Steingrímur Hermannsson :
    Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins í örfáum orðum koma inn á húsnæðismálin sem hæstv. forsrh. gerði að umræðuefni hér fyrir kvöldmatinn og vísaði þá til ummæla sem ég hef haft um þau.
    Ég vil upplýsa hæstv. forsrh. um það að í síðustu ríkisstjórn voru nokkuð skiptar skoðanir um það hvort leggja ætti niður 86-kerfið. Um það urðu miklar umræður og bæði Framsfl. og Alþb. lýstu miklum efasemdum og töldu að húsbréfakerfið hefði ekki fengið þá reynslu sem nauðsynleg er til að unnt væri að taka þá slíka ákvörðun. Eftir þessa umræðu varð það að samkomulagi að leggja fram frv. sem frestaði frekari greiðslum úr Byggingarsjóði ríkisins en ákveða ekki þá að leggja það niður, sú ákvörðun yrði að takast seinna. Á þetta var sæst. Það hefur núna fengist töluverð reynsla á húsbréfakerfið. Húsbréfakerfið er vafalaust hér til að vera. Hins vegar hefur það sýnt sig að sú mikla aukning á peningamagni til íbúðabygginga sem það hefur haft í för með sér er ofviða hinum litla íslenska fjármagnsmarkaði.
    Ég hlustaði nýlega á erindi sem hagfræðingur Seðlabankans hélt, sem er manna kunnugastur þessu kerfi, Yngvi Örn Kristinsson mun hann heita. Þar upplýsti hann að útlán til íbúðabygginga hefðu aukist frá 1988 -- 1989 þegar húsbréfin halda innreið sína um u.þ.b. 70%. Aukist á verðlagi ársins í ár úr rúmlega 9 milljörðum í yfir 16 milljarða. Ég er þeirrar skoðunar að nú sé sú reynsla fengin af húsbréfakerfinu að menn þurfi að taka þessi mál öll til endurskoðunar. Og það er skoðun okkar framsóknarmanna að það eigi að halda þessum kerfum báðum við. Það er alveg ljóst að þeir sem byggja í fyrsta sinn ráða fæstir við þau gífurlegu afföll eða með öðrum orðum þá háu vexti sem fylgja húsbréfakerfinu í dag, auk þess styttri lán en hjá Byggingarsjóði ríkisins. Og það er ekki nokkur vafi á því að þeir sem hafa lent í þessari, ég vil leyfa mér að kalla það svikamyllu á hinum íslenska fjármagnsmarkaði munu eiga um sárt að binda. Það er ekki nokkur vafi sem kom fram hér hjá einum ræðumanni í dag að greiðsluerfiðleikalána verður meiri þörf á næstunni heldur en nokkru sinni fyrr. Ég held að hæstv. ríkisstjórn verði að skoða málið í þessu ljósi og verði að athuga í fyrsta lagi hvernig er hægt að draga úr fjárútstreymi vegna íbúðabygginga og íbúðakaupa og í öðru lagi hvernig er unnt að hjálpa þeim sem byggja í fyrsta sinn. Ég held að það megi segja að það sé ofætlan að veita ríkistryggð skuldabréf öllum sem eru í íbúðabyggingum eða íbúðakaupum eins og nú er gert. Það verður að draga úr þessu, enda ætti varla að vera á því þörf. Að þessari reynslu sem núna er komin fenginni tel ég, og við framsóknarmenn, að það eigi að skoða það að 86-kerfið haldi áfram fyrir þá sem eru að byggja í fyrsta sinn. Þetta er í raun og veru ekkert nýtt. Við höfum lagt áherslu á það í allri umræðunni um húsnæðismálin á síðasta þingi m.a. og innan ríkisstjórnar að taka verði sérstaklega tillit til þeirra sem eru að byggja í fyrsta sinn. Þeir eigi mestan rétt á aðstoð ríkisvaldsins. Ég get tekið undir það með ýmsum að það kann að vera eðlilegt að veita þeim sem byggja í annað sinn einhverja aðstoð, en ég held að eftir það eigi menn að fara að gæta sín á þessum málum og þar gætu húsbréfin verið eðlileg fjárhagsaðstoð og gangi þá á markaðsverði.
    Ég harma það því, ef rétt er, að ákvörðun hafi verið tekin um það núna að leggja niður 86-kerfið og vísa öllum sem eru þar á biðlista yfir á húsbréfin. Ég held að það sé ekki nokkur vafi á því að þá muni þrengslin þar verða enn þá meiri, framboðið enn þá meira og afföllin enn þá meiri. Og sú svikamylla sem ég nefndi þar áðan mun aukast mjög. Svo ég vildi nú koma þessum leiðréttingum á framfæri. Við stóðum að sjálfsögðu að húsbréfakerfinu og teljum það verðuga viðbót við húsnæðismálin, en vitanlega verðum við að læra af þeirri reynslu sem er fengin og hún er fengin núna og verður dýrara verði keypt ef ekki er tekið á þeim málum á skynsamlegan máta.