Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Til mín var beint þrem fyrirspurnum áðan sem ég mun leitast við að svara. Sú fyrsta vissi að því hver væri afstaða ráðuneytisins til þess hvort rétt væri að draga úr kröfum um varnir gegn smitsjúkdómum og öðru slíku í tengslum við samningana við Evrópubandalagið. Þessi spurning er tilkomin vegna setningar á bls. 5 í yfirlýsingu ráðherrafundar Evrópubandalagsins þar sem stendur: ,,Sérstaklega verður unnið að því marki að afnema viðskiptahindranir af völdum reglugerða um heilbrigði dýra og jurta.``
    Um þetta er það að segja að engin hugmynd hefur komið upp um það að draga neitt úr þeim kröfum sem við Íslendingar höfum gert til þess að viðhalda okkar heilbrigðu stofnum, hvort sem við tölum um dýr eða jurtir. Ég vil í því sambandi rifja upp fundargerð af fundi sem Brynjólfur Sandholt átti í Genf með starfshóp um heilbrigðiseftirlit dýra og dýraafurða innan EFTA í aprílmánuði. Og í fundargerð í janúar segir um þetta atriði m.a. þar sem fjallað er um reglur sem snerta innflutning dýra og erfðaefna, ferskra dýraafurða, kjöts og mjólkur, framkvæmd og fjölda sýna vegna sýkla, lyfja og efnaleifa, notkun fúkkalyfja og vaxtarhvetjandi efna í dýrafóður:
    ,,Hér á landi eru í gildi strangari lög um framangreind atriði en reglur Evrópubandalagsins segja til um. Tel ég eins og staðan er í dag að ekki komi til greina fyrir okkur að slaka á þessum kröfum með það fyrir augum að viðhalda því heilbrigðisástandi sem er í bústofni hér á landi í dag. Það eru ekki enn fyrir hendi aðferðir sem ganga fullkomlega úr skugga um að dýr séu ekki haldin einhverjum smitsjúkdómi sem gæti borist með innfluttum dýrum eða ferskum sláturafurðum og ef smit bærist til landsins, hver yrði ábyrgur fyrir því tjóni sem slíkur innflutningur kynni að valda? Að slíku þarf m.a. að hyggja áður en lengra er haldið.
    Leyfilegt er að flytja til landsins soðnar kjöt - og mjólkurafurðir samkvæmt núgildandi lögum hvað snertir heilbrigðisskilyrði og það er nógu stór þáttur til að vega upp á móti banni á innflutningi ferskra dýraafurða þegar litið er til áhættunnar á að smitsjúkdómar geti borist til landsins með slíkum innflutningi og hvaða geigvænleg áhrif slíkt óhapp getur haft á búfjárhald í landinu eins og dæmi sanna. Skoðað í því ljósi í þessu samhengi getur slíkt bann vart talist viðskiptahindrun. Því er nauðsynlegt að fram fari tvíhliða viðræður milli Íslands og Evrópubandalagsins um viðurkenningu á þessum atriðum sem snerta smitvarnir.``
    Þessu til viðbótar vil ég aðeins bæta við þeim almennu rökum að við erum hér á eylandi og varðandi laxeldi og ýmislegt annað veit ég ekki betur en sérstaða okkar sé fullkomlega viðurkennd og ástæðulaust að óttast að þarna séu á ferðinni einhverjar hættur.
    Í sambandi við innflutning á suðrænum ávöxtum og grænmeti vil ég aðeins staðfesta það sem hér var sagt að lagður hefur verið fram listi yfir 72 vörutegundir.

Talað er um að það geti komið til innflutnings á sex þeirra. Slíkur innflutningur er þegar á öllum þessum vörutegundum hluta úr árinu, en ekki hefur málið verið tekið upp á öðrum grundvelli en þeim að um algera stöðvun á innflutningi verði að ræða á þeim tíma sem við Íslendingar getum ekki svarað markaðinum. Það er í samræmi við þá framkvæmd sem nú er.
    Það er rétt sem kom fram hjá hv. 4. þm. Norðurl. e. að ekki hafa farið fram neinar viðræður milli landbrn. og utanrrn. um þessi mál, en á hinn bóginn hefur bændaforustunni verið tilkynnt um þessi viðhorf og, eins og ég sagði, þá kom þetta mál ekki upp í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr heldur hinnar fyrri og er hugsað sem framlag Norðurlandaþjóða til þess að koma til móts við Suður - Evrópuþjóðir til að þær geti fengið út úr samningunum um innri markað Evrópubandalagsins . . . ( Gripið fram í: Getur ræðumaður talað ögn hærra?) Ég verð að biðja hv. þm. afsökunar, en skýringin er að mig bagar hæsi, en ég er að reyna að koma því áleiðis að þessi listi er tekinn saman til að koma til móts við hagsmuni Suður - Evrópuþjóðanna eins og hv. þm. er kunnugt. Það hefur ekkert tilboð verið lagt fram af okkar hálfu í þessu sambandi því eins og hæstv. sjútvrh. vék að hér áðan, þá hefur ekki verið komið til móts við okkur í sambandi við sjávarútveginn og þess vegna er ekki um það að ræða.
    Síðasta atriðið sem ég vil minnast á er í sambandi við rétt erlendra manna til kaupa á jörðum hér á landi. Mér er ekki kunnugt um að í síðustu ríkisstjórn hafi verið neinn sérstakur fyrirvari sem vék að því að banna erlendum mönnum kaup á jörðum hér á landi. Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um slíkan fyrirvara, en mér er ekki um hann kunnugt.
    Ég vil fyrst segja það um þetta mál að hinn 8. maí var lagt bréf inn á borð til mín í samgrn. en áður en mér hafði gefist tími til þess að opna bréfið hafði ég fengið viðtalsbeiðni frá þrem blaðamönnum um það hvað ég vildi segja um bréf sem formaður Alþb. hafði sent mér. Mig grunaði að í þessu umslagi væri kannski bréf frá formanni Alþb. svo að ég opnaði bréfið og sá að þar stóð neðan máls: ,,Afrit til forsætisráðherra,`` en þess var í engu getið hversu mörg ljósrit hefðu verið tekin af þessu bréfi né hversu margar fréttastofur væru hér í landinu og væri kannski fróðlegt að fá upplýsingar um það þó síðar verði. ( Gripið fram í: Þær eru þrettán.) Ég sagði blaðamönnum að sjálfsögðu að ég kynni þá kurteisi að svara bréfritara sjálfur, þyrfti ekki á þeirra aðstoð að halda til þess að koma skrifum mínum á framfæri við formann Alþb., enda er hann mjög formlegur maður í öllum sínum háttum. Ég veit að honum hefði gramist það ef ég hefði farið að svara bréfinu úti í bæ áður en ég hefði sent honum formlegt svar, hvort sem ég hefði kannski látið nokkur ljósrit fylgja í leiðinni svona hingað og þangað. Í þessu bréfi frá formanni Alþb. stendur m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Innan síðustu ríkisstjórnar var það kappsmál utanrrh., formanns Alþfl., að fá umboð til að ganga frá samningum við Evrópubandalagið þar sem afnuminn væri réttur Íslendinga umfram rétt útlendinga til að

eiga hér jarðir og önnur landsins gæði. Opnað yrði á að útlendingar gætu keppt við Íslendinga um eignarhald á landinu. Þar með væri t.d. mögulegt fyrir Þjóðverja, Ítali, Spánverja eða Frakka að eignast á skömmum tíma flestar jarðir í Þingeyjarsýslu, Laxá í Aðaldal og Hvamm í Dölum svo að fáein dæmi séu nefnd. Í síðustu ríkisstjórn fékk formaður Alþb. ekki umboð til þess að semja um slíkan rétt útlendinga til eignarmyndunar á Íslandi.
    Af ummælum utanrrh. í viðtölum síðustu daga má hins vegar skilja að Sjálfstfl. hafi í núv. ríkisstjórn veitt utanrrh. slíkt ótakmarkað umboð``, o.s.frv.
    Um þetta vil ég segja að í tíð síðustu ríkisstjórnar, eins og fram kemur m.a. í riti utanrrn. frá því í október á bls. 448 er fjallað um fjármagns - og þjónustuviðskipti. Þar er ekki að finna né annars staðar neinn fyrirvara varðandi jarðeignir. Þar er fjallað um tilskipan ráðsins frá 24. júní 1988 um framkvæmd ákvæða 67. gr. Rómarsáttmála. Þar segir m.a.:
    ,,Í fáum orðum gefur tilskipunin fyrirmæli um að allar fjármagnshreyfingar, gjaldeyrisyfirfærslur, innan bandalagsins skuli vera óheftar.`` Einnig er tekið fram í ritinu að fram komi í tilskipuninni ákvæði um að ekki þurfi að breyta gildandi reglum aðildarríkjanna um möguleika erlendra aðila til þess að eiga fasteignir sem þeir hafi ekki fasta búsetu í fyrr en ráðherraráðið hafi samþykkt reglur þar að lútandi.
    Í þessu riti er tekið fram að þörf sé á lagasetningu um fjárfestingar erlendra aðila í atvinnurekstri á Íslandi vegna EES - samninganna og að tæknilega sé því ekkert til fyrirstöðu að breytingar eða ný lög taki gildi fyrir árslok 1992. Um fyrirvara við samningagerðina er tekið fram að gerður hafi verið varanlegur fyrirvari af hálfu Íslands varðandi fjárfestingu erlendra aðila í sjávarútvegi og í athugun sé hvort einhverjir fyrirvarar séu nauðsynlegir varðandi nýtingu orkulinda. Í þeim umræðum sem ráðuneytið hefur átt aðild að, þar er ég að tala um landbrn., hefur ekki komið fram annað en að engir fyrirvarar hafi verið gerðir um fjárfestingu útlendinga í löndum, jörðum og öðrum náttúrugæðum. Hins vegar hefur verið að því vikið á hvern hátt mætti hugsanlega breyta jarðalögum til að takmarka eignaraðild útlendinga á jörðum á meðan ráðherraráðið breytir ekki þeim ákvæðum sem leyfa beitingu á ákvæði um búsetuskilyrði.
    Ég vil vekja athygli á því að á síðasta þingi voru samþykkt ný lög um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri. Þau lög eru í fullu samræmi við það sem hér stendur og hvergi vikið einu einasta orði að kaupum á jörðum eða jarðeignum. Það er þess vegna alveg ljóst, hvernig sem menn vilja orða það í pólitískum ræðum, að þetta mál var uppi í síðustu ríkisstjórn. Einstökum ráðherrum var um það kunnugt að um þetta mál hefði verið fjallað í tengslum við þá samninga sem stóðu yfir við Evrópubandalagið. Hitt veit ég ekki hvers vegna þetta var slíkt feimnismál að einstakir ráðherrar þeirrar ríkisstjórnar kusu að gera ekki úr því hávaðamál fyrr en eftir að þeir höfðu farið úr ríkisstjórninni. Ég vil vekja athygli á því að þetta mál var tekið upp hvað eftir annað á fundum í

mínu kjördæmi og þar var það staðfest sem ég hef raunar sagt hér, að út frá því var gengið að erlendir menn skyldu hafa sama rétt og íslenskir til kaupa á jörðum, en á hinn bóginn er okkur að sjálfsögðu heimilt að setja ýmis sérstök lög sem t.d. veita sveitarfélögum eða ríkinu forkaupsrétt, setja sérstök búsetuskilyrði eða á annan hátt takmarka eignarréttinn við afnot af jörðinni o.s.frv. Við höfum auðvitað opna möguleika á slíku. Um þetta hefur ekki verið fjallað sérstaklega í núv. ríkisstjórn og þau boð sem fram hafa komið um þessi efni og þau orð sem lúta að viðræðum Íslendinga og fulltrúa Evrópubandalagsins um þessi efni eru öll frá tíð þeirrar ríkisstjórnar sem lauk störfum hinn 30. apríl sl. Það er þess vegna hálfspaugilegt að einstakir ráðherrar skuli vera að taka þetta mál upp nú með bréfaskriftum þegar þeir þurfa ekki annað en að lesa sínar eigin dagbækur til að fylgjast með því hvernig málin standa í raun og veru.
    Ég vil sérstaklega vekja athygli á því að fyrrv. hæstv. forsrh. talaði um það, bæði í tengslum við viðræðurnar við Evrópubandalagið og ýmislegt annað, hversu ánægjulegt hefði verið að starfa í þessum hópi, hversu samstilltur hann væri og einhuga og svo virtist sannarlega á yfirborðinu. En nú er annað komið í ljós og ég ítreka, mér er ekki kunnugt um að Alþb. hafi gert neinn sérstakan fyrirvara, bókaðan fyrirvara í ríkisstjórninni varðandi þetta atriði. Ég hef í höndum fundargerð og sérstaka bókun á ríkisstjórnarfundi frá 29. nóv. 1989 þar sem þingflokkur Alþb. er einnig með sérstaka bókun, en þar er ekki vikið sérstaklega að þessu máli heldur er almennur fyrirvari sem varðar fjárfestingu útlendinga og þátttöku þeirra í íslensku atvinnulífi. Það er kannski ekki stórt mál, en lýsir með sínum hætti tvískinnungnum í þessu máli að engir voru áhugasamari um það en einmitt fulltrúar Alþb. fyrir síðustu kosningar að frv. um fjárfestingu útlendinga í atvinnulífi yrði lögfest og sendisveinar frá þeim komu með orðalag fram á síðustu stundu til þess m.a. að opna ferðamannaiðnaðinn fyrir erlendum mönnum. Þannig er nú þetta mál.
    Skal ég þá ekki hafa um þetta fleiri orð, bara ítreka það sem ég hef sagt. Eftir að ég kom að landbrn. hefur ekki verið opnað fyrir neitt af þessu. Í fyrsta lagi eru sömu kröfur og áður gerðar til smitvarna hér á landi og stendur ekki til að draga úr þeim. Í öðru lagi er óbreytt staða varðandi hugsanlegan innflutning á ávöxtum og grænmeti frá löndum Suður - Evrópu. Málið er í sömu stöðu og það var þegar ég kom í ráðuneytið að öðru leyti en því að ég hef beðið um að fá skýrslu um málið og sérstaklega tekið það upp við fulltrúa bændasamtakanna með formlegum hætti. Og í þriðja lagi liggur það fyrir skjallega að síðasta ríkisstjórn hafði enga sérstaka fyrirvara um kaup erlendra aðila á jörðum hér á landi.