Guðmundur Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Góðir tilheyrendur. Nýjar ríkisstjórnir eiga rétt á því í upphafi síns starfsferils að fá tíma og tækifæri til að meta stöðuna og koma stefnu sinni á framfæri. Slíkt svigrúm viljum við framsóknarmenn gefa þeirri nýju ríkisstjórn sem hér hefur tekið við völdum. En það svigrúm hefur hún hins vegar nýtt illa á fyrstu starfsdögunum. Lítið hefur sést eða heyrst um stefnumótun en tíminn verið notaður til að draga upp ranga mynd af viðskilnaði fyrri ríkisstjórnar
sem alþjóð veit þó að einkenndist af efnahagslegum stöðugleika og þjóðarsátt á vinnumarkaði.
    Nú höfum við hlýtt á stefnuræðu hæstv. forsrh. Það verður að segjast um þann lestur að þar var fátt bitastætt. Í raun er aðeins eitt atriði sem stendur eftir og hin nýja ríkisstjórn hefur sett sér að ná fram nú þegar, en það er að hækka vextina í landinu með alvarlegum afleiðingum fyrir einstaklinga og atvinnulíf og þrátt fyrir harðorð mótmæli frá samtökum launafólks sem telja að með þessu sé verið að rjúfa þjóðarsáttina. Skattabreytingum er hafnað, sem þó væri hægt að nota til að jafna lífskjörin, en í þess stað er nýjum álögum velt á herðar launþeganna, þyngstum á þá sem skulda mest, með stóraukinni vaxtabyrði sem einnig mun bitna harkalega á atvinnulífinu.
    En þarf það að koma nokkrum á óvart þegar til valda kemst ríkisstjórn sem að meiri hluta er studd af fulltrúum fjármagnseigendanna í landinu að fyrsta aðgerðin sé að hækka vexti? Ég held varla. Og þarf það að koma nokkrum á óvart þó stefnuræðan sé innihaldslaus þegar hún byggir á svo lítilfjörlegu plaggi sem stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar er?
    Þar segist ríkisstjórnin m.a. ætla að ná markmiðum sínum með því:
    Í fyrsta lagi að ná sáttargjörð um sanngjörn kjör. Fyrsta skrefið í þeirri sáttargjörð er að hækka vextina og rjúfa þjóðarsáttina.
    Í öðru lagi að móta sjávarútvegsstefnu en þar segir hæstv. sjútvrh. Þorsteinn Pálsson að byggt verði á þeim grunni sem lagður hefur verið og telur jafnframt mjög mikilvægt að ekki sé verið að hlaupa úr einu kerfinu í annað á fárra ára fresti.
    Í þriðja lagi að móta landbúnaðarstefnu en um það hefur hæstv. landbrh. Halldór Blöndal sagt að framkvæmd verði sú stefna sem mótuð var sameiginlega af fyrri ríkisstjórn og samtökum bænda og að ekki verði hróflað við þeim verkefnum sem í dag falla undir landbrh. við sérstakan fögnuð hæstv. umhvrh. svo sem alþjóð veit.
    Í fjórða lagi með uppskurði á ríkisfjármálum og lækkun ríkisútgjalda en þar er öllu slegið á frest og engar hugmyndir kynntar eða settar fram í stefnuræðunni.
    Hér er fátt nýrra tíðinda, enda varla von þar sem Sjálfstfl. gekk til kosninga án nokkurrar stefnu eða afstöðu til einstakra málaflokka og tilburðir Alþfl. við að láta að sér kveða með kröfum um breytingar eru hlægilegir því kröfurnar eru allar blásnar af jafnóðum

af ráðherrum Sjálfstfl.
    Og þarf það að koma nokkrum á óvart þó stefnan sé ómótuð og starfsáætlunin hvorki háreist né skýr þegar staðið er að stjórnarmyndun með þeim hætti sem gert var að þessu sinni?
    Tveir menn sigldu út í Viðey í kastljósi fjölmiðlanna. Sýndarmennskan í fyrirrúmi. Annar með það að markmiði að komast í ríkisstjórn hvað sem tautaði til að réttlæta formannsskipti í flokki sínum. Hinn undir þeim formerkjum að ekki væri hægt að vinna lengur með fyrrverandi samstarfsmönnum í ríkisstjórn, þrátt fyrir margítrekaðar yfirlýsingar hans sjálfs um ágæti þeirrar ríkisstjórnar.
    Formennirnir tveir í Viðey tókust í hendur og gerðu með sér svokallað heiðursmannasamkomulag, sem nú þegar er komið í ljós að var ekki heiðursmannasamkomulag og að ummæli um ákveðin atriði væru misskilin og oftúlkuð. Formennirnir sögðu samstarfið byggt á trúnaði og trausti en ekki málefnum. Trúnaðinn og traustið sem hæstv. fjmrh. Friðrik Sophusson hefur í blaðaviðtali líkt við ást og kærleika getur svo hver ráðherra og þingmaður túlkað að eigin vild á sinn hátt.
    Nú þegar hefur komið í ljós að eitthvað skortir á í ástaratlotum forsrh. og sjútvrh. og ekki virðist mikill kærleikur ríkja milli landbrh. og umhvrh.
    Nei, sannleikurinn er sá að núverandi stjórnarmunstur var undirbúið fyrir kosningar þó nýliðarnir á framboðslistunum fyrir norðan og austan, nýliðarnir í þingflokki Alþfl., vissu ekki um þau ástar- og kærleiksatlot. Þeir sögðu, bæði á framboðsfundum og í fjölmiðlum, að leggja bæri áherslu á áframhaldandi samstarf félagshyggjuflokkanna. Þeir vissu ekki að búið var að leggja drög að samstarfi við Sjálfstfl. fyrir kosningar, þar sem arkitektinn var Jón Sigurðsson, hæstv. iðnaðar- og viðskrh. Þeir hafa trúlega ekki heldur vitað að Alþfl. hefur aðra stefnu á Reykjanesi en fyrir norðan og austan eða að þeir sitja á Alþingi í umboði kjósenda flokksins í Reykjavík og á Reykjanesi. En þetta kemur allt skýrt fram í grein í Alþýðublaðinu 23. apríl sl. sem fyrrv. aðstoðarmaður Jóns Sigurðssonar skrifar, en þar segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Alþýðuflokkurinn boðaði það aldrei í kosningabaráttunni að hann stefndi að áframhaldandi samstarfi við Framsóknarflokkinn og Alþýðubandalagið. Töluðu hv. þm. gegn betri vitund?`` Og síðar í sömu grein: ,,Það er sérstaklega eftirtektarvert að fylgisaukning flokksins varð mest á Reykjanesi þar sem stefnu flokksins í mikilvægustu málum var einarðlegast haldið á lofti. Yfirgnæfandi hluti kjósenda Alþýðuflokksins er nú á Reykjanesi og í Reykjavík. Það er í krafti atkvæða þessara kjósenda sem flokkurinn hefur þingmenn af landsbyggðinni.``
    Það er ekki von að mikið sé gert með yfirlýsingar eða vilja slíkra þingmanna. En það er nauðsynlegt fyrir kjósendur Alþfl., sem þrátt fyrir allt voru nokkrir fyrir norðan og austan, að hafa þetta hugfast.
    Ríkisstjórnin tekur við góðu búi af fyrrv. ríkisstjórn. Verðbólga hefur ekki verið lægri um árabil.

Vextir hafa lækkað og afkoma fyrirtækja batnað. Nú var lag til að leita leiða til að skila þessum bata til launþega í auknum kaupmætti með nýrri þjóðarsátt. Þá setur ríkisstjórnin allt í uppnám með vaxtahækkunum þannig að fyrirtækin munu nú skila afkomubatanum til fjármagnseigendanna en ekki launþeganna. Verðlag mun hækka. Launþegar munu krefjast kjarabóta. Verðbólgan mun fara á fulla ferð á ný. Forsendur fyrir nýrri þjóðarsátt bresta.
    Til að draga athyglina frá þessum staðreyndum og afleiðingum fyrstu aðgerða ríkisstjórnarinnar er reynt að gera mikinn hávaða út af slæmri stöðu ríkissjóðs og til að þurfa ekki að standa við gefin fyrirheit um skattalækkanir. Vissulega er talið að útgjöld ríkissjóðs fari allnokkuð fram úr fjárlögum að óbreyttu. Það eru staðreyndir hins vegar sem öllum áttu að vera ljósar vegna ákvæðanna í lánsfjárlögum og fyrirheita viðbótarútgjalda á fjáraukalögum. Auk þess má nefna að viss áform um sparnað náðu ekki fram að ganga hjá fyrrv. ríkisstjórn, m.a. vegna andstöðu Alþfl. Niðurskurður er boðaður en ekkert tilkynnt hvar hann á að bitna.
    Því spyr ég: Á að hætta við að lagfæra fjármál Byggðastofnunar? Á að hætta við Vestfjarðagöng? Á að hætta við smíði á nýrri Vestmannaeyjaferju eða á e.t.v., þrátt fyrir allar yfirlýsingar, að hverfa frá ákvæðum nýgerðs búvörusamnings um fjárframlög til kaupa á framleiðslurétti?
    Við framsóknarmenn erum reiðubúnir til að leita leiða til sparnaðar og hagræðingar í ríkisútgjöldum og teljum nauðsynlegt að gæta fyllsta aðhalds á því sviði. Það sýndum við í síðustu ríkisstjórn, m.a. í þeim kostnaðarsama málaflokki sem ég fór með. Ég fullyrði að þar náðist umtalsverður sparnaður á mörgum sviðum, m.a. með samstarfi og samkomulagi við heilbrigðisstéttir en í öðrum tilvikum ekki, m.a. vegna andstöðu í ríkisstjórn eða á þingi.
    Ég beitti mér fyrir auknu samstarfi stóru sjúkrahúsanna í Reykjavík sem talið er að geti leitt til sparnaðar upp á mörg hundruð milljónir króna. Þar börðust sjálfstæðismenn, innan og utan þings, gegn nauðsynlegum lagabreytingum. Ég lagði fram hugmyndir um sparnað og hagræðingu í lyfjadreifingu sem Alþfl. stöðvaði svo ekki reyndi á andstöðu Sjálfstfl. í því máli. Ég lagði fram hugmyndir um sparnað og tilfærslu innan almannatryggingakerfisins svo það gæti betur þjónað því hlutverki sínu að styðja þá sem þurfa á aðstoð samfélagsins að halda. Einnig þar strönduðu breytingar á samþykki Alþfl.
    Virðulegi forseti, góðir tilheyrendur. Við framsóknarmenn munum veita nýrri ríkisstjórn harða en málefnalega stjórnarandstöðu. Við erum tilbúnir til að styðja hana til góðra verka en munum berjast af fullri hörku gegn því að henni takist á örfáum vikum að sundra þeim stöðugleika og því jafnvægi sem fyrri ríkisstjórn tókst að koma á.
    Ég þakka áheyrnina.