Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Svavar Gestsson beindi til mín hér spurningum um áhrif af hækkunum vaxta í húsnæðislánakerfinu og hækkun vaxta af húsbréfum, spurði hvort það væri á döfinni og er mér auðvitað ljúft að svara þessum spurningum.
    Auðvitað væri vissulega tilefni til þess að taka hér nokkuð langa umræðu um húsnæðismál í tilefni af þeim ummælum sem hafa fallið um húsbréfakerfið frá fyrrv. forsrh. og fyrrv. fjmrh. þar sem þeir kenna raunverulega húsbréfakerfinu um allan þann vanda sem við er að glíma á lánamarkaðnum og í ríkisfjármálunum. Tímans vegna skal ég aðeins að hluta til koma inn á það og geyma mér þar til í síðari umræðum um þessi mál að ræða það mál ítarlega.
    Ég held að það sé nokkuð ljóst að flestir hafa vitað það að vaxtahækkun í húsnæðislánakerfinu væri óhjákvæmileg og það hefur reyndar verið svo að frá því að ég settist í stól félmrh. fyrir fjórum árum síðan hefur verið mikill þrýstingur á það að hækka vextina í almenna húsnæðislánakerfinu. Ég hef staðið gegn því vegna þess að ég taldi nauðsynlegt að áður en til slíkra vaxtahækkana yrði gripið þá yrði komið á kerfi sem hlífði láglaunafólki og fólki með meðaltekjur við þeim vaxtahækkunum.
    Hv. þm. Svavar Gestsson veit það að til eru skýrslur frá fyrri ríkisstjórn sem sérfræðingar ríkisstjórnarinnar létu gera, m.a. aðstoðarmaður fyrrv. forsrh. og fyrrv. fjmrh. sem vann úttekt á stöðu byggingarsjóðanna og gerði tillögur um það hvernig koma ætti jafnvægi á þessa sjóði. Tillögur þessara sérfræðinga, sem til eru í tveimur eða þremur skýrslum, voru þær að það væri nauðsynlegt að grípa til vaxtahækkana á lánum allt frá 1. júlí 1984 sem yrðu að vera 5% eða 5,5% ef lánakerfinu frá 1986 yrði haldið áfram. Tillögur liggja einnig fyrir núna frá Seðlabankanum um að vaxtahækkun á almenna húsnæðislánakerfinu frá 1. júlí 1984 hefði þurft að vera upp í 5,5 -- 6%. Hér er því mjög vægilega farið í sakirnar með vaxtahækkun upp í 4,9%.
    Ef maður spyr um áhrif þess fyrir lántakendur þá er ljóst að hún verður nokkuð mismunandi. Hér er um að ræða lántakendur frá 1984 sem eru sennilega 20.000. Ef við skoðum lántakendur sem taka lán á árabilinu 1984 til 1986, þá erum við þar að tala um 8000 manns. Meðallánin hjá þessu fólki eru um 1 millj. kr. þannig að aukning á greiðslubyrði á einu ári er þar sennilega um 11.000 kr. Til þess er líka að taka að sá hluti í þessum hópi sem er með lágar eða meðaltekjur, þar erum við að tala um brúttóheimilistekjur sennilega 150 -- 170 þús. kr., fær þessa vaxtahækkun að fullu greidda til baka.
    Síðan getum við tekið hópinn frá 1986 og fram til dagsins í dag. Þar erum við að tala sennilega um 12.000 manns. Þar eru meðallánin um 2 millj. kr. Þeir sem eru með 3,5% vexti, þ.e. sá hópur frá 1986 til 1989, hann er sennilega með lán um 2 millj. að meðaltali og vaxtahækkun hjá þessum hópi yrði um 22.000 kr.

    Síðan erum við að tala um þriðja hópinn sem býr nú við vaxtakjör upp á 4,5%. Vextir hjá þessum hópi hækka um 0,4% og þar erum við sennilega að tala um 10.000 kr.
    Ég vil undirstrika það aftur sem ég sagði að fólk með lágar og meðaltekjur fær þessar vaxtabætur endurgreiddar.
    Síðan er til þess að taka að það sem þessi vaxtahækkun mun skila á heilu ári er um 600 millj. kr. og sennilega eru það um 200 til 300 millj. af þessari upphæð sem fara út aftur í formi vaxtabóta til fólks með lágar og meðaltekjur.
    Mig langar aðeins að koma inn á húsnæðismálin í nokkrum orðum, einkanlega út af orðum fyrrv. fjmrh. ekki síst, beini nú orðum mínum til hans þó það væri ástæða til þess að gera það líka til fyrrv. forsrh.
    Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson kennir húsbréfakerfinu raunverulega um allan vandann. Ég hygg, hv. þm., þegar grannt er skoðað, að það sé nú ekkert sem hefur lagt meira í það að aðstoða fyrrv. fjmrh. í að ná niður hallanum á ríkissjóði en húsbréfakerfið. Ég minni hv. þm. á það að ríkisframlögin í byggingarsjóðina eru sennilega um þremur milljörðum minni á tímum hans sem fjmrh. á árunum 1989 og 1990 en var á árunum 1987 til ársins 1988. Þessi upphæð hefur farið í það að aðstoða hv. þm. við það þegar hann var fjmrh. að ná niður hallanum á ríkissjóði.
    Ég hefði líka vitanlega getað farið þá leið þegar verið er að tala um háa ávöxtunarkröfu á húsbréfunum að gera það sama og hv. þm., þegar hann var fjmrh., gerði mánuðina janúar, febrúar, mars að fjármagna ríkissjóð í gegnum Seðlabankann, með yfirdrætti í Seðlabanka. Þar var um að ræða kannski 8 -- 9 milljarða. 1 -- 1,5 milljarðar af því var vegna þeirra vandamála sem við er að glíma í 1986 - kerfinu. Ég hefði auðvitað getað haldið niðri ávöxtunarkröfunni af húsbréfunum með því að fara með eins og 5 milljarða þangað og biðja Jóhannes Nordal að kaupa þetta til þess að geta haldið niðri ávöxtunarkröfunni á húsbréfunum. Auðvitað fer maður ekki þá leið vegna þess að það er bara blekking, hv. þm.
    Mér fannst það nokkuð skondið í fréttatilkynningu sem hv. þm., fyrrv. fjmrh., gaf út í aprílmánuði þar sem hann kenndi húsbréfakerfinu um allt sem við var að glíma á lánamarkaðinum. Þar segir hann að það sem helst sé ástæðan fyrir mikilli aukningu á innlendri lántöku sé að húsbréfin hafi aukist á árinum 1990 og 1991 úr 5 milljörðum í 10 milljarða. Það er auðvitað ósköp eðlilegt að það var að gerast. Húsbréfakerfið var að taka við og á móti þessu lækkuðu bein lán í Byggingarsjóði ríkisins úr 8,9 milljörðum í 4,9 milljarða, eða um nálægt sömu upphæð. Þetta nefndi fyrrv. fjmrh. auðvitað ekki þegar hann var í sínum kosningaæfingum í aprílmánuði.
    Hv. þm. nefndi það að þetta væri helsta aukningin en þegar við skoðum hreinar innlendar lántökur opinberra aðila á árunum 1990 til 1991 er aukningin á A-hluta ríkissjóðs á árinu 1990 úr 5,1 milljarði í 9,1 milljarð sem hlutfall af landsframleiðslu, þá erum við

þar að tala um 2,5%. En ef við tölum um húsnæðissjóðina þá hækka hreinar lántökur til húsnæðissjóðanna úr 14,2 í 17,5 milljarða kr. Þegar við skoðum hvað þetta þýðir þá er mesta aukningin á lántökum ríkissjóðs, A-hluta, en þær aukast um 4 milljarða eða sem svarar 1% af landsframleiðslu. Aukning hreinnar lántöku húsnæðissjóðanna er 3,3 milljarðar eða um 0,5% af landsframleiðslu.
    Þessa lét auðvitað fyrrv. fjmrh. í engu getið þegar hann var að senda út sinn kosningaáróður í aprílmánuði. Það er auðvitað ljóst að þegar hv. þm. og fyrrv. fjmrh. kaus að fjármagna ríkissjóð í gegnum Seðlabankann til þess að komast hjá vaxtahækkunum á spariskírteinum, þá var hann ekki bara að gera það með því að taka mikinn yfirdrátt í Seðlabankanum, heldur var hann að komast hjá hækkun á vöxtunum. Og hverjir voru hinir raunverulegu vextir á spariskírteinunum? Hverjir voru þessir vextir af spariskírteinunum til ýmissa kaupenda? Ég hygg að þeir hafi verið svona að meðaltali 6,8 til 7%. Ég hygg því að við séum í rauninni ekki að tala um hækkun á spariskírteinum nema úr kannski um 7% í 7,9%. Þannig eru nú þessar blekkingar sem fyrrv. fjmrh. hefur viðhaft í þessum málum.
    Þegar verið er að tala um og gefa í skyn með einföldum hætti að það sé mikil aukning á fjármagni í húsnæðiskerfið eða húsnæðismálin, þá er það hrein blekking. Staðreyndin er sú, sem ég tel víst að fyrrv. fjmrh. viti þó hann láti það ekki uppi þegar hann er í umræðum opinberlega um þessi mál, að við erum að breyta farveginum á fjármögnun til húsnæðismála. ( ÓRG: Friðrik er alveg sammála mér.) Þá skilur hann bara ekki málið heldur.
    Við getum bara sett dæmið mjög einfalt upp fyrir hv. þm. Ef við værum ekki með neitt húsbréfakerfi, sem er nú mesti skaðvaldurinn að mati fyrrv. fjmrh. í þessu öllu saman, þá væru um 55% af fjármagni lífeyrissjóðanna bundin inn í húsnæðismálakerfið. Þar værum við að tala um 15 milljarða. Síðan værum við með fjármögnun til húsnæðismála gegnum bankakerfið, gegnum lífeyrissjóðina, gegnum handhafabréf. Þetta er áætlað að sé í kringum 6 -- 7 milljarðar af því fólk þurfti í meira mæli að leita þangað af því að lánin voru lægri í 1986 - kerfinu en í húsbréfakerfinu. Þar erum við að tala um lán í það heila í húsnæðismálin upp á 21 -- 22 milljarða. Hvað erum við að tala um í dag? Við erum að tala um 20 milljarða kr. Þar af 10 -- 12 milljarða í húsbréfakerfið og restin fer í að fjármagna lánakerfið frá 1986 og félagslega íbúðakerfið. Allar áætlanir sem sérfræðingur fjmrh., minn sérfræðingur og sérfræðingur fyrrv. forsrh. hafa sett fram um útgáfu á húsbréfum hafa staðist. Þeir áætluðu það að útgáfan yrði 12 milljarðar á ári þegar húsbréfakerfið tæki við og það hefur staðist.
    Nú vil ég spyrja hv. þm. og hefði óskað eftir því að fyrrv. forsrh. svaraði einnig þeirri spurningu: Þið hafið sett það fram að húsbréfakerfið væri vandamálið og forsrh. sagði hér í umræðum í gær að það þyrfti að draga úr framboði til húsbréfakerfisins. Nú spyr ég: Hvaða leiðir viljið þið fara í því? Á að hætta

greiðsluerfiðleikalánum sem eru sennilega 1 -- 1,5 milljarðar á þessu ári. Er það leiðin? Á að lækka lánahlutfallið úr 65% niður í 50%? Er það leiðin? Á að stytta lánstímann úr 25 árum í 15 ár og auka þar með greiðslubyrðina? Hvaða leiðir eru það sem þið eruð að tala um í þessu sambandi? Það er auðvitað nauðsynlegt að slíkt komi fram og ég óska eftir því að fyrrv. fjmrh. geri hér skýrt og rækilega grein fyrir því hvernig hann vill draga úr þessum skaðvaldi, sem hann orðar svo, húsbréfakerfinu.
    Það sem er auðvitað leiðin í þessum málum er það að koma okkur sem fyrst út úr 1986-lánakerfinu og þar hefur fyrrv. fjmrh. stutt mig dyggilega og ég vona að hann fari ekki að breyta þar um. Raunhækkun til húsnæðismála verður fyrst með lánakerfinu frá 1986. Hver varð hún á milli áranna 1986 og 1987? Raunaukningin varð um 41,5%.
Og á árunum 1986 -- 1990 eykst lánaþörfin til byggingarsjóðanna úr 7,9 milljörðum í 12,9 milljarða þannig að ég frábið mér það að verið sé að setja húsbréfakerfið upp sem einhvern skaðvald í þessu efni. Menn verða að skoða dæmið í heild, líta á fjármögnunina, hvernig hún hefur verið almennt til húsnæðismála, en ekki að taka húsbréfakerfið úr samhengi við aðra þætti fjármögnunar í húsnæðismálum. ( ÓRG: Eru allir sammála þessu í ríkisstjórninni?) Ja, ég vona að það verði, a.m.k. með tímanum.
    Þá er það ávöxtunarkrafa húsbréfa. Af hverju það? Það stafar af mikilli lánsfjárþörf ríkissjóðs, kannski ekki síst þar. Það er vegna þess að við erum að fjármagna tvö lánakerfi og við erum að koma okkur út úr 1986 - lánakerfinu. Það er vegna þess að við erum líka að fjármagna tímabundin greiðsluerfiðleikalán. Það er vegna þess að markaðskynning á húsbréfum hefur ekki verið sem skyldi, það skal ég viðurkenna. En ég skal líka segja þér það, fyrrv. fjmrh., að ef ég hefði haft alla þessa peninga sem þú hefur haft á undanförnum tveim árum til þess að kynna þín spariskírteini, ef ég hefði haft þá til þess að kynna húsbréfin og markaðssetja þau með því fjármagni sem fyrrv. fjmrh. hafði til þess að kynna spariskírteini, þá hygg ég að staðan væri ekki slík. En það er verið að skoða leiðir til þess að bæta markaðskynninguna á húsbréfunum.
    Síðan hefur innri fjármögnunin ekki verið alveg eins og ætlast var til. Ég hygg að hún sé um 20% en reiknað var með að hún væri 30%. Ég hygg að það stafi af þeirri villandi umræðu sem hefur verið í fjölmiðlum, neikvæðu umfjöllun um húsbréfakerfið. Það er eins og það hafi ekki verið til afföll í húsnæðismálum síðan húsbréfakerfið kom til og þar hafa fjölmiðlar lagt sitt af mörkum um það að sverta húsbréfakerfið. ( Gripið fram í: Það er alrangt.) Ég nefni kaup lífeyrissjóðanna á húsbréfum. Ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna er 27 milljarðar. Þeir hafa keypt húsbréf fyrstu 3 -- 4 mánuði þessa árs fyrir sennilega 2,3 milljarða af 27 milljarða ráðstöfunarfé. Samt hefur nú verið viðurkennt að þetta sé hagstæðasti ávöxtunarkosturinn og þá spyr maður sig hvers vegna lífeyrissjóðirnir komi ekki í meira mæli inn í húsbréfakerfið en

raun ber vitni. Það hlýtur að vera til hagsbóta fyrir þá að ávaxta sitt fjármagn og það hlýtur að vera til hagsbóta fyrir þeirra sjóðfélaga sem standa í íbúðarkaupum.
    Það er áhyggjuefni að lífeyrissjóðirnir eru auðvitað mjög sterkir á lánamarkaðinum. Það er sennilega um 36% af sparnaðinum sem þeir hafa til ráðstöfunar sem er sama og allt fjármagn bankakerfisins. Og þeir geta --- ég er ekki að segja að þeir hafi gert það, en þeir geta ef þeir svo kjósa haft samráð um sín markaðsviðskipti á lánamarkaðinum og það er auðvitað óheilbrigt að það sé með þeim hætti. Ég hygg að það þurfi að koma til alvarlegrar skoðunar hvort ekki sé ástæða til þess að setja hluta af húsbréfunum til reynslu yfir á erlendan verðbréfamarkað. ( HBl: Sjálfsagður hlutur.)
    Ég ætla tímans vegna, virðulegi forseti, ekki að eyða meiri tíma í húsnæðismál. Ég gæti tekið langan tíma í þau en geymi mér það þangað til umræða verður um þetta mál sem mér skilst að verði nk. mánudag um skýrslu fjmrh., en þætti vænt um ef fyrrv. fjmrh. svaraði minni spurningu, hvort sem það verður núna eða á mánudaginn, hvernig hann vilji draga úr framboði húsbréfa sem hann hefur talið að væru kannski mesti skaðvaldurinn í efnahagslífinu og í ríkisfjármálunum, sem er auðvitað bull eins og ýmislegt sem hefur komið frá hv. þm. um þetta mál.