Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Á dagskrá þessa fundar er eitt mál, stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana, sem verður útvarpað og sjónvarpað héðan úr þinghúsinu. Svo stendur á að ekki var unnt að afhenda þingmönnum eftirrit ræðunnar með þeim fyrirvara sem áskilinn er í þingsköpum, en í ljósi samkomulags þingflokkanna um hvenær þessi umræða færi fram verður leitað afbrigða til að málið megi á dagskrá koma. Jafnframt er fyrirhugað að halda umræðu um stefnuræðu forsrh. áfram á fundi í Sþ. á morgun kl. 2 miðdegis, en þar sem ekki er gert ráð fyrir slíkri framhaldsumræðu í þingsköpum telur forseti eðlilegt að leita einnig afbrigða fyrir framhaldsumræðunni.
    
    Umræðurnar skiptast í tvær umferðir. Í fyrri umferð hefur forsrh. allt að hálfri klukkustund til umráða og fulltrúar annarra þingflokka 20 mínútur hver. Í síðari umferð hefur hver þingflokkur 10 mínútur til umráða. Röð flokkanna verður þessi í báðum umferðum: Sjálfstfl., Framsfl., Alþfl., Alþb. og Samtök um kvennalista.
    Ræðumenn flokkanna verða: Fyrir Sjálfstfl. talar auk Davíðs Oddssonar forsrh. Friðrik Sophusson fjmrh. í síðari umferð. Af hálfu Framsfl. tala Steingrímur Hermannsson, 7. þm. Reykn., og Guðmundur Bjarnason, 1. þm. Norðurl. e., í fyrri umferð, en Halldór Ásgrímsson, 1. þm. Austurl., í síðari umferð. Fyrir Alþfl. tala Jón Baldvin Hannibalsson utanrrh. og Eiður Guðnason umhvrh. í fyrri umferð, en Sighvatur Björgvinsson heilbr. - og trmrh. í seinni umferð. Af hálfu Alþb. tala Ólafur Ragnar Grímsson, 8. þm. Reykn., og Jóhann Ársælsson, 3. þm. Vesturl., í fyrri umferð en Guðrún Helgadóttir, 14. þm. Reykv., í þeirri síðari. Ræðumenn Samtaka um kvennalista verða Kristín Ástgeirsdóttir, 18. þm. Reykv., og Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, 6. þm. Vestf., í fyrri umferð en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, 10. þm. Reykv., í þeirri síðari.
    Hefst nú umræðan og tekur fyrstur til máls hæstv. forsrh. Davíð Oddsson og talar af hálfu Sjálfstfl.