Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Þessa umræðu um stefnuræðu forsrh. ber að með nokkuð sérkennilegum hætti eins og kunnugt er. Hana ber að með þeim hætti að fyrst komst ríkisstjórnin að þeirri niðurstöðu að hún hefði í raun og veru enga stefnu til að kynna fyrir Alþingi og var það út af fyrir sig skynsamleg niðurstaða miðað við Viðeyjarskjalið hjá hæstv. ríkisstjórn vegna þess að hún hefur í sjálfu sér enga stefnu samkvæmt því að það er allt mjög loðið og stuttaralegt. Stjórnarandstöðunni fannst hins vegar viðkunnanlegt að umræða um stefnuræðu ríkisstjórnarinnar færi fram samkvæmt þingsköpum. Þess vegna var óskað eftir því að hæstv. forsrh. léti svo lítið að semja eins og eina stefnuræðu. Af fullri vinsemd kom hann til móts við þingið og þjóðina með því að búa til stefnuræðu og las hana upp í gærkvöld ásamt tveimur vísum eða vísnabrotum. Stefnan var tekin til umræðu með afbrigðum af því að stefnan var ekki tilbúin samkvæmt þingsköpum og stjórnarandstaðan féllst á það og sýndi þannig strax á fyrstu dögum þingsins samvinnuvilja sinn til þess að þinghald megi fara eðlilega fram samkvæmt þingsköpum og réttum reglum.
    En þegar upp er staðið og stefna hæstv. ríkisstjórnar er skoðuð í ljósi bókarinnar, ritsins sem var dreift hér og er auðvitað blátt eins og allt sem kemur frá þessari ríkisstjórn, það er allt blátt. Meira að segja þetta kver frá hæstv. fjmrh. er líka blátt og stefnan er blá, það er allt blátt, kratarnir eiga ekkert í þessari stjórn nema fimm stóla eins og kunnugt er. Þegar þetta er allt saman skoðað kemur það á daginn að allt er þetta harla rýrt, satt best að segja og erfitt að átta sig á hlutunum þó í gegnum skíni auðvitað tilteknar pólitískar niðurstöður sem ég mun hér fara nokkrum orðum um í þessari umræðu.
    Það er kannski vert að vekja athygli á því að hæstv. ráðherrar voru svo smekklegir, eða hitt þó heldur, í umræðunum í gærkvöldi að tala um þessa skýrslu hæstv. fjmrh. og innihald hennar án þess að þingheimi hefði gefist kostur á því að ræða um málin eða skoða skýrsluna á nokkurn hátt. Hefði auðvitað verið langeðlilegast að þessi skjöl hefðu verið tilbúin samhliða þannig að hægt væri að fjalla um þau í einni og sömu umræðunni í gærkvöld. Hins vegar er þessari skýrslu hæstv. fjmrh. dreift svo seint að það er auðvitað óhjákvæmilegt að hafa um hana sérstaka umræðu í þinginu. Ég sé ekki betur en sú umræða hljóti að fara fram úr því sem komið er einhvern tímann í næstu viku, þó það sé ekki nema vegna þess að hæstv. forsrh. mun hugsa sér að bregða sér bæjarleið strax á morgun til þess að hitta aðra ríkjaleiðtoga, eins og það heitir. Það verður auðvitað fróðlegt fyrir þá, aðra ríkjaleiðtoga, að kynnast hinum nýja forsrh. Íslands og þeim mikla trúnaði sem hann nýtur með þjóðinni og í því sveitarfélagi sem hann var ráðinn í vinnu hjá fyrir fjórum árum, upphaflega fyrir átta eða níu árum, en hefur ekki tekist að losa sig við, af því að stjórnsnilld forsrh. er svo mikil að samstarfsmenn hans í borgarstjórnarflokki Reykjavíkur hafa ekki komist að

niðurstöðu um það hver eigi að vera eftirmaður hins mikla leiðtoga og er það kannski von að það sé flókið verk að finna mann sem fer í föt annars eins forustumanns í íslenskum stjórnmálum. Og þá er ég ekki að vitna til þeirra margvíslegu verkefna sem hæstv. forsrh. hefur tekið að sér á hinum ýmsu sviðum þjóðlífsins sem var ágætlega rakin í menningarþættinum Spaugstofunni sem birtist þjóðinni fyrir nokkrum kvöldum, eins og kunnugt er.
    En í framhaldi af hinu bláa kveri númer eitt vakti það auðvitað athygli fjölmiðla hvað þetta var stutt og snaggaralegt. Þeir höfðu ekki séð þessa snjöllu skýringu hæstv. utanrrh. á þessu kveri sem ég mun koma aðeins að á eftir, og niðurstaða fjölmiðlanna varð sú, samkvæmt viðtölum við ráðherrana, að það væru til gögn sem heita bakskjöl. Og nú vil ég spyrja hæstv. forsrh.: Hvar eru bakskjölin? Ég vænti þess að hann sjái sér fært að birta þinginu bakskjölin. Þau mættu gjarnan vera í blárri kápu eins og allt sem kemur frá ríkisstjórninni en ég vildi gjarnan fá að sjá bakskjölin. Það hefur heyrst um svokallað heiðursmannasamkomulag um ýmislegt sem hafi gerst í stofunni hjá landshöfðingjanum úti í Viðey, en það fara litlar fregnir af því hvað er í bakskjölunum. Er kannski minnst þar á fleiri mál en umhvrn. og landbrn. og verkaskipti þeirra? Er kannski komið þar inn á fleiri þætti er varða sjávarútvegsmál t.d., sem við vitum um eða landbúnaðarmál? Hvað er í bakskjölunum, hvað er í hinum óttalegu bakskjölum? Kannski hæstv. iðnrh. geti galdrað eitthvað af þessum bakskjölum út úr tölvunni hjá sér. Kannski eitthvað af þeim sé eldra en frá því í kosningunum síðustu og hafi verið samið kannski í mars eða svo eða febrúar, þegar hæstv. iðnrh. hóf að knýja á um það með ýmsum hætti og stefnu sinni í stjórnmálum og í síðustu ríkisstjórn að leggja drög að því að sú stjórn yrði mynduð sem nú situr. Kannski að hún finnist í tölvu iðnrn. eða viðskrn. þessi stefna, þessi bakskjöl. Ég vil fá að sjá þau og ég skora á hæstv. forsrh. að koma með þau, sýna þau og afhjúpa hinn óttalega leyndardóm bakskjalanna. Það er auðvitað með öllu siðlaust og fráleitt að halda því frá þjóðinni að hún fái ekki að sjá þessi miklu bakskjöl. ( ÓÞÞ: Leyniskjöl.) Ég nota rétt orð, hv. 2. þm. Vestf., bakskjöl kölluðu hæstv. ráðherrar þetta og við skulum ekki vera með neinar dylgjur, hv. þm., við skulum bara fá gögnin á borðið. ( ÓÞÞ: Bakskjöl geta verið leyniskjöl.) Bakskjöl geta verið leyniskjöl, sagði hv. þm. og forseti veitir þingmanni áminningu af einhverjum ástæðum. ( Gripið fram í: Hann lamdi í bjölluna vegna ræðumanns.) Forseti lamdi ekki í bjölluna vegna ræðumanns, það er fullkomlega rangt, heldur vegna þess að þingmaðurinn var uppi með dylgjur og verður að gera grein fyrir þeim hér í ræðustól. Ég vil fá bakskjölin.
    Í annan stað varðandi undirbúninginn að þessari stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og kverið bláa númer eitt þá kom það fram hjá hæstv. utanrrh. að í rauninni væri þetta efnismikið skjal, gagnort og merkilegt. Hv. formaður þingflokks Alþfl. sagði reyndar í leiðara í Alþýðublaðinu fyrir nokkru að þetta væri hið

merkasta skjal og það væri bjarghella. En hv. formaður þingflokks Alþfl. er sem kunnugt er náttúrufræðingur og leggur vafalaust í þetta mikið dýpri merkingu en við hin sem erum ekki fróð á raunvísindasviðinu. Bjarghellan mikla. Hæstv. utanrrh. upplýsti það hins vegar í gærkvöld fyrir þingið og þjóðina að hér væri komið skjal sem jafnaðist á við ræðu Þorgeirs Ljósvetningagoða. Hann mismælti sig að vísu ráðherrann og mun hafa sagt Þorgeirs Hávarssonar, en þeir sem hafa lesið Fóstbræðrasögu þeir muna ekki eftir miklum ræðum hjá Þorgeiri Hávarssyni nema helst þessari sem hann hélt þegar hann hékk á hvönninni eða þegar hann sá vinnumanninn sem lengdi höfuð sitt fram á smalaprikið svo Þorgeir mátti ekki við bindast og hjó af honum höfuðið, en að sjálfsögðu átti hæstv. utanrrh. ekki við ræðumanninn Þorgeir Hávarsson, ( Gripið fram í: Þetta er misskilningur.) heldur átti hann við Þorgeir Ljósvetningagoða. Það er afskaplega athyglisvert að vera svo ánægður með handaverk sín að Þorgeir Ljósvetningagoði einn gæti hafa samið annan eins texta og þessa snilld sem drengskaparleiðtogarnir miklu klúðruðu saman úti í Viðey. Það dugir ekkert minna en Þorgeir Ljósvetningagoði. Ég sé að hæstv. landbrh. finnst þetta nokkuð athyglisvert, en Þorgeir Ljósvetningagoði bjó sem kunnugt er í Norðurlandskjördæmi eystra, nokkru fyrr að vísu en landinu var skipt í kjördæmi með þeim hætti sem síðan gerðist samkvæmt kosningalögunum 1959. ( Gripið fram í: Hinn flutti nú athyglisverða ræðu þar sem hann hékk í hvönninni.) Ég hef þegar farið yfir ræðuna í hvönninni hv. þm., lauslega, og vitnað til hennar og ef sú ræða sem Þorgeir Hávarsson hélt þegar hann hékk í hvönninni minnir á eitthvað í nútíðinni þá minnir hún einna helst þegar ég hugsa mig betur um og sé hér út undan mér manninn, á ræðuna sem hæstv. heilbrrh. flutti hér í gærkvöld í útvarpsumræðum fyrir þing og þjóð. ( Gripið fram í: Hvar er Butraldi Brúsason í þessu samhengi?) Butraldi Brúsason og afrek hans verða ekki rakin hér, hv. þm., þó það væri full ástæða til. Hann þótti slæmur nálægt vatnsbólum eins og kunnugt er, sem er mál sem heyrir undir aðra ráðherra en hæstv. heilbr.- og trmrh.
    En það eru skjölin, bakskjölin, sem ég vil fá.
    Í stefnuræðu sinni komst hæstv. forsrh. þannig að orði: ,,Ríkisstjórnin hefur hafnað því að hækka skatta á landsmenn en í staðinn ætlar ríkisstjórnin að hækka vexti.`` Hvað er í raun og veru að gerast hér? Vaxtahækkun eins og sú sem verið er að tala um og ákveðin hefur verið af ríkisstjórninni er auðvitað ekkert annað en skattahækkun á húsbyggjendur og atvinnuvegi þessa lands. Ríkisstjórnin hefur ákveðið vaxtahækkun sem er í raun og veru skattahækkun. Ef við skoðum þá hluti með hliðsjón af stærðum liggur það fyrir að peningalegur sparnaður í landinu er talinn vera 360 -- 370 milljarðar króna. 1% vaxtahækkun jafngildir þess vegna skattahækkun upp á 3,6 -- 3,7 milljarða króna. Sú vaxtahækkun sem ákveðin hefur verið þýðir í raun og veru íþyngingu á atvinnuvegi og húsbyggjendur upp á 7 -- 8 milljarða króna. Það eru nýir skattar. Það eru skattar sem eru lagðir á húsbyggjendur og lagðir á atvinnuvegi þessa lands. Ég vil spyrja hæstv. viðskrh. og hæstv. forsrh.: Hvaða kannanir liggja fyrir á því hvaða áhrif þessar sérstöku vaxtahækkanir hafa á hag húsbyggjenda, hafa á hag atvinnuveganna í landinu, og þá sérstaklega sjávarútvegsins, og möguleika þessara greina til þess að greiða kaupbætur í samræmi við þann viðskiptakjarabata sem þjóðin hefur verið að fá á undanförnum missirum?
    Það er alveg augljóst mál að með þessari vaxtahækkun upp á 7 -- 8 milljarða króna er verið að skerða getu atvinnuveganna til þess að tryggja launamönnum sanngjarnan hlut í viðskiptakjarabata undanfarinna mánaða. Það er verið að taka fjármagnið í landinu með þessum hætti fram yfir kjör fólksins og þar með er þessi stjórn í raun og veru að segja við landsmenn: Þetta er ómenguð hrein hægri stjórn og ekkert annað.
    Það er augljóst mál líka að þessi skattahækkun ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar er að því leytinu til verri en ýmsar aðrar skattahækkanir að hún leggst tillitslaust á atvinnuvegi og húsbyggjendur, burt séð frá efnahag og tekjum og greiðslugetu viðkomandi. Þessi skattur upp á 7 -- 8 milljarða króna sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að leggja þannig á þjóðina er þannig eins og veltuskattur, flatur skattur sem tekur ekkert tillit í raun og veru til fjárhags þeirra sem skattinn eiga að greiða. Þess vegna er það auðvitað beinlínis fráleitt þegar ríkisstjórnin reynir að setja málið þannig upp að hún hafi valið vaxtahækkun en hafnað skattahækkun. Hún kaus þessa sérstöku skattahækkun á þjóðina sem er ekki í þágu ríkissjóðs, heldur í þágu fjármagnseigenda, þeirra sem peningana eiga, hvort sem það er í bönkum eða hjá verðbréfafyrirtækjum. Þannig er þetta hægri stjórn. Og efnahagsstefna hennar og fyrstu ákvarðanir sýna hvergi vott þess að hér sé um að ræða stjórn sem vill jöfnuð í lífskjörum í landinu. Það er ekki snertur af því sem kalla mætti jafnaðarstefnu í þessari stjórn, enda gerði Alþfl. engar kröfur, aðrar en þær eins og kunnugt er, að fá fimm stóla. Punktur.
    Hæstv. forsrh. komst þannig að orði í ræðu sinni í gærkvöld: ,,Frjálsir vextir og fjármagnsmarkaður er undantekningarlaust sú regla sem gildir hjá öllum þjóðum sem Íslendingar bera sig saman við.`` Með þessu er hæstv. forsrh. að segja að ríkisstjórnin eigi ekki að stjórna. Markaðurinn eigi að stjórna. Hagnaðarvonin á hverjum tíma og hverjum stað eigi að stjórna. Með þessu er ríkisstjórnin í raun og veru að segja: Hér erum við að hverfa að þeirri stefnu sem var ákveðin sumarið 1984 af ríkisstjórn Framsfl. og Sjálfstfl. þegar vextirnir voru gefnir alfrjálsir með þeim afleiðingum að við blöstu og blasa enn gjaldþrot hundruða og þúsunda heimila og fyrirtækja í landinu.
    Ríkisstjórnin lýsir því með öðrum orðum yfir í ræðu hæstv. forsrh. að hún ætli ekki að stjórna. Markaðurinn, gróðinn á að ráða ferðinni. Það kemur manni auðvitað ekkert á óvart að hæstv. viðskrh. skuli vera sáttur við þessa stefnu vegna þess að í rauninni

predikaði hann alltaf þessa stefnu í síðustu ríkisstjórn, iðulega í fullri andstöðu t.d. við þáv. hæstv. forsrh.
    Þetta eru mjög alvarleg meginatriði sem þrátt fyrir allt koma fram í stefnuræðu hæstv. forsrh. Annars vegar eru lagðir skattar á til þess að styrkja stöðu fjármagnsins og hins vegar verður markaðurinn að öðru leyti látinn ráða sjálfur. En það kostulega sem sýnir í rauninni andstæðurnar í stefnu stjórnarinnar er svo það að um leið og menn segja: Frelsi og markaður fyrir peningana, þá segja menn: Við verðum að binda okkur við erlend bandalög af ýmsu tagi. Og það sem fram kom í þeim efnum í ræðu hæstv. forsrh. og mun koma fram þarna í Viðeyjarkverinu bláa líka, er að athugað verði að tengja íslensku krónuna við evrópska myntkerfið og stuðla þar með að auknum stöðugleika í íslensku efnahagslífi.
    Ég ætla að leyfa mér, virðulegur forseti, að fara nokkrum orðum um þetta. Hvað er hér verið að tala um? Evrópska myntkerfið. Hvað þýðir það að tengjast evrópska myntkerfinu? Það þýðir það í örstuttu máli að Íslendingar afsala sér til hins evrópska markaðar gengisskráningarvaldinu algerlega. Með öðrum orðum er verið að slá því föstu að ekki hinn íslenski markaður eins og hann er heldur alþjóðlegur markaður skuli í raun og veru ákveða hver gengisskráningin er á hverjum tíma. Og ætli íslenskt efnahags- og atvinnulíf sé með þeim hætti þróað að það sé undir það búið að taka á sig gengisskráningarreglur sem eru hliðstæðar þeim sem gerast í svokölluðum þróuðum iðnríkjum Vestur-Evrópu? Halda menn t.d. að sjávarútvegsfyrirtækin vítt og breitt um landið, í Ólafsvík, á Patreksfirði, á Norðurlandi, Suðurlandi, Vestmannaeyjum, Reykjanesi, þessi fyrirtæki séu undir það búin að Ísland verði þannig aðili að evrópska myntkerfinu? Það er kostulegt að í ræðu þar sem í raun og veru hvergi eru nefnd fjölmörg þýðingarmikil mál, t.d. sérstaklega byggðavandinn í landinu, þar er einn sérstakur stefnumarkandi hlutur nefndur og það er að tengja íslensku krónuna við hið alþjóðlega evrópska myntkerfi.
    Evrópustefnunefnd hefur verið að störfum á vegum hv. Alþingis um nokkurra ára skeið. Í þeirri nefnd hefur m.a. verið farið yfir spurningarnar um evrópska myntsamstarfið. Þar kemur mjög skýrt fram hvers konar fyrirbæri þetta Evrópska myntbandalag er, en þar kemur fram að einn liðurinn í þessu samstarfi er ákvörðunin um svokallaðan Evrópugjaldmiðil, ECU, sem er í rauninni eingöngu reikningseining og er notuð í fjármálum Evrópubandalagsins og viðskiptum seðlabanka á Evrópubandalagssvæðinu. Annar þátturinn er gengissamflot sem er svipað og gengissamflotið sem gekk undir nafninu Snákurinn fyrir 12, 14, 15 árum síðan, þar sem um það er að ræða að ríkin sem eru aðilar að þessu samstarfi ákveða að gengi megi ekki hreyfast nema um 2,25% til eða frá innan þessa samstarfs. Að gengi viðkomandi ríkja megi aldrei hreyfast meira en um 2,25% til eða frá. Með öðrum orðum, að ríkin hafi ekki sjálfstæði til þess að ákveða breytingu á kostnaðarskráningu sinna atvinnuvega með því að breyta gengi krónunnar til eða frá.

    Í riti Evrópustefnunefndarinnar er minnt á það að samkvæmt stofnsamþykktum þessa samstarfs er gert ráð fyrir því að ríki geti fengið aukaaðild að þessu peningakerfi. Og það kemur fram í skýrslu nefndarinnar að ef menn ganga til aðildar, ef ríki verða aðilar að þessu samstarfi, þá munu hin einstöku aðildarríki ekki geta notað gengið sem hagstjórnartæki. Þetta er orðrétt upp úr skýrslu Evrópunefndarinnar, segir hér. ,,Ef af þessu verður munu hin einstöku aðildarríki ekki geta notað gengið sem hagstjórnartæki.`` Síðan segir hér að ef ríki ganga inn í þetta bandalag þá missa þau mikilvægt hagstjórnartæki til að bregðast við hærri kostnaði í einu landi umfram önnur. Þannig má segja að við það að ganga inn í þetta bandalag þá séu, orðrétt: ,,þjóðríkin að afsala sér möguleikum á óháðri peningamálastjórn``. Ég spyr: Hefur þetta verið rætt í þingflokki Alþfl.? Hefur þetta verið rætt í þingflokki Sjálfstfl.? Ég spyr formenn þingflokka Alþfl. og Sjálfstfl. hvort það hafi verið rætt í þessum flokkum að þeir fyrir sitt leyti séu samþykkir því að Ísland verði aðili að þessu evrópska myntkerfi, sem jafngildir ákvörðun um það að Íslendingar hafi ekki gengisskráningarvaldið í sínum höndum áfram. Það er auðvitað hrikalegur hlutur ef það hefur gerst að hæstv. forsrh. lýsi þessu yfir án þess að málið hafi verið rætt í þessum þingflokkum. En það er auðvitað mjög alvarlegur hlutur að setja mál af þessu tagi fram í stefnuyfirlýsingu, eins og gert er, án þess að í rauninni hafi farið fram nokkur umræða um það nema í Evrópustefnunefndinni þar sem niðurstaða allra flokkanna, allra þingflokka, er sú að þetta samstarf komi í rauninni ekki til greina af því að ríkin séu með því að afsala sér þessu hagstjórnartæki.
    Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að endurtaka það: Hefur þingflokkur Alþfl. samþykkt það, hv. 17. þm. Reykv., að Ísland hefji sérstaka athugun á aðild að evrópska myntsamstarfinu? Hefur þingflokkur Alþfl. samþykkt það, hv. þm.? Ég held að það sé nauðsynlegt að svar komi fram um það út af yfirlýsingu hæstv. forsrh. um það efni hér í gærkvöld sem er ítrekun á því sem kemur fram í hinu bláa kveri, Viðeyjarkveri, sem ég geri ráð fyrir að hafi verið samþykkt í þingflokki Alþfl. En hefur þetta mál verið sérstaklega rætt eða var þessu smyglað inn? Hér eru menn að leika sér með stóra hluti og segja stóra hluti. Hér er verið að segja býsna stóra hluti fyrir sjávarútveginn í Vestmannaeyjum, á Suðurnesjum, Austurlandi, Norðurlandi, Patreksfirði, Ólafsvík eða hvar það nú er.
    Þetta vildi ég spyrja um, virðulegi forseti, og biðja forsrh. hæstv. um að fara nokkrum orðum um það ásamt viðskrh., hvernig ríkisstjórnin hugsar sér vinnu að þessum málum auk þess sem ég hef vakið hér athygli á öðrum málum eins og t.d. þeim að með vaxtahækkun ríkisstjórnarinnar er verið að hækka skattana um 7 -- 8 milljarða króna.
    Það kveður við í umræðum um efnahagsmál og vexti núna undanfarna daga að þá hafi ríkisstjórnin tekið við þannig búi að hér hafi allt verið í kaldakoli og m.a. sparnaður mjög þverrandi og þess vegna hafi

orðið að hækka vexti. Staðreyndin er auðvitað sú sem allir reyndir stjórnmálamenn vita og hagfræðingar eiga að vita að sparnaður fer ekki eingöngu eftir vaxtastigi á hverjum tíma. Um það höfum við tekið langar umræður fyrr úr þessum ræðustól. Auðvitað er það ekki þannig að sparnaður á undanförnum mánuðum hafi einvörðungu ráðist eftir vaxtastigi. En var það þá þannig að sparnaður í landinu hafi verið að hrynja síðustu mánuði? Hvað segja tölur bankakerfisins, Seðlabankans, um þessi efni? Það kemur t.d. fram sem er mjög athyglisvert að aukning innlána og ný verðbréfaútgáfa í aprílmánuði var 1,3 milljarðar kr. En almenn útlán á sama tíma, hver voru þau? Þau voru 1,1 milljarður kr. Það er því alveg augljóst af þessum tölum að sparnaður í hinu almenna bankakerfi í landinu var að styrkjast í síðasta mánuði. Nýr sparnaður og verðbréfaútgáfa var meiri en útlán þó að við höfum auðvitað margoft séð mánuði þar sem útlánin hafa verið miklu meiri en innlán. Ég fletti að gamni mínu upp hvernig þetta var í apríl 1990 til samanburðar. Hvernig var þessu háttað þá? Þá var nýr sparnaður og verðbréfaútgáfa í landinu 485 millj. kr. en útlán námu á sama tíma 1,8 milljörðum kr. Þannig hafa auðvitað alltaf verið sveiflur í þessum stærðum. En það er algerlega ljóst af þessum tölum, þar sem innlán voru meiri en útlán í aprílmánuði, að það er langt frá því að peningakerfið hafi verið komið á þann vonarvöl sem ríkisstjórnin vill vera láta þegar hún er að réttlæta vaxtahækkanir sínar, það er langt frá því.
    Án þess að ég ætli að blanda mér frekar í þær umræður núna vil ég endurtaka þær spurningar almennt sem ég bar fram til hæstv. ráðherra um áhrif vaxtahækkananna á afkomu atvinnuvegannna. Hvar liggja fyrir skýrslur um það? Ég vil fá að sjá þær. Ríkisstjórnin hlýtur að hafa skýrslur um það. Hvar liggja fyrir skýrslur um áhrif vaxtahækkananna á húsnæðiskaupendur, íbúðarskuldara í landinu? Hvar liggja fyrir skýrslur um það? Ég skora á hæstv. félmrh. að reiða nú fram þær skýrslur sem hún hefur undir höndum sem eru vafalaust gildar í þessu efni þar sem tekin hefur verið sérstök ákvörðun um að hækka vexti langt aftur í tímann á húsnæðisskuldum fólks. Og það væri kannski fróðlegt líka að fá að vita hjá hæstv. félmrh., og ég spyr hana að því: Hvað verður með húsbréfin? Verða vextir á húsbréfunum hækkaðir? Þannig háttar til með húsbréfin að fjármagnskostnaður við þau er í fyrsta lagi vextir sem ganga inn í vaxtabótakerfið í landinu og ríkið endurgreiðir að nokkru leyti. Í öðru lagi eru það afföll. Það er verið að tala um afföll á bilinu 20 -- 25% um þessar mundir. En afföllin eru með þeim hætti að vaxtabótakerfið greiðir ekki afföll, endurgreiðir ekki þau afföll sem fólk verður að bera. Einstaklingurinn verður að bera afföllin að fullu en vaxtabótakerfið skilar fólki til baka talsverðum hluta af vöxtunum sjálfum eins og m.a. kom hér fram í ræðu hæstv. utanrrh. í gærkvöldi.
    Ég hef hér, virðulegi forseti, farið yfir nokkur atriði í sambandi við stefnuyfirlýsingu hæstv. ríkisstjórnar og forsrh. Ég tel að þrátt fyrir magra texta þá liggi í grófum dráttum fyrir tilteknar niðurstöður sem ég vil

draga saman. Í fyrsta lagi fær fjármagnið innan lands aukið frelsi. En það er verið að ræða um það að afhenda útlendingum gengisskráningarvaldið og þar með eitt mikilvægasta hagstjórnartæki landsmanna. Í öðru lagi tel ég að með þessari vaxtahækkun sem boðuð hefur verið og þeirri stefnu sem lýst hefur verið sé verið að leggja skatta upp á 7 -- 8 milljarða kr. á þá hér í þjóðfélaginu sem síst skyldi. Í þriðja lagi tel ég að með þessari stefnu séu atvinnuvegir í hættu og vandi landsbyggðarinnar sérstaklega sé magnaður upp með þessum ákvörðunum um hærri vexti. Í síðasta lagi tel ég að með þeirri stefnu sem kynnt hefur verið séu menn í raun og veru að ákveða að magna verðbólguna upp á ný og þar með að stefna þjóðarsáttinni, eins og hún var kölluð, í verulega hættu.
    Ég endurtek síðan, virðulegur forseti, að ég hef borið fram nokkrar spurningar til þriggja hæstv. ráðherra, forsrh., ráðherra viðskiptamála og félagsmála og endurtek líka það sem ég sagði í upphafi að ég vil fá að sjá bakskjölin. Ég vil fá að sjá bakskjölin. Ef hæstv. forsrh. er ekki með bakskjölin þá er hv. 17. þm. Reykv. vafalaust reiðubúinn til þess í anda opinna og lýðræðislegra stjórnarhátta, sem ég veit að hann er mjög öflugur talsmaður fyrir frá fyrri árum okkar þegar við vorum saman í flokki, að birta allt og lofa fólki að sjá allt. Og tregðist hæstv. forsrh. við þá skora ég á hinn nýja þingmann að sýna nú kraft sinn og þor og þrek til þess að ganga fram og sýna bakskjölin ef forsrh. vill það ekki.