Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það var ekki ætlan mín að fara að taka meiri þátt í þessari umræðu en með þeirri ræðu sem ég flutti hér fyrr á liðnum degi. En viss ummæli sem komu hér fram frá hæstv. utanrrh. réðu því að ég bað um orðið aftur. Ég vil þó aðeins í framhaldi af þeirri umræðu sem hér fór fram geta þess í sambandi við fyrirvarana, að það er dálítið merkilegt að ekki skuli liggja fyrir upplýsingar hjá núverandi stjórnarflokkum og þingmönnum almennt um þessi efni, einnig þeim sem í stjórnarandstöðu voru, hvaða fyrirvarar voru gerðir, því a.m.k. voru þeir kynntir í utanrmn. þingsins þar sem allir þingflokkar eiga sína fulltrúa, svo og í Evrópustefnunefnd, vissulega sem trúnaðarmál en þó með þeim hætti að gert var ráð fyrir að kynnt yrði þingflokkum.
    Nú hef ég ekki gert meira úr þessum fyrirvörum en efni standa til en ég minni á þetta hér vegna þess að menn eru að lýsa vankunnáttu sinni og skorti á vitneskju um þessi efni, en þessi gögn, sem hér voru t.d. tilvitnuð af hv. 4. þm. Norðurl. e., frá 5. nóv. sl. og 19. nóv. eða 25. nóv., voru tryggilega fram lögð í báðum þessum nefndum og hefðu átt að vera þingmönnum kunnug ef þeir hefðu hirt um að leita sér upplýsinga eða taka við upplýsingum um þessi efni. Af þessum sökum eru þessar spurningar um hvaða fyrirvarar voru gerðir og voru til umræðu dálítið sérkennilegar hér við umræðuna eins og kom fram hjá hæstv. landbrh. hér síðast.
    Ég vil einnig tengja þetta hér við spurninguna um það hvernig var haldið af hæstv. utanrrh. á þeim fyrirvörum sem hæstv. fyrrv. forsrh. Steingrímur Hermannsson gerði við upphaf fundarins í Ósló í marsmánuði 1989. Þar flutti forsrh. Íslands ræðu og í þeirri ræðu sagði hann, með leyfi forseta, örstutt tilvitnun: ,,Með þetta í huga verð ég að leggja áherslu á að af Íslands hálfu á fyllsta mögulega framkvæmd samstarfsins fyrst og fremst við frjálsa verslun með varning. Hins vegar verðum við að hafa fyrirvara hvað varðar frelsi á sviði fjármagnshreyfinga, þjónustu og fólksflutninga. Hið litla og viðkvæma íslenska peningakerfi verður að styrkja og gera virkara en það er nú áður en unnt er að samþykkja fullt frelsi fjármagnshreyfinga. Hið sama á við um frelsi á sviði þjónustu og vinnuaflsflutninga. Við erum að sjálfsögðu fúsir að kanna þessi atriði, en aðlögun verður að gerast smám saman og byggjast á vandlegu mati á áhrifum slíks á íslenskt fullveldi.``
    Þetta var í yfirlýsingu forsrh. Íslands í upphafi þessa fundar og undir þessi orð var sérstaklega tekið og til vitnað í samþykkt sem þingflokkur Alþb. gerði 20. mars eða tæpri viku eftir að þau voru mælt.
    Mér er hins vegar fyllilega ljóst að þessar óskir og yfirlýsingar forsrh. fengu ekki rúm inni í sjálfri yfirlýsingu ráðherranna svo sem vert hefði verið og var ekki til haga haldið þar með þeim hætti sem æskilegt hefði verið. Og má vera að hæstv. utanrrh. vísi til þess eða skjóti sér á bak við það að þannig hafi farið. Þetta tengdist m.a. máli sem mikið var gert úr í

sambandi við þennan upphafsfund á þeirri löngu vegferð sem við ræðum hér, en það var krafan um fríverslun með fisk, sem var hinn pólitíski aðgöngumiði að þessu ferli öllu saman og gert gífurlega mikið úr þó nú sé fyrir borð fallið við lítinn orðstír og lítið fengist fyrir þennan aðgöngumiða fríverslun með fisk og var sá málatilbúnaður að vísu allur dálítið sérkennilegur.
    En ég ætla, virðulegur forseti, að víkja aðeins frekar að tilefni þess að ég bað hér um orðið, en það voru endurteknar staðhæfingar
hæstv. utanrrh., sem ég vænti að komi hér í þingsal, að í þeim gjörningi sem síðastur var gerður í þessu máli, á fundinum 13. maí, komi ekkert fram eða liggi ekkert fyrir um að Ísland eigi að binda í yfirþjóðlegt vald, að það felist í þeim gjörningi yfirþjóðlegt vald eða valdaafsal. Það var þó vísað til þess að að vísu hefði einn prófessor við Háskóla Íslands látið að því liggja. Það vill nú svo til að ég hef hér handa á milli ummæli umrædds lagaprófessors er féllu í fjölmiðlum um þetta efni og ég tel rétt að þau komi hér fram við umræðuna því það skiptir kannski nokkru upp á frekari skoðun málsins að það liggi fyrir hvernig hann leit á þetta og túlkaði það fyrir alþjóð þann 15. maí sl. En þar var hann inntur eftir áliti sínu einmitt á þessu atriði. Í sömu frétt var til þess vitnað að Gro Harlem Brundtland, forsætisráðherra Noregs, teldi að Stórþingið í Ósló þurfi að samþykkja samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með þremur fjórðu hlutum atkvæða af því að verið sé að framselja vald til nýju EFTA - stofnunarinnar. Og prófessor Gunnar G. Schram segir: ,,Þá verður að líta svo á að hér sé um valdameiri stofnun``, þ.e. eftirlitsstofnunin, ,,að ræða heldur en almennt hefur heyrst til þessa. Evrópubandalagsstofnunin hefur löggjafarvald og er ákaflega valdamikil. Það kemur ekki fram í yfirlýsingum ráðherranna hvort EFTA - stofnunin muni fara með löggjafarvald, ég held að það sé nú á þessu stigi hæpið að álykta svo. Sannleikurinn er sá að þetta kallar allt á frekari skýringar en ég held að það sé rétt, sem þú spurðir að í upphafi, að hér er um valdameiri stofnun í átt til yfirþjóðlegs valds að ræða en menn hafa hingað til almennt gert ráð fyrir.``
    Síðan segir fréttamaður: ,,Ráðherrar Íslands og annarra EFTA - ríkja skuldbundu sig til þess á mánudag að gefa reglum samningsins um efnahagssvæðið lögbundinn forgang rekist þær á önnur ákvæði innri löggjafar EFTA - ríkjanna.``
    Og Gunnar G. Schram heldur áfram og segir: ,,Þetta kemur fram í yfirlýsingu ráðherranna. Þar er þetta almenn viljayfirlýsing en hér er greinilega um það að ræða að ákvæði þessa nýja alþjóðasamnings, þ.e. um Evrópska efnahagssvæðið, eru talin það mikilvæg og slíkur grundvöllur undir því að þetta nýja bandalag virki á viðhlítandi hátt að íslensk lög og lög einstakra aðildarríkja mundu verða að víkja ef um mótsögn er þar að ræða, ef þau eru andstæð að einhverju leyti ákvæðum þessa svæðis.``
    Síðan víkur fréttamaður að dómstólnum og segir: ,,Af markverðum atriðum í ráðherrayfirlýsingunni í

Brussel skal síðast en ekki síst nefna nýjan sjálfstæðan dómstól fyrir efnahagssvæðið, skipaðan fimm dómurum frá Evrópubandalaginu, þremur dómurum frá EFTA. Dómstólnum er ætlað að skera úr í ýmsum deilumálum varðandi túlkun reglna varðandi deilur eftirlitsstofnunar EFTA og einstakra ríkja og varðandi ríkisstyrki og fleira. Ísland hefur fyrir löngu samþykkt lögsögu Mannréttindadómstólsins í Strassborg, þannig að þeir sem ekki una hæstaréttardómum í mannréttindamálum hér heima geta skotið málunum til dómstólsins í Strassborg og íslensk stjórnvöld hafa staðfest að niðurstaðan þar gildi. Vald nýja efnahagssvæðisdómstólsins verður hliðstætt valdi Mannréttindadómstólsins í Strassborg og Ísland verður að hlíta úrskurði þar verði samið um Evrópskt efnahagssvæði. Munurinn er bara sá`` --- og menn taki eftir --- ,,að svið efnahagsdómstólsins er miklu víðtækara og getur auðvitað varðað efnahagslíf Íslands að verulegu leyti og segja má því að hæstarétt Íslendinga á þessum sviðum verði að finna í framtíðinni í Lúxemborg.`` --- Þetta eru orð fréttamanns.
    Síðan kemur Gunnar G. Schram og segir: ,,Já, ef við gerumst aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, þá er náttúrlega ljóst að í öllum þeim efnum sem það tekur til, en það er má segja mjög breitt svið efnahagslífsins, að þá verður þarna um hæstarétt að ræða ef upp koma deilumál sem skotið er til þessa dómstóls í Lúxemborg. Það þýðir að hann hefur endanlegt dómsorð og við sem önnur aðildarríki yrðum þá að hlíta dómum þessa nýja alþjóðlega dómstóls.``
    Þetta eru tilvitnuð orð Gunnars G. Schram úr þessari fréttasendingu sem hefur verið vikið að hér í þessum umræðum og ég taldi rétt að þau lægju hér fyrir.
    Ég vil taka undir það, sem hér var mælt af hv. 7. þm. Reykn., að sú vitneskja sem er að finna í bók Stefán Más Stefánssonar, Evrópuréttur, fræðirit um réttarreglur og stofnanir Efnahagsbandalagsins, heitir það nú hér, er vissulega þess virði að menn kynni sér og þar á meðal einmitt ákvæðin um dómstól sem freistandi væri að vitna hér til, en ég ætla ekki að taka tíma til þess nú, vegna þess að þessi dómstóll fær áhrifavald í málefnum sem Ísland varða. Dómarar þaðan, fimm talsins, skipa EES - dómstólinn á móti þremur EFTA - dómurum og þessi dómur, þessi EES - dómur, hefur aðsetur hjá Evrópudómstólnum í Lúxemborg. Það er alveg ljóst að Evrópurétturinn sem Evrópudómstóllinn hefur mótað verður leiðandi varðandi allt þetta samningssvið og einnig breytingar á þeim rétti og kemur til með að verða lög á Íslandi, hvort sem okkur líkar betur eða verr ef við ætlum að halda hópinn í þessu Evrópska efnahagssvæði. Ef menn telja að þetta sé ekki yfirþjóðlegt vald sem við erum hér að bindast, þá bið ég menn um að leggja hér fram eitthvað gildara en fram hefur komið í þessari umræðu. Og þar á ég sérstaklega við orð hæstv. utanrrh. sem ítrekað er að bera það af sér að þessi gjörningur sem við ræðum hér feli í sér valdaafsal á sviði dómsmála og fleiri þátta á íslensku umráðasvæði eða sem Íslendingar nú ráða yfir samkvæmt

sinni stjórnarskrá og lögum.
    Virðulegur forseti. Ég greip hérna með mér upp í ræðustólinn blátt kver, sem hefur borist á borð þingmanna alveg nýverið, vegna þess að það var vitnað til einnar greinar í þessu kveri. (Gripið fram í.) Já, þessu kveri. Ég leyfi mér að kalla það því nafni. Þetta er Bláskinna hin minni, ef menn vita að Bláskinna hin meiri var lögð á borð þingmanna og hún tekur yfir 1000 blaðsíður sem kunnugt er, en þessi hefur aðeins tölusettar fimm og hygg ég að saurblað sé með talið. Þetta heitir Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. Ég leyfði mér einnig að hafa hér með ritdóm um þetta kver skrifað af hv. 17. þm. Reykv. sem var fram undir þetta í þingsal og ég vona að sé ekki fjarri án þess að ég ætli að fara að biðja hann að blanda sér í umræður sérstaklega. ( Gripið fram í: Hvað heitir maðurinn?) Þingmaðurinn heitir Össur Skarphéðinsson, formaður þingflokks Alþfl. og nýskipaður ritstjóri Alþýðublaðsins og skrifar um þetta kver ritstjórnargrein í Alþýðublaðið 14. maí sl. undir fyrirsögninni Áræðin yfirlýsing. Nú hefði ég talið rétt og eðlilegt að þessi ritdómur hefði fylgt með í útgáfunni því það hefði vel mátt finna honum pláss innan þessara spjalda. Ég ætla ekki að fara að lesa hann frá orði til orðs hér, virðulegi forseti, en þó get ég ekki við bundist frekar en Þorgeir Hávarsson forðum, svo ágætlega sem hér er haldið á penna. Þar segir m.a.:
    ,,Í stað langs kansellítexta stýrði andi hins atorkumikla frumkvöðuls pennum og menn sættust á óvenju stutta, en kjarnyrta starfsáætlun. Staðreyndin er nefnilega sú`` --- segir þar litlu síðar --- ,,að þrátt fyrir sparnað í orðum er stefnuyfirlýsing Viðeyjarstjórnarinnar sérstök fyrir hversu vel og ítarlega brýnustu verkefnin eru skilgreind. Hún er nefnilega giska skorinorð um framtíðarstefnuna í stjórnun fiskveiða og þar er sú Lilja kveðin sem jafnaðarmenn vildu helst orta.`` ( Gripið fram í: Þetta er flott.)
    Og fleira má þar lesa eins og þetta: ,,Staðreyndin er einfaldlega sú að yfirlýsingin sem samin var á fornu óðali Skúla fógeta brýtur í blað í atvinnusögu Íslendinga.``
    Og svo kemur nú það sem er náttúrlega meiri tíðindi. Það er síðari hluti þessa leiðara undir sérstakri fyrirsögn sem heitir Bjarghellan og mætti kannski nota sem nafngift á ríkisstjórnina sjálfa og kalla hana þá Petrínu því Petrus mun vera steinn á latnesku máli. En um þessa bjarghellu segir hér undir lok þessa ritdóms um stjórnarsáttmálann: ,,Bjarghella hins gagnkvæma trausts er --- og verður að vera --- lífgjafi samstarfsins. Í því felst ekki síst að þingmenn og flokksbroddar allir hafi hemil á athyglisfíkn sinni og hjálpi ekki andstæðingum stjórnarinnar til að skapa í fjölmiðlum þá ímynd að stormur sé í uppsiglingu þegar í raun ríkir bærileg stilla.``
    Þetta taldi ég nauðsynlegt að fylgdi, en því er ég að víkja hér að stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að rætt var hér af hæstv. utanrrh. um 10. gr. sem varðar það að sett verði ný löggjöf um afnotarétt og eignar- og umráðarétt yfir orkulindum og almenningum. Það stendur þar í 10. lið: ,,Lög verða sett um eignarhald á orkulindum og almenningum og um afnotarétt almennings.``
    Þarna er vikið að máli sem ekki tókst að ná fram í tíð fyrrv. ríkisstjórnar og ég óska hæstv. utanrrh. til heilla með að hafa þetta hér skjalfest og ég hlakka til að sjá það frv. sem væntanlega mun skjótt berast inn á vettvang Alþingis eftir að hv. sjálfstæðismenn hafa setið yfir þessu máli áratugum saman því þeir náðu ekki að fylgja leiðsögn síns aldna foringja Bjarna Benediktssonar í þessum efnum frekar en framsóknarmenn leiðsögn Ólafs Jóhannessonar og setja víðtæka löggjöf um almannarétt og almannaeign á þessum náttúruauðlindum. Það mun ekki skorta að þetta verði fært inn á bjarghelluna fyrr en seinna og hæstv. utanrrh. nái vopnum sínum í þessu máli.