Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegur forseti. Góðir Íslendingar. Hvað á að segja um þessa stefnuræðu sem var flutt hér í kvöld? Stefnuræðu sem forsrh. ætlaði aldrei að flytja en varð að gera það þegar stjórnarandstaðan benti honum á það að samkvæmt landslögum yrði ríkisstjórnin að tilkynna þinginu stefnu í upphafi þings. Eða hvað á að segja um þá afsökunarræðu sem formaður Alþfl., hæstv. utanrrh., flutti hér áðan? Ræðu þar sem hann var enn á ný, þrátt fyrir síðurnar tvær sem komu í Viðey, þrátt fyrir að engin svör voru í stefnuræðu ríkisstjórnarinnar, þá var utanrrh. enn á ný að reyna að sannfæra okkur um það að Alþfl. hefði fengið hin skýru svör í stefnu þessarar ríkisstjórnar. Skýru svörin í sjávarútvegsmálum, í landbúnaðarmálum, í umhverfismálum, í álmálinu og um Evrópska efnahagssvæðið.
    Hver eru skýru svörin? Sjútvrh. sagði strax á fyrstu dögum þessarar ríkisstjórnar að það yrði ekki breytt um stefnu. Og hann hefur bætt um betur. Hann hefur ráðið helsta verndarengil óbreytts ástands í sjávarútvegsmálum sem aðstoðarmann sinn í sjútvrn. og forsrh. kemur hér í kvöld og segir á sinn hæverska hátt að ný stefna í sjávarútvegsmálum verði sett í nefnd. Og landbúnaðarmálin? Jú, hæstv. landbrh. hefur sagt hvað eftir annað að hann ætli að virða búvörusamninginn, búvörusamninginn sem Alþfl. gerði hróp að vikum og mánuðum saman og utanrrh. nýkominn í land í Viðey sagði: Þessi ríkisstjórn hefur orðið sammála um að taka fjóra milljarða út úr þessum búvörusamningi. En hæstv. landbrh. Halldór Blöndal segir nei, það verður ekkert tekið út úr honum, kannski bætt í hann fyrir bændur. Og það sem meira er. Forsrh. segir í stefnuræðu ríkisstjórnar Alþfl. hér í kvöld að markmið og verkefni ríkisstjórnarinnar sé að framkvæma, hæstv. utanrrh., þín eigin ríkisstjórn, að framkvæma þá stefnu í landbúnaðarmálum sem stjórnvöld og bændur sömdu um á síðustu árum. Eða með öðrum orðum, verkefni þessarar ríkisstjórnar er að framkvæma þá stefnu sem Steingrímur J. Sigfússon mótaði. Hvílíkt komplíment fyrir Steingrím J. Sigfússon og okkur í Alþb. En hvílíkt háð fyrir Alþfl. og formann hans sem hefur gert það að lífshugsjón sinni að breyta þessum búvörusamningi.
    Hið sama gildir auðvitað líka um Landgræðsluna og Skógræktina, heiðursmannasamkomulagið í Viðey. Og forsrh. sagði einnig hæverskur að það væri oftúlkun á sínum heiðri. Og Evrópska efnahagssvæðið? Hver var það sem mótaði skýra stefnu hér í umræðunum á Alþingi um Evrópskt efnahagssvæði? Það var ekki hæstv. utanrrh. Nei, það var hæstv. sjútvrh. sem tók af skarið hér í umræðunum og sagði skýrt að stefna ríkisstjórnarinnar væri að Ísland gengi ekki í inn Evrópskt efnahagssvæði ef ekki fengist tollfrjáls aðgangur fyrir okkar fisk. En utanrrh. kallaði hér í salnum: nei, nei, það er ekki stefnan, en sjútvrh. sagði: víst, það er stefnan.
    Það sama sagði formaður utanrmn. um álmálið. Hver var það sem hæddi iðnrh. mest á undanförnum

mánuðum? Það var núv. hæstv. forsrh. Hver var það sem sagði í Morgunblaðinu viku eftir viku að það væri ekkert að marka yfirlýsingar hæstv. iðnrh. í álmálinu? Það var ekki ég. Það var ekki Hjörleifur Guttormsson. Það var ekki Steingrímur J. Sigfússon. Það var Davíð Oddsson, stjórnarmaður í Landsvirkjun. Maðurinn sem þú hefur nú gert að forsrh. Íslands. Og hvað segir hann þegar iðnrh. er að reyna að segja þjóðinni að það séu miklar líkur á því að nú náist samningur. Þá segir forsrh.: Nei, það eru svona kannski helmingslíkur.
    Hvílík hirð sem Alþfl. er kominn inn í með sín stefnumál. Hvílíkur sigur fyrir Alþfl. Hvað er það sem Alþfl. hefur fengið fram? Nánast ekki neitt. Ekki í stefnumálunum, ekki í ráðuneytunum. Og hvað er þá nýtt í þessari ríkisstjórn? Er það kannski formúlan? Formúlan um sterka manninn, nýja leiðtogann í Sjálfstfl. sem hægt væri að semja við á dagstund úti í Viðey og fara svo í land og allt væri klárt. Er það þessi formúla sem á að koma í veg fyrir það, hæstv. utanrrh., að þú endurtakir ömurleikasöguna frá 1988 og þurfir að yfirgefa Sjálfstfl. á síðdegi og koma aftur til okkar í Alþb. og Framsfl. og biðja okkur að hjálpa þér aftur? Er það kenningin um sterka manninn í Sjálfstfl.?
    En hvernig er kenningin um sterka manninn í Sjálfstfl. í framkvæmd? Þegar Davíð Oddsson lofaði Alþfl. í Viðey að Alþfl. fengi sjútvrn. þá sagði þingflokkur Sjálfstfl.: Nei, hann fær ekki sjútvrn. Þegar hæstv. forsrh. vildi líka láta hann fá dóms- og kirkjumrn. þá sagði þingflokkur Sjálfstfl.: Nei, hann fær ekki dóms- og kirkjumrn. Og þegar Alþfl. vildi fá Skógræktina og Landgræðsluna og forsrh. var búinn að lofa því þá sagði þingflokkur Sjálfstfl.: Nei, hann fær ekki Skógræktina og Landgræðsluna. Og þegar hæstv. forsrh. ætlaði að gera vin sinn Björn Bjarnason að formanni utanrmn. til að þóknast utanrrh. þá sagði meiri hluti þingflokks Sjálfstfl.: Nei, hann fær það ekki.
    Staðreyndin er nefnilega sú að Davíð Oddsson er strax á fyrstu vikum þessarar nýju ríkisstjórnar áhrifaminni í þingflokki Sjálfstfl. en Þorsteinn Pálsson var á sínum tíma. Það er þess vegna ekki furða þó þúsundir sjálfstæðismanna um allt land séu farnir að sakna Þorsteins Pálssonar.
    Svo koma þeir hér í kvöld forsrh. og utanrrh. og segja: Ja, það eru ríkisfjármálin. Það eru þessi voðalegu ríkisfjármál. Og það var það skemmtilega í ræðu utanrrh. hér í kvöld að ég var bæði skúrkurinn og aðalvitnið um ágæti þess sem utanrrh. var að segja. Fyrst sagði hann í nokkrar mínútur að ég væri aðalskúrkurinn og svo las hann upp texta eftir mig til að segja hvað ég hefði nú á réttu að standa. Hæstv. utanrrh., viltu ekki gera það upp við þig hvort ég er skúrkurinn eða aðalvitnið?
    Og forsrh. blessaður, sem er nú enn að læra og við skulum fara mjúkum höndum um það, sagði hér í ræðu sinni í kvöld að þegar nýir ráðherrar komu í Stjórnarráðið þá hefðu þeir allt í einu komist að því, m.a. fjmrh., að það hefðu verið 7 milljarðar í einhverjum nýjum heimildum, voðaleg uppgötvun, svakaleg tíðindi. En hverjir eru þessir 7 milljarðar? Jú, hæstv. forsrh., þeir voru allir afgreiddir hér í salnum í vor. Þeir voru allir afgreiddir hér í mars þegar þingmenn Sjálfstfl. voru hér í salnum og ráðherrar Alþfl. Það er ekkert nýtt í þessum tölum. Ekki neitt sem ekki var í lánsfjárlögum og í heimildagreinum fjárlaga. Það er kannski ekki von að borgarstjórinn í Reykjavík hafi fylgst með því. En allir hinir hefðu átt að vita það.
    Svo er það þessi voðalega staða ríkissjóðs við Seðlabankann. Staðreyndin er nú sú að ríkissjóður hefur á fyrstu þremur mánuðum þessa árs verið rekinn nákvæmlega samkvæmt þeirri áætlun sem var í fjárlögum. Það eru aðeins tvenn frávik. Það fyrsta er að við borguðum allt framlagið til Lánasjóðs ísl. námsmanna í febrúar, en þá þarf ekki að borga það seinna á árinu og svo hins vegar það að við urðum að borga víxil upp á rúman milljarð sem Jóhanna gat ekki borgað.
    Auðvitað er hægt að setja fram spár. Það er fullt af mönnum í fjmrn. sem setja fram spár og það eru 50 menn sem vinna hjá Ríkisendurskoðun við að setja fram spár. Ég fékk líka spá í ágúst 1989, hæstv. utanrrh., þú manst vonandi eftir því, ég kom með hana inn í ríkisstjórnina, að ef ekkert yrði að gert mundi hallinn á árinu 1990 verða 15 milljarðar. En við vorum í verkhæfri ríkisstjórn. Við vorum í ríkisstjórn sem á fjórum vikum bjó til ný fjárlög. Við vorum í ríkisstjórn sem þorði að taka ákvarðanir og taka á málunum og niðurstaðan varð sú að hallinn varð innan við 5 milljarðar. En nú er ekki tekið á málunum. Nú er bara sagt voða voða og gefnir út spádómar. Og forsrh. kemur hér í kvöld og segir: Jú það á að skera niður ríkisútgjöldin en ekki núna, ekki í sumar, seinna, kannski. Enginn veit hvenær.
    Hvar eru nú allar tillögurnar frá hæstv. utanrrh. um niðurskurð ríkisfjármála? Hvar eru fjáraukalögin sem ætti að koma með hér inn í þingið? Hvar er vitnisburðurinn um það að hér sé verkhæf og sterk ríkisstjórn? Það er ekki nóg að tala, hæstv. utanrrh. Við vorum í ríkisstjórn sem framkvæmdi, sem þorði og gat og náði þeim árangri, sem fyrrv. forsrh. lýsti ágætlega, að hér tókst í fyrsta skipti í 30 ár að skapa ástand sem stóðst samanburð við það besta í hagstjórn á Vesturlöndum. Þjóðarsátt sem byggðist á því að verðlaginu væri haldið niðri. Launin þróuðust með ákveðnum hætti. Vöxtunum yrði haldið niðri.
    En hvað er það sem ríkisstjórnin gerir? Hún hækkar vaxtagólf alls hagkerfisins með spariskírteinunum um 30% í dag.
Það jafngildir 30% tekjuaukningu til fjármagnseigenda á Íslandi. Þróun vaxta spariskírteina úr 6% í 8%, 30% kaupaukning fyrir fjármagnseigendur. Á sama tíma er verið að deila við launafólkið um það hvort það fái 2,5% hækkun vegna bættra viðskiptakjara sem þó var lofað og undirritað í febrúar að yrði gert. Það eru hrein svik, hæstv. fjmrh., ef þessi ríkisstjórn stendur ekki við þau fyrirheit að greiða launafólki í landinu fulla hlutdeild sína í viðskiptakjarabatanum.
    Vaxtaskrúfan gamla, kenning Sjálfstfl. og Seðlabankans er tekin við og raunvextirnir í bankakerfinu verða komnir upp í 10 -- 11% eftir fáeinar vikur því það er ekki halli ríkissjóðs sem skapar þetta vandamál þó að vissulega þurfi að taka á honum. Ég hef aldrei leynt því að það þurfi að taka á honum og flutti um það langar ræður hér þegar ég mælti fyrir síðustu fjárlögum, hæstv. fjmrh., hvernig ætti að taka á honum og því getur þú flett upp í þingtíðindum.
    Staðreyndin er sú að þessi ríkisstjórn er á fyrstu vikum sínum að splundra þjóðarsáttinni. Staðreyndin er sú að þessi ríkisstjórn hefur skipt þjóðinni upp í tvær fylkingar. Annars vegar er valdakerfi Sjálfstfl. og fjölskyldnanna fjórtán og hins vegar er fólkið í landinu. Það er hlutverk Alþb. nú og á næstu mánuðum að safna því liði félagshyggjufólks og jafnaðarmanna sem vill bjóða þessari ríkisstjórn byrginn. Og við segjum við alla þá sem kusu Alþfl. í góðri trú en vildu áfram félagshyggju í þessu landi: Við munum leita eftir samstarfsformum við ykkur öll. Við munum skoða það sem okkar æðsta verkefni að ná öllu þessu fólki saman því að við höfum ekki glatað trúnni á hina stóru jafnaðarmannahreyfingu og við vitum að hún verður ekki búin til í hirð Davíðs Oddsonar. Hún verður búin til af fólkinu í landinu, fólkinu sem vill lífskjarajöfnun og réttlæti eins og Alþb. boðaði í síðustu kosningum, fólkinu sem vill í reynd að hagsmunir þess séu efstir á blaði en ekki hagsmunir fjármagnseigenda. Það er það hlutverk sem Alþb. ætlar sér í þessari stjórnarandstöðu að búa hér til breiðfylkingu jafnaðarmanna og félagshyggjufólks, breiðfylkingu sem ekki aðeins býður þessari ríkisstjórn byrginn, heldur verður tilbúin að taka við í heild sinni þegar þessi ríkisstjórn hrökklast frá, þegar bál verðbólgunnar sem nú er búið að kveikja á ný hefur brennt þessa ríkisstjórn upp. Og við bjóðum öllum, öllum hvar í flokki sem þeir hafa staðið til liðs við okkur í að búa þá breiðfylkingu til. --- Góða nótt.