utanrrh., meira umboð en þetta.
    Svo kemur hér ungur maður og kemur flest á óvart eftir því sem hann segir. Hv. 3. þm. Reykv. Honum kom flest á óvart sem fyrrv. fjmrh. hafði sagt og fyrrv. forsrh. Honum kom þetta mestallt á óvart. Hvers vegna? Af því að hann virtist ekki hafa áttað sig á muninum á því að núv. ríkisstjórn hefur veitt umboð sem hin hafði aldrei gert.
    Sumir hafa talað um það að allt hafi verið búið í þessum efnum. Menn hafi verið búnir að setja þessa stefnu á og búnir að gera þetta og hitt og guð má vita hvenær núv. ríkisstjórn hyggst taka við völdum, þ.e. vegna þess að þeir séu komnir að einhverju nýju sem ekki var búið fyrir löngu. Vaxtastefnan var búin fyrir löngu. Það var upplýst í dag. Utanríkismálin voru búin fyrir löngu, kom fram hjá hv. 3. þm. Reykv. ef marka má hans ummæli hér. Það var búið að marka þetta. (Gripið fram í.) Sjávarútvegsstefnan og búvörusamningurinn, allt búið og gert. ( Gripið fram í: Var álmálið búið?) Já, því hefur verið haldið fram reyndar áður og það svo tímanlega að jafnvel bjartsýnustu menn efuðu nú að það væri búið þegar þær fréttir bárust.
    En þá hljótum við nú að snúa okkur að því umhugsunarefni sem er það fyrsta. Hvers vegna er öll þessi umræða um Evrópskt efnhagssvæði? Umræðan hefur verið vegna þess að EB hefur verið að bæta við sig löndum sem áður voru í Fríverslunarsamtökum Evrópu. Þeir eru að búa til stórt og mikið ríki. Þetta ríki er mesti lýðræðislegi óskapnaðurinn af öllum lýðræðisríkjum heims. Það þverbrýtur allar hugmyndir manna um lýðræðið. Þarna er meira miðstýringarkerfi en nokkurt annað lýðræðisríki sem ég þekki. Það er með svo mikið miðstýringarkerfi að Austur - Evrópa er öll á flótta frá þessari hugsun að öllu sé stýrt frá miðjunni. Hver sem betur getur er að forða sér þaðan frá miðstýringarkerfinu. En þarna er búið að setja upp miðstýringarkerfi þar sem þjóðþingin eru orðin undirsátar og menn verða að samþykkja hluti hvort sem þeim líkar betur eða verr. Og Danir eru ekki í dag frjáls og fullvalda þjóð, hvað sem hver segir. Það er liðin tíð.
    Mér er ljóst að Frakkar mundu með frönskum vopnum og Þjóðverjar með þýskum og Bretar með breskum brjóta sér leið út úr þessu efnahagsbandalagi hvenær sem þeim dytti í hug ef þeir hefðu áhuga á því. Þeirra styrkur er slíkur. En smáríki leika það ekki. Þess vegna hefur það verið fullur skilningur flestallra Íslendinga --- að þó nokkrum hóp alþýðuflokksmanna að vísu undanskildum sem töldu að við værum komnir inn í EB fyrir nokkru eftir að hafa hlustað á útlistingar hæstv. utanrrh. um stöðu mála --- allir aðrir Íslendingar hafa litið svo á sem meginstefnu að við ættum ekki að ganga í EB.
    Nú eru menn aftur á móti komnir í þá stöðu að það er búið að standa í stappi um Evrópskt efnahagssvæði og EFTA - ríkin hafa verið að gefast upp hvert eftir annað.

Hafa verið að gefast upp. Fyrir hverju? Fyrir fjármálamönnum eigin landa sem hafa trúað því að þeir væru það færir menn við spilaborðið að þeir mundu koma heim með fjármuni frá spilaborðinu en ekki tapa þar fé ef þetta yrði allt gert að einni heild. Og hér stöndum við frammi fyrir því í dag að utanrrh. --- sem fyrir örstuttu síðan sýndi þá hörku að hann kallaði samningamann Íslands út af fundi, hann skyldi ekki mæta. Staðan var svo alvarleg í málefnum Íslands að umboðsmaðurinn hans úti átti ekki að mæta á fundinn, hann kallaði hann af honum, tók af honum réttinn til þess að sitja, hvað þá heldur að tala.
    Hvað hefur breyst eftir að þetta gerðist? Hafa einhverjir stórsigrar verið unnir eftir þetta? Það hefur ekki nokkur maður frétt af því. Hér eru aftur á móti, með leyfi forseta, í skýrslunni sem þinginu hefur verið afhent ákveðnir hlutir upplýstir. Hér segir, blaðið er nú ekki númerað þannig að menn verða að finna þetta í textanum, þetta er aftur á móti í skýrslunni sem yfirlýsing utanrrh. á blaðamannafundi í Brussel 14. maí 1991, með leyfi forseta:
    ,,Upprunalega stefndi EFTA að algerri fríverslun með fisk í EES, en við höfum nú slakað á þeirri kröfu og förum aðeins fram á afnám innflutningstolla og magntakmarkana. Þetta hefði enga röskun á mörkuðum EB í för með sér þar sem við getum ekki aukið útflutning okkar á sjávarafurðum. Það er einfaldlega ekki nægur fiskur í sjónum til þess. EB mundi halda réttinum til að lögbjóða viðmiðunarverð til að vernda hagsmuni sjómanna sinna og einnig gæti bandalagið haldið við miklu styrkjakerfi sem ætlað er að treysta sjávarútveginn í sessi.``
    Aðalmál Íslendinga í ruslafötuna, hvorki meira né minna. Ákaflega hreinskilnislega sagt frá málinu. Aðalmál Íslendinga sett í ruslafötuna. Þann 14. var þessi afgreiðsla vituð. Svo kemur í framhaldi af þessu:
    ,,Þau tengsl sem EB hefur ítrekað að skuli vera milli aðgangs að auðlindum og aðgangs að mörkuðum eru í grundvallaratriðum andstæð þeim hugmyndum um frjáls viðskipti sem EES - samningarnir byggjast á.
    Með áðurnefndri forsendu um tengsl í huga væri vel hægt að spyrja hvort tengja ætti olíuútflutning Breta eða annarra þjóða EES við aðgang að olíulindum umræddra þjóða á sjávarbotni.`` --- Ekki er vitað til þess að Íslendingar hafi sett þessa kröfu fram. --- ,,Einnig mætti spyrja hvort aðeins ætti að veita Spánverjum leyfi til að selja appelsínur í aðildarríkjunum ef tryggt væri að kaupendurnir mættu einnig tína appelsínur að vild í ávaxtalundum Spánar.`` --- Ekki er heldur vitað hvort hæstv. utanrrh. hefur gert kröfu til þess að Íslendingar mættu í framtíðinni tína appelsínur í appelsínulundum á Spáni. Hvað á þetta að þýða? Hér tínir hæstv. utanrrh. fram öll rökin fyrir því að Ísland er búið að tapa stöðunni í þessum samningum. Hann tínir þau fram. Hann skrifar þau niður og afhendir þetta sem yfirlýsingu. Eftir hverju er þá verið að slægjast?
    Ég virði aftur á móti, sem hefur komið fram, að enn lætur hæstv. utanrrh. í það skína að hann sé ekki

reiðubúinn að kjósa svona samninga hvaða verði sem er.
    Ég hygg að ekki sé um það deilt meðal Íslendinga að fullveldi Íslands er ekki til sölu. Fullveldi Íslands er ekki til sölu. Og við stöndum frammi fyrir því í dag að velja: Viljum við láta af hendi hluta af frjálsum ákvörðunarrétti fullvalda þjóðar og ganga inn í samkomulag sem er okkur ekki á nokkurn hátt hagstætt í dag eða viljum við halda fullveldinu og halda áfram þeirri glímu að vera sér á báti? Ég held nefnilega að menn séu komnir að þeim tímapunkti að að blasi við að hver sá sem vill óskorað sjálfstæði þessarar þjóðar getur sagt: Við skrifum ekki undir þennan samning. Við erum komnir að þeim tímapunkti. Okkur er sagt að það sé búið að semja um 98% og hagsmunir Íslands eru ekki komnir á blað. Þeir eru farnir í ruslafötuna.
    Þá er það stóra spurningin: Erum við í þeirri stöðu að það sé eitthvað alvarlegt mál þó að við séum utan? Og með leyfi forseta hef ég viljað fá að lesa hér eitt erindi úr Íslandsljóðum Einars Ben. Það er framtíðarsýn hans:

            Menn lutu ei öðru en eigin lögum
            og Íslands heill var þeirra gifta.
            Menn höfðu augu á eigin högum
            með alúð þess sem vill ei skipta.

    Það er nefnilega svo að það er tímabært að menn setjist niður og meti stöðu Íslands í þessum heimi. Við erum matvælaframleiðsluþjóð og lifum á því. Og við erum í framleiðslu matvæla fyrst og fremst framleiðendur á eggjahvítu, dýrasta hlutanum af matvælum og þeim sem erfiðast er að auka framleiðslu á. Við erum í reynd með mjög stórt land miðað við þann mannafla sem hér er, svo stórt að aðrar þjóðir öfunda okkur að sjálfsögðu af þeirri stærð. Og við sitjum yfir gjöfulustu fiskimiðum Norður - Atlantshafsins, e.t.v. yfir verulegum olíuauðlindum til viðbótar við þær orkuauðlindir sem hér eru. Við erum á jaðarsvæði tilheyrandi Evrópu en á jaðarsvæði við Norður - Ameríku sem er okkur ekki síður menningarlega skyld heldur en Evrópa og á það sameiginlegt með okkur að hafa verið fyrrverandi nýlenda sem veitir okkur vissulega í mörgum tilfellum betri stöðu í samskiptum við þá. Og hvort sem okkur líkar það betur eða verr, þá er Evrópa sennilega eitthvert hataðasta svæði jarðríkisins að Ísrael undanskildu og jafnframt mesta gamalmennahæli heimsins með langlægsta hlutfallið af ungu fólki.
    Ég hygg að það þurf nú nokkra bjartsýni til að komast að þeirri niðurstöðu að samfélagið með fyrrverandi nýlenduþjóðum og þessu gamalmennahæli sé það besta sem íslensk þjóð geti valið.
    Hvað skyldi það nú hafa verið sem gerði okkur Íslendingum fært að halda efnahagslegu sjálfstæði þegar Evrópa ætlaði að kúga okkur? Hvað skyldi það hafa verið? Það var víðsýni Bandaríkjamanna, víðsýni Bandaríkjamanna nr. eitt, og nr. tvö hæfni íslenskra útflytjenda til að aðlaga sig að nýjum mörkuðum með

samningum sem gerðir voru við Rússland. Og við hvaða þjóðir höfum við átt í deilum um okkar auðlindir í fleiri, fleiri aldir, hafa alltaf verið að reyna að ná þeim af okkur og jafnframt að rífast um það innbyrðis hvaða þjóð ætti að halda þessum auðlindum? Það hefur alltaf verið við Evrópuríkin. Spánverjana klæjar að komast á Íslandsmiðin á ný.
    Ameríka er miklu stærra markaðssvæði en Evrópa. Asía er miklu ódýrara innkaupasvæði en Evrópa. Í okkar tollalögum erum við í dag með ákvæði sem gera það að verkum að við kaupum ekki vörur þar sem hagkvæmast er að kaupa þær vegna þess að við erum með verndartolla fyrir Evrópu. Ísland er með verndartolla fyrir Evrópu, tolla sem stuðla að því að menn kaupa vörur í Evrópu frekar en í Ameríku. Þetta veit hv. formaður utanrmn. sem hefur m.a. einnig mjög kynnt sér efnahagsmál. Hann veit að það er mikið af vörum sem við kaupum í Evrópu sem við mundum kaupa í Ameríku ef við værum ekki með þessa verndartolla. Og hvers vegna erum við með þessa verndartolla? Er það okkur til hagsbóta? Nei. Þetta er eitthvað sem hefur fylgt þessu fríverslunarsamstarfi við Evrópu sem hefur þó verið meginreglan að það hefur verið halli, viðskiptahalli hjá Íslendingum gagnvart öllum fríverslunarlöndunum eins og þau leggja sig. Ef öll okkar viðskipti gagnvart öðrum þjóðum heims hefðu verið jafnhagstæð og gagnvart þessum þjóðum, þá hefðum við verið löngu komnir á höfuðið. Svo alvarlegur er sá viðskiptahalli ef hann er skoðaður.
    Íslendingar eiga stórkostlega möguleika til efnahagslegrar sóknar í þessum heimi ef við afhendum ekki Evrópu yfirráðin yfir auðlindum Íslands.
    Mér er ljóst að það eru ýmsar ákvarðanir mjög erfiðar. Það er sagt að það sé mikil ákvörðun fyrir flugmann þegar hann tekur ákvörðun um að snúa við og lenda aftur á þeim velli sem hann fór frá og hætta við að lenda þar sem hann ætlaði að lenda vegna þess að það var ófært. Það var líka oft erfið ákvörðun fyrir kappsfulla menn að hætta við að leggja lóðirnar og fara í land vegna þess að það var ekki aðstaða, veður bauð ekki upp á það að skynsamlegt væri að leggja lóðirnar. Og á Vestfjörðum bjuggu menn við það að það reyndi oft mjög á það hverjir væru fullhugar og hverjir ofurhugar þó að vissulega hafi það verið einnig staðreynd að fullhugarnir gátu ekki séð allt fyrir og komust þess vegna ekki alltaf að landi með sín skip.
    Mér er ljóst að hæstv. utanrrh. er þeirrar gerðar að það er oft hægt að etja honum þó nokkuð langt áfram vegna þess að kjarkurinn er mikill. Þetta er nú eiginlega það sama og sagt var um mjög þekktan stjórnmálamann af öðrum stjórnmálamanni á Alþingi Íslendinga. Þau ummæli voru eitthvað á þá leið: Hvað sem um þá gömlu kempu, Hannibal Valdimarsson, má segja, þá fer þar maður sem þorir, þorir að gera hlutina jafnvel þó þeir séu ekki skynsamlegir. Og þarna mun náttúrlega mjög reyna á. Eru menn með þá farsæld að þeir geti staðið upp frá samningaborðinu og sagt: Gott og vel, við gerðum okkar besta til að ná vitrænum samningum, en við náðum þeim ekki. Þess

vegna hefjum við nú nýja markaðssókn fyrir þetta land, nýja markaðssókn sem mun skila okkur margföldum ávinningi miðað við þá stöðu sem við stefndum á.
    Ég ætla ekki að gerast spámaður á þessari stundu um hver verður niðurstaðan. En þó að hv. 2. þm. Norðurl. e. sé horfinn úr salnum, þá ætlast ég samt til þess að fá skýr svör við því: ( Landbrh.: Ég hlusta grannt.) Hvert er umboð ráðherranna? Gildir það í fjögur ár eða gildir það í 40 ár eða 400 ár? Við þessu verður að fást svar hér í kvöld.