Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Allar þær stofnanir sem koma að lána - og peningamálum eru sammála um að vaxtahækkun var óhjákvæmileg. Ríkisstjórnin hefur ekki gert annað en skrá það sem orðið var. Málsvarar stjórnarandstöðunnar hér í kvöld hafa ráðist að henni og gagnrýnt hana fyrir það. Hver er þeirra eigin saga í þeim málum?
    Í fyrra ákvað þáverandi fjmrh. að hækka vexti á ríkisvíxlum um 12%. Var það fyrsta tilræðið við þjóðarsáttina? Í fyrra ákvað sami maður að hækka vexti á spariskírteinum ríkissjóðs upp í rúmlega 7%. Var það annað tilræðið við þjóðarsáttina? Svarið við báðum þessum spurningum er nei. Þetta voru óhjákvæmilegar aðgerðir sem skiluðu þeim árangri að þessi vaxtahækkun var aðeins um tímabundið skeið þar til unnt var að lækka vextina á ný. Og það er það sama sem þessi ríkisstjórn er nú að gera. Skyldi það vera af vonsku hennar einni saman eða af tilviljun að menn neyðast til að taka þessar ákvarðanir nú?
    Lánsfjárþörf ríkisins, eins og hæstv. fjmrh. sagði hér áðan, er við viðskilnað hæstv. fyrrv. fjmrh. í fjmrn. orðinn 10 milljörðum kr. meiri en hún var fyrir fjórum árum síðan. Lánsfjárþörf ríkissjóðs í hlutfalli af landsframleiðslu hefur tvöfaldast í valdatíð hans. Þetta er ástæðan fyrir því að ríkisstjórnin komst ekki hjá því að grípa til þess úrræðis að viðurkenna það sem orðið var í hans eigin valdatíð. Sé um að ræða tilræði við þjóðarsátt, þá er tilræðismaðurinn hæstv. fyrrv. fjmrh. Ólafur Ragnar Grímsson sem skildi þannig við sitt ráðuneyti að er einsdæmi. Það er einsdæmi að fjmrh. skilji þannig við ráðuneyti sitt að standa í háværum deilum við sitt eigið starfsfólk síðustu dagana í ráðuneytinu um viðskilnaðinn. Ég man ekki eftir öðrum fjmrh. sem hefur deilt við sitt eigið starfsfólk um sinn viðskilnað.
    Forráðamenn Alþb. og þá ekki síst formaður þess hafa farið hamförum gegn Alþfl. eftir stjórnarskiptin. Þessi hæstv. ráðherra, sem allir vita að stóð sjálfur í viðræðum við forustumenn í Sjálfstfl. fyrir kosningar um möguleika á samstarfi þessara tveggja flokka eftir kosningar. Og hann talar um sameiningu jafnaðarmanna. Var það sameining jafnaðarmanna sem vakti fyrir hv. þm. þegar hann gekk til liðs við varaformann Sjálfstfl. um stjórnarmyndun veturinn 1980? Var það sameining jafnaðarmanna sem vakti fyrir þessum hæstv. fyrrv. ráðherra þegar hann fyrir kosningar reyndi að þvælast fyrir fótum iðnrh. Alþfl. í álmálinu, gera lítið úr ráðstöfunum félmrh. Alþfl. í húsnæðismálum og koma landráðastimpli á formann Alþfl. í Evrópumálum? Og var það sameining jafnaðarmanna, svo að vikið sé að félögum hans sem hafa tekið undir þennan söng, var það um jafnaðarstefnuna og sameiningu jafnaðarmanna sem hæstv. fyrrv. menntmrh. var að nema í leshringunum hjá Brynjólfi Bjarnasyni sællar minningar eða í kennslustundunum hjá Óla komma, sem hann hefur sjálfur sagt að hafi verið sú besta og mesta stjórnmálafræðsla sem hann hefur

fengið um sína daga? Alþb. á ekkert veð í Alþfl. Alþfl. var ekki stofnaður og er ekki starfræktur til þess eins að þjóna því sem Alþb. vill. Við eigum skyldur við okkar flokk, við okkar stefnu og við okkar fólk og það er á grundvelli þessarar skyldu sem við tökum okkar ákvarðanir en ekki á grundvelli þess hvað aðrir flokkar og aðrir stjórnmálaforingjar vilja.
    Virðulegi forseti. Mikil og erfið verkefni blasa við ríkisstjórninni. Það verða að nást samningar sem tryggja Íslendingum tollfrjálsan aðgang að mörkuðum Evrópubandalagsins fyrir fiskafurðir. Það er okkar stærsta byggðamál því það er forsendan fyrir því að hægt verði að byggja upp hér á landi öflugan úrvinnsluiðnað úr hráefnum landsbyggðarinnar. Það verður að takast að virkja orkulindirnar svo að orkan í iðrum jarðar og aflið í fossum og fallvötnum geti skilað íslensku þjóðinni bættum kjörum og betra mannlífi. Það verður að rjúfa þá múra ófrelsis sem einangrunarsinnar hafa hlaðið utan um íslenska þjóðríkið og valda því m.a. að margar nauðsynjar dagslegs lífs eru dýrari á Íslandi en á nokkru öðru byggðu bóli. Og það verður að sjá til þess að atvinnulíf og viðskiptahættir í landinu megi þróast með eðlilegum hætti þannig að réttur neytendanna til að velja og hafna sé virtur.
Það verður að tryggja að ákvæði 1. gr. laga um stjórn fiskveiða um sameign allrar íslensku þjóðarinnar á fiskimiðunum sé virt þannig að landsmenn allir fái að njóta landkosta síns eigin lands í stað þess sem ella verður að auðlegð Íslands og Íslendinga færist í hendur fárra. Þetta eru þau mál sem varða íslensku þjóðina miklu meiru en deilur um það hvort Framsfl. og Alþb. hefðu fremur átt að setjast inn í Stjórnarráðið en Alþfl. og Sjálfstfl. Það kemur í hlut ríkisstjórnarinnar að hafa forustu um að takast á við þessi viðfangsefni framtíðarinnar og vonandi ber hún gæfu til þess að ná samstöðu um hvernig það verður gert. Menn geta svo auðvitað haft uppi um það illspár og úrtölur eins og stjórnarandstaðan. En við skulum einnig vera minnug þess sem Stephan G. sagði að ,,falin er í illspá hverri ósk um hrakför sýnu verri``. Mér finnst þess gæta um of að slíkar óskir um sýnu verri hrakfarir séu faldar í hverri illspá stjórnarandstöðunnar.
    Hitt bið ég menn að íhuga í ljósi reynslunnar að ef ekki tekst með samstarfi Alþfl. og Sjálfstfl. að ryðja úr vegi gömlum fordómum, að opna fyrir nýjum straumum frelsis og framfara, ef ekki tekst í samstarfi þessara flokka að ryðja nýjar brautir í atvinnumálum, í utanríkisviðskipta - og gjaldeyrismálum, í peninga - og lánamálum með auknu frjálsræði og samkeppni með hag neytendanna fyrir augum, hverjir eiga þá að vinna það verk? Eru það Framsfl. og Alþb. sem eru báðir flokkar hins óbreytta ástands?
    Virðulegi forseti. Það bíður ríkisstjórnarinnar að leysa margvíslegan, bráðan vanda, vanda ríkisfjármálanna sem eru í kaldakoli, vanda þess að innlendur sparnaður dregst nú ört saman, þann vanda að þjóðinni hefur verið lofað meiru í útgjöldum og þjónustu hins opinbera en nemur því fé sem skattgreiðendur

treysta sér að leggja til. Úrlausn þessara vandamála er mest aðkallandi og því mun bera meira á þeim en mörgu öðru. En ég ítreka það álit mitt að jafnvel þótt hér sé um að ræða mikið og stórt verkefni, þá er þetta ekki meginviðfangsefni ríkisstjórnar Alþfl. og Sjálfstfl. heldur hitt, sem er meginviðfangsefni samstarfs þessara tveggja flokka, að vísa Íslandi og Íslendingum veginn inn til nýrrar aldar með því að ljúka þeim viðfangsefnum nýsköpunar í atvinnumálum, efnahagsmálum, utanríkisviðskiptamálum og peninga - og lánamálum sem samstarf þessara tveggja flokka á að geta skilað. --- Góðar stundir.