Halldór Ásgrímsson :
    Herra forseti. Góðir áheyrendur. Þeir flokkar sem störfuðu í fráfarandi ríkisstjórn fengu meirihlutafylgi þjóðarinnar til að halda starfi sínu áfram. Þrátt fyrir það hikaði Alþfl. ekki við að mynda ríkisstjórn með Sjálfstfl. og hafði í reynd ekki fyrir því að taka þátt í samtölum í því skyni við aðra flokka. Það var alveg ljóst að ákvörðun þessa efnis var löngu tekin og aðeins formsatriðin eftir að kosningum loknum.
    Við sem höfum lagt okkur fram um að ná málefnalegri samvinnu við Alþfl. höfum vissulega orðið fyrir vonbrigðum en það er alrangt hjá hæstv. umhvrh. að við séum grátklökkir af reiði eða súrir. Að því fólki verður hann að leita annars staðar og kannski er það í hans eigin flokki. Formaður flokksins hafði nefnilega ekki haft fyrir því að segja þessu fólki að hann geymdi íhaldið í brjósti sér sem fyrsta áfangastað að kosningum loknum. En hvað um það, ríkisstjórnin er staðreynd og þeir sem að henni standa hafa gert upp hug sinn. Ég botna ekkert í formanni Alþfl. að vera að eyða tíma sínum í það hér í kvöld að afsaka þetta. Honum væri nær að eyða honum í það að kynna stefnu ríkisstjórnarinnar.
    Einmitt hér í kvöld ætlaði hin nýja ríkisstjórn Íslands að gera þjóðinni grein fyrir ætlunarverkum sínum og stefnu. Má vera að einhverjir séu einhverju nær, en í mínum huga er afar margt óljóst eftir að hafa hlýtt á stefnuræðu forsrh. og ræðu utanrrh.
    Forsrh. talar um afar vonda afkomu og fjmrh. jafnframt. Eru atvinnuvegir þjóðarinnar reknir með tapi? Nei, þar er víðast hvar umtalsverður hagnaður. Eru viðskiptakjör að versna? Nei, þau fara batnandi. Með vaxandi framleiðslu atvinnuveganna og bættri afkomu fyrirtækja eru allar forsendur til að skapa þegnum þjóðfélagsins góða afkomu ef rétt er á málum haldið. Vissulega eru úrlausnarefnin mörg eins og ávallt áður. Það vissu allir sem vildu vita að eitt mikilvægasta viðfangsefni nýrrar ríkisstjórnar yrði að hemja útgjaldaþenslu í ríkisbúskapnum. Auðvitað vissu sjálfstæðismenn það líka og nægir að vitna til umræðu þeirra við afgreiðslu fjárlaga og lánsfjárlaga. En hvað sögðu þeir í kosningabaráttunni? Þeir lofuðu lækkun skatta. Hverju lofa þeir nú? Óbreyttum sköttum. Hver er svo líkleg niðurstaða? Enginn veit, en hún gæti allt eins orðið hækkun skatta í einu eða öðru formi.
    Við framsóknarmenn höfum gert okkar ljósa grein fyrir því að það þarf mikið aðhald í ríkisfjármálum og við erum andvígir loforðum um aukin ríkisútgjöld og ný verkefni á vegum ríkisins sem ekki er til fjármagn fyrir. Við lofuðum heldur ekki skattalækkunum vegna þess að við vissum í stórum dráttum hvernig ástatt var í ríkisfjármálum þótt það sé vissulega rétt að það sé verra en við höfðum upplýsingar um. Við erum jafnframt andvígir takmarkalausri útgáfu skuldabréfa eins og húsbréfa með ríkisábyrgð þegar ekkert stendur þar að baki. Þessi bréf stefna nú í 25% afföll og jafnvel meira sem fæstir geta staðið undir.
    Ríkisstjórnin hefur gripið til þess ráðs að hækka vextina í stað þess að auka aðhald í ríkisfjármálum og

á peningamarkaði. Með því eru vextir hér orðnir mun hærri en gengur og gerist í helstu samkeppnislöndum okkar. Það mun draga úr möguleikum atvinnulífsins til að bæta kjör og jafnframt hækka verðlag og draga úr kaupmætti. Með því er verið að kalla á aukna eftirspurn eftir erlendu lánsfé. Innlendur sparnaður vex ekki með sífellt hærri vöxtum þegar raunvextir eru komnir á það stig sem er hér á landi heldur með stöðugleika í efnahagslífinu. Vaxtahækkun nú er að mínu mati ekkert annað en skaðlegt fálm.
    En hvað hefur einkum orðið til að bæta ástandið í íslensku atvinnulífi fyrir utan skynsamlega kjarasamninga sem byggja á launahækkun í takt við aukna verðmætasköpun? Svarið liggur ekki síst í bættri afkomu sjávarútvegsins og annarra atvinnugreina en sjávarútvegurinn hefur gengið í gegnum miklar skipulagsbreytingar. Þær hafa leitt til aukinnar hagkvæmni sem getur orðið enn meiri ef hann fær að halda því starfsumhverfi sem honum hefur verið skapað. Lögin um stjórn fiskveiða, Hagræðingarsjóð og Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins mynda ekki síst þetta starfsumhverfi.
    Sjútvrh. segir sem betur fer að ekki standi til að breyta miklu. Formaður Alþfl. segir hins vegar að breytingar verði framkvæmdar og forsrh. talar óljóst í þessu máli. Ríkisstjórnin segist ætla að skipa sérstaka nefnd manna með fullu jafnræði stjórnarflokkanna til að endurskoða stefnuna. Hvað þýðir þetta? Á nefndin ekki að lúta forustu sjútvrh.? Eða eiga formenn flokkanna að stjórna henni á jafnræðisgrundvelli? Eiga samtök hagsmunaaðila í sjávarútvegi ekki að eiga neina aðild að endurskoðuninni? Á stjórnarandstaðan á Alþingi ekki að eiga aðgang að þessu máli? Hvað stendur skrifað á minnisblöðin utan úr Viðey um þetta mál? Er eitthvert heiðursmannasamkomulag líka um það? Hvenær fá menn að sjá þau og það samkomulag þannig að einhver vissa geti ríkt um starfsumhverfi þessarar mikilvægustu atvinnugreinar landsmanna? Á að afnema lögin um Hagræðingarsjóð og Verðjöfnunarsjóð eins og Sjálfstfl. hefur lofað? Er það meðal svokallaðra ólaga sem forsrh. nefndi og hyggst afnema? Allar þessar spurningar brenna á þeim sem vinna í greininni og ekki verður unað við það að fá óljós og ósamstæð svör.
    Alþfl. virðist því miður ekki skilja að góð afkoma í sjávarútvegi er forsenda framfara um allt land. Hann vill leggja sérstakan skatt á sjávarútveginn og hefta þannig framfarir og bætt kjör innan hans. Hvað á utanrrh. við þegar hann segir að arðurinn þurfi að skila sér til þjóðarinnar sem heildar? Voru þetta ekki rök þjóðnýtingarmannanna hér áður fyrr? Ég veit ekki betur en utanrrh. hafi lært þessi rök í erlendum háskólum og sé einn af þeim fáu hér innan dyra sem hafa aðhyllst þessa stefnu um alllangan tíma. Er það eitthvert sérstakt vandamál þessarar þjóðar að sjávarútvegurinn hefur nú nokkurn hagnað upp í miklar skuldir í stað tapreksturs áður? Þurfa menn að fá einhverja glýju í augun, eins og utanrrh. ávallt, að þessir peningar séu betur staddir í ríkiskassanum?
    Framsfl. vill byggja á þeim grunni sem hefur verið lagður af ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar. Flokkurinn óttast að núverandi ríkisstjórn hafi hvorki vilja né burði til að gæta þess sem áunnist hefur. Þjóðarsáttin er umgjörð efnahagsmála sem verður að ganga fyrir öðrum markmiðum í þjóðfélaginu. Sú sátt verður ekki varðveitt með vaxtahækkunum og vanefndum samninga. Sú sátt verður ekki haldin nema með hagkvæmum rekstri sjávarútvegsins og annarra atvinnugreina sem eykur verðmætasköpunina í þjóðfélaginu og þar með ráðstöfunarfé samfélagsins. Þjóðarsáttin verður heldur ekki framkvæmd nema með þátttöku bænda og fyllsta tillit verði tekið til hagsmuna þeirra. Þjóðarsáttinni verður ekki fram haldið nema svigrúm sem skapast til bættra kjara verði notað til að auka kaupmátt þeirra sem minnst hafa í sinn hlut. Umfram allt þarf að ríkja stöðugleiki og vitneskja um starfsumhverfi atvinnuveganna þannig að hægt sé að sækja óhikað fram á veg og skapa launþegum betri lífsskilyrði án ótta við að formenn stjórnarflokkanna raski forsendum efnahagslífsins með ótímabærum breytingum.
    Við styðjum samningsumleitanir um Evrópskt efnahagssvæði á grundvelli þeim sem markaður var af fyrri ríkisstjórn. Við styðjum allar nýjungar í atvinnulífi landsmanna sem skila þjóðarbúinu hagkvæmni og framförum hvort sem er á sviði almenns atvinnulífs eða stóriðju. Ríkisstjórnin tók við góðu búi sem getur skilað miklu ef rétt er á haldið. Við viljum í stjórnarandstöðu vinna að framlengingu þjóðarsáttar en vörum við fyrstu sporum hinnar nýju stjórnar.
    Sú samstaða sem tekist hefur er jafnviðkvæm og vorgróðurinn sem er að lifna og treystir á sól og vatn. Hvort ríkisstjórnin getur viðhaldið þeirri umgerð sem þjóðarsáttin treystir á getur tíminn einn leitt í ljós.
    Við munum veita þessari ríkisstjórn aðhald af öllum mætti og biðjum góða vætti þessa lands að hjálpa okkur í því mikilvæga hlutverki því ekki mun af veita.