Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég ætla í upphafi máls míns að vitna á örfáum stöðum í þá stefnuræðu sem hæstv. forsrh. flutti í gær. Ég sé að vísu að forsrh. er ekki í salnum, en það skiptir kannski ekki öllu máli, í það minnsta fer maður að efast um áhrif hans og völd í þessari ríkisstjórn og sínum flokki eftir atburði síðustu daga.
    Ég ætla að byrja á því, með leyfi forseta, að vitna hér í bls. 6 í stefnuræðunni. Þar segir:
    ,,Það er mat ríkisstjórnarinnar að hæfilegar aðhaldsaðgerðir á sviði ríkisfjármála og peningamála muni duga til þess að koma á jafnvægi á ný í þjóðarbúskapnum og gera það mögulegt að varðveita forsendur kjarasáttar og ekki síst stöðugleika í gengi.``
    Ég spyr hæstv. ráðherra sem hér eru: Var þetta allur vandinn sem við blasti og skýtur þetta ekki nokkuð skökku við öðru því sem kemur fram í þessari stefnuræðu þar sem viðskilnaði fráfarandi ríkisstjórnar er lýst með þeim hætti að þar hafi ekki staðið steinn yfir steini í efnahags- og peningamálum, ekki síst ríkisfjármálum? Var þetta allur vandinn sem ríkisstjórnin var mynduð um? Hefði ekki áframhaldandi stjórnarseta fyrri stjórnarflokka verið alveg eins líkleg til þess að taka á þessu eina afmarkaða máli, ef þetta var allt það sem þurfti að gera?
    Það er ekkert nýtt að ríkisfjármálin séu það stærsta verkefni sem íslensk stjórnvöld hafa staðið frammi fyrir. Svo hefur verið um langt árabil og sagan segir okkur að það hefur verið síst betra á þeim tíma þegar Sjálfstfl. hefur farið með forustu þeirra mála. Þá hefur það gerst, og það er hægt að sýna fram á með tölum, að hafðir hafa verið í frammi tilburðir til þess að lækka skatta, og það er góðra gjalda vert, en útgjöld ríkisins hafa aukist meira en í annan tíma þegar svo hefur staðið á. Og það hefur ekkert komið fram og það er ekkert í þessari stefnuræðu sem bendir til þess að öðruvísi verði tekið á ríkisfjármálum undir forustu Sjálfstfl. nú.
    Það er svo annað mál að stærsti þensluvaldurinn á peningamarkaðinum í dag er ekki ríkisfjármálin, það eru húsnæðismálin og það kemur ekkert fram í þessari stefnuræðu sem bendir til þess að þar verði tekið á málum. Þar hafa menn byggt upp nýtt kerfi, húsbréfakerfið, án þess svo mikið sem skoða það hvort ekki hefði verið vænlegra að sníða agnúana af því kerfi sem sett var á áður og mæta þörfum markaðarins á þann hátt, frekar en eins og gert var að skella húsbréfakerfinu inn áður en búið var að gera nokkrar ráðstafanir gagnvart eldra kerfinu og lenda í þeirri stöðu að vera með þungann af tveimur kerfum inni á lánsfjármarkaðinum í einu.
    Þetta er málaflokkur sem því miður fékkst ekki tekið á í tíð fyrrv. ríkisstjórnar. Þar var harka þáv. og núv. hæstv. félmrh. slík að við þennan málaflokk var engu tauti komandi. En það skiptir kannski ekki miklu máli að velta fyrir sér hvað fráfarandi ríkisstjórn hefði gert ef hún hefði setið áfram.
    Nú sé ég að hæstv. forsrh. gengur í salinn og þá

ætla ég að koma eilítið að beinum tilvitnunum í hans stefnuræðu frá því í gær. Þar eru mörg gullkorn en þó eitt öðru fremra, þar sem stendur á bls. 10 að ,,hófstilling og skilningur á eigin takmörkun hlýtur að vera aðalsmerki vestrænna stjórnmálamanna.``
    Það flaug í gegnum huga minn eftir að ég las þetta að það verður ekki skafið af kímnigáfu hæstv. forsrh.
    Ég var byrjaður að ræða um aðdraganda þess að núv. ríkisstjórn var mynduð. Ég held að það fari ekkert á milli mála að það var búið að leggja drögin að þessari stjórnarmyndun fyrir kosningar. Þar nægir að vitna til viðbragða forustumanna Alþfl. þegar kosningatölur birtust á kosninganótt. Þeir voru felmtri slegnir og gátu ekki leynt vonbrigðum sínum yfir því að þáverandi stjórnarflokkar voru með meiri hluta til að viðhalda stjórnarsamstarfinu. Það var gripið til örþrifaráða og það sem helst var tínt til var ein ástæða, ekki fjölmargar, eins og hæstv. utanrrh. sagði hér í ræðu sinni í gær að það hafi verið fjölmargar ástæður fyrir því að ekki var hægt að halda áfram þáverandi stjórnarsamstarfi, það var bara nefnd ein ástæða þessa nótt og sú ástæða var sessunautur minn hér í þingsölum á núverandi þingi, hv. þm. Hjörleifur Guttormsson. Á þeirri stundu var ekkert hægt að tína til annað þó svo að ýmislegt hafi verið búið til á seinni tímum.
    Ég kvíði því hins vegar ekkert að vera í stjórnarandstöðu og ég held að hlutverk stjórnarandstöðuflokkanna í dag, og þá kannski sérstaklega Framsfl. sem stærsta stjórnarandstöðuflokksins, sé veigamikið og ég er viss um að við munum axla þá ábyrgð, reyndar miklu betur en Sjálfstfl. gerði í stjórnarandstöðu á síðasta kjörtímabili.
    En það er þó hægt að tína eitt atriði til Alþfl. til málsbóta varðandi stofnun núv. ríkisstjórnar. Það eina málefnalega sem hægt er að tína til er það að Alþb. hafi að nokkru brugðist á síðustu mánuðum fráfarandi ríkisstjórnar. Ólafur Ragnar Grímsson, þáv. fjmrh., lét undan sínum samráðherrum til þess að halda friðinn innan flokksins með þeim afleiðingum að ríkisfjármál fóru að nokkru úr böndunum. Þetta var dýrkeyptur friður. Annað er það, og það er sýnu alvarlegra, að á síðustu vikum fyrir kosningar komu veikleikar þeirrar hugmyndafræði sem Alþb. byggir á berlega í ljós. Þegar svo var komið að ráðherrar Alþb. hættu að gera greinarmun á flokki og ríki eins og er alþekkt í hugmyndafræði þeirra landa sem þeir sækja sína til. Þetta kom fram m.a. í litprentuðum auglýsingabæklingum ráðherranna. Þetta kom fram í samningagleði um nýframkvæmdir. Þetta kom fram í vígslugleði framkvæmda á vegum ríkisins og öllu var þessu blandað saman við sterka hagsmuni flokksins í kosningabaráttu. Ég ítreka það að þetta er það eina sem hægt er að tína til málefnalega og Alþfl. getur hengt hatt sinn á.
    Ég ætla nú að koma að stjórnmálaviðhorfinu almennt. Við erum á leið inn í frjálsara þjóðfélag á sviði atvinnulífs, peningamála og menningarmála. Að þverskallast við þessari staðreynd er álíka eins og hjá

strútnum forðum að stinga höfðinu í sandinn. En það skiptir öllu hvernig staðið er að málum. Það er ekki sama hvaða frelsi við köllum eða fáum yfir okkur.
    Í núv. ríkisstjórn ná saman þau öfl innan Alþfl. og Sjálfstfl. sem styðjast við harðan enskan frjálshyggjuskóla. Það þarf ekki annað en að leiða sjónir að aðstoðarmönnum og helstu hugmyndafræðingum, arkitektum þessarar ríkisstjórnar, sem ég tel vera hæstv. forsrh. Davíð Oddsson og hæstv. iðn.- og viðskrh. Jón Sigurðsson. Það þarf ekki annað en að líta til helstu aðstoðarmanna og hugmyndafræðinga þessara manna til þess að sjá við hvaða stefnu þessi ríkisstjórn mun öðru fremur styðjast.
    Á hverju byggist þá þessi hugmyndafræði? Hún byggist á því að það séu fjármagnseigendurnir sem eru settir öðru ofar og það sé frelsi þeirra sem verði varið öðru fyrr. Og viti menn, eru það ekki einmitt fyrstu aðgerðir þessrar núv. ríkisstjórnar sem staðfesta þessa kenningu?
    Hvað fylgir í kjölfar þessarar stefnu? Við þurfum ekki annað en líta til þeirra þjóða sem aðhyllast hana til að sjá að henni fylgja hörð átök á vinnumarkaði og átök í þjóðfélaginu almennt. Það er nefnilega ekki sama hvað við tínum til og hvað við viljum nota úr vestrænu samfélagi. Það er til allt önnur stefna sem byggir á frelsi hugvitsins, byggir á frelsi athafnanna og frumkvæði einstaklinganna. Það frelsi fjármagnsaflanna sem ég var að nefna hér áðan, þar fylgir nefnilega böggull skammrifi. Það frelsi sem veitir peningaöflunum algjöran forgang
getur alveg eins heft framtakið í dróma. Við þurfum ekki annað en líta til okkar þjóðfélags. Við þurfum ekki annað en horfa á það sem er að þróast í okkar atvinnulífi þar sem er Eimskipafélags - , Flugleiða - og Sjóvásamsteypan sem í krafti síns fjármagns er að ná þeirri stöðu að geta drepið af sér framtak og frumkvæði einstaklingsins, framtak og frumkvæði þeirra sem dirfast að fara inn á þeirra afmarkaða svið þar sem þeir hafa haslað sér völl, ekki til þess að standa í frjálsri samkeppni heldur til þess að ná einokun. Það er nefnilega hægt að ná einokuninni á fleiri en einn hátt.
    Ég ætla að koma hér að örfáum málefnum til viðbótar. Ég ætla í fyrstu að víkja að landbúnaðarmálum. Nú sakna ég þess að hæstv. landbrh. er ekki í salnum og ég vil biðja virðulegan forseta að gera ráðstafanir til þess að hann mæti. ( Forseti: Það hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að láta hæstv. landbrh. vita að nærveru hans sé óskað í salnum.) Ég þakka virðulegum forseta fyrir það því að ég veit það að hæstv. landbrh. mun ekki vilja missa af þessum umræðum. Hann hefur í sinni þingmannstíð gengið mjög hart eftir því að ráðherrar séu viðstaddir þegar rætt er um þeirra málaflokka þannig að ég vil ekki hafa það á samviskunni að hann verði ekki hér viðstaddur umræður um hans málefni.
    Virðulegi forseti. Ég sé að það tefst eitthvað að landbrh. gangi í salinn þannig að ég breyti þá bara uppröðun á mínu efni og bíð með þennan kafla þar til hann er mættur.

    Ég ætla að koma aðeins núna að fjármálum ríkis og sveitarfélaga. Ég saknaði þess í stefnuræðu ríkisstjórnarinnar að þar var ekkert minnst á frekari skattalagabreytingar. Það getur að vísu vel verið að það felist í þeim óskilgreinda kafla stefnuræðunnar þar sem talað var um að fella niður ólög en það er ekki skilgreint nánar. Ég spyr að því hvort núverandi löggjöf um aðstöðugjöld sé þar meðtalin. Þessi löggjöf er á margan hátt mjög óréttlát. Hún er mjög óréttlát gagnvart atvinnulífinu. Þetta er hreinn veltuskattur sem einn út af fyrir sig getur verið nægjanlega harður og hár til þess að velta um fyrirtækjum sem eru að komast á legg.
    Þessi skattur er í annan stað óréttlátur vegna þess að hann hefur skapað Reykjavíkurborg algera sérstöðu varðandi tekjuöflun sveitarfélaganna. Það er í raun þessi skattur sem hefur gert hæstv. forsrh. Davíð Oddsson að skattakóngi á Íslandi, sem hefur gert það að verkum að skattar á íbúa eru hærri í Reykjavík en í nokkru öðru sveitarfélagi í landinu. Og ég spyr hæstv. forsrh. hvort hann muni í tíð sinnar ríkisstjórnar vilja beita sér fyrir því að breyta þessari skattlagningu og gera hana hagkvæmari, fyrst og fremst fyrir atvinnureksturinn og í leiðinni að jafna það óþolandi tekjumisrétti sem er á milli sveitarfélaga í landinu. Það skiptir nefnilega engu máli þegar við komum að fjármálum ríkis og sveitarfélaga hvort það er ríkið sem verður að fjármagna framkvæmdir og rekstur með lántöku, innlendri eða erlendri, eða hvort það er eitt einstakt sveitarfélag sem í krafti ranglátrar skattalöggjafar getur bruðlað þannig með peninga eins og Reykjavíkurborg hefur getað gert. Það hefur nákvæmlega sömu áhrif inn í hagkerfi okkar. Og ég spyr að því hvort þetta verði ekki leiðrétt.
    Ég ætla síðan að koma örfáum orðum að álmálinu. Ég hef verið þeirrar skoðunar að eitt af því sem við hljótum að horfa til til aukinnar hagsældar sé orkusala og við eigum að skoða samninga um álbræðslu eins og annað þar. Ég held hins vegar að núv. ríkisstjórn undir forustu hæstv. iðnrh. sé að mála sig endanlega út í horn í þessu máli. Það sem kláraði hleðsluna í því sé það þegar það er nánast sett inn í stefnuyfirlýsingu þessarar ríkisstjórnar að hún sé mynduð m.a. til þess að klára þessa samninga. Hvað halda menn að þetta þýði fyrir okkar viðsemjendur? Þeir fá þarna upp í hendurnar óskasamningastöðu. Þeir fá upp í hendurnar þá samningastöðu að vita það að þetta er orðið hápólitískt mál. Ríkisstjórn landsins er búin að leggja það undir að ljúka samningum um álbræðslu. Það þarf ekki annað en að kynna sér blaðaskrif um þetta mál á síðustu vikum til að átta sig á að viðsemjendur okkar hafa metið þessa stöðu á þennan hátt og þeir eru komnir með það tangarhald á okkur í þessum samningum að ég sé ekki hvernig við komumst út úr því, enda eru forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar, bæði hæstv. iðnrh. og hæstv. forsrh., á harðaflótta í þessu máli með yfirlýsingum um það að þetta sé ekki eini fiskurinn í sjónum og það séu fleiri aðilar sem hægt sé að semja við og fleiri nýtingarmöguleikar.

    Það má vel vera að svo sé. Hitt er jafnalvarlegt ef þessi málflutningur, sem ég nefndi áðan, hefur skaðað þannig okkar hagsmuni að samningar um þennan þátt, samningar við Íslandsál séu úr sögunni.
    Ég sé að hæstv. landbrh. er genginn í salinn og ég ætla þá að snúa mér eilítið að landbúnaðarmálum. Ég hlýt að fagna því að í stefnuyfirlýsingu núv. ríkisstjórnar segir að ríkisstjórnin muni framfylgja þeirri stefnu sem bændur og stjórnvöld hafa mótað á síðustu árum. Og ég minni á það hér að þessi stefna er mótuð á þeim tíma þegar Framsfl. fer með landbúnaðarmál. Þessi stefna er mótuð í framhaldi af setningu búvörulaganna 1985.
    Ég vil benda á það hér líka að bændur og forustumenn þeirra hafa tekið á þessum málaflokki, málaflokkum sinnar atvinnugreinar af meira raunsæi en ég tel að dæmi séu um meðal bændastéttar í okkar nágrannalöndum. Kemur þar fyrst til að íslenskir bændur eru almennt vel upplýstir og meðvitaðir um stöðu sína í íslensku þjóðfélagi. Það er svo annað mál að umræður á sviði þjóðmálanna hafa um of einkennst af þvældum orðaleppum og þar verð ég að segja það að þar hefur Alþfl. gengið fremstur.
    Nýjasta lausnarorðið í dag er að lækka milliliðakostnaðinn. Ég ætla ekkert að draga úr því að það sé full þörf á því að lækka milliliðakostnað á þessu sviði og lækka með því matvælaverð. Ég hef um árabil verið trúnaðarmaður í vinnslustöðvum bænda og ég veit að þar eru menn tilbúnir til þess að taka á þessum málum. En menn verða þá að skilgreina hvað þeir eiga við. Ég ætla að nefna það hér að í 18 mánuði, frá því í desember 1989, hefur vinnslukostnaður mjólkurvara ekki hækkað um eina einustu krónu. Ég vil biðja menn að bera það saman við þær greinar sem hafa búið við hið algera frelsi, bera þessar hækkanir saman við það sem þar hefur verið að gerast.
    En hverfum aftur að milliliðunum og hverjir þeir eru. Það er nefnilega margt sérstakt í þessari umræðu. Ef ég tek mjólkurvinnsluna sérstaklega, þá hafa mjólkurframleiðendur, bændur, þeirra er að góðu getið í umræðunni í dag, varanna sem þeir framleiða og þeirra sölukerfis líka, en svo eru einhver óskilgreind fyrirbæri þarna sem menn tala um að séu milliliðir og eru af hinu illa án þess að það sé skilgreint á nokkurn hátt frekar.
    En hvað felst í þessum milliliðum? Hvað eru þessir milliliðir? Það er fólkið í landinu. Það er fólkið í hinum dreifðu byggðum sem vinnur við það að breyta framleiðslu bændanna í fullunnar neysluvörur fyrir okkur Íslendinga, fullunnar vörur sem fullnægja um 50% af okkar fæðuþörf. Bændur munu vera tilbúnir til þess að taka á þessum málum af fullri hörku. En það er annað sem er miklu viðkvæmara. Það er það að það eru mörg byggðarlög í landinu sem eiga nánast allt sitt undir því að þar verði áfram starfræktar vinnslustöðvar í landbúnaði. Það er kostnaðurinn við 50% af fæðu okkar Íslendinga sem í gegnum milliliðina, í gegnum vinnslukerfið, dreifist um allt land og viðheldur öðru fremur byggð og öflugri byggð þar sem hún enn þá er.

    Sá eini munur sem ég mundi sjá á því að við hyrfum frá þessari stefnu og hyrfum til óhefts innflutnings landbúnaðarvara væri það að þeir fjármunir sem nú dreifast um byggðirnar á þennan hátt mundu renna í vasa verslunareigenda og milliliða af öðrum toga á höfuðborgarsvæðinu, til milliliða í innflutningsverslun og smásölu. Það er ekkert sem bendir til þess að þessi breyting mundi þýða mikla lækkun á matvælaverði.
    Ég sagði áðan að við stefndum að frjálsara þjóðfélagi og það finnst kannski einhverjum þessi kafli ræðu minnar skjóta skökku við það. Ég segi nei vegna þess að ef viðskipti með landbúnaðarvörur í heiminum í dag, viðskipti og framleiðsla væru almennt undir frjálsu kerfi, þá mundi ég ekki óttast svo mjög um íslenska bændur og íslenska matvælaframleiðslu. En það er bara ekki svo. Þessi framleiðsla er um allan heim hneppt í fjötra niðurgreiðslna og viðskiptahafta. Og að gera róttækar breytingar á stöðu íslensks landbúnaðar við þessi skilyrði í þá veru að leyfa að vanhugsuðu máli innflutning landbúnaðarvara mundi þýða út frá þessum forsendum sem ég nefndi hér áðan dauðadóm fyrir innlenda matvöruframleiðslu á mjög skömmum tíma.
    Ég ætla að nefna hér líka nokkrum orðum annan þátt í þessari umræðu. Fyrir nokkrum árum var reiknað út, það var árið 1988, hvað það mundi kosta íslenskt þjóðfélag að viðhalda þessari matvælaframleiðslu. Þar var reiknað út að það kostaði 9 milljarða. Óprúttnir stjórnmálamenn hafa framreiknað þessa tölu beint til dagsins í dag og segja: Þetta eru orðnir 13 -- 14 milljarðar núna, en sleppa m.a. þeirri staðreynd að á þessum tíma hefur verðlag á íslenskri matvöru þróast á allt annan hátt en annað verðlag í landinu. En allt í lagi með það. Þeir sleppa því líka að segja hvernig þessi tala er uppbyggð. Hún er uppbyggð á þann hátt að tæplega helmingur af þessu er reiknuð markaðsvernd sem er þannig fundin að ef við keyptum þessar vörur í dag á spottmörkuðum erlendis, þá gætum við sparað þetta. Þeir sleppa því alveg að segja að ef þær umræður sem nú eru í gangi um ákveðin tollamál, svokallaðar GATT - viðræður, ganga í gegn, þá breytist öll verðmyndun á landbúnaðarvörum í heiminum og þessi reiknaða markaðsvernd yrði eitthvað allt annað en menn eru að tala um í dag. Kannski mundi hún hverfa að fullu.
    Því miður er það svo að þessi umræða er á þessum nótum. Íslenskir stjórnmálamenn verða að taka sig á og ræða þessi mál út frá þeim forsendum sem liggja fyrir, ekki frösum og orðaleppum sem eru gripin upp að óhugsuðu máli.
    Ég beini þá þeirri spurningu til núv. landbrh. hvort hann muni ekki tryggja það að á meðan viðskiptahættir eru með þessum hætti með landbúnaðarvörur í heiminum búi íslensk búvöruframleiðsla við hliðstæð skilyrði varðandi innflutningsvernd?
    Ég ætla auk þess að koma með örfáum orðum að skógrækt á Íslandi og Skógrækt ríkisins. Þar hefur verið heilmikil umræða síðustu vikur. Menn greinir á hvar Skógræktin á heima í stjórnkerfinu. Í mínum

huga er það engin spurning að skógræktin á heima undir landbrn. Fyrir því get ég fært einföld rök. Það sem er að gerast í skógræktarmálum á Íslandi í dag staðfestir það að skógrækt verður aldrei byggð upp að neinu marki á Íslandi öðruvísi en sem hluti af búskap bænda. Það verður að gerast heima á jörðunum hjá bændunum, að vísu með stuðningi og eftirliti ríkisvaldsins. Þetta verður að byggjast upp sem atvinnugrein sem mun þegar tímar líða skila okkur arði og sem slík á hún hvergi annars staðar heima en undir landbrn. Og ég spyr landbrh. einnig hvort hann muni ekki beita sér fyrir því að svo verði áfram.