Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Að loknum kosningum komst þingflokkur Alþfl. að þeirri niðurstöðu að framlenging fyrrv. stjórnarsamstarfs mundi ekki duga til að mynda starfhæfan meiri hluta á Alþingi. Ástæðurnar voru m.a. þessar:
    Í þingflokki Alþb. er hörð andstaða við nýtingu orkulindanna í samstarfi við erlenda aðila og þar með við samningana um Atlantsál. Samningarnir um Evrópskt efnahagssvæði eru þar í flokki einnig látnir sæta fordómum sem endurspegla skilningsleysi á samtíð og framtíð. Tilboð formanns Alþb. um að draga hv. þm., þá Steingrím J. Sigfússon og Hjörleif Guttormsson, hlekkjaða á á höndum og fótum inn í væntanlegt stjórnarsamstarf þótti naumast sæmandi, svona af mannúðarástæðum. Heilsteypt stjórnarsamstarf getur naumast átt líf sitt undir pólitískum samviskuföngum af því tagi.
    Framsfl. var hins vegar hlekkjaður við úrelta landbúnaðarstefnu og bundinn við stjóra kvótakerfis. Hann léði ekki máls á því að gera virka 1. gr. kvótalaganna, sem við jafnaðarmenn leiddum í lög og lýsir fiskstofnana við strendur Íslands sameign þjóðarinnar, eins og rækilega kom fram í ræðu hæstv. forsrh. hér áðan. Þetta þarf að gera til þess að tryggja það að arðurinn af sameigninni geti í framtíðinni runnið til eigenda sinna.
    Samstarf fyrrv. stjórnarflokka var gott framan af. Fyrrv. hæstv. forsrh. gat sér gott orð fyrir samningalipurð við að setja niður deilur, en undir yfirborðinu vöktu hin stóru ágreiningsmál. Þau biðu lausnar eftir kosningar, álmálið, samningarnir um Evrópska efnahagssvæðið, búvörusamningur og búvörulög, kvótakerfi og ríkisfjármál.
    Ríkisfjármálin reyndust vera Akkillesarhællinn eins og komið er á daginn. Þar tókst aðeins að halda aftur af útgjaldaþenslunni um skeið. Því miður skorti pólitíska samstöðu um að ráðast að rótum meinsins. Því verkefni verður ekki lengur slegið á frest ef varðveita á stöðugleika og festu í íslensku efnahagslífi. Þess vegna m.a. var núv. ríkisstjórn mynduð.
    Alþb. sýndi að þar fór flokkur sem bæði gat og þorði eins og þeir sögðu í kosningabaráttunni. Þorði að breyta ríkissjóði í kosningasjóð Alþb. og kaupa sér þannig fyrir annarra fé 1% fylgisaukningu sem að sjálfsögðu átti að marka söguleg tímamót eins og flest annað sem þeir taka sér í munn um þessar mundir.
    Frambjóðendur Alþb. lögðu sig alla fram um að gera samningana um Atlantsál og Evrópska efnahagssvæðið tortryggilega. Svavar Gestsson hv. þm. lýsti kosningarnar þær seinustu sem fram færu í sjálfstæðu ríki áður en stjórn innlendra mála færðist til Brussel.
    Formaður Alþb. lýsti Atlantsálssamningunum við pappírsverksmiðju. Það skyldi þó ekki vera að einmitt þessi pappírsverksmiðja eigi eftir að mala okkur gull, skapa hundruð nýrra hátekjustarfa, koma í veg fyrir atvinnuleysi og landflótta og rjúfa kyrrstöðu og innleiða nýtt vaxtarskeið í íslensku atvinnulífi? M.a. þess vegna var ný ríkisstjórn óhjákvæmileg.

    Virðulegi forseti. Rifjum upp samhengið milli stefnumála Alþfl. fyrir kosningar og stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnar eftir kosningar. Það er sérstakt tilefni þar sem hæstv. fyrrv. forsrh. lýsti eftir því. Við sögðum það meginverkefni nýrrar ríkisstjórnar að varðveita stöðugleikann í efnahagslífinu og skapa þannig skilyrði fyrir nýju vaxtarskeiði í atvinnulífi til þess að standa undir bættum lífskjörum. Við svöruðum því hvernig ætti að rjúfa þessa kyrrstöðu og stöðnun í atvinnulífinu með því að afnema leifar hafta og einokunar í atvinnulífi og viðskiptum. Með því að virkja vannýttar orkulindir og láta þær mala okkur gull. Með því að skapa ný og arðbær störf og auka gjaldeyristekjur. Með því að tryggja hindrunarlausan aðgang fyrir unnar sjávarafurðir á Evrópumörkuðum án veiðiheimilda í íslenskri lögsögu í staðinn. Með því að arðurinn af sameign þjóðarinnar, fiskstofnunum, skili sér í hendur þjóðarinnar sem heildar. Með því að efla fiskmarkaði sem mundu draga úr átökum milli byggðarlaga um takmarkað hráefni, gefa innlendri fiskvinnslu kost á því að bjóða í þetta hráefni á jafnréttisgrundvelli við útlendinga, mundu auka sérhæfingu og vinnsluvirði í þeirri grein. Með því að breyta úreltri landbúnaðarstefnu með það að markmiði að lækka verð á landbúnaðarafurðum sem er báðum í hag, bændum og neytendum.
    Á vettvangi ríkisvaldsins lögðum við á það áherslu að standa bæri vörð um heilstætt húsnæðislánakerfi sem stærsta hagsmunamál fjölskyldnanna í landinu og að ný ríkisstjórn yrði að lýsa sig reiðubúna til þess að stuðla að jöfnun lífskjara með aðgerðum í skatta- og félagsmálum.
    Öllum þessum stefnumálum hefur verið til skila haldið í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Það er gagnrýnt að hún er stutt, já kosningabaráttan var stutt. Stjórnarmyndunin tók skamman tíma og stefnuyfirlýsingin sjálf er stutt en kjarnyrt. Það má kannski minna hv. þm. á það að ræða Þorgeirs Hávarssonar á Alþingi, sú hin frægasta á íslenska tungu, var stutt, en hún hefur staðist betur tímans tönn en margar leiðinlegar doktorsritgerðir.
    Virðulegi forseti. Á morgun mun hæstv. fjmrh. leggja fyrir Alþingi skýrslu sína um ástand og horfur í ríkisfjármálum við stjórnarskiptin. Því miður staðfestir hún að ríkisfjármálin voru, eins og ég áður sagði, Akkillesarhæll fyrrv. ríkisstjórnar. Staðreyndirnar eru þessar:
    Rekstrarhalli ríkissjóðs verður því miður ekki 4 milljarðar heldur stefnir í milli 9 og 10 milljarða kr. Lánsfjárhalli ríkissjóðs verður því miður ekki 6 milljarðar heldur stefnir í yfir 13 milljarða. Lánsfjárhalli opinbera geirans í heild stefnir ekki í 23 milljarða heldur í 34 milljarða eða 11 milljarða umfram áætlun við samþykkt fjárlaga. Innlendur sparnaður sem átti að nýtast til þess að fjármagna hallann hefur skroppið saman úr 38 milljörðum samkvæmt upphaflegri áætlun í 26 milljarða. Allur innlendur sparnaður hrekkur ekki til að fjármagna lánsfjárþörf opinbera geirans samkvæmt þessu ástandi. Sala ríkisvíxla og spariskírteina ríkissjóðs umfram innlausn er neikvæð

frá fyrra ári sem svarar 6,6 milljörðum. Til þess að mæta versnandi greiðsluafkomu og vaxandi lánsfjárþörf nemur yfirdráttur ríkissjóðs hjá Seðlabanka yfir 9 milljörðum. Seðlaprentunin á fyrstu mánuðum ársins hefur vaxið um 6 milljarða. Viðskiptahallinn stefnir í að verða tvöfalt meiri en áður var spáð eða 16 -- 18 milljarðar í staðinn fyrir 8 -- 9 milljarðar.
    Þessar staðreyndir tala því miður sínu máli. Þær ættu að duga til þess að setja reykskynjarana af stað áður en verðbólgubálið brýst út þannig að ekki verði við ráðið. Mér þykir miður að fyrrv. hæstv. fjmrh. sem framan af reyndi vissulega og lagði sig fram um að skila árangri skyldi hafa fallið í þá freistni fyrir kosningar að fegra þessa mynd umfram það sem veruleikinn heimilar. Það stoðar hins vegar ekki að koma fram eftir kosningar þegar skaðinn er skeður og ásaka aðra menn um að grafa undan stöðugleika, festu og framtíð þjóðarsáttar. Núv. ríkisstjórn er staðráðin í því að kæfa þennan verðbólgueld við upptökin áður en hann nær að læsa sig um þjóðfélagið allt.
    Verkefnið er tvíþætt: Annars vegar að örva aftur innlendan sparnað og draga þar með úr neyslu og innflutningi. Hins vegar að lækka ríkisútgjöld, fresta framkvæmdum og falla frá lánsfjáráformum ríkissjóðs og annarra opinberra aðila. Það verður t.d. gert með því að spretta upp lánsfjárlögum. Fyrirsjáanlegur lánsfjárhalli ríkissjóðs og annarra opinberra aðila verður lækkaður um 10 milljarða. Þetta verður gert m.a. með tímabundinni hækkun vaxta, með því að draga úr fjárþörf gamla húsnæðislánakerfisins, sem hæstv. fyrrv. forsrh. mælti með hér áðan, og loka því endanlega áður en það kemur Byggingarsjóði ríkisins á hausinn. Með almennum aðhaldsaðgerðum í fjármálum ríkisins og sérgreindum aðgerðum til þess að draga úr lánsfjárþörf hins opinbera. Öllu er þessu nánar lýst í skýrslu fjmrh. sem lögð verður fyrir Alþingi á morgun.
    Virðulegi forseti. Þeir sem vilja gagnrýna núv. ríkisstjórn fyrir boðaðar viðnámsaðgerðir, eins og t.d. hæstv. fyrrv. forsrh. gerði hér áðan, beina mótmælum sínum held ég á rangt heimilisfang. Nauðsyn viðnámsaðgerða er óumdeild. Því til staðfestingar nægir að leiða fram tvö vitni. Hið fyrra er fyrrv. fjmrh. sem í átjándu og seinustu fréttatilkynningu sinni 29. apríl sl. segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Ljóst er að takmarka verður útgjöld og auka tekjur vegna óumflýjanlegra nýrra útgjaldatilefna og fyrirsjáanlegs tekjutaps.``
    Í viðtali við Þjóðviljann þann 9. maí sl. segir hæstv. fyrrv. fjmrh. einnig: ,,Auðvitað gat komið til greina að hreyfa vexti ríkisvíxlanna eitthvað upp á við.``
    Að sjálfsögðu er það rétt athugað hjá honum að binding vaxta var ekki þáttur af þjóðarsátt.
    Efnahagsráðgjafi fyrrv. fjmrh. Már Guðmundsson hnykkir betur á skoðun yfirboðara síns þegar hann segir í Morgunblaðsgrein 19. maí sl.:
    ,,Það er ljóst að hvaða ríkisstjórn sem tekið hefði við eftir kosningar hefði gripið til aðgerða af þessum sökum.``

    Þetta eru svör við spurningum hæstv. fyrrv. forsrh. um vexti. Það var mat fjmrh. að það væri nauðsynlegt að grípa til aðgerða. Ég skil vel ótta manna við það að tímabundin hækkun vaxta, sem á að leiða til þess að örva sparnað og draga úr eyðslu, geti fest í vaxtaskrúfu og víxlgengi hækkana. En svo er hæstv. viðskrh. fyrir að þakka að opnun fjármagnsmarkaðarins, sem er orðinn hlutur og þakka ber fyrrv. ríkisstjórn, kemur í veg fyrir að bankar og aðrar lánastofnanir geti til lengdar haldið uppi hærra vaxtastigi en tíðkast í helstu viðskiptalöndum. Atvinnulífið jafnt sem opinberir aðilar munu einfaldlega svara því með því að leita þá eftir fjármögnun á erlendum mörkuðum. Þetta þýðir einfaldlega að Íslendingar geta ekki framar látið eins og þeir séu einir í heiminum. Þeir verða eins og aðrar þjóðir að beygja sig undir þann sjálfsaga að hafa jöfnuð í ríkisbúskapnum og jafnvægi á fjármagnsmarkaðinum ef við ætlum ekki að grafa undan stöðugleika í gengi og hagstjórn. Viðnámsaðgerðum núv. ríkisstjórnar er því ekki beint gegn framhaldi þjóðarsáttar, heldur eru þær beinlínis nauðsynleg forsenda þess að framlengja megi sáttargjörð um sanngjörn kjör á grundvelli batnandi afkomu fyrirtækja og aukinnar verðmætasköpunar í samkeppnishæfu atvinnulífi. Og að því er varðar þá sem segja að þeir óttist aukna greiðslubyrði vaxta vegna hinna lægst launuðu þá vil ég taka það fram að svo er einnig að þakka fyrrv. ríkisstjórn að við komum á tekju- og eignatengdu vaxtabótakerfi sem þýðir að fjölskyldur með undir meðaltekjum munu fá vaxtahækkanir ýmist endurgreiddar af fullu, fjölskyldur með fjölskyldutekjur allt að 150 til 170 þús. kr. á mánuði, eða að mjög verulegu leyti.
    Virðulegi forseti. Þessa dagana er togast á um það milli forustumanna launþega og atvinnurekenda hver skuli vera hlutdeild launþega í spám um batnandi viðskiptakjör. Fyrir þá okkar í röðum launþega sem leggjum höfuðáherslu á að bætt afkoma fyrirtækja og viðskiptakjarabati nýtist til þess að hækka laun hinna lægst launuðu er vert að staldra við þessa spurningu.
    Viðskiptakjarabatinn skýrist af tvennu. Annars vegar lægra innflutningsverði en spáð hafði verið sem við höfum öll notið nú þegar í formi lægra vöruverðs. Hins vegar birtist batinn í hærra útflutningsverði sjávarafurða. Hluti verðhækkunarinnar hefur þegar verið tekinn út fyrir sviga í Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins þar sem hann getur nýst til tryggingar bættum kjörum hinna lægst launuðu í nýjum kjarasamningum. 20% aukning innflutnings á fyrstu fjórum mánuðum ársins, 70% aukning bílainnflutnings, aukning útlána bankakerfisins langt umfram innlán til þess að fjármagna neyslu bendir til þess að viðskiptakjarabatinn, aukinn kaupmáttur, hafi þegar skilað sér til hinna best settu. Sú trygging sem felst í bættri afkomu fyrirtækja og viðskiptakjarabata getur því aðeins skilað sér til hinna lægst launuðu að um það verði samið í næstu kjarasamningum. Það er að mínu mati brýnasta verkefni launþegasamtakanna í komandi kjarasamningum. En núv. ríkisstjórn er reiðubúin til þess, sbr. stefnuyfirlýsingu hennar, að stuðla að slíkri jöfnun lífskjara

með aðgerðum á sviði skatta og félagsmála.
    Virðulegi forseti. Ef við lítum til framtíðar þá eru það tvö mál sem gnæfa nú hæst í íslenskri þjóðmálaumræðu. Annars vegar álsamningarnir og hins vegar samningarnir um Evrópskt efnahagssvæði. Við höfum þegar hér á hinu háa Alþingi sl. fimmtudag tekið langa og ítarlega umræðu um það mál. Þeir samningar eru nú á lokastigi. Það hefur ekkert breyst í grundvallaratriðum frá tíð fyrrv. ríkisstjórnar þegar ekki komst hnífurinn milli mín og hæstv. fyrrv. forsrh. við mótun stefnunnar í því máli.
    Auðvitað látum við fara fram vandað áhættumat að því er varðar þetta mál og við kaupum ekki þessa samninga hvaða verði sem er. Aðalatriðið er það að þessi ríkisstjórn eins og sú fyrri mun aldrei semja um aðgang að auðlindinni sjálfri fyrir samninga. Vinningsvonin er hins vegar mikil. Að fá tollfrjálsan aðgang að 380 milljóna markaði fyrir unnar sjávarafurðir getur orðið ný lyftistöng fyrir fiskvinnsluna á Íslandi, mun beinlínis skapa henni nýtt vaxtarskeið. Um þetta á ekki að vera ágreiningur. Hins vegar hafa menn reynt að búa hér til hræðsluáróður um að það sé ekki verið að selja fisk heldur verið að selja Ísland. Því fer víðs fjarri. Það liggur alveg ljóst fyrir að í þessum samningum felst ekkert framsal á löggjafarvaldi, ekki á framkvæmdarvaldi og ekki heldur á dómsvaldi umfram það sem við getum sætt okkur við þegar um er að ræða gerðardóma gagnvart alþjóðlegum samningum.
    Ég vara við þessum hræðsluáróðri. Ég vara við því að spilla samstöðu um slíkt stórt hagsmunamál þjóðarinnar með svo ódrengilegum hætti. Ég minni á að það var fullkomin samstaða um það í fyrrv. ríkisstjórn af hálfu fyrrv. forsrh. og fyrrv. fjmrh. þegar við í frægum sjónvarpsþætti andmæltum skoðunum manna sem héldu því fram að það að gera samninga um Evrópskt efnahagssvæði væri það sama og að ganga inn í Evrópubandalagið. Það er jafnvitlaust nú og það var þá. Í Evrópska efnahagssvæðinu er fullkomin samstaða um allar ákvarðanir. Þar er enginn beittur meirihlutaákvörðunum. Þar er ekki um að ræða tollabandalag með sameiginlegum ytri tollum. Við erum ekki að afsala fullveldi á nokkurn máta.
    Virðulegi forseti. Það er ástæðulaust fyrir íslensku þjóðina að horfa til framtíðarinnar með kvíða. Í einhverju fegursta og bjartsýnasta ástarkvæði sem ort hefur verið á íslenska tungu segir Guðmundur Kamban:
       Gegn svo mörgu sem guð þeim sendir
       menn gera kvíðann að hlíf.
       Og kvíða svo því sem aldrei hendir
       og enda í kvíða sitt líf.

    Megi það hlutskipti aldrei verða okkar dugmiklu þjóðar.